sunnudagur, 28. febrúar 2010

Dónavald

Prédikun dagsins:
Dónaskapur hefur alltaf virkað. Það er ákveðin aðferð í mannlegum samskiptum að beita dónaskap til þess að ná sínu fram. Þessi aðferð hefur margar hliðar en er samt í rauninni einföld. Jesús var snillingur í að afhjúpa dónahátt. Í dag fáum við að fylgjast með einstaklingi þola þrautreyndar dónaaðferðir í mannlegum samskiptum, og sagan er merkileg fyrir þær sakir að það er Jesús sjálfur sem beitir aðferðinni en niðurstaða samskiptanna verður sú að hann tapar en fórnalambið sigrar.

Sagan er skráð í 15. kafla Matteusarguðspjalls og aðdragandinn er sá að Jesús á í höggi við valdsmenn samtíma síns, farísea og fræðimenn. Þeir eru að argast í honum fyrir það að fylgja ekki tiltenknum hreinsunarsiðum Gyðinga út í hörgul sem vörðuðu handþvotta í tengslum við máltíðir, en Jesús svarar þeim og segir: “Ekki saurgar það manninn sem inn fer í munninn, hitt saurgar manninn sem út fer af munni.”(v.11)
Og þegar lærisveinarnir koma til hans eftir á og biðja hann að útskýra hvað hann átti við þá svarar hann: “Skiljið þið ekki að allt, sem inn kemur í munninn, fer í magann og lendir síðan í safnþrónni? En það sem út fer af munni kemur frá hjartanu. Og slíkt saurgar manninn. Því að frá hjartanum koma illar hugsanir, manndráp, hórdómur, saurlifnaður, þjófnaður, lúgvitni, lasmælti. Þetta er það sem saurgar manninn. En það að eta með óþvegnum höndum saurgar engan mann.”(v.20)
Þannig vildi hann að lærisveinarnir skildu að það eru ekki ytri reglur og aðferðir sem gera mann að góðum manni heldur er það afstaða hjartans sem úrslitum ræður. - Þú ert það sem þú hugsar og það sem þú vilt. Heilindi þín ráðast af ástæðum verka þinna. Hugsaðu út í hvers vegna þú gerir það sem þú gerir. Spurðu sjálfan þig hvað það raunverulega er sem knýr þig áfram. Græðgi, ótti? Eða umhyggja og virðing?

Nú, jæja.
Lærisveinarnir héldu að kennslunni væri lokið og vissu ekki að það voru bara frímínútur þegar þeir gengu af stað til byggða Týrusar og Sídonar eins og sagt er frá í Guðspjallinu. “Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: ‘Miskunna þú mér, Drottinn, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda.’” (v.22)

Það er þrennskonar dónaskapur sem virkar best. Þar er þöggunin efst á lista og hér gefur Jesús lærisveinum sínum sýnishorn af þessháttar hegðun:
‘Miskunna þú mér, Drottinn, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda.’” Hrópaði konan “En Jesús svaraði henni engu orði.” stendur í textanum. Og nú fáum við líkt og í falinni myndavél að fylgjast með siðferðislegum hrakförum lærisveinanna þar sem þeir óðara koma til Jesú, ganga hressir inn í andrúmsloft þöggunarinnar og segja: “Láttu hana fara, hún eltir okkur með hrópum.” (v.23)
Það er eitthvað notalegt við þöggun. Þetta að vera samtaka með mörgum um að sjá hvorki né heyra einhvern sem hrópar og gargar. Það er viss stemmning sem skapast. Einhvers konar samheldni, tegund af málfrelsi þótt bannað sé að tala. Tilfinning fyrir því að allt sé fína lagi. “Láttu hana fara, hún eltir okkur með hrópum.” Þeir voru búnir að sjá Jesú tala við allskonar lið. Nýlega höfðu þeir setið uppi með fleiri þúsund manns sem þurfti að gefa að borða af því það var orðið ósjálfbjarga útí í óbyggðum, og lærisveinarnir hafa vísast verið fegnir að sjá að Jesús gæti einhversstaðar dregið línu í sandinn gagnvart aðgangshörðum þiggjendum. Auk þess vissu allir að það var ókurteisi af konu að ávarpa karlmenn að fyrra bragði, og svo var ekki eins og hún væri Gyðingur. Þetta var kanverks kona. Útlendingur.

Nú var komið að annari aðferð dónaháttarins sem er sú að jaðarsetja fólk með því að tala um það þannig að það heyri. Jesús horfir á lærisveinana og segir þannig að ekki fer fram hjá neinum: “Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt.” (v.24) Þvílíkur meistari! Í einni setningu var hann búinn að teikna upp yfirburði sína og þeirra allra gagnvart þessari konu. Þeir voru í sendiför, þeir voru á Guðs vegum, og erindi þeirra varðaði bara Ísraelsþjóðina en ekki þessa útlensku konu. Það þarf sanna meistara til þess að segja óþægilega hluti með snyrtilegum hætti. Nú hlaut konan að átta sig á stöðu sinni og hætta þessari þrákelkni. Ekki að furða að barnið hennar væri illa haldið eigandi svona stjórnlausa móður.

Þá segir: “Konan kom, laut honum og sagði: ‘Drottinn, hjálpa þú mér!’” (v.25)

Það er eitthvað varðandi samband foreldris og barns sem er heilagt. Foreldri sem biður fyrir barni sínu hefur allan rétt frammi fyrir Guði. Það er þannig. Bæn foreldris fyrir barni sínu er eitt af náttúruöflunum. “Drottinn, hjálpa þú mér!” mælti konan af stillingu en orðum hennar fylgdi undiralda réttlætisins, krafa lífsins. Konan lét aðferð tvö, jaðarsetninguna, ekki á sér hrína heldur bað fyrir barni sínu, stóð á rétti sínum og í hlutverki sínu, enda þótt hún skildi ekki hvað Jesús var að fara.

En kennslustundinni var ekki lokið og þar með ekki hlutverki kanversku konunnar sem fræðara. Enn urðu lærisveinarnir að sjá hvernig þriðja aðferð dónaháttarins er óvirkjuð og aftengd með hreinu hjartalagi, en sú aðferð er fólgin í þungbærum merkimiðum. Jesús svaraði: “Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana.” (v.26)
Nú ætluðu lærisveinarnir vart að trúa sínum eigin eyrum. Þetta gat meistarinn. Hann gat verið harður við frekt fólk sem ekki kunni að haga sér! Hélt þessi kona virkilega að hún væri jafningi þeirra? Nei varla. Og hafi svo verið þá mátti henni vera ljóst að hún var... já, hann hafði sagt það sjálfur, svo þeir gátu bara notað orðið, það vissu svo sem allir hvað þessir útlendingar voru kallaðir, hún var bara....hundur! Já stundum þarf bara að segja hlutina eins og þeir eru! Svona gaggandi kellingar þurfa bara að fá það óþvegið! Gott hjá honum!

Þá talaði konan af sömu stillingu og áður, og það hefur vottað fyrir húmor og reiði er hún horfði beint í augu frelsarans og mælti: “Satt er það Drottinn, þó eta hundarnir mola þá sem falla af borðum húsbænda þeirra.”(v.27)

Nei, nú kastar tólfunum! Hugsuðu lærisveinarnir. Nú verður Jesús að senda þessa konu öfuga frá sér. Hér er þetta endanlega farið yfir öll strik, hún hagar sér eins og það sé hún sem setji reglurnar hér en ekki meistarinn!

“Þá mælti Jesús við hana: ‘Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.’ Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu.” (v.28)
---
Lærisveinarnir höfðu haldið að Jesús væri í þeirra liði og víst var hann það en bara ekki með þeim hætti sem þeir höfðu búist við og vonað. Þeir vissu ekki að kanverska konan hafði komið inn á sviðið sem stundakennari svo að þeir fengju að verða vitni að samskiptum sem þeir þurftu að læra að tileinka sér. Því sjálfir áttu þeir eftir að kynnast þöggun, jaðrasetningu og orðaleppum valdsins í veröldinni. Þeirra beið margvíslegt mótlæti sem allir kynnast sem í raun ganga erinda réttlætis í heiminum. Höfum í huga að bara einn þessarra ungu manna átti t.d. eftir að ná gamals aldri. Einn af hópnum tók líf sitt í uppgjöf, tíu urðu píslarvottar trúarinnar, einungis Jóhannes lærisveinn varð aldraður maður eftir því sem sagnir herma. Hver var svo kennslan?

• Kanveska konan tók ekki við þögguninni því hún elskaði barnið sitt og tók ekki við fálæti sem svari því það var henni algerlega framandi.
• Þegar Jesús setti hana út á jaðar samfélagsins með þeim orðum að hann væri ekki sendur nema til samlanda sinna, þá kom hún bara nær. Jaðarsetning með ummælum í 3. persónu hreif ekki á hana því hún vissi að dóttir hennar sem var veik var engin afgangsstærð, barnið hennar var engin aukapersóna á leiksviði veruleikans.
• Og svo þegar Jesús greip þetta alþekkta hugtak sem Gyðingar notuðu um útlendinga og kallaði hana hund, þá gekk hún enn nær, laut honum og talaði á þann máta að ljóst var að ekki einu sinni freklegur dónaskapur með merkimiðum og orðaleppum gat hrakið hana af þeim grundvelli sem hún stóð á. Mennsku hennar varð ekki rænt með því að kalla hana nöfnum, reisn hennar sem persónu var ekki fengi að láni utan frá heldur bjó hún í hjartanu. Þess vegna varðveitti hún húmorinn og einbeitnina og mælti: “Satt er það, Drottinn, þó eta hundarnir mola þá sem falla af borðum húsbænda þeirra.”

Og þegar lærisveinarnir héldu að nú væri hún endanlega búin að glata stöðu sinni, þá hafði hún einmitt staðfest kröfu sína og rétt sinn. “Kona, mikil er trú þín.” Mælti Jesús “Verði þér sem þú vilt.”
---
• Manstu þá tíð fyrir ekki löngu síðan að það tíðkaðist í þjóðfélagi okkar að hafa þögn um laun og um hlunninndi og um ferli í ákvörðunum? Þöggun var álitin mikilvægur liður í skilvirkni samfélagsins.

• Manstu þegar spurt var t.d. að óskiljanlegum ofurlaunum stjórnenda á þessum nýliðnu tímum þá var svarið þetta: „Almenningi kemur það ekkert við. Þetta er markaðurinn.” Þannig var allur almenningur settur á jaðar aðal veruleikans. Aðal veruleikinn var einungis ætlaður fáum og við kyngdum því ögn ringluð en skilningsrík.

• Manstu hvað menn voru svo kallaðir sem mótmæltu?

Þöggun, jaðarsetning og merkimiðar eru á öllum tímum aðferð valdsins sem safnar sjálfu sér. Og manstu hvað allur almenningur var í raun andaktugur í ótta sínum við þetta vald? Þetta vald sem í dag hefur sannast að var ekkert nema sýndarvald, dónavald.

Og nú erum við enn farin að heyra valdið tjá sig og segja að almenning varði ekki um þetta og komi ekki hitt við því þetta sé nú markaðurinn. Okkur varðar víst t.d. ekkert um laun manna í skilanefndum bankanna. Þetta er bara markaðurinn.

Kristin hugsun hafnar þessu hugarfari og krefst þess núna eins og á öllum tímum að tekið sé mark á mannlegum þörfum og almennu réttlæti.
• Kristin hugsun hafnar ósýnileika, ógagnsæi og leynd af því að það er dónalegt.
• Kristin kirkja krefst þess að enginn sé jaðarsettur því hún veit að veruleikinn er einn og við erum öll aðilar að honum.
• Kristinn siður hafnar líka útskúfuninni sem fólgin er í merkimiðum og orðaleppum vegna þess að Jesús setti líf og þarfir venjulegs fólks á dagskrá en afhjúpaði dónavaldið sem á öllum öldum er svo nægjusamt fyrir annarra hönd að því liggur við að tárast.

Amen.

sunnudagur, 21. febrúar 2010

Ekki þjónustupía heldur frelsari

Prédikun Bjarna í dag:

Það hittist skemmtilega á að konudaginn hér á Íslandi ber upp á fyrsta sunnudag í föstu þegar kristnir menn um allan heim hefja undirbúning páska með því að ganga í sjálfa sig og huga að eigin breytni. Tvær stórar og áhrifaríkar helgisagnir eru dregnar fram og fluttar í kirkjum; sagan af syndafallinu í aldingarðinum og sagan af freistingunum í eyðimörkinni. Hinn gamli maður, Adam og Eva, kljást við veruleika óttans og illskunnar í fyrri sögunni, en í þeirri síðari sjáum við Jesú Krist birta hinn nýja mann, og þá nýju lífsmöguleika sem mannkyni bjóðast í glímunni við óttann í ljósi fagnaðarerindisins.

Freistingin er sú sama í báðum sögum. Í fyrri frásögninni eru þessi tvö tré, tré skilningsins og tré lífsins, og þau standa fyrir þessa merkilegu sammannlegu þrá eftir því að eiga heiminn með því að kunna skil á öllu milli himins og jarðar og geta svo líka lifað að eilífu. Já, það er hálf brjálæðingslegt en um leið fyndin staðreynd að í hverri einustu mannlegri sál skuli dyljast sú blákalda löngun að eiga helst allan heiminn! „Allt þetta mun ég gefa þér ef þú fellur fram og tilbiður mig.” Segir freistarinn við Jesú í eyðimörkinni. Og hvert mannlegt eyra skynjar freistinguna, löngunina til þess að gera einmitt þetta lítilræði, falla sem snöggvast fram og tilbiðja freistarann til þess að eignast allan heiminn.

Það er magnað að tala um syndafallsfrásögnina á konudegi sökum þess að í þeirri syndahrunsfrásögn sem okkur er nærtækust í íslensku samfélagi í dag er ekki ein einasta kona í aðalhlutverki en í sögunni sem skráð er í 3. kafla 1. Mósebókar er það konan sem tekur frumkvæðið og karlinn fylgir.

Skyldi það vera tilviljun að þegar sköpunarsögurnar tvær sem mynda upphaf Gamla testamentisins eru lesnar þá er karlinum og konunni lýst sem jafningjum? Og ef eithvað er þá hallar heldur á karlinn Adam. Í fyrsta kafla segir Guð við sjálfan sig: „Vér viljum gera manninn eftir vorri mynd, líkan oss. [...] Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd. Hann skapaði hann eftir Guðs mynd. Hann skapaði þau karl og konu.” (1.Mós. 1.26-27) Maðurinn er þá karl og kona samkvæmt fyrri sköpunarsögunni. Karl og kona í jafningjasamskiptum, það er maðurinn.

Í síðari sköpunarsögunni sem skráð er í öðrum kafla Mósebókar er Adam einn á rangli þar til Drottinn Guð tekur hann og setur hann í aldingarðinn Eden „til þess að yrkja hann og gæta hans” segir orðrétt. (2.15) Og er hér komin fyrsta og æðsta starfslýsing í atvinnusögu mannkyns; yrkja og gæta. „Og Drottinn sagði: ‘Eigi er það gott að maðurinn sé einn. Ég vil gera honum meðhjálp við hans hæfi.’” (2.18) Bent hefur verið á að hebreska hugtakið ‚ezer‘ sem býr á bak við orðasamhengið ‘meðhjálp við hans hæfi’ er á annað hundrað stöðum í GT notað um það þegar Guð grípur inn í aðstæður þjóðar sinnar. ‚Ezer‘ táknar þannig guðlegt inngrip eða hjálp að ofan en á ekkert skylt við þjónkun eða það að vera undir annan settur. Guð lætur djúpan svefn falla á Adam, tekur úr honum rif og fyllir aftur með holdi. „Og Drottinn Guð myndaði konu af rifinu sem hann hafði tekið úr manninum og leiddi hana til mannsins.” (2.22) Eva kemur þannig sem „ezer” eða frelsari inn í söguna en ekki sem þjónustupía svo að ekki er hægt að halda fram einhverri meintri kristilegri stigveldishyggju innan hjónabandsins á grundvelli síðari sköpunarsögunnar svo mjög sem hún þó hefur verið til þess notuð um aldirnar. Auk þess vekur athygli að sagan endar á því að lýsa búferlaflutningi karlsins til konunnar en ekki öfugt þegar til hjúskapar er stofnað þegar segir: „Af þessum sökum yfirgefur maður föður sinn og móður sína og býr með eiginkonu sinni, og þau verða eitt.” (2.24)

Á ég að segja ykkur hvers vegna ég endursagði syndafallsfrásögnina hér áðan í stað þess að hún væri flutt beint af Biblíunni? Ástæðan er sú að fólk misskilur hana almennt vegna þess að í gegnum aldirnar hefur rangtúlkunum verið haldið á lofti og þessi saga notuð til þess að auðmýkja konur, og ég gat ekki hugsað mér að láta alla foreldra sunnudagaskólabarnanna ganga hér yfir í safnaðarheimilið með söguna í höfðinu og allar þær fyrirframgefnu rangtúlkanir í hjartanu sem gera það eitt að eitra mannlífið. Það er ekki hægt að lesa syndafallsfrásögnina hráa af þeirri einföldu ástæðu að áróðursmaskína karlaveldisins er fyrir löngu búin að eyðileggja hana í hugum fólks. Við höfum lært að sjá fyrir okkur konuna sem framhleypna og heimska og Adam sem fórnarlamb aðgæsluleysis hennar. Og hlustaðu nú á orðaskipti Guðs við Evu og segðu sjálfum þér hvað þú heyrir:

„Mikla mun ég gjöra þjáningu þína er þú verður barnshafandi. Með þraut skaltu börn fæða, samt skaltu hafa löngun til manns þíns en hann skal drottna yfir þér.” (2.16)

Hvað heyrir þú? Heyrir þú ekki Guð lýsa yfir refsingu vegna óhlýðni konunnar og að sú refsing sé fólgin í líkamlegum þjáningum og yfirdrottnun karlsins? Og dregur þú ekki þá ályktun að Guð hafi ákveðið að karlar skuli ríkja yfir konum og líkama þeirra enda sé það það sem þær sjálfar vilji: „Samt skaltu hafa löngun til manns þíns” segir Guð „en hann skal drottna yfir þér.”

„Við Adam sagði [Guð]: Vegna þess að þú hlýddir röddu konu þinnar og ást af trénu sem ég bannaði þér að eta af, þá sé akurlendið bölvað þín vegna. Með erfiði skaltu hafa viðurværi af því alla þína ævidaga. Þyrna og þistla skal landið gefa af sér og þú skalt lifa á grösum merkurinnar. Í sveita þíns andlitis skaltu brauðs þíns neyta þar til þú hverfur aftur til jarðarinnar því af henni ertu tekinn. Því að mold ert þú og til moldar skaltu aftur hverfa.” (2.17-19)

- Mold ert þú og til moldar skaltu aftur hverfa segir Guð.
Við hverja einustu útför eru þessi orð endurtekin. „Af jörðu ertu tekinn, að jörðu skaltu aftur verða...” og nú spyr ég þig: lýkur þar því sem sagt er? „Af jörðu ertu tekinn, að jörðu skaltu aftur verða...” Eru þetta síðustu orin sem flutt eru yfir kistu látins ástvinar að kristnum sið? Nei, klárlega ekki. Moldinni er ekki ausið tvisvar, heldur er henni ausið þrisvar sinnum eins og vatninu yfir höfuð skírnarbarnsins. Þrisvar er vatninu ausið til lífs og þrisvar er moldinni ausið til lífs, vegna þess að heilög kirkja geymir í brunni visku sinnar vitneskjuna um það að Guð vill líf og frelsi og jöfnuð og fegurð og réttlæti og sannleika. Sannleikurinn um konuna og karlinn, veruleiki mennskrar tilveru er ekki fólginn í áhrínisorðum Guðs í syndafallssögunni, enda erum við stödd í fyrstu þremur köflunum á því mikla bókasafni sem nefnt er Biblía. Lífið er ekki fætt til að þjást heldur til þess að sigra. Líkaminn er ekki gerður til þess að auðmýkjast og meiðast heldur til þess að fagna og njóta. Hin sanna verklýsing mannsins á jörðinni er ekki erfiði og dauði heldur sú sem Adam var fengin í upphafi; að yrkja og gæta. Því er mælt yfir hverri einustu gröf og kistu: Af jörðu skaltu aftur upp rísa!

Frá því er sagt í helgisögninni um syndafallið að Guð neyðist til þess að reka Adam og Evu burt úr Paradís því að hann getur ekki treyst því að þau seilist ekki í ávöxt lífsins trés og lifi þannig að eilífu í ástandi syndarinnar. En áður en að brottrekstrinum kemur segir svo: „Og Drottinn Guð gerði skinnkirtla handa Adam og konu hans og lét þau klæðast þeim.”
- Þetta er fyrsta merkið. Skinnkirtlarnir sem konunni og karlinum eru fengnir eru tákn um það að Guð hyggst leysa mannkyn undan valdi syndarinnar. Guð vill ekki andrúmsloft ásökunar og sektarkenndar, ástand þjáningar, undirokunar og erfiðis. Undirokun karla á konum er andstyggð í augum hans. Þjáning þín og mín er ekki það sem Guð óskar okkur. Allt heimsins ólán með sínum uppskeru- og aflabrestum, sjúkdómum, náttúruhamförum, hernaði, svikum og grimmd er ekki Guðs vilji. „Af jörðu skaltu aftur upp rísa!” segir Guð við sært og sundrað mannkyn.

En þær eiga það sameiginlegt helgisagnirnar báðar, sagan af syndafallinu í aldingarðinum og sagan freistingunum í eyðimörkinni, að það er eitthvað varðandi vilja mannsins sem úrslitum ræður.
Freistarinn ávarpar og maður svarar.
Eva leit á tréð og Adam horfði á ávöxtinn en augu Jesú voru fest á Orði Guðs. Hvert og eitt brást við í ljósi þess hvar augu þeirra hvíldu.

Þú ræður augum þínum. Þú ræður hvert þú horfir. Hver sá sem iðkar bæn og lestur Guðs orðs og gerir það að daglegri iðju sinni er að taka ákvörðun um sín eigin augu. Og þegar augu okkar mæta augum frelsarans í reglulegri bæn og Orð Guðs stendur lifandi fyrir hugskotssjónum okkar af því að við höfum fest ást á því þá eignumst við meiri og meiri hlutdeild í hugarfari Krists, verðum frjálsari karlar og konur, upréttara fólk.

Amen.

mánudagur, 1. febrúar 2010

Góðir daga bíða

Préidikun sunnudagsins:

Kæri söfnuður, þau eru mögnuð skilaboðin sem við fáum úr ritningunni þennan sunnudagsmorgun: „Svo segir Drottinn:
Hinn vitri hrósi sér ekki af visku sinni,
hinn sterki hrósi sér ekki af afli sínu
og hinn ríki hrósi sér ekki af auði sínum.
Nei, sá sem vill hrósa sér hrósi sér af því
að hann sé hygginn og þekki mig.
Því að ég, Drottinn, iðka miskunnsemi,
rétt og réttlæti á jörðinni,
á því hef ég velþóknun, segir Drottinn.”

Hafi Íslenskri þjóð einhverntíman verið ljóst að mannleg viska, afl og auður eru hverful gæði þá eru henni þær staðreyndir enn ljósari nú. Nú er sá tími að renna upp að okkur gefast ný tækifæri sem þjóð og sem lýðveldi, tækifæri til þess að kveðja hin ungu ár og ganga til móts við þau hyggindi sem skapast þegar lífið er búið að auðmýkja mann.
Ég umgengst í lífi mínu og starfi margt ungt fólk og hvert sinn sem ég rekst á unga manneskju sem er full af áhuga á lífinu þá er eitthvað sem fagnar inni í mér. Það er lífsáhuginn, ástin á lífinu, löngunin til þess að halda áfram, lifa og reyna heiminn sem er svo heillandi og lofar svo góðu. Þessi sannfæring æskunnar um að allt muni takast og allt hljóti að ganga vel er mikilvægur liður í því að vaxa sem manneskja, og það skemmir ekkert þótt því fylgi ögn af þótta eða keimur af yfirburðatilfinningu. Það er bara hollt, því að allt hefur sinn tíma.

Íslenska lýðveldið er um þessar mundir að kveðja æsku sína. Við erum ekki lengur saklaus og djörf æskuþjóð sem horft er til með skilningi og aðdáun, við erum komin til ára og lífið er byrjað að gera við okkur þetta sem öllum er gert, lífið er byrjað að auðmýkja okkur. Án auðmýkingar er enginn þroski og án þroska verður lífið aldrei djúpt og ríkt og gott.
Hér gilda þessi fornu orð spámannsins: „Hinn vitri hrósi sér ekki af visku sinni,
hinn sterki hrósi sér ekki af afli sínu
og hinn ríki hrósi sér ekki af auði sínum.
Nei, sá sem vill hrósa sér hrósi sér af því
að hann sé hygginn og þekki mig.
Því að ég, Drottinn, iðka miskunnsemi,
rétt og réttlæti á jörðinni.”

Aðdragandi guðspjallsins um verkamenninga í víngarðinum sem flutt var hér áðan er sá að ríki unglingurinn sem við könnumst við úr Biblíusögunum kemur á mikilli fart og rennir sér eiginlega fótskriðu inn í söguna til þess að spyrja Jesú spurningar og það nánast drýpur af honum unggæðingshátturinn er hann spyr: „Herra, hvað gott á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?” (Matt. 19. 16) Hann var svo fullur af sjálfum sér, svo bólginn af æskuljóma og þrútinn af eigin yfirburðum að hann bara varð að fá svar við því hvaða góðverk hann gæti unnið til þess að hafa eilífðarmálin líka í góðu „tékki”. Allt hefur sinn tíma, og það er dýrðlegt að fylgjast með samskiptum Jesú við unga gæðinginn. Markús guðspjallamaður segir sömu sögu og hefur sérstaklega fyrir því að geta um augnaráð Jesú er hann hrofir á unga manninn. „Jesús horfði á hann með ástúð” stendur þar. (Mark. 10.21) Og svo falla orðin: „Eins er þér vant. Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“ Við munum framhaldið, hvernig gæðingurinn gekk hryggur á braut, því hann átti svo mikið, fannst honum.

Hvað var Jesús að gera? Hann var einfaldlega að styðja þennan efnilega og hæfileikaríka hrokagikk til þroska. Fram að þessu hafði ungi maðurinn verið að safna mannlegri visku, afli og auði og nú var komið að framhaldinu. Nú var seinni hálfleikur í þroskaferli hans að hefjast. ‘Taktu nú allt þetta sem þú ert búinn að safna,’ sagði Jesús við unga manninn. ‘Taktu það allt og gefðu það áfram, og sjáðu hvernig fjársjóður þinn mun vaxa.’

Við íslendingar erum rík þjóð. Allt frá stofnun lýðveldis okkar og loka seinni heimstyrjaldar höfum við notið allra þeirra forréttinda sem unnt er að njóta á þessum kalda hnetti. Menntun okkar, afl og auður hefur margfaldast og nú erum við hér. Nákvæmlega hér, þar sem við hlutum að standa vegna þess að lífið mætir okkur öllum til þess að gefa okkur kost á því að stíga inn í ár þroskans og fullreyndarinnar. „Eins er þér vant” segir gjafari lífsins við okkur, unggæðinginn í hópi þjóðanna „Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“

Þann dag sem þú hættir að safna mannlegri visku, afli og auði handa sjálfum þér en megnar þess í stað að þiggja það allt að gjöf, þann dag er seinni hálfleikur hafinn í lífsbaráttu þinni og þú ert genginn á vit hinnar sönnu þekkingar.

Sagan um verkamennina í víngarðinum útskýrir muninn á þessu tvennu. Eigandi víngarðsins réði menn til verka á ýmsum tímum dags. Hann samdi við þá sem fyrstir hófu störf að gjalda þeim einn denar, sem voru daglaun verkamanns, hinum öllum sem komu á ólíkum tímum lofaði hann bara sanngirni. „Ég mun greiða ykkur sanngjörn laun.” sagði hann. ( Matt. 20. V. 4) Er vinnudegi var lokið höfðu sumir unnið 12 stundir, aðrir bara eina stund og allt þar á milli. Eigandi víngarðsins bað verkstjórann að byrja útborgun á þeim sem síðastir komu en enda á þeim fyrstu. „Nú komu þeir sem ráðnir voru á elleftu stundu og fengu hver sinn denar. Þegar þeir fyrstu komu bjuggust þeir við að fá meira en fengu sinn denarinn hver. Þeir tóku við honum og fóru að mögla gegn húsbónda sínum. Þeir sögðu: Þessir síðustu hafa unnið aðeins eina stund og þú gerir þá jafna okkur er höfum borið hita og þunga dagsins.
Hann sagði þá við einn þeirra: Vinur, ekki geri ég þér rangt til, sömdum við ekki um einn denar? Taktu þitt og farðu leiðar þinnar. Ég vil gjalda þessum síðasta eins og þér. Er ég ekki sjálfur fjár míns ráðandi? Eða sérðu ofsjónum yfir því að ég er góðgjarn?
Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir.“

Á ytra borði tilverunnar lítur út fyrir að við séum hér fyrst og síðast til þess að safna gæðum. Og við fyrstu sýn mætti halda að einföld og köld lögmál samkeppni ríktu í þessari veröld, en þegar lífið mætir þér og byrjar að auðmýkja þig svo að þú sérð hve brothætt gæfan er og vand með farið lífsins lán þá sérðu að það er ekki rökrétt að hrósa sér af eigin visku, afli eða auði því að allt sem lífið færði þér var ekki annað en lán úr sameiginlegum sjóði. „Nei, sá sem vill hrósa sér hrósi sér af því
að hann sé hygginn og þekki mig.
 Því að ég, Drottinn, iðka miskunnsemi,
rétt og réttlæti á jörðinni,
á því hef ég velþóknun, segir Drottinn.”

Kæri söfnuður, við erum öll á sama báti. Við erum ein þjóð í einu landi og nú bíður okkar það verkefni sem öllum mætir, jafnt einstaklingum sem þjóðum, að yfirgefa æskuárin kannast við eigin takmarkanir og tileinka okkur þá hyggni að hætta að safna af áfergju eða í ótta en byrja þess í stað að þiggja lífslán okkar með þökkum, meðhöndla það af leikni og veita því áfram af rausn. Þá munu góðir daga bíða okkar. Því að Drottinn, iðkar miskunnsemi,
rétt og réttlæti á jörðinni,
„á því hef ég velþóknun, segir Drottinn.”

Amen.