Nú verður kosið á milli tveggja frambjóðenda í biskupskjöri í seinni umferð og eftir miðjan apríl kemur í ljós hver hefur verið valinn til þjónustunnar. Við hjónin styðjum dr. Sigurð Árna Þórðarson til embættis.
Eitt það fyrsta sem maður nemur í návist Sigurðar Árna er það að hann er listfengur maður og hefur auga fyrir því fagra. Sá sem getur verið á valdi listarinnar hefur líka djúpan anda. Sigurður Árni hefur ekki bara auga fyrir tónum, orðum og litum heldur ber hann ekki síður skyn á litbrigði mannlífsins og honum er eðlislægt að sjá hið einstaka í fari þess sem hann mætir. Það er gott að vera nálægt Sigurði Árna því hann hefur áhuga fyrir því sem fólk hefur fram að færa og þegar hann tekur orðið í hópi fólks gerir hann það augljóslega til þess að varpa því aftur út í hópinn og leyfa hugmyndunum að taka á sig form. Allir sem þekkja Sigurð Árna þekkja hann af samtalinu, hlustuninni og velviljanum. Þess vegna vitum við að hann verður ekki leiðtogi sem einangrast með eigin hugsanir og hugmyndir heldur er hann leiðtogi sem alltaf er að læra.
Biskupsembættið er sterk táknmynd fyrir kirkjuna í landinu. Sá sem er biskup ber embættið á persónu sinni. Við höfum átt langa samleið með sr. Sigurði Árna og við vitum af reynslu að hann er opinn fyrir nútímanum.
Í persónu Sigurðar Árna sameinast ýmsir ólíkir pólar:
Þótt hann kunni manna best að hvíla í hefðinni og sinni hinu hefðbundna prestshlutverki þá vill hann um fram allt þekkja samtíð sína og horfa til framtíðar.
Undir fáguðu og hlýlegu viðmóti býr óþol í sr. Sigurði Árna. Óþol gagnvart ójafnrétti og hvers kyns þvingunarvaldi.
Hann á rætur í leikmannahreyfingu kirkjunnar og hefur alla tíð átt þá þrá að sjá barna- og unglingastarf kirkjunnar blómstra en um leið er hann doktor í trúfræði með áherslu á íslenska menningu.
Hefðbundinn kristindómur liggur sr. Sigurði Árna við hjartastað en einmitt vegna þess að Jesús Guðspjallanna er vinur hans hefur hann þróað með sér víðsýna og milda lífsafstöðu.
Sigurður Árni hefur lifað mikla reynslu bæði í starfi og einkalífi og hver sem kemur inn á heimili þeirra hjóna, Elínar Sigrúnar Jónsdóttur og Sigurðar Árna, finnur að undir þaki þeirra býr hamingja. Sigurður og Elín eru jafningjar og samherjar sem varpa ljósi hvort á annað.
Við berum þá von í brjósti að Sigurður Árni Þórðarson verði næsti biskup Íslands.
sunnudagur, 25. mars 2012
mánudagur, 5. mars 2012
Veljum góðan biskup
Nú eru framundan á næstu dögum biskupskosningar hjá Þjóðkirkjunni. Þetta eru mikil tímamót, margt gott fólk gefur kost á sér og er ástæða til að fagna yfir þeim áhuga.
Við hjónin höfum tekið þá ákvörðun að styðja dr. Sigurð Árna Þórðarson prest í Neskirkju. Við höfum þekkt Sigurð Árna áratugum saman. Hann var æskulýðleiðtogi og foringi í KFUM starfi sem Bjarni sótti sem unglingur, einnig var hann heimilisvinur í Laufási á bernskuheimili Jónu Hrannar þegar hann var þjónandi prestur að Hálsi í Fnjóskadal. Í gegnum tíðina höfum við síðan sem kollegar átt marga snertifleti í starfinu og átt ótal innihaldsríkar samræður um kirkju, trú og samfélag. Þar höfum við lengi skynjað að við eigum sameiginlega kirkjusýn með sr. Sigurði Árna. Hann leggur jafnan áherslu á að kirkjan sé fólk af holdi og blóði sem vill einfaldlega vera samferða Jesú Kristi á lífsveginum. Í hans augum er kirkjan ekki valdastofnun heldur mannlífstorg þar sem enginn er yfir annan settur heldur lúta öll einum Guði og koma saman til þess að þekkja hvert annað betur og vera samfélagi sínu til góðs. Sigurði Árna Þórðarsyni er umhugað um að kirkjan sé þátttökukirkja þar sem hver og einn hafi hlutverk og kjarkur fólks í lífsbaráttunni sé efldur.
Það er hvílandi að vera samvistum við Sigurð Árna því hann er ekki valdsins maður og hefur þann hæfileika að íhuga góð ráð og hlusta með virkum hætti.
Kirkjan í landinu hefur farið í gegnum margvíslegar raunir á undanförnum árum á sama tíma og safnaðarstarf í landinu hefur staðið með meiri blóma en jafnan í sögunni. Það segir manni það að þótt mannanna verk geti verið skeikul þá heldur heilagur andi Guðs áfram að starfa og vekja fólk til góðra verka.
Nú er brýnt að fá biskup sem er góður hirðir og manna sættir til þess að sá fræjum mildi og samstöðu. Sigurður Árni á til að bera langþróaða umhyggju og skilning á mannlífinu, hann er reynsluríkur í persónulegu lífi, sjóaður prestur og sálgætir og frábær prédikari og guðfræðingur.
Það eru miklir hagsmunir í húfi fyrir okkur öll að þjóðkirkjan finni nú trúverðuga samleið með þjóðfélaginu og sem aldrei fyrr þarf íslenskt samfélag á prédikurum að halda sem minna þjóðina á ábyrgð einstaklingsins og virðinguna fyrir mannréttindum og öllu sem lifir með smekkvísum og umhyggjusömum hætti. Þar vitum við af langri reynslu að Sigurður Árni er farsæll og fundvís á leiðir, teljum við hann fremstan meðal jafningja í þeim góða hópi sem nú gefur kost á sér til embættis biskups Íslands og hvetjum kjörmenn til þess að kjósa hann.
Við hjónin höfum tekið þá ákvörðun að styðja dr. Sigurð Árna Þórðarson prest í Neskirkju. Við höfum þekkt Sigurð Árna áratugum saman. Hann var æskulýðleiðtogi og foringi í KFUM starfi sem Bjarni sótti sem unglingur, einnig var hann heimilisvinur í Laufási á bernskuheimili Jónu Hrannar þegar hann var þjónandi prestur að Hálsi í Fnjóskadal. Í gegnum tíðina höfum við síðan sem kollegar átt marga snertifleti í starfinu og átt ótal innihaldsríkar samræður um kirkju, trú og samfélag. Þar höfum við lengi skynjað að við eigum sameiginlega kirkjusýn með sr. Sigurði Árna. Hann leggur jafnan áherslu á að kirkjan sé fólk af holdi og blóði sem vill einfaldlega vera samferða Jesú Kristi á lífsveginum. Í hans augum er kirkjan ekki valdastofnun heldur mannlífstorg þar sem enginn er yfir annan settur heldur lúta öll einum Guði og koma saman til þess að þekkja hvert annað betur og vera samfélagi sínu til góðs. Sigurði Árna Þórðarsyni er umhugað um að kirkjan sé þátttökukirkja þar sem hver og einn hafi hlutverk og kjarkur fólks í lífsbaráttunni sé efldur.
Það er hvílandi að vera samvistum við Sigurð Árna því hann er ekki valdsins maður og hefur þann hæfileika að íhuga góð ráð og hlusta með virkum hætti.
Kirkjan í landinu hefur farið í gegnum margvíslegar raunir á undanförnum árum á sama tíma og safnaðarstarf í landinu hefur staðið með meiri blóma en jafnan í sögunni. Það segir manni það að þótt mannanna verk geti verið skeikul þá heldur heilagur andi Guðs áfram að starfa og vekja fólk til góðra verka.
Nú er brýnt að fá biskup sem er góður hirðir og manna sættir til þess að sá fræjum mildi og samstöðu. Sigurður Árni á til að bera langþróaða umhyggju og skilning á mannlífinu, hann er reynsluríkur í persónulegu lífi, sjóaður prestur og sálgætir og frábær prédikari og guðfræðingur.
Það eru miklir hagsmunir í húfi fyrir okkur öll að þjóðkirkjan finni nú trúverðuga samleið með þjóðfélaginu og sem aldrei fyrr þarf íslenskt samfélag á prédikurum að halda sem minna þjóðina á ábyrgð einstaklingsins og virðinguna fyrir mannréttindum og öllu sem lifir með smekkvísum og umhyggjusömum hætti. Þar vitum við af langri reynslu að Sigurður Árni er farsæll og fundvís á leiðir, teljum við hann fremstan meðal jafningja í þeim góða hópi sem nú gefur kost á sér til embættis biskups Íslands og hvetjum kjörmenn til þess að kjósa hann.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)