Prédikun okkar flutt í Vídalílnskirkju og Laugarneskirkju í dag:
I
Ég hafði fyrir því að sjá myndskeiðið. Ég hafði heyrt það í sjö fréttum útvarpsins en eitthvað inni í mér vildi fá að sjá atburðinn, sjá manninn leiddan út í lögreglufylgd. Svo að eftir matinn á föstudagskvöldið södd/saddur og örugg(ur) í minni eigin stofu með mínu fólki stillti ég á „plúsinn” á slaginu átta til að sjá.
Af hverju? Vegna þess að í aðra röndina er ég smásmogin og smeyk manneskja. Ég get sem hægast fallið í hópinn undir mórberjatrénu í guðspjalli dagsins.(Lúk 19.1-10) Augun mín geta verið svo myrk. Þótt þau langi til að ljóma þá eiga þau líka í sér blik öfundar og reiði og gremju og það er þeim ekki á móti skapi að sjá hvað gerist þegar menn fá sín málagjöld.
Sakkeus var spilltur embættismaður. Kerfiskarl sem allir höfðu undir grun og allir elskuðu að hata en enginn þorði að ávarpa í sannleika.
Hver kynslóð á sína utangarðsmenn. Sumir eru það í nafni einhverskonar tapstöðu, aðrir eru það vegna sigra sinna, en allir eiga þeir stjórnleysið sameiginlegt. Og allir fá þeir að reyna það að samfélagið finnur sterka hvöt til að hafna þeim því þeir virða ekki almennar leikreglur.
Sakkeus vissi að hann átti ekkert inni hjá fólkinu í Jeríkó og að enginn myndi hliðra til fyrir honum í mannþrönginni þótt hann væri lágvaxinn og gæti ekki séð yfir herðar fólks. Því greip hann til sinna aðferða eins og hann jafnan hafði þurft að gera. Hann beitti útsjónarsemi sinni, hugsaði nokkra leiki fram í tímann og kom sér fyrir uppi í mórberjatré við veginn þar sem leið Jesú hlaut að liggja um. Það var einmitt þetta viðhorf, þessi hæfileiki til þess að skygnast fram í tímann, fresta ánægjunni og uppskera margfalt, sem hafði komið honum í þá aðstöðu sem hann var í; auðugur embættismaður.
Og nú beið hann yfirvegaður, áfjálgur og einn eins og hann hafði vanist að vera. Falinn í laufsrkrúði trésins horfði hann niður á mannfjöldann og sá hann nálgast. Þá gerist hið óvænta. Jesús staðnæmist og lítur í augu Sakkeusar. Þetta atriði hafði ekki verið á dagskrá hjá Sakkeusi og mannfjöldinn sem kominn var til að taka við Jesú var ekki búinn undir það sem nú átti sér stað. Athyglin hafði beinst að Jesú og Jesús hafði gefið fólkinu athygli sína en nú snéri hann henni skyndilega allri upp í tré: „Sakkeus, flýt þér ofan. Í dag ber mér að dvelja í húsi þínu.”
Flýttu þér! Sagði hann. Ég hef skyldum að gegna sem varða þig!
Uppi í trénu sat hrokinn, undir stóð gremjan.
Á greininni sat spillingin en við ræturnar hefndarþorstinn.
Hvorugt gat án hins verið.
Inn í þessa sviðsmynd gekk frelsarinn. Afrek hans var í því fólgið að tilheyra hvorugum hópnum og báðum í senn. Í hans augum voru ekki tveir andstæðir pólar heldur skakkt samhengi. Sakkeus og mannfjöldin voru ekki aðskilin í huga Jesú heldur tengd sársaukaböndum sem hann kunni að leysa. Þess vegna er sagan sögð.
Mannfjöldinn þráði að sjá myndskeiðið, vildi sjá Sakkeus handtekinn og leiddan á brott. En Jesús brást öllum slíkum væntingum. „Sakkeus, flýt þér ofan. Í dag ber mér að dvelja í húsi þínu.” Þvert á allar mannlegar þrár, varð fólkið að horfa upp á Jesú boðinn sem vin inn í höll spillingarinnar. Í máttvana gremju sáu þau meistarann hverfa inn undir þak Sakkeusar, þar sem hann hafði hreiðrað um sig í sínu stolna öryggi og illa fengnu nægtum, ósnertur af öllu því sem þjáir venjulegt dauðlegt fólk.
II
Það er eitthvað við auðæfi og frægð og völd. Það er eitthvað varðandi þessa þrenningu sem okkur grunar að muni vera eilíft. Það er þekkt staðreynd í djúpsálarfræðinni að hver vitiborin sál þráir eilífð og óttast andstæðu hennar dauðann. Og auðæfi, frægð og völd eru þrjár útgáfur af einskonar eilífð. Þegar við eignumst hluti sem okkur langar mikið í þá erum við líka undir niðri og ómeðvitað að kaupa staðfestingu á því að vera lifandi og eiga mikið af lífi. Við skynjum t.d. öll að það er einhver tegund af eilífð fólgin í gljáandi bifreiðum af réttum sortum. Það er þannig. Þegar við staðfestum bókun á flugi á netinu og vitum að innan ákveðins tíma erum við á leiðinni út í heim þá erum við ekki bara að ferðast, í aðra röndina erum við líka að kaupa tíma, kaupa atburði sem eru framundan og fela í sér líf. Mikið líf, nokkurs konar eilífð. Það geta ekki allir bókað ferðir út í heim. Sumir eru t.d. fátækir eða veikir. Það eiga ekki allir kost á aukalífi og tíma í veröld þar sem tíminn er peningar og peningar eru tími. Svo eiga sumir líka fullt af peningum en eru samt straffaðir, jafnvel handteknir. Það verða ekki allir peningasjóðir að eilífð. Það er hægt að lenda utan garðs. Sakkeus var dæmi um það, - lifandi dæmi um dauða.
III
Myndskeiðið í fréttunum á föstudagskvöldið þar sem bankamennirnir voru leiddir á brott var sannkallað kjarnfóður handa okkur hræddum sálum sem óttumst hrörnun, niðurlægingu og dauða. Í þessu myndskeiði var þjóðinni gefið vel á garðann og allir gátu rifið í sig dálítinn skammt af nokkurskonar eilífð.
Myndskeið eru mögnuð fyrirbæri sem tala skýrum rómi. Atburðurinn í kringum mórberjatréð er þekkt myndskeið, útleiðsla grunaðra bankaþrjóta úr dómsal til einangrunarvistar er það líka.
Fyrra myndskeiðið staðfestir þá vissu að eilífð megi finna utan við auð og frægð og völd. Það síðara skilur okkur eftir í óvissu hvað þetta varðar.
Og ég held því fram að á sama hátt og sagan um Sakkeus sé trúarlegs eðlis þá sé sagan um hina útleiddu bankakarla líka trúarlegs eðlis. Sagan er sögð og sett á svið vegna þess að við krefjumst hennar, þurfum hana, viljum hana. Útleiðsla þessara manna er friðþægingarganga í þágu þeirrar trúar sem færir okkur óvissuna. Við erum samfélag óvissunnar, samfélag mórberjatrésins. Við erum þeirrar trúar að líkast til sé hægt að kaupa tíma, að sennilega megi festa hönd á einhverskonar eilífð. Allt dótið sem við stillum upp í kringum okkur og allar varnirnar sem við höfum lært að setja umhverfis persónu okkar, allt eru þetta tákn um líf, upp safnað líf, nokkurs konar eilífð. Við trúum því að besta leiðin til þess að lifa sé að halda í allt sem við höfum og auka við heldur en hitt. Við trúum á gildi þess að safna lífi í algerri óvissu andspænis dauðanum. Svo kemur Jesús frá Nasaret gangandi inn á sviðið með aðra vinnutilgátu.
- Við vitum ekki hvað fram fór milli þeirra Jesú og Sakkeusar inni í höll spillingarinnar en ljóst er að Sakkeus ákvað að taka algerlega nýtt og óvænt skref. Trúarskref. Og í þakklæti sínu mælti hann: „Drottinn, helming eigna minna gef ég fátækum og hafi ég haft nokkuð af nokkrum gef ég honum ferfalt aftur.“
Þannig gerðist það að spillti embættismaðurinn steig út úr óvissunni, sagði skilið við gömlu aðferðirnar og hætti að safna lífi en tók þess í stað að þiggja það með þökkum.
Við vitum ekki hvernig fólkið í Jeríkó brást við, vitum ekki hvort það þáði hina nýju lífsmöguleika sem Jesús kynnti svona eftirminnilega. En eitt er þó ljóst; Jesús stendur undir mórberjatré hins íslenska samfélags og mælir: Í dag ber mér að dvelja á Litla Hrauni.
Amen.
sunnudagur, 16. janúar 2011
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)