Páskaprédikun okkar:
Margir landsmenn heyrðu sterka frásögn núna um daginn er hingað kom kona ein alla leið frá Japan í þeim erindum að selja skó. Þá var ár liðið frá því er jörð skalf í Japan eins og við munum og mikil flóðbylgja sópaði burt lífi og verðmætum. Enn trúi ég að myndskeið frá þessum voðaatburði sitji í hugskoti okkar margra. Það er eins og augað trúi ekki því sem það sér þegar svona gerist. Lítið sjávarþorp Takasírohama varð afar illa úti, barnaskólinn brann og engar byggingar stóðu af sér hamfarirnar utan ein skemma. “Þegar ég kom í bæinn varð ég orðlaus” sagði þessi japanski skósali. “Aðeins ellefu af sjötíuogfimm þorpsbúum höfðu lifað af, einkum eldra fólk.” Hún lýsti því hvernig grátur og vonleysi hefði einkennt samfélagið sem svo herfilega var leikið. En kona ein kom inn í þorpið og fann fólkinu það verkefni að hekla inniskó úr gömlum stuttermabolum. Þetta eru litríkir og listilega gerðir inniskór sem fara vel með fætur. Og nú hittast þessir eftirlifendur sem eitt sinn bjuggu við friðsæld í þorpinu sínu en eiga nú bara minninguna sameiginlega, minningu um gott líf sem hrammur örlöganna sópaði út af borðin í einni svipan. Þau koma saman í þessu eina húsi sem eftir stendur, skemmunni í bænum, og vinna saman. „Nú brosir fólkið aftur og hlær.” sagði þessi japanska kona sem tekur þátt í því að selja skóna víða um japan og einnig út fyrir landssteina til styrktar þessu sterka og hughrausta fólki sem fundið hefur leið til að lifa af í óreiðunni.
Sagan af fólkinu í Takasírohama er saga af upprisu. Og þessi saga, líkt og allar upprisusögur er jafnframt ástarsaga. Án ástar verður ekki upprisa.
Biblían segir langa og mikla sögu. Hún fjallar fyrst og síðast um manneskjur og svo segir hún líka sögu af guði sem ekki getur á heilum sér tekið af ást. Þekkir þú þá tilfinningu að verkja af ást? Þannig er Guð trúarinnar. Hann er guð sem veit ekki sitt rjúkandi ráð af hreinni ást. Sagan er fyrst rakin í Gamla Testamenntinu hvernig þessi guð er í sífellu að leita uppi fólkið sitt, kalla það til sín, fá það til samfélags við sig og hvert við annað uns Nýja Testamenntið, nýji sáttmálinn, greinir frá því ráði Guðs að koma sjálfur til manna úr því menn rati ekki til hans.
Einhvern veginn er það ekki það fyrsta sem manni dettur í hug þegar maður horfir yfir hamfarasvæði að fara að hekla skó úr stuttermablolum. Hvaða kraftur býr að baki þeirri ótrúlegu hugmyndauðgi að láta sér detta annað eins í hug? Þú veist það. Það er bara einn kraftur, bara ein uppspretta sem laðar slíkt fram; Ást.
Ástin sættir sig ekki við takmarkanir. Ástin hugsar ætíð út fyrir rammann og er alltaf með augun á aðalatriðum.
Við trúum á Guð sem vafinn er reifum og lagður blóðugur og grátandi á móðurbrjóst. Á Guð sem þjáist gegnum stunginn á krossi og hrópar í algerri einsemd “Guð minn Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?” Eftir andlátið er hann vafinn líkblæjum og við sjáum hann fyrir okkur liggjandi andvana í örmum konunnar sem ól hann.
Frá sjónarhóli heimsins er þetta gagnslaus guð. Heimurinn sér ekki nokkur not fyrir grátandi guð, deyjandi guð.
Það eru ekki litríkir inniskórnir sem breyta lífi fólksins í Takasírohama. Þessir fallegu inniskór eru hins vegar sterk táknmynd fyrir aflið sem breytir lífi allra manna og alltaf finnur sér farveg og mun aldrei, aldrei gefast upp. „Nú brosir fólkið aftur og hlær.” sagði japanska konan við fréttamanninn. Gleði fólksins er fögnuðurinn yfir nærverunni og samstöðunni.
Oft hef ég heyrt syrgjendur lýsa því löngu eftir að áfallið reið yfir hve miklu það hefði skipt að finna hlý handtök og faðmlög, einlægt viðmót og samhyggð. Þau upplifðu ekki að byrðarnar væru teknar af þeim en þau fengu að reyna það að þau voru ekki ein. Einsemdin er verst allra meina.
Sagan af Jesú er sagan um það hvernig Guð fer að því að leita okkur uppi svo að við séum ekki ein. Konan sem fann verkefnið handa fólkinu í litla sjávarþorpinu var með augun á sömu aðalatriðum. Þetta harmi slegna fólk þurfti að finna leiðina hvert að öðru að þau væru ekki ein. Þau urðu að eiga stað og geta veitt kröftum sínum í sameigilegan farveg. Ekki ósvipað og konurnar sem komu að gröf Jesú og sagt er frá í páskaguðspjallinu. Þær höfðu búið vönduð smyrsl og hugðust smyrja líkama Jesú, tjá honum þakklæti sitt og virðingu og finna um leið sorg sinni farveg.
Verk Guðs í Jesú Kristi virkar vanmáttugt í hugum margra. Ég er heldur ekki viss um að fólkinu í Takasírohama hafi þótt eitthvað máttugt og afgerandi í gangi þegar þau settust inn í skemmuna og fóru að tileinka sér skógerð úr einhverjum fataafgöngum. Ítrekað lýsa guðspjöllin vanmætti Jesú. Þau segja m.a. frá efasemdum þorpsbúanna í Nasaret sem horfðu á hann og spurðu: “’Er þetta ekki smiðurinn, sonur Maríu, bróðir þeirra Jakobs, Jóse, Júdasar og Símonar? Og eru ekki systur hans hér hjá okkur?’ Og þau hneyksluðust á honum“ segir í Markúsarguðspjalli. (Mark. 6.3.) Sjálf innreiðin í Jerúsalem er í aðra röndina tjáning á vanmætti. Konungar fara ekki um á ösnum. Og þegar hann stendur frammi fyrir agndofa lærisveinum að kvöldi páskadags sýnir hann þeim hvað? Sárin sín! Hann sýnir þeim sárin, biður þau að snerta sig og biður þau svo um að gefa sér eitthvað að borða. Hinn upp risni Guð sýnir sárin sín, biður um snertingu og biður um mat. “Þau fengu honum stykki af steiktum fiski” segir Lúkas. (Lúk. 24.42)
Svona gerir bara ástin.
Páskadagur er dagur ástarinnar. Dagurinn þegar við vöknum til þess að fagna lífinu og þakka það undur að við skulum vera samferðamenn. Að við skulum í alvöru eiga hvert annað og mega kannast hvað við annað sem bræður og systur. Að við skulum ekki vera ein. Upprisa Jesú hefur í eitt skipti fyrir öll staðfest að enginn er einn. Að við erum órjúfanlega tengd ástarböndum sem enginn máttur fær rofið.
Þorpsbúarnir í Takasírohama höfðu sannarlega lifað föstudaginn langa með öllu því tilgangsleysi, glundroða og óhugnaði sem hægt er að fara í gegn um. En þau völdu að taka við sendiboða ástarinnar og það breytti öllu.
Hafi fólkið í þessu afmáða og sundrutætta þorpi átt val, þá átt þú líka val.
Amen.
sunnudagur, 8. apríl 2012
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)