mánudagur, 1. febrúar 2010

Góðir daga bíða

Préidikun sunnudagsins:

Kæri söfnuður, þau eru mögnuð skilaboðin sem við fáum úr ritningunni þennan sunnudagsmorgun: „Svo segir Drottinn:
Hinn vitri hrósi sér ekki af visku sinni,
hinn sterki hrósi sér ekki af afli sínu
og hinn ríki hrósi sér ekki af auði sínum.
Nei, sá sem vill hrósa sér hrósi sér af því
að hann sé hygginn og þekki mig.
Því að ég, Drottinn, iðka miskunnsemi,
rétt og réttlæti á jörðinni,
á því hef ég velþóknun, segir Drottinn.”

Hafi Íslenskri þjóð einhverntíman verið ljóst að mannleg viska, afl og auður eru hverful gæði þá eru henni þær staðreyndir enn ljósari nú. Nú er sá tími að renna upp að okkur gefast ný tækifæri sem þjóð og sem lýðveldi, tækifæri til þess að kveðja hin ungu ár og ganga til móts við þau hyggindi sem skapast þegar lífið er búið að auðmýkja mann.
Ég umgengst í lífi mínu og starfi margt ungt fólk og hvert sinn sem ég rekst á unga manneskju sem er full af áhuga á lífinu þá er eitthvað sem fagnar inni í mér. Það er lífsáhuginn, ástin á lífinu, löngunin til þess að halda áfram, lifa og reyna heiminn sem er svo heillandi og lofar svo góðu. Þessi sannfæring æskunnar um að allt muni takast og allt hljóti að ganga vel er mikilvægur liður í því að vaxa sem manneskja, og það skemmir ekkert þótt því fylgi ögn af þótta eða keimur af yfirburðatilfinningu. Það er bara hollt, því að allt hefur sinn tíma.

Íslenska lýðveldið er um þessar mundir að kveðja æsku sína. Við erum ekki lengur saklaus og djörf æskuþjóð sem horft er til með skilningi og aðdáun, við erum komin til ára og lífið er byrjað að gera við okkur þetta sem öllum er gert, lífið er byrjað að auðmýkja okkur. Án auðmýkingar er enginn þroski og án þroska verður lífið aldrei djúpt og ríkt og gott.
Hér gilda þessi fornu orð spámannsins: „Hinn vitri hrósi sér ekki af visku sinni,
hinn sterki hrósi sér ekki af afli sínu
og hinn ríki hrósi sér ekki af auði sínum.
Nei, sá sem vill hrósa sér hrósi sér af því
að hann sé hygginn og þekki mig.
Því að ég, Drottinn, iðka miskunnsemi,
rétt og réttlæti á jörðinni.”

Aðdragandi guðspjallsins um verkamenninga í víngarðinum sem flutt var hér áðan er sá að ríki unglingurinn sem við könnumst við úr Biblíusögunum kemur á mikilli fart og rennir sér eiginlega fótskriðu inn í söguna til þess að spyrja Jesú spurningar og það nánast drýpur af honum unggæðingshátturinn er hann spyr: „Herra, hvað gott á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?” (Matt. 19. 16) Hann var svo fullur af sjálfum sér, svo bólginn af æskuljóma og þrútinn af eigin yfirburðum að hann bara varð að fá svar við því hvaða góðverk hann gæti unnið til þess að hafa eilífðarmálin líka í góðu „tékki”. Allt hefur sinn tíma, og það er dýrðlegt að fylgjast með samskiptum Jesú við unga gæðinginn. Markús guðspjallamaður segir sömu sögu og hefur sérstaklega fyrir því að geta um augnaráð Jesú er hann hrofir á unga manninn. „Jesús horfði á hann með ástúð” stendur þar. (Mark. 10.21) Og svo falla orðin: „Eins er þér vant. Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“ Við munum framhaldið, hvernig gæðingurinn gekk hryggur á braut, því hann átti svo mikið, fannst honum.

Hvað var Jesús að gera? Hann var einfaldlega að styðja þennan efnilega og hæfileikaríka hrokagikk til þroska. Fram að þessu hafði ungi maðurinn verið að safna mannlegri visku, afli og auði og nú var komið að framhaldinu. Nú var seinni hálfleikur í þroskaferli hans að hefjast. ‘Taktu nú allt þetta sem þú ert búinn að safna,’ sagði Jesús við unga manninn. ‘Taktu það allt og gefðu það áfram, og sjáðu hvernig fjársjóður þinn mun vaxa.’

Við íslendingar erum rík þjóð. Allt frá stofnun lýðveldis okkar og loka seinni heimstyrjaldar höfum við notið allra þeirra forréttinda sem unnt er að njóta á þessum kalda hnetti. Menntun okkar, afl og auður hefur margfaldast og nú erum við hér. Nákvæmlega hér, þar sem við hlutum að standa vegna þess að lífið mætir okkur öllum til þess að gefa okkur kost á því að stíga inn í ár þroskans og fullreyndarinnar. „Eins er þér vant” segir gjafari lífsins við okkur, unggæðinginn í hópi þjóðanna „Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“

Þann dag sem þú hættir að safna mannlegri visku, afli og auði handa sjálfum þér en megnar þess í stað að þiggja það allt að gjöf, þann dag er seinni hálfleikur hafinn í lífsbaráttu þinni og þú ert genginn á vit hinnar sönnu þekkingar.

Sagan um verkamennina í víngarðinum útskýrir muninn á þessu tvennu. Eigandi víngarðsins réði menn til verka á ýmsum tímum dags. Hann samdi við þá sem fyrstir hófu störf að gjalda þeim einn denar, sem voru daglaun verkamanns, hinum öllum sem komu á ólíkum tímum lofaði hann bara sanngirni. „Ég mun greiða ykkur sanngjörn laun.” sagði hann. ( Matt. 20. V. 4) Er vinnudegi var lokið höfðu sumir unnið 12 stundir, aðrir bara eina stund og allt þar á milli. Eigandi víngarðsins bað verkstjórann að byrja útborgun á þeim sem síðastir komu en enda á þeim fyrstu. „Nú komu þeir sem ráðnir voru á elleftu stundu og fengu hver sinn denar. Þegar þeir fyrstu komu bjuggust þeir við að fá meira en fengu sinn denarinn hver. Þeir tóku við honum og fóru að mögla gegn húsbónda sínum. Þeir sögðu: Þessir síðustu hafa unnið aðeins eina stund og þú gerir þá jafna okkur er höfum borið hita og þunga dagsins.
Hann sagði þá við einn þeirra: Vinur, ekki geri ég þér rangt til, sömdum við ekki um einn denar? Taktu þitt og farðu leiðar þinnar. Ég vil gjalda þessum síðasta eins og þér. Er ég ekki sjálfur fjár míns ráðandi? Eða sérðu ofsjónum yfir því að ég er góðgjarn?
Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir.“

Á ytra borði tilverunnar lítur út fyrir að við séum hér fyrst og síðast til þess að safna gæðum. Og við fyrstu sýn mætti halda að einföld og köld lögmál samkeppni ríktu í þessari veröld, en þegar lífið mætir þér og byrjar að auðmýkja þig svo að þú sérð hve brothætt gæfan er og vand með farið lífsins lán þá sérðu að það er ekki rökrétt að hrósa sér af eigin visku, afli eða auði því að allt sem lífið færði þér var ekki annað en lán úr sameiginlegum sjóði. „Nei, sá sem vill hrósa sér hrósi sér af því
að hann sé hygginn og þekki mig.
 Því að ég, Drottinn, iðka miskunnsemi,
rétt og réttlæti á jörðinni,
á því hef ég velþóknun, segir Drottinn.”

Kæri söfnuður, við erum öll á sama báti. Við erum ein þjóð í einu landi og nú bíður okkar það verkefni sem öllum mætir, jafnt einstaklingum sem þjóðum, að yfirgefa æskuárin kannast við eigin takmarkanir og tileinka okkur þá hyggni að hætta að safna af áfergju eða í ótta en byrja þess í stað að þiggja lífslán okkar með þökkum, meðhöndla það af leikni og veita því áfram af rausn. Þá munu góðir daga bíða okkar. Því að Drottinn, iðkar miskunnsemi,
rétt og réttlæti á jörðinni,
„á því hef ég velþóknun, segir Drottinn.”

Amen.

Engin ummæli: