laugardagur, 25. júlí 2009

Frumvarp um ráðgefandi stjórnlagaþing

Bjarni skrifar: 
Ég verð að fagna hinu nýja frumvarpi um ráðgefandi stjórnlagaþing. Með þessu er vonandi verið að efna til yfirvegaðrar umræðu um grundvallarskipan þjóðfélagsins. Það verður mikið verk að endurnýja samfélagssáttmálann í landi okkar og því samtali verður að stýra sterkur hópur verðugra fulltrúa almennings. Nú ríður á að skilgreina þannig að allur almenningur skilji og finni með sjálfum sér hvað almannahagsmunir eru og almannaheill. Við þurfum samtal sem nær til allra. Tími atvinnustjórnmálamanna og hinna gírugu sérhagsmuna verður að kveðja en öld lýðræðis og samstöðu að renna upp í þessu landi. Í stað kappræðu þarf nú að iðka samræðu, í stað valdsöfnunar verður nú að iðka valddreifingu.  

Ég skora á dr. Pál Skúlason að gefa kost á sér til þessa þings.

mánudagur, 20. júlí 2009

Guð-er-til-tilfinningin

Gleðilegt sumar góðu lesendur, hér er prédikun okkar frá því í gær:


Við hjónin nýttum sumarleyfið okkar eins og margir Íslendingar til þess að ferðast innan lands og sjáum ekki eftir því.  Við eigum stórbrotið og ægifagurt land og það sáum við berlega er við heimsóttum Vestfirði um viku tíma undir lok frísins, dvöldum m.a. á Breiðavík, í Tálknafirði og að Holti í Öndundarfirði þar sem hægt er að ganga marga kílometra á hreinni og hvítri sandströnd og synda í tærum sjó þar sem sér til botns á margra metra dýpi. 

 

Síðasta dag sumaleyfisins tókum við ferð með hópi á vegum Vesturferða þar sem siglt var til Aðalvíkur og þaðan gengið yfir í Hesteyrarfjörð þar sem báturinn kom og sótti mannskapinn og skilaði honum aftur til Ísafjarðar.  Þarna vorum við í hópi Íslendinga, Finna, Þjóðverja, Hollendinga, Frakka og Ítala sem allir áttu það sameiginlegt að drekka í sig litafegurð, ilm af móa og hafi og íslenskan fuglasöng.  Þar náðum við m.a.s. að þramma í gegnum einn snjóskafl og vaða eina á uns komið var niður á Hesteyri í Jökulfjörðum þar sem standa rústir gamallar hval- og síldarstöðvar  og bera vitni löngu liðinni athafnasemi.  Á Hesteyri standa enn nokkur gömul hús sem afkomendur hafa gert upp sem sumardvalarstaði og í gamla læknisbústaðnum er greiðasala þar sem bakaðar eru heimsins bestu pönnukökur og borið fram rjúkandi kaffi. 

Ungi leiðsögumaðurinn, Gylfi Ólafsson, hafði unun af starfi sínu, kunni góð skil á staðháttum og flóru landsins auk þess sem hann sagði sögur af horfnu mannlífi þessara afskekktu sveita.  Á Hesteyri lifir m.a. enn sú minning er norskir bræður og athafnamenn sem reist höfðu verksmiðjuna og skapað mörgum lífsviðurværi vildu gefa Hesteyringum veglega vinargjöf þá létu þeir flytja til landsins kirkjuvið til sniðinn og klárann til uppsetningar frá Noregi og reistu fallega kirkju í þessu fámenna plássi. 

 

Það vekur athygli ferðamanns sem flækist um Íslenskar sveitir að hvarvetna er kirkjuhúsum mikill sómi sýndur.  Þar eru Vestfirskar byggðir síst undantekning og tókum við eftir því að jafnvel í plássum þar sem andstreymi og lægð hefur orðið í mannlífi er hugsað um kirkjurnar af augljósum metnaði.  Virðist manni að vestra gildi sú regla að kirkjur í byggð og vitar á annesjum séu þær byggingar sem hvergi sé sparað til hvað sem vegagerð og öðru líði.  Í Aðalvík standa yfir viðamiklar lagfæringar á hinu forna kirkjuhúsi á Stað í sjálfboðavinnu afkomenda þeirra sem áður byggðu plássið.  Af kirkjunni á Hesteyri er það að segja að hún er eina kirkjan í landinu sem hefur horfið og urðum við þess áskynja að hvarf þessa húss situr enn djúpt í tilfinningum Hesteyringa, því er komið var að lokum ferðarinnar og við biðum bátsins á bryggjunni í Hesteyrarfirði hittum við þar að máli eldri mann sem þar á sinn uppruna og sitt sumarhús og lá honum helst á hjarta að segja okkur þessa löngu liðinu sögu.  Kirkjan hafði verið reist á hæðardragi ofan við byggðina þar sem nú er minnisvarði og gamall kirkjugarður.  Sagðist þessum góða manni svo frá að eitt sinn eftir miðjan sjöunda áratuginn hefði hreppstjóra sveitarinnar orðið litið út um eldhúsgluggann heima hjá sér þar sem hann stóð með kaffibollann í hönd og hefði hann vart mátt mæla og ekki viljað trúa sínum eigin augum er kirkjan sem prýtt hafði plássið var horfin af yfirborði jarðar.  Við eftirgrenslan kom síðar í ljós að flokkur manna hafði verið sendur að ráði yfirstjórnar kirkjunnar til þess að taka niður kirkjuna Hesteyri og setja hana upp á Súðavík þar sem þar bráðvantaði kirkju en Hesteyri var ekki lengur í vetrarbyggð, enda hafði kirkjan aldrei verið formlega vígð til þjónustu inni á Hesteyri.  Og fyrir einhverja vangá hafði bréfleg krafa hreppsnefndarmanna um að við kirkjunni yrði ekki hróflað gleymst ólesin ofan í skúffu hjá einhverju ágætum prófasti, svo að yfirstjórn kirkjunnar var í góðri trú að skaffa Súðvíkingum þetta veglega Kirkjuhús sem þar stendur enn og er afar vel við haldið.  Fylgdi sögunni að er fyrstu manngerðu göngin voru grafin í vegakerfi landsins og leiðin frá Súðavík til Ísafjarðar var opnuð svo að nú mátti aka frá Snæfjallaströnd til Ísafjarðar hafi sumir Hestfirðingar ekki viljað fara um þann veg og þurfa að horfa upp á kirkjuna sína sóma sér í nýju plássi. 

 

Þessa sögu rifja ég ekki upp til að sá salti gömul sár heldur til þess að við íhugum gildi guðshúsa á Íslandi og þá merkingu sem þau hafa í hverju byggðalagi.  Um leið og ekið er inn í bæjarfélag eða þorp má í sjónhending finna kirkjuna sem valinn hefur verið veglegur staður og allt umhverfi hennar ber vott um helgun og samstöðu.  Þarna er staðurinn, húsið þar sem allir eiga samnefnara og geta jafnt í gleði og raun komið saman til þess að hlusta og biðja og endurnýja sáttmálann við Guð og menn.   E.t.v. var hámark þessarar reynslu er við gengum inn í Ísafjarðarkirkju og sáum nýu altaristöfluna sem er hugmynd Ólafar Nordal en unnin af meira en sjö hundruð sóknarbörnum á öllum aldri með mis mikla handlagni og kunnáttu í leirgerð.  Gylfi leiðsögumaður sagði hópnum að kærastan sín ætti einn af þessum leirfuglum og að í hvert sinn er þau kæmu í kirkju leituðu þau hann uppi innan um aragrúa annarra fugla sem þar virðast hefja sig til flugs í voldugri sveiflu til  móts við himininn.  Kvaðst hann eiga sér einn uppáhaldsfugl sem væri örugglega eftir einn mjög ungan listamann en sá fugl líktist í raun fremur héra sem væri að taka undir sig stökk.  Þetta snilldarlega kirkjulistaverk sem Ísfirðingar hafa borið gæfu til að móta og eignast er tjáning á því eðli kristinnar kirkju sem Jesús talar um í guðspjalli dagsins að vera salt og ljós.  (Matt. 5. 13-16) Eins og saltið varðveitir matinn frá skemmd þannig er kirkjunni ætlað að vernda heiminn gegn eyðileggingu og vonleysi.  Kirkjan er samfélag vonarinnar.  Leirfuglarnir í kór Ísafjarðarkirkju hefja sig til himins og það er máttug sveifla sem tjáir samstöðu.  Þannig samstaða er kirkja Jesú.  Enn hafa vísindamenn ekki getað útskýrt hvað það er sem því veldur að þúsundir fugla í einu geri taka skyndilega stefnu í eina átt.  Hvar er ákvörðunin tekin?  Hvernig berast þau boð sem láta ótölulegan fjölda lifandi smáfugla vinda sér í eina átt á augabragði?  Við vitum það ekki.  Við vitum ekki heldur hvernig vonin berst manna á milli en við vitum að að gerist og við köllum það heilagan anda. 

 

Það var mögnuð tilfinning fyrir tvo sóknarpresta af Reykjavíkursvæðinu að skynja hvernig andi Guðs og kærleikur sóknarbarnanna sameinast í hinum mörgu fallegu dreifbýliskirkjum.  Enda þótt húsakostur hinna fjölmennu safnaða á suðvestur horninu sé meiri og glæsilegri þá er yfir þessum látlausu guðshúsum ósvikin helgun og von.  Í okkar daglega starfi hér syðra mætum við í hverri viku fólki sem veit hreint ekki hvaða sóknarkirkju það tilheyrir.  Ítrekað eigum við samtöl við góða og gegna Íslendinga sem einfaldlega eiga sér engan helgidóm þar sem þeir eiga vitundina um griðastaðinn í lífinu.  Nú sýna félagslegar rannsóknir að trúarleit og iðkun fólks er ríkari í stórborgum heldur en í dreifbýli, en samt er það staðreynd að ótrúlega stór hluti íbúa höfuðborgarsvæðisins á sér ekki fastan samastað í söfnuði og kirkju.  Við vorum að ræða þetta á ferðalagi okkar með ákveðinni eftirsjá í hjarta þegar við fórum um vestfirskar sveitir og bæi.  En á bátnum á leiðinni frá Hesteyri talaði Guð til okkar í samtali sem við áttum við ungt par sem hafði gengið saman allar Hornstrandirnar.  Þetta fólk var ekki með hugann við neinar kirkjubyggingar en þau voru samt með hugann við Guð.  Þarna var á ferð ungt og efnilegt fjölmiðlafólk sem lifir og hrærist í hraða og áreiti en leitaði út í óbyggðir til að hvíla sig og ná áttum.  “Þegar ég stóð í kyrralogni uppi á Hornbjargi” sagði konan „og uppstreymið frá bjarginu bar með sér ilm af fugladriti og sjávarilmi og ég horfði á sólina dansa á haffletinum um miðja nótt þá kom þessi Guð-er-til-tilfinning” .

 

Guð-er-til-tilfinningin!   Þekkir þú hana? 

 

Þegar þú býrð í umhverfi þar sem afrek mannanna í byggingum og allskyns hugarsmíðum þrengja sér að vitnundinni úr öllum áttum og hæstu turnarnir eru fremur Babelsturnar en kirkjuturnar þá leitar hugurinn út úr hinu manngerða umhverfi til þess að finna frið.  Er það ekki eðlilegt og segir það sig ekki bara sjálft?  En þegar þú býrð við ólgandi haf sem bæði gefur og tortímir og yfir þér vaka hamrar með snjóhengjur á vetrum þá verður vitinn á annesjum og kirkjan í plássinu griðastaður samstöðu og vonar. 

Samur er Guð og söm er trúin og til okkar allra berst ákall Jesú um að við tökum við hlutverki okkar að vera í senn kirkja og viti, salt og ljós í veru okkar.

Nú er það verkefni okkar kristinna manna sem lifum og hrærumst  í þéttbýlinu á  21. öld að skoða samfélag okkar og svara upp á nýtt þeirri spurningu hvernig kirkjan fer að því að vera áfram sýnilegur griðastaður vonar og mannlegrar samstöðu þar sem Guð-er-til-tilfinningin fær rými í veruleikanum.

 

Amen.