þriðjudagur, 21. júní 2011

Sorgir kirkjunnar

Léttar raunir eru málgefnar en þungar sorgir eru þöglar.
Þegar rannsóknarskýrsla kirkjuþings var lögð fram á dögunum sló þögn á alla sem unna kristinni kirkju í landinu. Kirkjuþing var haldið og við þau orð sem þar féllu og það atferli sem þar var við haft hefur þögnin orðið dýpri.

Ef kirkjan væri skógræktarfélag. Ef hún væri í fiskeldi eða loðdýrarækt þá myndi vandinn horfa öðruvísi við. Vöxtur skóga og viðgangur eldisdýra truflast ekki þótt stjórn félagsins gangi í gegnum krísur. En kirkjan er í mannræktinni og mannlífið er þannig vaxið að það blómstrar ekki nema það lifi við heilindi.
Kirkjan er fjöldahreyfing sem fjallar um trúnaðinn við lífið. Hún er mannlífstorg samstöðunnar, staðurinn þar sem komið er saman jafnt í gleði og sorg til þess að endurnýja sáttmálann við Guð og menn. Hún teygir sig inn í Kolaportið og út í dreifðustu byggðir með góðu fréttirnar um frelsi og jafnstöðu allra. Enginn á hana en allir mega tilheyra henni. Hvort sem klukkurnar óma í Hallgrímskirkju eða á Kópaskeri þá er tilboðið það sama. Sögurnar sem þar eru sagðar, bænirnar, söngvarnir - allt miðlar það þekkingu á lífinu og fjallar um þau gildi sem liggja hamingjunni við hjartastað og kenna okkur göngulag gæfunnar. Þess vegna er ranglæti í kirkjunni sárara en annað ranglæti. Þar má enginn taka vald yfir öðrum, og þegar það gerist fellur á þögn.

Rannsóknarskýrslan rekur sorgarsögu þar sem þvingunarvaldi var beitt til að skapa hjarðhegðun og trúnaður var rofinn með svo margvíslegu móti til þess eins að tryggja persónur í sessi. Afleiðingin var sú að þolendur og gerendur voru svipt rétti sínum til sálgæslu og kirkjan var svipt trúverðugleika sínum sem vettvangur öryggis og heilbrigðis.
Við upphaf Kirkjuþings sem haldið var í tilefni af útgáfu skýrslunnar urðu þau tíðindi að gömul leiktjöld voru dregin upp og sama vinnulag var við haft. Forseti Kirkjuþings, Pétur Kr. Hafstein, hóf atburðarásina með ræðu sinni þar sem hann gerði persónu herra Karls Sigurbjörnssonar að aðalatriði og fjallaði af tilfinningaþunga um þau spjótalög sem að honum hafi verið rétt utan úr samfélaginu og ekki síður innan úr kirkjunni og lét þess getið að kirkjunnar fólk ætti að standa með sínum besta manni en ekki leggja til hans. Þannig dró hann upp mynd af kirkjunni sem biskupskirkju um leið og hann flokkaði kirkjulega þjóna í tvo hópa, annan vinveittan en hinn ekki. Hvort tveggja var óboðlegt. Kirkjan er ekki biskupskirkja heldur hreyfing trúaðra og þar heyrast og eiga að heyrast margar raddir. Með aðferð sinni leitaðist Pétur við að móta andrúmsloft hjarðhegðunar þar sem gagnrýninni hugsun er úthýst og hún túlkuð sem fjandskapur. Rannsóknarskýrslan ber því vitni að aðferðin er gamalreynd og að hún virkar.

Herra Karl Sigurbjörnsson ávarpaði einnig samkomuna, settist að því búnu í öndvegi og vék ekki úr sal eða í áheyrnarsæti þótt persóna hans og embættisverk væru til umræðu. Einnig það var óboðlegt.
Í vissum skilningi var þetta Kirkjuþing einkar gagnlegt því þar staðfestust fyrir allra augum niðurstöður rannsóknarskýrslunnar í verki. Með þeirri umgjörð sem forseti kirkjuþings og biskup gáfu Kirkjuþingi þennan morgun var þingið í raun óstarfhæft. Ræða forseta og seta biskups í öndvegi voru skilaboð um vantraust á kirkjuþing, trúnaðarrof. Það eina sem vantaði til þess að fullkomna myndina var að fram kæmi tillaga um stuðning kirkjuþings við Biskup sem samþykkt væri með yfirgnæfandi fjölda atkvæða. Þá hefði gamli tíminn algerlega verið endurnýjaður og Kirkjuþing lagt frá sér myndugleika sinn.

Nú stendur sterk krafa á okkur presta utan úr samfélaginu um það að afsegja biskup. Við prestar erum ekki tilsjónarmenn biskups og höfum ekkert formlegt vald í okkar höndum. Allir geta beitt hótunum, en hótanir munu ekki leysa þann djúpa félagslega og tilfinningalega vanda sem Þjóðkirkjan á við að glíma og blasir nú við með svo átakanlegum hætti. Við stöndum nú frammi fyrir því prófi hvort við veljum í raun að tileinka okkur baráttuaðferð Jesú Krists sem gerði hvorki að flýja eða höggva heldur stóð í sannleikanum. Sannleikurinn rekur sig sjálfur og það er ekki verkefni okkar að frelsa hann heldur leyfa honum að frelsa og styrkja.
Nú eru úrslitatímar í kirkjunni á Íslandi og þeir snúast ekki um persónu herra Karls eða nokkurs annars, heldur um það hvort okkur auðnist að vinda ofan af þeirri valdsmenningu sem lengi hefur verið þróuð við stjórn kirkjunnar en móta með okkur valdeflandi menningu þar sem hið góða samtal er iðkað og ólíkar raddir fá að hljóma. Óskýr skilaboð biskupsins um brotthvarf úr embætti valda því að óreiðuöflin fá enn aukið slagrými og kirkjan okkar færist enn utar á jaðar hins góða lífs í vitund almennings.

8 ummæli:

Halldór Halldórsson sagði...

Ég mun seint skilja þörf ykkar í ríkiskirkjunni, Þjóðkirkjunni, til að gefa í skyn að ykkar trúfélag sé hin eina sanna kirkja? Ég tilheyri öðru trúfélagi, kristinni kirkju og kemur hreint ekkert við vandamál ykkar með forstöðumann safnaðarins.

Nafnlaus sagði...

Hrikaleg lesning.

Ekki að undra að illa sé komið fyrir þessari stofnun.

Nafnlaus sagði...

Það þýðir ekkert að kvarta og kveina, það þarf að bregðast við af festu og ákveðni gegn þessu liði.

Hvers vegna takið þið hin þátt í þessarri aumkunarverðu hjarðhegðun ?

Hvers vegna takið þið ekki höndum saman og krefjist opinberlega og sameiginlega afsagnar biskupsins ?

Við hvað eru þið svona hrædd nú þegar staða biskupsins hefur aldrei verið veikari ?

Sigmundur Guðmundsson stærðfræðingur

Hrafn Arnarson sagði...

Þetta er mjög hreinskilin og opinská umfjöllun.kirkjan á að vera lifandi hreyfing trúaðra manna en hér er verið að lýsa valdabaráttu embættismanna í ríkisstofnun. Sýnt hefur verið fram á alvarlega misbresti í embættisfærslu.Trúnaðarbrestur er milli ríkiskirkjunnar og almennings. Það er mín tilfinning. En valdið heillar menn og menn láta það ekki af hendi. Lýsingin á krikjuþingi er dapurleg. Umræðan í fjölmiðlum er dapurleg. Mikil gerjun og uppgjör á sér stað í öllu þjóðfélaginu. Ríkiskirkjan verður að takast á við nýja og gjörbreytta tíma. Ég þekki ekki óreiðuöflin innan krikjunnar enda mjög mörg ár síðan ég sagði mig úr Þjóðkirkjunni.

Nafnlaus sagði...

Skipulögð trúarbrögð eru náttúrulega hjað-hegðun.

Það hlýtur nú að vera komin tími til að losa sig við þessa kalla sem stjórna þarna. Karl er augljóslega ekki sá eini, heldur þarf að taka til líka í þeim hópi sem styður hann. Pétur KR. ljóslega þar framalega í hópi þeirra sem þurfa að finna nýja vinnu.

Nafnlaus sagði...

Af hverju er ekki hægt að fyrirgefa Karli klaufaskapinn. Kunnið þið það ekki?

Nafnlaus sagði...

Þakka ykkur fyrir einlæga og heiðarlega greiningu á síðastliðnu kirkjuþingi.
Framtíð kirkjunnar felst í fólki eins og ykkur, Karl og félagar hans tilheyra liðinni tíð.

Vald er vandmeðfarið, valdakerfið spillir og tærir á endanum dómgreind okkar.
Til þess að leysa kirkjuna undan kerfi valdsmenningar mætti skoða að leggja niður embætti biskups.
Það er óberandi byrði að ætla einni manneskju það hlutverk vera eitthvað sem kallast andlegur leiðtogi þjóðar.

Við sem höfum verið skírð erum öll prestar og kristur er okkar hirðir, til hvers þurfum við þá biskup?
Ég sé fyrir mér frjálsa lýðræðislega kristna kirkju óháða ríkisvaldi hvers tíma.

Nafnlaus sagði...

Biskup má ekki álíta sig mikilvægari en sjálfa stofnunina, það samfélag sem er þar innan.

Ég skora á okkar gamla fjölskylduvin, að segja af sér.

Kv.

Einar Björn Bjarnaon