mánudagur, 23. janúar 2012

Kynningarfundur hjá Vinum í bata í Laugarneskirkju

Ágætu lesendur

Mig langar mig að vekja athygli á sérstöku tilboði í Laugarneskirkju á vegum Vina í bata. Það eru samtök fólks sem fundið hefur leið að betra lífi með aðstoð sporanna 12 án þess að sérstaklega sé verið að vinna með fíkn heldur er þar tekist á við óuppgerðar tilfinningar almennt.

Það er ekkert vit í því að lifa ár eftir ár með sömu íþyngjandi reynsluna eða hugsanirnar án þess að vinna úr því og koma skikki á tilveru sína. Vinir í bata er slíkur vettvangur og nú er 14. árið sem þessi frábæru samtök starfa í Laugarneskirkju með óbilandi árangri.

Seinni kynningarfundur nýbyrjaðar annar verður haldinn í kirkjunni þriðjudagskvöldið 24. janúar kl. 20:00 og er öllum frjálst að kynna sér málin. Þátttaka kostar ekki nema kaup á einni bók og blýanti. Fundir eru vikulegir.

Sjálfur er ég Vinur í bata og fullyrði að fátt hef ég gert skynsamlegra í lífinu en að vinna mig í gegnum þetta kerfi.

Ég hvet allt fólk sem langar að lifa sem vaxandi manneskjur og taka eðlilegum framförum sem persónur, að skoða þennan möguleika. Fólk er ekki rukkað um neina trúarafstöðu til þess að vera með í þessu. Það eina sem þarf er vilji til að lifa og vaxa. Starfið hefst 10. janúar og lýkur í maí.

sjá nánar: viniribata.is

Bjarni Karlsson