miðvikudagur, 26. desember 2012

Bjartur í Sumarhúsum og Jósef Jakobsson

“Þú getur haft mig fyrir því að frelsið er meira vert en lofthæðin í bænum” mælir Bjartur í Sumarhúsum. Í átján ár hefur hann stritað fyrir hreppstjórann og nú á hann fyrir fyrstu útborgun í frelsinu sem er það að eiga sinn bæ, sinn hund, sínar rollur og sína konu. Og það er tíkin Títla sem ein hlýðir á mál húsbóndans þar sem hann “gengur um í sínu eigin túni rannsakar vallgrónar rústirnar, athugar steininn í stekkjarveggjunum, rífur í huganum og byggir upp aftur sams konar bæ og hann er fæddur í og uppalinn fyrir austan heiði.” “Það er ekki allt komið undir risinu […] það er frelsið í landinu sem við erum öll að sækjast eftir, Títla mín. Sá sem stendur í skilum er konungur. Sá sem dregur fram sínar kindur býr í höll. (Halldór Laxness, Sjálfstætt fólk, fyrsta útgáfa s. 19) Þannig hefst sú saga sem Halldór Laxness skráði í tveimur bindum og heitir Sjálfstætt fólk. Sagan af Bjarti í Sumarhúsum og því fólki og skepnum sem með honum þrauka er saga af hörmung. Er fyrri kona hans, Rósa, var dáin af barnsförum, og Bjartur er á för heim í Sumarhús eftir jarðarförina með nýja konu Finnu að nafni og aldraða móður hennar sem Hallbera heitir og presturinn hafði komið inná hann því þær voru vegalausar, þá vappar tíkin við hlið honum „vonglöð í hjarta. Það er yndislegt að fara heim. Og í hvert skipti sem hún var komin nokkra faðma fram úr honum, þá snéri hún við, og leit til hans full af óbilandi trúnaðartrausti, sneri við í stórum boga. Hún bar slíka lotningu fyrir húsbónda sínum, að hún dirfðist ekki að ganga framar en hann. Það sem hundurinn leitar að, finnur hann hjá manninum. Hann hallaðist áfram móti mjallrokinu og teymdi Blesa, en gaut oft auga til hundkvikindisins síns, - þetta grey, lúsugt og ormaveikt, en hvar býr tryggðin sjálf, ef ekki í þessum mórauðu augum, […] Það sem maðurinn leitar að finnur hann í augum hundsins.” (s. 216) Samband Bjarts og tíkurinnar hljómar líkt og viðlag í gegnum söguna alla, því hver hundstíkin tekur við af annari í beinan kvennlegg og er því í raun alltaf söm. Af öllum persónum er tíkin hans nánasti aðstandandi í þrotlausri baráttu fyrir frelsi og sjálfstæði. Þar ber aldrei skugga á. Mögnuð er lýsingin er Bjartur fer með hest sinn og hund í fjárleitir, skilur Rósu ófríska og vannærða eftir heima því engin er kýrin og mjólkin og kjöt skyldi ekki borðað á bænum fyrr en búið væri að draga fram dilka og standa í skilum við hreppstjórann. En konunni til hugarhægðar tjóðrar hann eitt lamb við staur svo hún hafi félagsskap í fjarveru hans. Þessu lambi slátrar Rósa, og bjargar þannig lífi sínu og barnsins sem hún ber undir belti, drekkur blóð, borðar mör, sýgur merg og neytir kjöts. En sökum þess að hún vogar ekki að segja bónda sínum sannleikann um lambið sem nú er horfið og líka af þeirri ástæðu að hann veit að barnið sem hún gengur með er ekki hans barn heldur hreppstjórasonarins á Rauðsmýri þá er hann á fjöllum að leita lambsins þegar Rósa fæðir. Er hann kemur af heiðinni eftir mikla hrakningaför finnur hann konu sína dána á köldu baðstofugólfinu en tíkarskarnið hefur hringað sig utan um hvítvoðunginn og haldið í honum lífinu. Þar er komin Ásta Sóllilja. Það sem hundurinn leitar að finnur hann hjá manninum og það sem maðurinn leitar að finnur hann í augum hundsins. Bjartur í Sumarhúsum er í sömu aðstöðu og Jósef Jakobsson. Báðir lifa þeir undir ranglátu yfirvaldi og fara hrakförum með konu sinni sem ber barn einhvers annars. Ástarraunir, ranglát yfirvöld og ólán mætir þessum mönnum báðum en þó er sitthvað sem skilur þá að. Hefði María átt hann Bjart í Sumarhúsum hefði gistingin í gripahúsinu aldrei verið þegin. Eina persónu lagði Bjartur mesta fæð á af öllum persónum sögunnar, það var kýrin sem kvenfélagið kom inná hann með heilsu kvenna og barna í huga og lét fylgja vetrarbyrgðir af heyfóðri. Úr gömlum vetlingi sem geymdur var í hjónarúminu í dýnunni undir seinni konunni taldi Bjartur fram hundrað krónur og greiddi kýrverðið út í hönd. Með tilkomu kýrinnar tóku börnin sem fjölgað hafði á heimilinu að braggast, heimilisbragurinn mildaðist allur og sá dagur kom að Finna reis úr rekkju en þar hafði hún haft vetrardvöl. Ekkert af þessu gladdi heiðarbóndann. “Varðar þig og kvenfélagið nokkurn skapaðan hlut um mína konu, mér er spurn. Eða mín börn?” Mælti hann við hreppstjórann er hann kom að skila honum kýrverðinu því þetta hafði verið gjöf. “Ef ég hvorki skulda þér né kvenfélaginu, þá vil ég líka mælast til þess, að hvorki þú né kvenfélagið blandir þér út í mína konu og mín börn. Ég á mína konu og mín börn í lífi og dauða. Og það kemur mér einum við og hvorki þér né kvenfélaginu, hvort mín börn braggast vel eða illa.” (s. 291-2) Ótalin eru börnin í sögunni sem Finna elur andvana eða deyja í frumbernsku og ótaldar ferðir Bjarts yfir heiðina með hest sinn og hund að grafa börn í garðinum hjá prestinum. Hvers kyns aðvaranir eða ráð, hótanir, grátstafir eða bænir falla sem vatn af gæs. Bjartur er sjálfstæður maður. Svo greinir Mattesus frá: „Er vitringarnir voru farnir þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi og segir: „Rís upp, tak barnið og móður þess og flý til Egyptalands. Þar skaltu vera uns ég segi þér því að Heródes mun leita barnsins til að fyrirfara því.“ Hefði hún María átt hann Bjart í Sumarhúsum hefðu hermenn Heródesar hremmt barnið. Vandi Bjarts og allra sem eiga öryggi sitt undir honum komið er sá að það sem hann leitar að finnur hann í augum hundsins. Hundsaugun eru hans stóra svar því þau tjá honum þá hollustu sem hann þráir að finna en finnur hvergi nema þar. Á meðan Bjartur horfir í augu hundsins horfir Jósef í augu barnsins. Ekkert augnatillit er jafn krefjandi og barnsaugun því barnið lofar engu en krefst alls. Vanhirt hundstíkin lúsug og ormaveik fylgir húsbónda sínum í órofatryggð og mænir á hann jafnt þótt hún sé barin. Þegar Bjartur er búinn að berja Ástu Sóllilju þá hættir hún að þora að horfa á hann nema í laumi þótt hún elski hann og þrái nálægð hans. Sá sem leitar lokasvars í augum hundsins mætir aldrei augnaráði barnsins því það mun dylja ásjónu sína fyrir honum. Um þennan veruleika ræðir Gabríel erkiengill við Sakaría föður Jóhannesar skírara í formálskafla sögunnar um Jesú eins og hún er skráð hjá Matteusi. Hann lýsir fyrir Sakaría því hlutverki sem drengurinn hans verði kallaður til og hvernig hann muni undirbúa komu frelsarans í heiminn: “Hann mun ganga frammi fyrir [Guði] í anda og krafti Elía, til að snúa hjörtum feðra til barna sinna og gefa óhlýðnum réttlátt hugarfar og búa Drottni altygjaðan lýð.”(Lúk. 1.17) Í þessum orðum bjarmar af þeim nýju lífsmöguleikum sem jólin boða. Hér heyrist krafan sem fólgin er í fæðingu barnsins í Betlehem. Krafan um hlýðni við lögmál lífsins, krafan um að hjörtu feðra snúi að börnum þeirra í stað þess að spegla sig í valdinu sem raðar öllu og öllum í goggunarröð. Sjálfstætt fólk er saga um óhlýðni við lífslögmálið, saga af hörmung þess rangláta hugarfars þegar hundsaugun eru valin umfram augu barnsins. Þegar Bjartur ber fyrri konu sinni á brýn daginn eftir brúðkaupið að e.t.v. hafi hún átt vingott við fleiri en sig þá „rís hún upp í reiði: Það veit Guð og Jesús Kristur, að ef ég sé eftir nokkrum sköpuðum hlut, þá sé ég eftir að hafa ekki haft þá alla í staðinn fyrir að giftast þér, sem tekur sauðkindina langt fram yfir mannssálina og trúir á hundinn. Það vildi ég óska að ég hefði haft vit á að snúa aftur í dag og fara heim til pabba og mömmu.”(s. 55) Í sögulok þegar búið er þrotið og Bjartur stendur uppi í vanskilum og vanmáttugri reiði búinn að reka Ástu Sóllilju ófríska af höndum sér með löðrungi þá er það Þórir bóndi á Gilteigi sem mælir fram orð Garbríels engils: „…aðalatriðið hélt ég væri þó það, að trúa á sín börn, hvað sem í skerst. Það hef ég alltaf gert. Hvað sem kom fyrir mín börn, ég rak þau aldrei burt. (s.317) Munurinn á göngulagi þessara tveggja manna, Bjarts í Sumarhúsum og Jósefs Jakobssonar, liggur í því að annar þiggur ekki ráð af neinum en hinn kann að hlusta og leiða hugann að annars konar viðbrögðum. Annar tortryggir allt sem að honum snýr og lítur á hvers kyns aðstoð sem fjandsamlega íhlutun eða hnýsni, hinn þiggur það sem vel er meint, opnar dyr sínar fyrir heimsóknum fátækra fjárhirða sem ekkert eiga nema lotninguna og þakklætið og eins fyrir vitringum frá framandi löndum sem koma færandi hendi. Gæfa hinnar heilögu fjölskyldu sem lýst er í Matteusar- og Lúkasarguðspjalli er sú að saman standa þau opin fyrir lífinu og því stendur lífið opið fyrir þeim og frásögnin af lífsbaráttu þeirra er full af æðruleysi því hún er sögð frá sjónarhóli nægta og þakklætis. Í þeirri sögu er konungurinn Heródes aftur fulltrúi þess valds sem finnur það sem það leitar að í augum hundsins og því er hann fátækur þótt auðugur sé og hræddur búandi í hervirki. Heimsókn og erindi vitringanna er honum ögrun því hann lifir í veröld stigveldisins þar sem augu barnsins eru hundsuð og barnamorðin í Betlehem drynja líkt og fjarlægar þrumur í bakgrunni sögunnar. Saga Jesú líkt og Sjálfstætt fólk Halldórs Laxness opnar á þann sannleika að menning sem trúir á hundinn mun alltaf brjóta lífslögmálið. Menning sem innst inni er bundin í goggunarraðir og stigveldissamskipti mun aldrei finna frið og jafnvægi því hún lifir og nærist á ójöfnuði. Menning hundsins mun alltaf skipuleggja fátækt sem órjúfanlegan þátt í mannlífinu því án hins fátæka skortir þann hagstæða samanburð sem leitað er að. Í nýlegri skýrslu Rauðakrossins og Hjálparstarfs kirkjunnar sem ber heitið Farsæld (http://www.raudikrossinn.is/doc/10417478?wosid=false) er ákall til íslenskrar þjóðar um að yfirgefa hugarfar hundsins en taka við kröfu barnsins og viðurkenna þá staðreynd að við erum öll fædd til lífs og mannréttinda. Í stað þess að veðja á aumingjagæskuna sem er skilgetið afkvæmi stigveldishugsunarinnar í glímunni við fátæktarvandann er bent á mannréttindi annars vegar og þekkingu okkar á því hvernig efla má fólk að völdum í eigin lífi hins vegar. Þar er þess krafist að engin börn lifi slíka æsku sem lýst er í Sumarhúsum heldur skuli vaxandi kynslóð fá að treysta því að þau eigi foreldra, feður og mæður, já samfélag sem snýr hjarta sínu að þeim og dreifir valdi sínu til allra sem lifa. Bjartur í Sumarhúsum stendur einn frammi fyrir heiminum, fastur í fjötrum tíðarandans og eigin hugarfars og í sögulok er niðurstaðan þessi: “Einyrkinn kemst ekki úr kreppunni um allar aldir, hann heldur áfram að vera til í hörmung, eins lengi og maðurinn er ekki mannsins skjól, heldur versti óvinur mannsins.” (s. 345)

mánudagur, 1. október 2012

Sænska stellingin

Prédikun sl. sunnudags: Um daginn fékk ég alveg bráðmerkilegar upplýsingar hjá manni nokkrum sem er blindur. Hann á hund sem er sérþjálfaður til að hjálpa honum að fara um götur og torg. Þetta er yndisleg skepna með mjúkan og glansandi feld og það fer vel á með þeim félögum í dagsins önn. En eitt af því sem ræður úrslitum um þeirra góða samband er sú staðreynd að hundurinn er haldinn ákveðinni skynvillu. Þessi hundur gengur fram í þeirri trú að sjálfur sé hann svona u.þ.b. tveir metrar á hæð. Skynvilla hundsins gerir það hins vegar að verkum að eigandinn má treysta því að þegar þeir eru saman á göngu muni hann ekki reka sig upp í lágar dyr, götuskilti eða slútandi trjágreinar. Vitaskuld er þessi áhugaverði misskilningur liður í þeirri þjálfun sem blessuð skepnan hefur fengið og einn af þeim eiginleikum sem gerir hund að blindrahundi. Ritningartextar dagsins gefa okkur tilefni til þess að takast á við skynvillu sem lengi hefur fylgt mannkyni en er ekki jafn meinlaus og skemmtileg og sú sem blindrahundar hafa að bera. Við manneskjur göngum í hjartans einlægni fram í þeirri vissu að við séum það sem við afrekum. Þessu treystum við eins og nýju neti, jafnvel þótt við blasi að þannig er því ekki varið. Alltaf þegar ég heyri guðspjallssögu dagsins, frásögnina af því þegar Jesús neitaði að haga sér í fína boðinu í húsi Faríseans, (Lúk. 14.1-14) þá dettur mér í hug hann Flosi Ólafsson leikari. Blessuð sé minning hans. Einhvern tímann mun Ríkisútvarpið taka til endurflutnings pistlana sem hann flutti hér á árum áður og glöddu flesta landsmenn. Eitt skiptið sagði hann frá því að loks hefði honum verið boðið innan um almennilegt fólk. Þetta var á þeim árum þegar köld borð og pinnamatur voru að ryðja sér til rúms í veislumenningu landans og taldi Flosi að það væri á allra vitorði að þegar almennilegt fólk kæmi saman þá settist það ekki heldur stæði með glös á mjóum fæti og borðaði pinnamat. Trúði hann útvarpshlustendum fyrir því að hann fengi ekki nógsamlega þakkað það lán að hafa fengið réttan undirbúning fyrir þetta fína samkvæmi, en svo hefði viljað til að hann hefði þá rétt nýlega fengið tilsögn í sænsku stellingunni, sem hann nefndi svo. Vildi hann endilega gefa áheyrendum hlutdeild í þekkingu sinni sem svo vel hefði reynst að fólk efði sópaðist að honum; Fyrst skyldu menn taka glas með mjóum fæti, finna sér svo hlutlaust svæði að standa á þar sem maður væri ekki fyrir neinum. Þá skyldi standa vel í vinstri fót en tylla hægra tábergi og hafa hælinn uppi á rist þess vinstri. Glasi skyldi haldið í hægri hönd en olnboginn hvíla á þeirri vinstri sem höfð væri í þægilegri 90° sveigju. Hvatti Flosi útvarpshlustendur til þess að prófa þessa aðferð ef þeir kæmu innan um almennilegt fólk og sanna til að sænska stellingin er svo aðlaðandi að menn gefa sig sjálkrafa á tal við þann sem þannig hefur komið sér fyrir. Lagði hann jafnfram þunga áherslu á að ekki væri sigur unninn nema maður gætti þess að segja ekkert við viðmælendur sína nema „aha” og „mmm” með innfjálga jákvæðni í raddblæ og fasi. Fullyrti Flosi af fenginni reynslu að hver sem þetta gerði yrði óskoraður hrókur fagnaðar í fínum húsum. „Hvíldardag nokkurn kom Jesús í hús eins af höfðingjum farísea til máltíðar og höfðu menn gætur á honum.” segir saga dagsins. Þá er þarna allt í einu maður sem örugglega var ekki á gestalistanum því fársjúku fólki er ekki boðið í fín samkvæmi. Hann stendur þarna eins og þvara í miðjum fordrykknum afmyndaður af bjúg eða vatnssjúkur eins og guðspjalli segir. Þá tekur Jesús fyrstu snerruna af þremur í þessu boði. Það sem hann í raun gerir er bara það að hann setur þarfir þessa veika manns á vogarskálar samkvæmisins og metur þarfir hans þyngri en hneykslun boðsgesta. Og enda þótt það sé hvíldardagur og guðrækni samtímans banni að veita nokkra þjónustu á slíkum degi, - þótt sjálfsagt hafi nú verið þjónar að störfum í húsinu - þá tekur Jesús á manninum og læknar hann. Svo horfir hann á boðsgestina og spyr: „Ef einhver ykkar á asna eða naut, sem fellur í brunn, mun hann ekki óðara draga það upp þótt það sé hvíldardagur?“
Þeir gátu engu svarað þessu, segir guðspjallið. Boðflennan gengur á braut, allir anda léttar og það er boðið til borðs. Það voru ekki merkt sæti í veislunni heldur bara svona frjálst sætaval og boðsgestir taka að stympast fast en kurteislega og keppast um hefðarsætin með fáguðu yfirbragði. -„Þegar einhver býður þér til brúðkaups...” Heyrist þróttmikil röddinn. -Kann maðurinn ekki að stoppa?! Segir einn við annan. Hverjum datt í hug að bjóða þessum manni hingað fyrir það fyrsta? -“Þegar einhver býður þér til brúðkaups þá set þig ekki í hefðarsæti. Svo getur farið að manni þér fremri að virðingu sé boðið og sá komi er ykkur bauð og segi við þig: Þoka fyrir manni þessum. Þá verður þú með kinnroða að taka ysta sæti. Far þú heldur er þér er boðið og set þig í ysta sæti svo að sá sem bauð þér segi við þig þegar hann kemur: Vinur, flyt þig hærra upp! Mun þér þá virðing veitast frammi fyrir öllum er sitja til borðs með þér. Því að hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.“ Húmoristarnir í hópnum hafa glott, fúlistarnir gníst tönnum en gestgjafinn litið áhyggjufullur í kringum sig. Hversu vandræðalegt ætlaði þetta að verða? Fyrst sakar hann alla um hjartakulda gagnvart veikum manni og svo gefur hann beint í skyn að andrúmsloftið í salnum sé hlaðið metingi. Ég er viss um að þarna hefur skemmtiatriðum verið flýtt og einu skellt fram á meðan forréttur var borinn á borð. Veislustjórar allra alda kunna sitt fag. Andrúmsloftið léttist enn þegar aðalrétturinn kemur, vínið flæðir, snjallar tækifærisræður eru haldnar, hlátursbylgjur far um salinn og það er gaman að lifa. Menn sjá að Jesús er bæði glaður og lystugur og drekkur í sig það sem verið er að segja og það er heiðríkja í hlátri hans. Þegar hann svo stendur á fætur og biður um orðið gefur gestgjafinn veislustjóra merki um að slaka bara á, hann er sannfærður um að nú ætli Jesús að nota tækifærið til að slétta yfir það sem hann sagði og gera gott úr öllu saman. Ég trúi ekki öðru en að Jesús hafi þakkað fallega fyrir sig, hrósað gestgjafanum og ekki síður veitingafólkinu sem annaðist veisluna. En minnisverðust urðu orðin sem hann svo beindi að gestgjafanum og enduðu í guðspjalli dagsins: „Þegar þú heldur miðdegisverð eða kvöldverð bjóð þá hvorki vinum þínum né bræðrum, ættingjum né ríkum nágrönnum því að þeir bjóða þér aftur og þú færð það endurgoldið. Þegar þú gerir veislu þá bjóð þú fátækum og örkumla, höltum og blindum og munt þú sæll verða því að þeir geta ekki endurgoldið þér en þú færð það endurgoldið í upprisu réttlátra.“ Úff. Við höldum að við séum það sem við afrekum. Okkur líður þannig, ekki síst innan um þau sem við berum okkur saman við. Okkur finnst við þurfa að gera eitthvað til að vera eitthvað. Við girnumst góðar stöður og réttu tengslin. Í útvarpspistlinum sem ég minntist á var Flosi Ólafsson í rauninni að gera miklu meira en að skemmta fólki. Hann var að ráðleggja hlustendum nákvæmlega það sama og Jesús ráðlagði í veislunni forðum; - Gættu þess að gera sjálfan þig ekki breiðan, taktu ekki rými af neinum heldur hlustaðu á fólkið í kringum þig, þá farnast þér vel. M.ö.o.: Notaðu sænsku stellinguna, byrjaðu á því að vera en ekki að gera eitthvað til að vera eitthvað. Heyrum núna aftur pistilinn úr Efesusbréfinu: „Verið í hvívetna lítillát og hógvær.” Skrifar Páll “Verið þolinmóð, langlynd, umberið og elskið hvert annað. Kappkostið að varðveita einingu andans í bandi friðarins. Einn er líkaminn og einn andinn eins og Guð gaf ykkur líka eina von þegar hann kallaði ykkur. Einn er Drottinn, ein trú, ein skírn, einn Guð og faðir allra, sem er yfir öllum, með öllum og í öllum.” (Ef 4.1-6) Hún er skemmtileg og gagnleg skynvilla blindrahundsins góða sem hlífir eigandanum við því að ganga á skilti og slútandi greinar. En skynvilla tíðarandans fær menn á öllum öldum til að ganga á veggina þrjá sem Jesús bendir á í guðpsjalli dagsins. • Hefðu boðsgestir skynjað hið sanna, að þeir voru einn líkami með vatnssjúka manninum, þá hefðu þeir ekki beitt hann kaldlyndi. • Hefðu allir veislugestir fundið til skyldleika síns innbyrðis hefði þeim þótt kjánalegt að metast og bítast um sætin í veislunni • og hefði gestgjafinn borið skynbragð á raunverulegt samhengi sitt við annað fólk þá hefði hann ekki gert þetta heimboð að viðstkiptum undir yfirskyni vináttu og boðið bara þeim sem gátu endurgoldið. Kaldlyndi okkar, metingurinn á milli okkar og tvískinnungurinn sem við öll eigum svo mikið af á rætur í skynvillu. Við höldum að við séum það sem við afrekum á meðan við blasir sú einfalda staðreynd að allir menn, allt fólk í veröldinni er eitt. - Einn er líkaminn, einn andinn [...] Guð og faðir allra, sem er yfir öllum, með öllum og í öllum. Amen Textar: Okv 16.16-19 Ef 4.1-6 Lúk 14.1-14

sunnudagur, 8. apríl 2012

Ástin sættir sig ekki við takmarkanir

Páskaprédikun okkar:
Margir landsmenn heyrðu sterka frásögn núna um daginn er hingað kom kona ein alla leið frá Japan í þeim erindum að selja skó. Þá var ár liðið frá því er jörð skalf í Japan eins og við munum og mikil flóðbylgja sópaði burt lífi og verðmætum. Enn trúi ég að myndskeið frá þessum voðaatburði sitji í hugskoti okkar margra. Það er eins og augað trúi ekki því sem það sér þegar svona gerist. Lítið sjávarþorp Takasírohama varð afar illa úti, barnaskólinn brann og engar byggingar stóðu af sér hamfarirnar utan ein skemma. “Þegar ég kom í bæinn varð ég orðlaus” sagði þessi japanski skósali. “Aðeins ellefu af sjötíuogfimm þorpsbúum höfðu lifað af, einkum eldra fólk.” Hún lýsti því hvernig grátur og vonleysi hefði einkennt samfélagið sem svo herfilega var leikið. En kona ein kom inn í þorpið og fann fólkinu það verkefni að hekla inniskó úr gömlum stuttermabolum. Þetta eru litríkir og listilega gerðir inniskór sem fara vel með fætur. Og nú hittast þessir eftirlifendur sem eitt sinn bjuggu við friðsæld í þorpinu sínu en eiga nú bara minninguna sameiginlega, minningu um gott líf sem hrammur örlöganna sópaði út af borðin í einni svipan. Þau koma saman í þessu eina húsi sem eftir stendur, skemmunni í bænum, og vinna saman. „Nú brosir fólkið aftur og hlær.” sagði þessi japanska kona sem tekur þátt í því að selja skóna víða um japan og einnig út fyrir landssteina til styrktar þessu sterka og hughrausta fólki sem fundið hefur leið til að lifa af í óreiðunni.

Sagan af fólkinu í Takasírohama er saga af upprisu. Og þessi saga, líkt og allar upprisusögur er jafnframt ástarsaga. Án ástar verður ekki upprisa.

Biblían segir langa og mikla sögu. Hún fjallar fyrst og síðast um manneskjur og svo segir hún líka sögu af guði sem ekki getur á heilum sér tekið af ást. Þekkir þú þá tilfinningu að verkja af ást? Þannig er Guð trúarinnar. Hann er guð sem veit ekki sitt rjúkandi ráð af hreinni ást. Sagan er fyrst rakin í Gamla Testamenntinu hvernig þessi guð er í sífellu að leita uppi fólkið sitt, kalla það til sín, fá það til samfélags við sig og hvert við annað uns Nýja Testamenntið, nýji sáttmálinn, greinir frá því ráði Guðs að koma sjálfur til manna úr því menn rati ekki til hans.

Einhvern veginn er það ekki það fyrsta sem manni dettur í hug þegar maður horfir yfir hamfarasvæði að fara að hekla skó úr stuttermablolum. Hvaða kraftur býr að baki þeirri ótrúlegu hugmyndauðgi að láta sér detta annað eins í hug? Þú veist það. Það er bara einn kraftur, bara ein uppspretta sem laðar slíkt fram; Ást.

Ástin sættir sig ekki við takmarkanir. Ástin hugsar ætíð út fyrir rammann og er alltaf með augun á aðalatriðum.

Við trúum á Guð sem vafinn er reifum og lagður blóðugur og grátandi á móðurbrjóst. Á Guð sem þjáist gegnum stunginn á krossi og hrópar í algerri einsemd “Guð minn Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?” Eftir andlátið er hann vafinn líkblæjum og við sjáum hann fyrir okkur liggjandi andvana í örmum konunnar sem ól hann.

Frá sjónarhóli heimsins er þetta gagnslaus guð. Heimurinn sér ekki nokkur not fyrir grátandi guð, deyjandi guð.

Það eru ekki litríkir inniskórnir sem breyta lífi fólksins í Takasírohama. Þessir fallegu inniskór eru hins vegar sterk táknmynd fyrir aflið sem breytir lífi allra manna og alltaf finnur sér farveg og mun aldrei, aldrei gefast upp. „Nú brosir fólkið aftur og hlær.” sagði japanska konan við fréttamanninn. Gleði fólksins er fögnuðurinn yfir nærverunni og samstöðunni.

Oft hef ég heyrt syrgjendur lýsa því löngu eftir að áfallið reið yfir hve miklu það hefði skipt að finna hlý handtök og faðmlög, einlægt viðmót og samhyggð. Þau upplifðu ekki að byrðarnar væru teknar af þeim en þau fengu að reyna það að þau voru ekki ein. Einsemdin er verst allra meina.

Sagan af Jesú er sagan um það hvernig Guð fer að því að leita okkur uppi svo að við séum ekki ein. Konan sem fann verkefnið handa fólkinu í litla sjávarþorpinu var með augun á sömu aðalatriðum. Þetta harmi slegna fólk þurfti að finna leiðina hvert að öðru að þau væru ekki ein. Þau urðu að eiga stað og geta veitt kröftum sínum í sameigilegan farveg. Ekki ósvipað og konurnar sem komu að gröf Jesú og sagt er frá í páskaguðspjallinu. Þær höfðu búið vönduð smyrsl og hugðust smyrja líkama Jesú, tjá honum þakklæti sitt og virðingu og finna um leið sorg sinni farveg.

Verk Guðs í Jesú Kristi virkar vanmáttugt í hugum margra. Ég er heldur ekki viss um að fólkinu í Takasírohama hafi þótt eitthvað máttugt og afgerandi í gangi þegar þau settust inn í skemmuna og fóru að tileinka sér skógerð úr einhverjum fataafgöngum. Ítrekað lýsa guðspjöllin vanmætti Jesú. Þau segja m.a. frá efasemdum þorpsbúanna í Nasaret sem horfðu á hann og spurðu: “’Er þetta ekki smiðurinn, sonur Maríu, bróðir þeirra Jakobs, Jóse, Júdasar og Símonar? Og eru ekki systur hans hér hjá okkur?’ Og þau hneyksluðust á honum“ segir í Markúsarguðspjalli. (Mark. 6.3.) Sjálf innreiðin í Jerúsalem er í aðra röndina tjáning á vanmætti. Konungar fara ekki um á ösnum. Og þegar hann stendur frammi fyrir agndofa lærisveinum að kvöldi páskadags sýnir hann þeim hvað? Sárin sín! Hann sýnir þeim sárin, biður þau að snerta sig og biður þau svo um að gefa sér eitthvað að borða. Hinn upp risni Guð sýnir sárin sín, biður um snertingu og biður um mat. “Þau fengu honum stykki af steiktum fiski” segir Lúkas. (Lúk. 24.42)

Svona gerir bara ástin.

Páskadagur er dagur ástarinnar. Dagurinn þegar við vöknum til þess að fagna lífinu og þakka það undur að við skulum vera samferðamenn. Að við skulum í alvöru eiga hvert annað og mega kannast hvað við annað sem bræður og systur. Að við skulum ekki vera ein. Upprisa Jesú hefur í eitt skipti fyrir öll staðfest að enginn er einn. Að við erum órjúfanlega tengd ástarböndum sem enginn máttur fær rofið.

Þorpsbúarnir í Takasírohama höfðu sannarlega lifað föstudaginn langa með öllu því tilgangsleysi, glundroða og óhugnaði sem hægt er að fara í gegn um. En þau völdu að taka við sendiboða ástarinnar og það breytti öllu.

Hafi fólkið í þessu afmáða og sundrutætta þorpi átt val, þá átt þú líka val.

Amen.

sunnudagur, 25. mars 2012

Biskupskosningar í seinni umferð

Nú verður kosið á milli tveggja frambjóðenda í biskupskjöri í seinni umferð og eftir miðjan apríl kemur í ljós hver hefur verið valinn til þjónustunnar. Við hjónin styðjum dr. Sigurð Árna Þórðarson til embættis.

Eitt það fyrsta sem maður nemur í návist Sigurðar Árna er það að hann er listfengur maður og hefur auga fyrir því fagra. Sá sem getur verið á valdi listarinnar hefur líka djúpan anda. Sigurður Árni hefur ekki bara auga fyrir tónum, orðum og litum heldur ber hann ekki síður skyn á litbrigði mannlífsins og honum er eðlislægt að sjá hið einstaka í fari þess sem hann mætir. Það er gott að vera nálægt Sigurði Árna því hann hefur áhuga fyrir því sem fólk hefur fram að færa og þegar hann tekur orðið í hópi fólks gerir hann það augljóslega til þess að varpa því aftur út í hópinn og leyfa hugmyndunum að taka á sig form. Allir sem þekkja Sigurð Árna þekkja hann af samtalinu, hlustuninni og velviljanum. Þess vegna vitum við að hann verður ekki leiðtogi sem einangrast með eigin hugsanir og hugmyndir heldur er hann leiðtogi sem alltaf er að læra.

Biskupsembættið er sterk táknmynd fyrir kirkjuna í landinu. Sá sem er biskup ber embættið á persónu sinni. Við höfum átt langa samleið með sr. Sigurði Árna og við vitum af reynslu að hann er opinn fyrir nútímanum.

Í persónu Sigurðar Árna sameinast ýmsir ólíkir pólar:
Þótt hann kunni manna best að hvíla í hefðinni og sinni hinu hefðbundna prestshlutverki þá vill hann um fram allt þekkja samtíð sína og horfa til framtíðar.
Undir fáguðu og hlýlegu viðmóti býr óþol í sr. Sigurði Árna. Óþol gagnvart ójafnrétti og hvers kyns þvingunarvaldi.
Hann á rætur í leikmannahreyfingu kirkjunnar og hefur alla tíð átt þá þrá að sjá barna- og unglingastarf kirkjunnar blómstra en um leið er hann doktor í trúfræði með áherslu á íslenska menningu.
Hefðbundinn kristindómur liggur sr. Sigurði Árna við hjartastað en einmitt vegna þess að Jesús Guðspjallanna er vinur hans hefur hann þróað með sér víðsýna og milda lífsafstöðu.
Sigurður Árni hefur lifað mikla reynslu bæði í starfi og einkalífi og hver sem kemur inn á heimili þeirra hjóna, Elínar Sigrúnar Jónsdóttur og Sigurðar Árna, finnur að undir þaki þeirra býr hamingja. Sigurður og Elín eru jafningjar og samherjar sem varpa ljósi hvort á annað.

Við berum þá von í brjósti að Sigurður Árni Þórðarson verði næsti biskup Íslands.

mánudagur, 5. mars 2012

Veljum góðan biskup

Nú eru framundan á næstu dögum biskupskosningar hjá Þjóðkirkjunni. Þetta eru mikil tímamót, margt gott fólk gefur kost á sér og er ástæða til að fagna yfir þeim áhuga.

Við hjónin höfum tekið þá ákvörðun að styðja dr. Sigurð Árna Þórðarson prest í Neskirkju. Við höfum þekkt Sigurð Árna áratugum saman. Hann var æskulýðleiðtogi og foringi í KFUM starfi sem Bjarni sótti sem unglingur, einnig var hann heimilisvinur í Laufási á bernskuheimili Jónu Hrannar þegar hann var þjónandi prestur að Hálsi í Fnjóskadal. Í gegnum tíðina höfum við síðan sem kollegar átt marga snertifleti í starfinu og átt ótal innihaldsríkar samræður um kirkju, trú og samfélag. Þar höfum við lengi skynjað að við eigum sameiginlega kirkjusýn með sr. Sigurði Árna. Hann leggur jafnan áherslu á að kirkjan sé fólk af holdi og blóði sem vill einfaldlega vera samferða Jesú Kristi á lífsveginum. Í hans augum er kirkjan ekki valdastofnun heldur mannlífstorg þar sem enginn er yfir annan settur heldur lúta öll einum Guði og koma saman til þess að þekkja hvert annað betur og vera samfélagi sínu til góðs. Sigurði Árna Þórðarsyni er umhugað um að kirkjan sé þátttökukirkja þar sem hver og einn hafi hlutverk og kjarkur fólks í lífsbaráttunni sé efldur.

Það er hvílandi að vera samvistum við Sigurð Árna því hann er ekki valdsins maður og hefur þann hæfileika að íhuga góð ráð og hlusta með virkum hætti.

Kirkjan í landinu hefur farið í gegnum margvíslegar raunir á undanförnum árum á sama tíma og safnaðarstarf í landinu hefur staðið með meiri blóma en jafnan í sögunni. Það segir manni það að þótt mannanna verk geti verið skeikul þá heldur heilagur andi Guðs áfram að starfa og vekja fólk til góðra verka.

Nú er brýnt að fá biskup sem er góður hirðir og manna sættir til þess að sá fræjum mildi og samstöðu. Sigurður Árni á til að bera langþróaða umhyggju og skilning á mannlífinu, hann er reynsluríkur í persónulegu lífi, sjóaður prestur og sálgætir og frábær prédikari og guðfræðingur.

Það eru miklir hagsmunir í húfi fyrir okkur öll að þjóðkirkjan finni nú trúverðuga samleið með þjóðfélaginu og sem aldrei fyrr þarf íslenskt samfélag á prédikurum að halda sem minna þjóðina á ábyrgð einstaklingsins og virðinguna fyrir mannréttindum og öllu sem lifir með smekkvísum og umhyggjusömum hætti. Þar vitum við af langri reynslu að Sigurður Árni er farsæll og fundvís á leiðir, teljum við hann fremstan meðal jafningja í þeim góða hópi sem nú gefur kost á sér til embættis biskups Íslands og hvetjum kjörmenn til þess að kjósa hann.

sunnudagur, 26. febrúar 2012

Þess vegna elskum við Passíusálmana

Hér kemur prédikun okkar í dag. Við höfum hvort sitt upphaf en sameiginlegt meginmál

Upphaf Jónu Hrannar:
Þegar ég var fertug að aldri hafði dagskrástjóri ríkisútvarpsins samband við mig og bað mig að lesa Passíusalmana í útvarpinu. Ég vissi strax að það yrði ekki létt verk og mér fannst á þeirri stundu að ég gæti varla geta staðið undir slíkri beiðni, enda höfðu margir merkir karlar og konur gert það með miklum ágætum, og raunar með ógleymanlegum hætti. Ég fékk að hugsa málið en tók ákvörðun þegar ég sagði föður mínum frá þessu. Hann var þá langt leiddur af heilabilun en þegar ég færði honum fréttirnar ljómaði andlit hans og hann faðmaði mig og sagðist vera svo stoltur. Faðir minn sr. Bolli Gústavsson hafði um miðjan aldur sjálfur lesið sálmana í útvarpinu og ég man eftir því þegar hann fór til Akureyrar og settist inn í stúdíó á Hótel Varðborg og las þá alla inn á einum degi. Það fór ekki þannig hjá mér, ég var í hálfan mánuð að taka upp lesturinn og ég leitaði mér hjálpar. Ég fékk Guðrúnu Ásmundsdóttur leikkonu til að lesa yfir sálmana með mér og hún fylgdi mér í upptökurnar fyrstu skiptin til að biðja fyrir mér. Það voru mér ógleymanlegar stundir sem ég átti með trúkonunni Guðrúnu Ásmundsdóttur, því hún opnaði huga minn og hjarta fyrir þessu aldna listaverki. Ég gleymi aldrei hversu mjög hún þekkti og elskaði þennan trúararf. Hún sagði við mig að ég hefði ekki flutt sálmana án hnökra en ég hefði lesið þá af tilfinningu, það hefði skipt meginmáli. En faðir minn, sem á þessum tíma vissi ekki hvaða dag vikunnar hann var að lifa, þekkti fæsta með nöfnum og vissi stundum hreinlega ekki hvar hann var á landinu, mundi alla föstuna að setjast við útvarpið kl.10 á kvöldin til að hlusta á dóttur sína lesa sálmana. Ég man þegar það gerðist við fyrsta lestur þá hringdi mamma grátandi í mig til að láta mig vita að þessu hefði hann ekki gleymt. Bara síðast í gær var ég að skíra í heimahúsi og þá barst talið af Passíusálmunum og þá sagði afinn sem er sextugur maður að hann hefði sem barn setið með sálmabókina fyrir framan sig og hlustað en amma hans hefði kunnað þá alla utan að.

Upphaf Bjarna:
Nú við upphaf föstunnar hefur vakið athygli að hin þekkta Simon Wiesenthal-stofnun sem lengi hefur barist gegn kynþáttafordómum með áherslu á að gyðingaofsóknir í Þýskalandi nasismans bendir á Passíusálma Hallgríms Péturssonar sem dæmi um and-gyðinglegt efni sem ekki hæfi sem útvarpsefni.
Mig langar að segja ykkur frá kynnum mínum af Passíusálmunum:
Ég átti afasystur sem Guðlaug hét og við vorum einkar náin. Hún var fædd árið 1897, þegar Passíusálmarnir voru 231 árs. Núnar eru þeir orðnir 315 ára. Frænka, eins og hún jafnan var nefnd kenndi mér að lesa og skrifa og kenndi mér líka heilmikið að hugsa og biðja. Þegar ég var kominn á menntaskólaaldur áttum við okkar vikulegu fundi þar sem ég las fyrir hana eitthvert gott trúarlegt efni og á föstunni voru það alltaf Passíusálmarnir. Það voru ógleymanlegar stundir. Síðast las ég þá fyrir hana þar sem hún lá inni á hjúkrunardeildinni í Hafnarbúðum en þá brá svo við að rödd heyrðist handan við tjaldið, það var rödd eldri herra sem þar sat hjá konu sinni og jafnan þegar ég kom og las, þuldi hann sálmana utanbókar. Við urðum vel kunnugir og það sem sameinaði okkur var fjársjóður Passíusálmanna.

Meginmál:

Það er merkilegt að hugsa til þess hvernig Passíusálmarnir hafa fylgt íslenskri þjóð síðan á 17 öld. Þeir hafa verið gefnir út meira en 80 sinnum á Íslandi frá því þeir voru fyrst prentaðir árið 1666 eða að meðaltali meira en 20 sinnum á hverri öld. Yfirleitt voru þeir ekki gefnir út í viðhafnarútgáfu heldur fátæklega til fara líkt og þjóðin sjálf, eins og herra Sigurbjörn Einarsson komst að orði í formála að útgáfu passíusálmanna sem prentuð var í tilefni af þrjúhundruðustu ártíð þeirra árið 1966. Þar segir hann um sálmana:
“Þeir voru handleiknir með dýpri lotningu en aðrir munir sem alþýða hafði í höndum og þeir voru ein sú auðsuppspretta sem gerði þjóðina andlega ríka þótt hún væri líkamlega snauð. Við lestur og söng passíusálmanna hefur íslensk alþýða lifað djúpa, listræna nautn, auk alls þess sem þeir gáfu henni af trúarlegu innsæi og lífsspeki.”

Lífsspeki Hallgríms er hógvær og það væri ekki í anda Passíusálma hans að þeir væru varðir með skarkala eða stóryrðum. Við lifum á tímum mikilla upphrópana sem berast að okkur úr svo mörgum áttum og birtast á forsíðum og í fyrisögnum þannig að enginn getur melt nema brot af því öllu. Sá virðist vera mestur og selja best sem harðast ásakar eða hæst hampar. En e.t.v. eigum við ekkert íslenskt listaverk sem talar betur inn í þær aðstæður en einmitt Passíusálmarnir.

Þegar Hallgrímur íhugar samskipti Jesú við Pílatus og líka Heródes staðnæmist hann víða en ekki síst við þögn frelsarans. Þögn Jesú frammi fyrir valdinu verður honum að einskonar spegli þar sem hann skoðar sitt eigið líf:

Ónytju tal og mælgin mín
Mér til falls koma ætti.
En, Jesú, blessuð þögnin þín
Það allt fyrir mig bætti.
(Pass. 20. 6)

Sú mynd sem Hallgrímur dregur upp af Jesú er fyrst og síðast hógvær og þögul. Þögn Krists er ærandi í eyrum valdsins en hún ilmar í hjarta þess sem trúir og færir honum styrk. Lýsing Hallgríms á þeim viðtökum sem Jesús fékk hjá Heródesi er eitthvað svo hræðilega nútímaleg, það er eins og hann standi á Lækjartorgi frammi fyrir gjammandi tíðaranda:

Þegar Heródes herran sá,
hann varð mjög glaður næsta;
Af honum heyrt hafði og helzt vill fá
hans ásýnd líta glæsta.
Forvitinn mörgu frétti að,
fýsn holdsins kapp á lagði
með byrstu bragði.
Jesús tók ekki undir það,
við öllum spurningum þagði.

Margir finnast nú hér í heim
Herídis líkar réttir.
Guðs orð er skemmt og gaman þeim
sem glens eða nýjar fréttir....
... (21.1-2)

Hallgrímur kemur víða við í sálmum sínum en hann er ekki að tala við alla. Í eðli sínu eru Passíusálmarnir trúnaðarsamtal sem fram fer undir vissum formerkjum. Í stuttum inngangi sem hann ritar ræðir hann um gildi þess að bera alla daga minninguna um þjáningar Jesú í hjarta sínu og sá sem það gerir “geymir hinn dýrasta hlut.” Sálmarnir eru bornir fram fyrir “öll upp á Jesúm lítandi augu og Jesúm elskandi hjörtu” eins og hann sjálfur kemst að orði. Útgangspunkturinn er sameiginleg reynsla af Jesú. Trúnaðarsambandið við þann sem sálmarnir lýsa er forsenda og samnefnari alls sem þeir segja. Þeir eru ferðalag, píslarganga, sem okkur býðst að eiga með Hallgrími og öllum trúuðum í fótspor Krists.

Krossferli að fylgja þínum
fýsir mig, Jesú kær,
væg þú veikleika mínum,
þó verði ég álengdar fjær.
Þá trú og þol vill þrotna,
þrengir að neyðin vönd,
reis þú við reirinn brotna
og rétt mér þína hönd. (11)

Sú þrá hjartans sem hér er lýst og sú reynsla sem að baki býr sameinar einum huga. Þögnin er svar trúarinnar þegar þessi þrá er hædd, - þögnin og lofsöngurinn.

En hvað er hæft í staðhæfingum um and-gyðingleg viðhorf í Passíusálmunum?

Þegar Hallgrímur rekur þjáningar Jesú þá byggir hann á guðspjöllum Nýja Testamenntisins og í sálmum hans finnum við allar helstu persónur og leikendur. Þar er Júdas sem svíkur, Pétur sem afneitar og lærisveinarnir allir sem flýðu, Símon frá Kyrene sem ber krossinn nauðugur, Jósef frá Arimaþeu sem lætur eftir gröf sína. Þar er Kaifas æðstiprestur og aðrir fulltrúar hinnar ráðandi stéttar í Gyðingalandi, að ógleymdum Heródesi, Pílatusi og rómverskum hermönnum þeirra. Þar er fanginn Barrabas og ræningjarnir tveir sem krossfestir voru með Jesú. Enginn af öllum þeim sem nefndir eru standa keikir. Enginn stendur keikur á Golgata, þar dvelja allir í ósigrinum og niðurlægingunni. Píslarsaga Jesú leiðir okkur á þennan stað þar sem enginn hrósar sér en allir lúta honum einum sem hrópar: Það er fullkomnað. Á Golgatahæð verða hæðnishrópin svo ámátleg, stærilætið svo glatað. Þess vegna er hollt að dvelja við krossinn, því hver getur í sannleika staðið upp og sagst vera stoltur af sjálfum sér? Hver ætlar í alvöru að hrósað sér?

Júðar þig, Jesú, strengdu,
ég gaf þar efni til,
syndir mínar þér þrengdu,
þess nú ég iðrast vil... (Pass. 6.11)

Tökum eftir því að hutakið Júðar var ekki skammaryrði á 17. öld. Hallgrímur horfir á Jesú Krossfestann og veit það eitt að sökin er hans eigin. “Ég gaf þar efni til, syndir mínar þér þrengdu, þess ég nú iðrast vil.”

Þegar Hallgrímur í 14. sálmi víkur sögunni að þjónum æðstaprestsins sem gættu Jesú um nóttina eftir fyrstu yfirheyrslurnar þá staðnæmist hann ekki við sök þessara samlanda hans en horfir lengra og nær okkur:

Soninn Guðs ekki þekktu þeir,
því syndga hinir langtum meir,
sem kallast vilja kristnir bezt,
Kristum þó lasta allra mest. (14.12)

Hræsnarar þeir, sem hrekki og synd
hylja þó undir frómleiks mynd,
líkjast þessum, er lausnarann
lömdu blindandi og spjöðu hann. (14.13)

Loks snýr hann kastljósinu þangað sem það alltaf leitar í allri hugsun Hallgríms:

Sjálfan slær mig nú hjartað hart,
hef ég án efa mikinn part
af svoddan illsku ástundað.
Auðmjúklega ég meðgeng það. (14.20)

Sáð hef ég niður syndarót,
Svívirðing mín er mörg og ljót.
Uppskerutímann óttast ég,
angrast því sálin næsta mjög. (14.21)

Hann notar líkinguna af fræinu til að lýsa þeim áhrifum sem hver maður hefur á eigið líf og örlög. Það er hin þekkta hugsun að svo muni hver uppskera sem hann hefur til sáð. Þessa alþekktu og sterku líkingu tekur hann áfram og færir yfir á verk Jesú er hann leitast við að lýsa því hvernig þjáning Jesú og dauði breytir aðstöðu allra manna:

Blóðdropar þínir, blessað sáð,
ber þann ávöxt, sem heitir náð,
þann sama Guð mér sjálfur gaf,
sáluhjálp mín þar sprettur af. (14.23)

Hallgrímur er að kalla menn til afturhvarfs og iðrunar. Hann vill að áheyrendur sínir endurnýist í trú og hætti að rembast að hætti heimsins. Það er hið djúpstæða þakklæti fyrir gjöf lífsins í Jesú Kristi sem ólgar og streymir í hverjum sálminum af öðrum og allir sem lesa sálma Hallgríms opnum huga lifa hina djúpu listrænu nautn. En hvað er listræn nautn? Hún er alltaf þátttaka í sannleika. Skáld verður ekki skáld vegna skáldskapar síns. Allir geta skáldað en það eru fáir sem megna að segja satt og gera það fallega. Það er sannleikurinn um manninn í Passíusálmunum sem fær okkur til að trúa því sem þar er sagt um Guð. Hallgrímur er maður af holdi og blóði, maður með sögu sem við þekkjum, kunnur ást og ótta, gleði og sorgum, styrk og veikleika mannlegs lífs og þegar hann talar um hina stóru óleysanlegu gátu sem liggur líkt og mara á hverri hugsandi sál, gátu þjáningarinnar, - þá er hann á heimavelli.

Við erum öll að þjást. Við erum öll að berjast harðri lífsbaráttu og vitum oft ekki okkar rjúkandi ráð. Þess vegna elskum við passíusálmana. Gagnið sem Hallgrímur vinnur íslenskri þjóð með Passíusálmum sínum er það að hann greinir þjáninguna og lýsir henni þannig að allir geta kannast við hana í eigin lífi og svo dregur hann upp mynd að Jesú Kristi þannig að við sjáum hve nákominn hann er okkur hverju og einu.

Nei, erindi Hallgríms er ekki að lasta eða lofa menn eða þjóðir. Hann hyggst hvorki ásaka fólk né hampa. Þá list er heimurinn einfær um að annast jafnt á 17. og 21. öld. Hallgrímur lofsyngur Jesú einan og játar fyrst og síðast eigin syndir. Þess vegna er heilbrigt og hressandi að lesa sálma hans í dag og alla tíma.

Amen.

sunnudagur, 29. janúar 2012

Vinátta, ást og trú

Prédikun dagsins:
Einmitt núna er hann að vakna. Alla helgina hefur hann verið að hitta vini sína. Ástin hefur komið við sögu, boltinn í sjónvarpinu ekki síður. Það besta af öllu góðu í lífinu er að vera með vinunum. Nú er hann að rumska. Svo feginn að það skuli einmitt vera sunnudags- en ekki mánudagsmorgun. Nú er það þynnkumatur. Eitthvað brasað og sveitt til að setja oní sig. Svo er það spurning um að heyra í strákunum og fara yfir málin. Rosalega er þetta búin að vera góð helgi. Bara að lífið væri ein sífelld helgi. Engir mánudagar, enginn skóli, engin spurning um að standa sig eða verða droppát. Upp í hugann kemur ritgerðin sem hann á að skila á mánudagsmorgni og hann veit að það mun aldrei takast. Hann veit að hann er ekki að standa sig.

Á sama tíma eru þau löngu vöknuð, eldri hjónin í Fossvoginum. Jólin og áramótin eru ennþá í huga þeirra. Georg Jensen hangir enn á völdum stöðum í húsinu. Merkilegt hvað lífið hefur breyst. Einu sinni voru allir á einum stað og heimilið, þessi sömu gólf og þau horfa á, þessar sömu dyr svo fjölfarnar í amstri daganna. Núna eru bestu stundirnar þær þegar allir koma og í staðinn fyrir misgott skæp-samband koma faðmlög og hlýja. Þau eru ekkert blind á krakkana sína, eða tengdabörnin og barnabörnin. Þau eru heldur ekkert blind á sjálf sig og vita vel að þeirra fjölskylda er ekki fullkomin. En þau elska fólkið sitt og elska þessar allt of fáu stundir sem lífið skammtar þeim til þess að njóta þess besta af öllu góðu. Hann horfir á konu sína yfir kaffikrúsina: „Þau eru nú bara í góðum málum þarna úti sýnist mér. Þau hefðu nú þurft að stoppa aðeins lengur. Rosaleg pressa er á þeim.”

Á þessari stundu liggur hún í rúmi sínu og er að hlýða á útvarpsmessu. Áður hefði ekki flökrað að henni að opan fyrir gufuna á sunnudagmorgni. Sunnudagsmorgnar voru alltaf þeirra morgnar. Þá voru þau bara handa hvort öðru með ristuðu brauði og tebolla og talandi um allt milli himins og jarðar. Hversu dýrmætar voru þær stundir? Og hversu fáránlegt að liggja hérna ein? Fáránlegt að það skuli vera hægt að deyja bara og skilja rúmið sitt eftir autt. Skilja sjálfa sunnudagsmorgnana eftir þögla og kalda. Er það ekki einmitt vanhelgun á hvíldardeginum? Hvað er þessi Guð að pæla? “Drottinn sé með yður” heyrist sungið í útvarpinu. Honum væri nær að skila manninum mínum, hugsar hún.

Eitt eiga þau öll sameiginlegt, unglingurinn sem er að rumska, eldri hjónin í Fossvoginum og ekkjan sem hlustar á útvarpsmessuna, þau þrá lífið og eiga í hjarta sínu reynsluna af því besta af öllu góðu. Þau þrá hið góða.
En svo er það raunveruleiki hversdagsins sem býður okkur ekki alltaf upp á hið besta. Við eigum ekki kost á samfelldri vináttu eða samveru með ástvinum í hátíð og gleði. Ástarsambönd vara ekki alltaf fram í háa elli. Stundum er raunveruleikinn þungbær mánudagur, þögn í húsi og ástvinir í fjarlægð eða sár tregi sem aldrei ætlar að svía frá. Samt býr þráin eftir hinu besta í hverri mannlegri sál.

Þannig var því líka farði með Pétur lærisvein í guðspjalli dagsins þegar hann fékk að reyna óskýranlega sælu í félagsskap við Jesú. Það var reynslan af hinu heilaga, bjarta og sanna þegar Jesús ummyndaðist fyrir augum lærisveinanna þriggja á fjallinu, ásjóna hans skein sem sól og klæði hans urðu björt eins og ljós. „Gott er að við erum hér.” Sagði Pétur við Jesú. Og þeirri staðhæfingu fylgdi hann eftir með tillögu sem hann hefur áreiðanlega alltaf blygðast sín fyrir: „Ef þú vilt skal ég gera hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“ Af orðum hans má lesa þrána eftir því að grípa hið góða og fullkomna og dvelja í því. Meðan Pétur var enn að tala skyggði yfir þá bjart ský og rödd úr skýinu sagði: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“ Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta féllu þeir fram á ásjónur sínar og hræddust mjög. Jesús gekk til þeirra, snerti þá og mælti: „Rísið upp og óttist ekki.“ En er þeir hófu upp augu sín sáu þeir engan nema Jesú einan. Á leiðinni ofan fjallið bauð Jesús þeim: „Segið engum frá sýninni fyrr en Mannssonurinn er risinn upp frá dauðum.“ Já, sumt er þannig að það þýðir ekkert að tala um það en það gefur þeim sem á og reynir endalausan styrk. Þannig er trúarreynslan svo gjarnan. Margt fólk eignast slíka reynslu í bæn og trú. Og á sama hátt og góð vinátta eða góð fjölskyldutengsl eða reynslan af sannri ást breytir lífi okkar og skilgreinir okkur uppá nýtt, þannig gerir líka sterk trúarreynsla það að verkum að fólk verður aldrei aftur samt. Vinátta, ást og trú eru umbreytandi öfl, þau eru reynslan af því besta af öllu góðu. Engin skemmtun eða nautnir komast í hálfkvist við vináttu, ást og trú. Enginn árangur eða metnaður á neinu sviði gefur það besta af öllu góðu.

Enn erum við þó ekki komin að kjarna sögunnar. Sagan af ummyndun Jesú á fjallinu er ekki um það sem gerðist á fjallinu heldur hitt sem átti sér stað þegar niður var komið. Þar mætti honum faðir sem átti langveikt barn og bað hann um hjálp.

Veistu hvað ég held? Ég held að engin reynsla sé erfiðari en sú að eiga langveikt barn. Ég held það. Foreldrar langveikra barna upplifa ekki bara eigin vanmátt heldur máttleysi samfélagsins til þess að hjálpa. Fólk vill hjálpa en það getur það ekki. Og ekkert heilbrigðiskerfi dekkar mannlega neyð.

Í guðspjallinu er frá því greint að faðirinn hafði beðið lærisveina Jesú, sem ekki höfðu verið með honum í fjallgöngunni, um hjálp handa drengnum sínum, en þeir gátu það ekki. Og þegar Jesús er búinn að veita föðurnum og syni hans hjálp sína koma lærisveinarnir til Jesú einslega og spyrja hann hvers vegna þeir hafi ekki getað læknað son mannsins. Jesús svarar þeim: „Vegna þess að ykkur skortir trú.”

Hvað gerðist raunverulega þarna uppi á fjallinu? Hvað gerist þegar Guð opinberast mannlegri sál? Það er ósegjanlegt. Um það verður aldrei fjölyrt. En áhrifin eru eins og Guðspjallið greinir frá; lærisveinarnir sáu Jesú einan. Jesús. Jesús einn verður að umbreytandi veruleika í lífi þess sem trúir og það er ekkert til í stöðunni annað en að fylgja honum. Og hvert leiðir Jesús fylgjendur sína? Alltaf niður af fjallinu beint inn í kviku mannlífsins. Trúin á Jesú er alltaf trúnaður við lífið eins og það er. Ást á veruleikanum, vinátta við fólk. Ekkert annað. Kristin trú getur því aldrei verið sér-trú. Ósk Péturs um það að dvelja bara á fjallinu er skiljanleg frá mannlegu sjónarmiði en þannig er ekki erindi Guðs í heiminum. Erindi Guðs er ekki það að birta mönnum dýrð sína og búið, heldur það að færa fólki fögnuð. “Ég er kominn til þess að þeir hafi líf í fullri gnægð.” útskýrir Jesús á öðrum stað. (Jóh. 10) Þrá okkar eftir hinu góða lífi er af Guði gefin og þar vill hann ganga til liðs við okkur.

Ungi framhaldsskólaneminn sem gengur dofinn og þungstígur inn í skólann sinn á mánudagsmorgni vegna þess að honum finnst að hann sé þegar búinn að tapa leiknum þarna inni. Eldri hjónin sem upplifa tengsla- og tilgangsleysi við breyttar aðstæður. Syrgjandinn sem vaknar enn einn morguninn og sér ekki út úr endaleysi daganna. Þetta fólk er líka í sögunni alveg eins og faðirinn með langveika barnið. Þau eru þarna öll og líka ég og þú í okkar lífsbaráttu.

„Ykkur skortir trú” svaraði Jesús þegar lærisveinarnir báru sig upp við hann í máttleysi sínu af því þeir höfðu ekki getað liðsinnt manninum. Við þurfum trú.

„Ekki notaði ég uppspunnar skröksögur er ég kunngjörði ykkur mátt og komu Drottins vors Jesú Krists heldur hafði ég verið sjónarvottur að hátign hans […] þá er ég var með honum á fjallinu helga.” Skrifaði Pétur löngu síðar í einu bréfa sinna, eins og við heyrðum lesið hér áðan. (2Pét 1.16-21) Trú Péturs var byggð á reynslu. Átt þú reynslu af Jesú Kristi? Gengur þú á fjallið og dvelst með honum til þess síðan að fylgja honum þangað sem hann fer? Það er hið kristna líf. Það er að vera lærisveinn Jesú.

Vinátta, ást og trú eru umbreytandi öfl, þau eru reynslan af því besta af öllu góðu. Og þegar vinir skilja og ástin syrgir er trúin það afl sem aldrei bregst því hún opnar okkur sýn inn í hið bjarta og ósegjanlega eðli veruleikans og við vitum og finnum að við erum ekki ein.

Amen.

Textar:
5Mós 18.15, 18-19
2Pét 1.16-21
Matt 17.1-9

mánudagur, 23. janúar 2012

Kynningarfundur hjá Vinum í bata í Laugarneskirkju

Ágætu lesendur

Mig langar mig að vekja athygli á sérstöku tilboði í Laugarneskirkju á vegum Vina í bata. Það eru samtök fólks sem fundið hefur leið að betra lífi með aðstoð sporanna 12 án þess að sérstaklega sé verið að vinna með fíkn heldur er þar tekist á við óuppgerðar tilfinningar almennt.

Það er ekkert vit í því að lifa ár eftir ár með sömu íþyngjandi reynsluna eða hugsanirnar án þess að vinna úr því og koma skikki á tilveru sína. Vinir í bata er slíkur vettvangur og nú er 14. árið sem þessi frábæru samtök starfa í Laugarneskirkju með óbilandi árangri.

Seinni kynningarfundur nýbyrjaðar annar verður haldinn í kirkjunni þriðjudagskvöldið 24. janúar kl. 20:00 og er öllum frjálst að kynna sér málin. Þátttaka kostar ekki nema kaup á einni bók og blýanti. Fundir eru vikulegir.

Sjálfur er ég Vinur í bata og fullyrði að fátt hef ég gert skynsamlegra í lífinu en að vinna mig í gegnum þetta kerfi.

Ég hvet allt fólk sem langar að lifa sem vaxandi manneskjur og taka eðlilegum framförum sem persónur, að skoða þennan möguleika. Fólk er ekki rukkað um neina trúarafstöðu til þess að vera með í þessu. Það eina sem þarf er vilji til að lifa og vaxa. Starfið hefst 10. janúar og lýkur í maí.

sjá nánar: viniribata.is

Bjarni Karlsson

sunnudagur, 1. janúar 2012

Nú vantar heiminn Lagarfljótsbreiðan og Jökulsárdjúpan kærleika

Prédikun okkar á gamlárskvöldi:
Á þessum áramótum erum við öll sem unnum kristni og kirkju frekar hugsi. Á nýju ári verða tvennar biskupskosningar og það mun miklu skipta að það ferli sem fram undan er verði uppbyggilegt og sameinandi og að loknum þessu vali hafi kirkjan sem hreyfing í samfélaginu eignast endurnýjaða hugsjón og trúverðugleika í vitund almennings.

Þegar horft er fram á veg er ekki síður gagnlegt að líta vel um öxl og gæta að hvaðan maður er að koma. Sagan er gjarnan besti vegvísirinn inn í framtíðina. Í sögu kirkjunnar eigum við margar góðar fyrirmyndir og leiðtoga sem gott er virða fyrir sér og á þessum gamlársdegi langar mig að kynna fyrir okkur öllum einn þeirra sem allt of lítill gaumur hefur verið gefinn. Hann hét Sigurður Zóphónías Gíslason og þjónaði sem sóknarprestur á Þingeyri við Dýrafjörð á árunum 1929 – ’43.

Sr. Sigurður hafði þjónandi hjarta og frjálsan huga. Frelsi hans var ekki síst fólgið í þeirri djúpu skuldbindingu sem hann átti gagnvart Jesú Kristi sem aftur birtist í því hve einlæglega hann skuldbatt sig þjónustunni við sóknarfólkið og þjóðfélag samtíma síns.

Það sem upphaflega vakti forvitni okkar hjóna þegar barnabarn hans sendi okkur sýnishorn af skrifum afa síns var það með hvílíkri hlýju og rökþunga hann mælti með kvenfrelsi og auknu kynfrelsi á þeim tímum er slíkt hefur ekki átt upp á pallborðið víða. Ég gríp niður í ferðalýsingu sr. Sigurðar er hann í júlímánuði sumarið 1942 fór austur á land að vitja æskuslóða sinna og fleiri staða á Austurlandi, en hann var fæddur á Egilsstöðum í Vopnafirði árið 1900.

„Nú varð mér litið á Jökulsá. Hún var þannig á litinn að líkast var sem tröll og forynjur óbyggðanna hefðu verið að þvo ullina sína í henni um daginn og hana eigi alllitla. Nú fór ég að hugsa um þá sem hlotið hefðu hina votu sæng í hinu kólgugráa jökulvatni bæði fyrr og síðar. Aðeins fyrir örfáum árum höfðu kennari af Jökuldal og stúlka úr Vopnafirði, búsett í Reykjavík farist í ánni úr kláfi. Og þegar við fórum yfir brúna þar sem Jökla fellur ægileg ásýndum í þröngum, háum gljúfrum kom mér í hug ágætur fagur sveinn sem fól Jökulsá harma sína. Hann hafði elskað á breiðara grundvelli en þá var leyfilegt í almenningsáliti, en nú er hreint ekki óalgengt. Heimurinn hafði ekki rúm fyrir svona mikla ást. Þó fannst honum að Jökulsá í sínu þrengsta gljúfri gæti komið henni fyrir. Þær enda á margvíslegan hátt Íslendingasögurnar. Nú vantar heiminn lagarfljótsbreiðan og jökulsárdjúpan kærleika.

Og svo þýtur bíllinn burt frá þröngu gljúfri með þá heitu ósk í svellandi brjósti farþegans úti við rúðuna að takast mætti að vekja til lífsins aftur þennan ítra hugdjarfa mann, er fleygði sér niður í ægidjúpið. Örlagastraumurinn bar sorg hans í gleymskunnar haf og það er von mín að upp úr bæði þessum og öðrum þrengslum andlegs lífs á Íslandi liðins tíma, mætti stíga andi víðsýnis og bróðurlegs skilnings á hjörtu og hugð náunga vors og samferðamanns.”

Hér talar hugrakkur leiðtogi og mannvinur og lyftir upp minningu ungs samkynhneigðs manns sem hann sjálfsagt hefur minnist frá uppvaxtarárum þarna eystra og kvatt hefur lífið í örvæntingu. Hann kallar hann ítran, fagran og hugdjarfan og tengir hann beint við Íslendingasögurnar.

Hjörtur Þórarinsson tengdasonur Sigurðar sem safnað hefur saman skrifum hans og fært þau bókasafni Skálholts til varðveislu hefur leitt líkur að því að sr. Sigurður sér fyrsti íslenski karlmaðurinn sem opinberlega hafi tekið undir hugmyndir ýmissa kvenfélaga að komið yrði á mæðralaunum í samfélagi okkar eins og síðar varð raunin. Í erindi sem Sigurður flutti rétt þrítugur að aldri og gefið var út á prenti 1. janúar 1932 hafnar hann þeirri forsjárhyggju sem viðgangist gagnvart konum og hlutverkum þeirra og hvetur menn til að láta sér skiljast að konan sé full frjáls.
„Starf hennar verður aldrei takmarkað,” segir hann orðrétt „af þeirri eðlilegu ástæðu, að eðli konunnar getur gripið yfir öll viðfangsefni lífsins. Konan er fullgildur maður. Og það er maðurinn, sem á að vera herra tilverunnar, og stjórna öllum hreyfingum hennar. Þess vegna er ómögulegt að bægja konunni frá neinu svæði lífsins og segja henni það óviðkomandi, nema svo sé að hafa eigi einhver íshús í andans heimi, þar sem hatur og kærleiksleysi eigi að fá að lifa ósnortið af blæ hins innra sumars. - Að hægt skuli vera að deila um það, hvar starfssvið konunnar liggi, byggist á vanþekkingu á eðli hennar. – Hún er ekki álitin fullgildur maður, hún er ekki álitin að eiga verkefni að rækja á þeim stað, sem um er deilt. En konan á allstaðar verkefni, svo framarlega sem því er trúað, að kærleikurinn einn komi sérhverju góðu verki af stað.” Síðar segir hann: „Konunum hefur verið bægt frá mörgum starfsviðum og sum eru enn ekki opin fyrir þeim, eins og t.d. prestsþjónustan, sem þær hljóta þó að vera sérstaklega vel fallnar til.”
Höfum hugfast að þarna talar þrítugur karlmaður!

Sr. Sigurður varð mörgum harmdauði er hann lést þann1. janúar 1943 í snjófljóði er hann var á leið til kirkju í Hrauni í Keldudal utar í Dýrafirði til að messa á nýársdagsmorgni.
Við fráfall sitt skildi hann eftir eiginkonu sína Guðrúnu Jónsdóttur og sex börn og við minningarathöfn sem haldin var í embættisbústaðnum eftir að lík hans fannst í febrúarmánuði árið ’43 segir sr. Eiríkur J. Eiríksson:
„Þeir voru margir sem hingað áttu erindi til prestsins síns, en hinir e.t.v. fleiri sem fóru á fund mannsins sem hér átti heima, hins glaða sífellt hjálpsama manns, er vildi greiða úr hverjum vanda er borinn var upp fyrir honum og sannar leitaði að þörfum manna og vandkvæðum ef hann mætti með einhverjum hætti bæta úr. – Nú hafa lokast dyr fyrir mörgum, við vonum að þær opnist á ný en varla með þeim hætti er var. Skólar eru enn reistir, próf fara fram, menn eru útskrifaðir til embættisþjónustu, en ekkert af þessu þarf að tryggja að við eignumst ekki prest hér heldur vin í raun, góðan bróður, barnslega einlægan í að vilja vel og öllum ætlandi gott eitt. Þetta hús mun standa svo lengi er við megum til þess horfa í þessari birtu og mikil virðing má af því standa í framtíðinni eigi hún að jafnast á við þann góðhug sem hér kom til dyra og bauð gestum til stofu. Og gestirnir voru margir, þeir voru annarar trúar menn. Stefán Skáld frá Hvítadal mat hann mikils og Meulenberg biskup. Og ein samúðarkveðja til ekkjunnar kom frá fulltrúa Frönsku þjóðarinnar þar sem hann þakkar velvild auðsýnda hinum minnstu bræðrum.”

Sigurður lifði á miklum umbrota- og breytingatímum. Í ferðalýsingu sinni austan af Héraði leggur hann enni að bílrúðunni er bifreiðin þýtur áfram í átt frá hinu þrönga gljúfri, en er Sigurður fæddist var enn engin bifreið í landinu. Eina heimstyrjöld hafði hann lifað og önnur var í hámarki er hann lést. Sviptingar þess samtíma sem Sigurður þekkti voru síst minni en við lifum nú við upphaf 21. aldar.

Síðasta vor fórum við hjón utan til Búdapest í Ungverjalandi og sátum þar ráðstefnu um stöðu kristninnar í Evrópu. Þar voru saman komnir fulltrúar margra ólíkra kirkjudeilda og trúarhreyfinga til að bera saman bækur sínar og horfa til framtíðar. Þar var m.a. rætt um trúarleiðtoga 21. aldarinnar. Þegar við förum yfir glósurnar okkar frá ráðstefnunni og rifjum upp það sem fróðir fyrirlesarar lögðu þar áherslu á þá sjáum við að það sem menn telja mikilvægt að leiðtogar nútímans hafi til að bera er margt af því sem einkenndi þennan prest sem uppi var á fyrri hluta 20. aldar.

Eitt áhersluatriðið sem gjarnan kom fram í máli manna var trúverðugleiki leiðtogans sem persónu. Í minningarorðum sr. Eiríks er þess getið að margir hafi leitað til prestsins, en þó hafi fleiri komið að finna manninn sjálfan. Sigurður Gíslason hefur verið góður hlustandi og átt sterka tilfinningagreind til að bera. Þá er þess einnig getið að menn annarra trúarbragða hafi átt gott saman við hann að sælda og að Sigurður hafi eignast vináttu manna úr ólíkum menningarheimum. Ljóst er að hann hefur ekki fyrst og fermst litið á sig sem embættismann stofnunar heldur sem þjón Guðsríkis. Á ráðstefnunni sem við sátum var mikið rætt um einmitt þetta. Um gildi þess að kristnir leiðtogar hefðu getu til þess að sjá út fyrir eigin trúarstofnun og vera einfaldlega í þjónustu Guðsríkis, sífellt lærandi eitthvað nýtt, með skapandi og opinn huga.

Í þriðja lagi er ljóst að séra Sigurður átti lifandi trú. Vígsluræðu sína í nóvembermánuði árið 1927 hóf hann með þessari bæn.
"Ástríki frelsari vor, Drottinn Jesús Kristur. Lofaður sértu og vegsamaður fyrir kærleika þinn og að þú manst stöðugt til vor, sérð þarfir vorar og kemur til vor til þess að hjálpa oss. Gef að vér megum í dag opna hjörtu vor fyrir þér, að vér megum loka þig inni í sál vorri svo að vér getum verið heillaðir af þér og öðlast þitt heilaga líf. Guðdómleg elskan víki aldrei frá oss svo vér getum lifað sem sannir lærisveinar þínir..."

Svona biður sá einn sem gengur með Kristi. Engum nema lærisvein Jesú getur dottið í hug að loka hann inni í sál sinni svo að hann megi heillast af honum og öðlast hans heilaga líf! Hér er á ferð skapandi trúarhugsun og trúarlegt ímyndunarafl sem á viðspyrnu í sönnu guðssamfélagi. Á nefndri ráðstefnu var ítrekað að því vikið að prestar og aðrir kristnir leiðtogar þyrftu einfaldlega að eiga lifandi trú á Jesú.

Það er styrkjandi að fá að kynnast sögu og boðun svona manns og gott til þess að vita að prédikana- og greinasafn hans skuli varðveitt. Þar fór sannur leiðtogi, trúverðug persóna og sálgætir sem ekki þurfti að styðjast við embætti sitt sjálfs sín vegna heldur nýtti það í þjónustu við mannlífið í lifandi trú á frelsarann Jesú.

Við eigum fleiri fyrirmyndir í hópi genginna kynslóða en okkur grunar og það er mikilvægt að halda þeim á lofti og leyfa góðilimi hins elskandi trúararfs að fylgja okkur inn í nýtt ár. Nú eru orðin vatnaskil í sögu íslensku þjóðkirkjunnar. Við vitum það öll. Nýr tími er runninn upp en við vitum ekki hvað hann felur í sér. „Nú vantar heiminn lagarfljótsbreiðan og jökulsárdjúpan kærleika” mælti sr. Sigurður Zóphónías Gíslason, og enn eru það orð að sönnu. Eigum við ekki að taka undir bæn hans að „upp úr þessum og öðrum þrengslum andlegs lífs á Íslandi liðins tíma mætti stíga andi víðsýnis og bróðurlegs skilnings á hjörtu og hugð náunga vors og samferðamanns” svo að kristin kirkja megi finna þá samleið með íslenskri þjóð sem er mannlífinu til heilla og reynast um ókomna tíð þjóðinni það skjól sem hún er kölluð til.

Amen.