laugardagur, 10. apríl 2010

Hvernig skapast sátt?

Bjarni skrifar:
Nú kemur rannsóknarskýrslan út á mánudaginn.
Hlustum nú vel á viðbrögðin innra með sjálfum okkur og úti í þjóðfélaginu. Tökum eftir því hvort við sitjum föst í farvegi ásakana og sektarkenndar eða náum að þokast í átt að sáttinni.
Sátt skapast þegar fólk axlar ábyrgð á eigin lífi og gjörðum. Það mun verða óhjákvæmilegt að kalla einstaklinga til ábyrgðar en þó verður það gagnslaust ef þjóðin kannast ekki við heimsku sína og rangt gildismat sem bjó útrásarsvikunum jarðveg sinn.

þriðjudagur, 6. apríl 2010

Hernaður er hugleysi

Bjarni skrifar:

Hún hefur ólgað í mér reiðin síðan ég sá upptökuna af ódæði bandarísku hermannanna í Bagdad frá árinu 2007. Flestum er okkur eins innanbrjósts. Þarna urðum við vitni að þeirri þjálfuðu afmennskun sem er hluti af hernaðarmenningunni. Samskipti hermannanna voru ekki með öllu samviskulaus, þau báru með sér mönun og fálmkennda réttlætingu samfara einhverskonar fró. Ástandið í samskiptum þessarra firrtu manna var svona stutt innlit í helvíti.

Þá rifjast upp sök okkar Íslendinga sem viljugrar þjóðar. Sú sök hvílir á samvisku íslensks almennings og er sameign okkar.

Getum við séð fyrir okkur þjóðmenningu þar sem friður væri ræktaður? Getur ímyndunarafl okkar dregið upp mynd af íslensku samfélagi þar sem hernaðarmenningu væri hafnað með opnum hætti? Þar sem skólakerfið okkar, framleiðslan í landinu og verslun og þjónusta miðuðu að virðingu fyrir öllu lífi. Hver sá sem heimsækti landið yrði þess áskynja að hér væri þjóð sem dreifði valdi í stað þess að safna því. Að hér væri ræktað samtal og sóst eftir nýjum sjónarmiðum við ákvarðanatökur vegna þess að Íslendingar sæu gildi þess að safna upplýsingum og tengslum fremur en fjármunum. Menn myndu finna virðing okkar fyrir náttúru landsins og gleðina yfir gæðum þess. Að hér byggi þjóð sem væri þakklát og væri í sífellu að þróa mér sér færni í friði.

Friður er ekki átakaleysi. Friður er stríðandi ferli í átökum hversdagsins. Friður krefst meira hugrekkis en nokkurt stríð. Enginn myndi halda því fram að þessir ógæfusömu hermenn sem frömdu fjöldamorðin í Bagdad hefðu sýnt hugrekki. Bleyðuskapur er einkenni nútíma hernaðar. Þeir sem gefa skipanirnar voga engu, eru víðs fjarri. Og nú hefur tekist með nýrri tækni að einangra þolendur árása með þeim hætti sem við urðum vitni að svo að eymdin verði alger. Óvinurinn andlitslaus og vanvirða eyðileggingarinnar svívirðilegri fyrir vikið.

En er þess að vænta af þjóð sem ekki hefur kjark til að horfast í augu við þátt sinn í eigin gjaldþroti. Þjóð sem vill ekki kannast við að hafa skapað andrúm græðgi og spillingar sem leiddi hana í þrot en bíður þess í ofvæni að aðal gerendurnir verði leiddir út í bödnum svo að hún geti snúið sér að sömu iðju með sama veiklaða hugarfarinu. Er von til þess að slík þjóð hreki af sér slíðruorðið og líti á frið sem valkost? Friður er ekki valkostur hins huglausa. Hann verður að fara í stríð og bindast hernaðarbandalögum. Hinn huglausi er alltaf að bíða eftir einhverri einfaldri lausn sem leysi hann undan núningi veruleikans. Því stærri sem lausnin er því betri finnst honum að hún muni vera. Hvort sem það er stóriðja eða herþotuleiga eða hvað annað sem er nógu frekt og orkudrifið, þá hljóti það að vera gott.

Við Íslendingar stöndum á meiri krossgötum en við gerum okkur grein fyrir. Eftir hundrað ár verða rýndar og ræddar þær ákvarðanir og það andrúmsloft sem við erum í þann mund að móta. Við eigum stórkostlega leiki á borði. E.t.v. hefur engin þjóð nokkru sinni haft jafn mögnuð tækifæri til að læra af reynslu sinni og breyta háttum sínum til góðs. Til þess höfum við allar forsendur vegna menntunarstigs okkar, gagnsæis samfélagsins og margra annarra þátta. En það sem stendur gegn okkur er hið huglausa hugarfar „hinna viljugu" sem hrjáir okkur meir en nokkurt auraleysi.