Prédikun dagsins:
Einmitt núna er hann að vakna. Alla helgina hefur hann verið að hitta vini sína. Ástin hefur komið við sögu, boltinn í sjónvarpinu ekki síður. Það besta af öllu góðu í lífinu er að vera með vinunum. Nú er hann að rumska. Svo feginn að það skuli einmitt vera sunnudags- en ekki mánudagsmorgun. Nú er það þynnkumatur. Eitthvað brasað og sveitt til að setja oní sig. Svo er það spurning um að heyra í strákunum og fara yfir málin. Rosalega er þetta búin að vera góð helgi. Bara að lífið væri ein sífelld helgi. Engir mánudagar, enginn skóli, engin spurning um að standa sig eða verða droppát. Upp í hugann kemur ritgerðin sem hann á að skila á mánudagsmorgni og hann veit að það mun aldrei takast. Hann veit að hann er ekki að standa sig.
Á sama tíma eru þau löngu vöknuð, eldri hjónin í Fossvoginum. Jólin og áramótin eru ennþá í huga þeirra. Georg Jensen hangir enn á völdum stöðum í húsinu. Merkilegt hvað lífið hefur breyst. Einu sinni voru allir á einum stað og heimilið, þessi sömu gólf og þau horfa á, þessar sömu dyr svo fjölfarnar í amstri daganna. Núna eru bestu stundirnar þær þegar allir koma og í staðinn fyrir misgott skæp-samband koma faðmlög og hlýja. Þau eru ekkert blind á krakkana sína, eða tengdabörnin og barnabörnin. Þau eru heldur ekkert blind á sjálf sig og vita vel að þeirra fjölskylda er ekki fullkomin. En þau elska fólkið sitt og elska þessar allt of fáu stundir sem lífið skammtar þeim til þess að njóta þess besta af öllu góðu. Hann horfir á konu sína yfir kaffikrúsina: „Þau eru nú bara í góðum málum þarna úti sýnist mér. Þau hefðu nú þurft að stoppa aðeins lengur. Rosaleg pressa er á þeim.”
Á þessari stundu liggur hún í rúmi sínu og er að hlýða á útvarpsmessu. Áður hefði ekki flökrað að henni að opan fyrir gufuna á sunnudagmorgni. Sunnudagsmorgnar voru alltaf þeirra morgnar. Þá voru þau bara handa hvort öðru með ristuðu brauði og tebolla og talandi um allt milli himins og jarðar. Hversu dýrmætar voru þær stundir? Og hversu fáránlegt að liggja hérna ein? Fáránlegt að það skuli vera hægt að deyja bara og skilja rúmið sitt eftir autt. Skilja sjálfa sunnudagsmorgnana eftir þögla og kalda. Er það ekki einmitt vanhelgun á hvíldardeginum? Hvað er þessi Guð að pæla? “Drottinn sé með yður” heyrist sungið í útvarpinu. Honum væri nær að skila manninum mínum, hugsar hún.
Eitt eiga þau öll sameiginlegt, unglingurinn sem er að rumska, eldri hjónin í Fossvoginum og ekkjan sem hlustar á útvarpsmessuna, þau þrá lífið og eiga í hjarta sínu reynsluna af því besta af öllu góðu. Þau þrá hið góða.
En svo er það raunveruleiki hversdagsins sem býður okkur ekki alltaf upp á hið besta. Við eigum ekki kost á samfelldri vináttu eða samveru með ástvinum í hátíð og gleði. Ástarsambönd vara ekki alltaf fram í háa elli. Stundum er raunveruleikinn þungbær mánudagur, þögn í húsi og ástvinir í fjarlægð eða sár tregi sem aldrei ætlar að svía frá. Samt býr þráin eftir hinu besta í hverri mannlegri sál.
Þannig var því líka farði með Pétur lærisvein í guðspjalli dagsins þegar hann fékk að reyna óskýranlega sælu í félagsskap við Jesú. Það var reynslan af hinu heilaga, bjarta og sanna þegar Jesús ummyndaðist fyrir augum lærisveinanna þriggja á fjallinu, ásjóna hans skein sem sól og klæði hans urðu björt eins og ljós. „Gott er að við erum hér.” Sagði Pétur við Jesú. Og þeirri staðhæfingu fylgdi hann eftir með tillögu sem hann hefur áreiðanlega alltaf blygðast sín fyrir: „Ef þú vilt skal ég gera hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“ Af orðum hans má lesa þrána eftir því að grípa hið góða og fullkomna og dvelja í því. Meðan Pétur var enn að tala skyggði yfir þá bjart ský og rödd úr skýinu sagði: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“ Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta féllu þeir fram á ásjónur sínar og hræddust mjög. Jesús gekk til þeirra, snerti þá og mælti: „Rísið upp og óttist ekki.“ En er þeir hófu upp augu sín sáu þeir engan nema Jesú einan. Á leiðinni ofan fjallið bauð Jesús þeim: „Segið engum frá sýninni fyrr en Mannssonurinn er risinn upp frá dauðum.“ Já, sumt er þannig að það þýðir ekkert að tala um það en það gefur þeim sem á og reynir endalausan styrk. Þannig er trúarreynslan svo gjarnan. Margt fólk eignast slíka reynslu í bæn og trú. Og á sama hátt og góð vinátta eða góð fjölskyldutengsl eða reynslan af sannri ást breytir lífi okkar og skilgreinir okkur uppá nýtt, þannig gerir líka sterk trúarreynsla það að verkum að fólk verður aldrei aftur samt. Vinátta, ást og trú eru umbreytandi öfl, þau eru reynslan af því besta af öllu góðu. Engin skemmtun eða nautnir komast í hálfkvist við vináttu, ást og trú. Enginn árangur eða metnaður á neinu sviði gefur það besta af öllu góðu.
Enn erum við þó ekki komin að kjarna sögunnar. Sagan af ummyndun Jesú á fjallinu er ekki um það sem gerðist á fjallinu heldur hitt sem átti sér stað þegar niður var komið. Þar mætti honum faðir sem átti langveikt barn og bað hann um hjálp.
Veistu hvað ég held? Ég held að engin reynsla sé erfiðari en sú að eiga langveikt barn. Ég held það. Foreldrar langveikra barna upplifa ekki bara eigin vanmátt heldur máttleysi samfélagsins til þess að hjálpa. Fólk vill hjálpa en það getur það ekki. Og ekkert heilbrigðiskerfi dekkar mannlega neyð.
Í guðspjallinu er frá því greint að faðirinn hafði beðið lærisveina Jesú, sem ekki höfðu verið með honum í fjallgöngunni, um hjálp handa drengnum sínum, en þeir gátu það ekki. Og þegar Jesús er búinn að veita föðurnum og syni hans hjálp sína koma lærisveinarnir til Jesú einslega og spyrja hann hvers vegna þeir hafi ekki getað læknað son mannsins. Jesús svarar þeim: „Vegna þess að ykkur skortir trú.”
Hvað gerðist raunverulega þarna uppi á fjallinu? Hvað gerist þegar Guð opinberast mannlegri sál? Það er ósegjanlegt. Um það verður aldrei fjölyrt. En áhrifin eru eins og Guðspjallið greinir frá; lærisveinarnir sáu Jesú einan. Jesús. Jesús einn verður að umbreytandi veruleika í lífi þess sem trúir og það er ekkert til í stöðunni annað en að fylgja honum. Og hvert leiðir Jesús fylgjendur sína? Alltaf niður af fjallinu beint inn í kviku mannlífsins. Trúin á Jesú er alltaf trúnaður við lífið eins og það er. Ást á veruleikanum, vinátta við fólk. Ekkert annað. Kristin trú getur því aldrei verið sér-trú. Ósk Péturs um það að dvelja bara á fjallinu er skiljanleg frá mannlegu sjónarmiði en þannig er ekki erindi Guðs í heiminum. Erindi Guðs er ekki það að birta mönnum dýrð sína og búið, heldur það að færa fólki fögnuð. “Ég er kominn til þess að þeir hafi líf í fullri gnægð.” útskýrir Jesús á öðrum stað. (Jóh. 10) Þrá okkar eftir hinu góða lífi er af Guði gefin og þar vill hann ganga til liðs við okkur.
Ungi framhaldsskólaneminn sem gengur dofinn og þungstígur inn í skólann sinn á mánudagsmorgni vegna þess að honum finnst að hann sé þegar búinn að tapa leiknum þarna inni. Eldri hjónin sem upplifa tengsla- og tilgangsleysi við breyttar aðstæður. Syrgjandinn sem vaknar enn einn morguninn og sér ekki út úr endaleysi daganna. Þetta fólk er líka í sögunni alveg eins og faðirinn með langveika barnið. Þau eru þarna öll og líka ég og þú í okkar lífsbaráttu.
„Ykkur skortir trú” svaraði Jesús þegar lærisveinarnir báru sig upp við hann í máttleysi sínu af því þeir höfðu ekki getað liðsinnt manninum. Við þurfum trú.
„Ekki notaði ég uppspunnar skröksögur er ég kunngjörði ykkur mátt og komu Drottins vors Jesú Krists heldur hafði ég verið sjónarvottur að hátign hans […] þá er ég var með honum á fjallinu helga.” Skrifaði Pétur löngu síðar í einu bréfa sinna, eins og við heyrðum lesið hér áðan. (2Pét 1.16-21) Trú Péturs var byggð á reynslu. Átt þú reynslu af Jesú Kristi? Gengur þú á fjallið og dvelst með honum til þess síðan að fylgja honum þangað sem hann fer? Það er hið kristna líf. Það er að vera lærisveinn Jesú.
Vinátta, ást og trú eru umbreytandi öfl, þau eru reynslan af því besta af öllu góðu. Og þegar vinir skilja og ástin syrgir er trúin það afl sem aldrei bregst því hún opnar okkur sýn inn í hið bjarta og ósegjanlega eðli veruleikans og við vitum og finnum að við erum ekki ein.
Amen.
Textar:
5Mós 18.15, 18-19
2Pét 1.16-21
Matt 17.1-9
sunnudagur, 29. janúar 2012
mánudagur, 23. janúar 2012
Kynningarfundur hjá Vinum í bata í Laugarneskirkju
Ágætu lesendur
Mig langar mig að vekja athygli á sérstöku tilboði í Laugarneskirkju á vegum Vina í bata. Það eru samtök fólks sem fundið hefur leið að betra lífi með aðstoð sporanna 12 án þess að sérstaklega sé verið að vinna með fíkn heldur er þar tekist á við óuppgerðar tilfinningar almennt.
Það er ekkert vit í því að lifa ár eftir ár með sömu íþyngjandi reynsluna eða hugsanirnar án þess að vinna úr því og koma skikki á tilveru sína. Vinir í bata er slíkur vettvangur og nú er 14. árið sem þessi frábæru samtök starfa í Laugarneskirkju með óbilandi árangri.
Seinni kynningarfundur nýbyrjaðar annar verður haldinn í kirkjunni þriðjudagskvöldið 24. janúar kl. 20:00 og er öllum frjálst að kynna sér málin. Þátttaka kostar ekki nema kaup á einni bók og blýanti. Fundir eru vikulegir.
Sjálfur er ég Vinur í bata og fullyrði að fátt hef ég gert skynsamlegra í lífinu en að vinna mig í gegnum þetta kerfi.
Ég hvet allt fólk sem langar að lifa sem vaxandi manneskjur og taka eðlilegum framförum sem persónur, að skoða þennan möguleika. Fólk er ekki rukkað um neina trúarafstöðu til þess að vera með í þessu. Það eina sem þarf er vilji til að lifa og vaxa. Starfið hefst 10. janúar og lýkur í maí.
sjá nánar: viniribata.is
Bjarni Karlsson
Mig langar mig að vekja athygli á sérstöku tilboði í Laugarneskirkju á vegum Vina í bata. Það eru samtök fólks sem fundið hefur leið að betra lífi með aðstoð sporanna 12 án þess að sérstaklega sé verið að vinna með fíkn heldur er þar tekist á við óuppgerðar tilfinningar almennt.
Það er ekkert vit í því að lifa ár eftir ár með sömu íþyngjandi reynsluna eða hugsanirnar án þess að vinna úr því og koma skikki á tilveru sína. Vinir í bata er slíkur vettvangur og nú er 14. árið sem þessi frábæru samtök starfa í Laugarneskirkju með óbilandi árangri.
Seinni kynningarfundur nýbyrjaðar annar verður haldinn í kirkjunni þriðjudagskvöldið 24. janúar kl. 20:00 og er öllum frjálst að kynna sér málin. Þátttaka kostar ekki nema kaup á einni bók og blýanti. Fundir eru vikulegir.
Sjálfur er ég Vinur í bata og fullyrði að fátt hef ég gert skynsamlegra í lífinu en að vinna mig í gegnum þetta kerfi.
Ég hvet allt fólk sem langar að lifa sem vaxandi manneskjur og taka eðlilegum framförum sem persónur, að skoða þennan möguleika. Fólk er ekki rukkað um neina trúarafstöðu til þess að vera með í þessu. Það eina sem þarf er vilji til að lifa og vaxa. Starfið hefst 10. janúar og lýkur í maí.
sjá nánar: viniribata.is
Bjarni Karlsson
sunnudagur, 1. janúar 2012
Nú vantar heiminn Lagarfljótsbreiðan og Jökulsárdjúpan kærleika
Prédikun okkar á gamlárskvöldi:
Á þessum áramótum erum við öll sem unnum kristni og kirkju frekar hugsi. Á nýju ári verða tvennar biskupskosningar og það mun miklu skipta að það ferli sem fram undan er verði uppbyggilegt og sameinandi og að loknum þessu vali hafi kirkjan sem hreyfing í samfélaginu eignast endurnýjaða hugsjón og trúverðugleika í vitund almennings.
Þegar horft er fram á veg er ekki síður gagnlegt að líta vel um öxl og gæta að hvaðan maður er að koma. Sagan er gjarnan besti vegvísirinn inn í framtíðina. Í sögu kirkjunnar eigum við margar góðar fyrirmyndir og leiðtoga sem gott er virða fyrir sér og á þessum gamlársdegi langar mig að kynna fyrir okkur öllum einn þeirra sem allt of lítill gaumur hefur verið gefinn. Hann hét Sigurður Zóphónías Gíslason og þjónaði sem sóknarprestur á Þingeyri við Dýrafjörð á árunum 1929 – ’43.
Sr. Sigurður hafði þjónandi hjarta og frjálsan huga. Frelsi hans var ekki síst fólgið í þeirri djúpu skuldbindingu sem hann átti gagnvart Jesú Kristi sem aftur birtist í því hve einlæglega hann skuldbatt sig þjónustunni við sóknarfólkið og þjóðfélag samtíma síns.
Það sem upphaflega vakti forvitni okkar hjóna þegar barnabarn hans sendi okkur sýnishorn af skrifum afa síns var það með hvílíkri hlýju og rökþunga hann mælti með kvenfrelsi og auknu kynfrelsi á þeim tímum er slíkt hefur ekki átt upp á pallborðið víða. Ég gríp niður í ferðalýsingu sr. Sigurðar er hann í júlímánuði sumarið 1942 fór austur á land að vitja æskuslóða sinna og fleiri staða á Austurlandi, en hann var fæddur á Egilsstöðum í Vopnafirði árið 1900.
„Nú varð mér litið á Jökulsá. Hún var þannig á litinn að líkast var sem tröll og forynjur óbyggðanna hefðu verið að þvo ullina sína í henni um daginn og hana eigi alllitla. Nú fór ég að hugsa um þá sem hlotið hefðu hina votu sæng í hinu kólgugráa jökulvatni bæði fyrr og síðar. Aðeins fyrir örfáum árum höfðu kennari af Jökuldal og stúlka úr Vopnafirði, búsett í Reykjavík farist í ánni úr kláfi. Og þegar við fórum yfir brúna þar sem Jökla fellur ægileg ásýndum í þröngum, háum gljúfrum kom mér í hug ágætur fagur sveinn sem fól Jökulsá harma sína. Hann hafði elskað á breiðara grundvelli en þá var leyfilegt í almenningsáliti, en nú er hreint ekki óalgengt. Heimurinn hafði ekki rúm fyrir svona mikla ást. Þó fannst honum að Jökulsá í sínu þrengsta gljúfri gæti komið henni fyrir. Þær enda á margvíslegan hátt Íslendingasögurnar. Nú vantar heiminn lagarfljótsbreiðan og jökulsárdjúpan kærleika.
Og svo þýtur bíllinn burt frá þröngu gljúfri með þá heitu ósk í svellandi brjósti farþegans úti við rúðuna að takast mætti að vekja til lífsins aftur þennan ítra hugdjarfa mann, er fleygði sér niður í ægidjúpið. Örlagastraumurinn bar sorg hans í gleymskunnar haf og það er von mín að upp úr bæði þessum og öðrum þrengslum andlegs lífs á Íslandi liðins tíma, mætti stíga andi víðsýnis og bróðurlegs skilnings á hjörtu og hugð náunga vors og samferðamanns.”
Hér talar hugrakkur leiðtogi og mannvinur og lyftir upp minningu ungs samkynhneigðs manns sem hann sjálfsagt hefur minnist frá uppvaxtarárum þarna eystra og kvatt hefur lífið í örvæntingu. Hann kallar hann ítran, fagran og hugdjarfan og tengir hann beint við Íslendingasögurnar.
Hjörtur Þórarinsson tengdasonur Sigurðar sem safnað hefur saman skrifum hans og fært þau bókasafni Skálholts til varðveislu hefur leitt líkur að því að sr. Sigurður sér fyrsti íslenski karlmaðurinn sem opinberlega hafi tekið undir hugmyndir ýmissa kvenfélaga að komið yrði á mæðralaunum í samfélagi okkar eins og síðar varð raunin. Í erindi sem Sigurður flutti rétt þrítugur að aldri og gefið var út á prenti 1. janúar 1932 hafnar hann þeirri forsjárhyggju sem viðgangist gagnvart konum og hlutverkum þeirra og hvetur menn til að láta sér skiljast að konan sé full frjáls.
„Starf hennar verður aldrei takmarkað,” segir hann orðrétt „af þeirri eðlilegu ástæðu, að eðli konunnar getur gripið yfir öll viðfangsefni lífsins. Konan er fullgildur maður. Og það er maðurinn, sem á að vera herra tilverunnar, og stjórna öllum hreyfingum hennar. Þess vegna er ómögulegt að bægja konunni frá neinu svæði lífsins og segja henni það óviðkomandi, nema svo sé að hafa eigi einhver íshús í andans heimi, þar sem hatur og kærleiksleysi eigi að fá að lifa ósnortið af blæ hins innra sumars. - Að hægt skuli vera að deila um það, hvar starfssvið konunnar liggi, byggist á vanþekkingu á eðli hennar. – Hún er ekki álitin fullgildur maður, hún er ekki álitin að eiga verkefni að rækja á þeim stað, sem um er deilt. En konan á allstaðar verkefni, svo framarlega sem því er trúað, að kærleikurinn einn komi sérhverju góðu verki af stað.” Síðar segir hann: „Konunum hefur verið bægt frá mörgum starfsviðum og sum eru enn ekki opin fyrir þeim, eins og t.d. prestsþjónustan, sem þær hljóta þó að vera sérstaklega vel fallnar til.”
Höfum hugfast að þarna talar þrítugur karlmaður!
Sr. Sigurður varð mörgum harmdauði er hann lést þann1. janúar 1943 í snjófljóði er hann var á leið til kirkju í Hrauni í Keldudal utar í Dýrafirði til að messa á nýársdagsmorgni.
Við fráfall sitt skildi hann eftir eiginkonu sína Guðrúnu Jónsdóttur og sex börn og við minningarathöfn sem haldin var í embættisbústaðnum eftir að lík hans fannst í febrúarmánuði árið ’43 segir sr. Eiríkur J. Eiríksson:
„Þeir voru margir sem hingað áttu erindi til prestsins síns, en hinir e.t.v. fleiri sem fóru á fund mannsins sem hér átti heima, hins glaða sífellt hjálpsama manns, er vildi greiða úr hverjum vanda er borinn var upp fyrir honum og sannar leitaði að þörfum manna og vandkvæðum ef hann mætti með einhverjum hætti bæta úr. – Nú hafa lokast dyr fyrir mörgum, við vonum að þær opnist á ný en varla með þeim hætti er var. Skólar eru enn reistir, próf fara fram, menn eru útskrifaðir til embættisþjónustu, en ekkert af þessu þarf að tryggja að við eignumst ekki prest hér heldur vin í raun, góðan bróður, barnslega einlægan í að vilja vel og öllum ætlandi gott eitt. Þetta hús mun standa svo lengi er við megum til þess horfa í þessari birtu og mikil virðing má af því standa í framtíðinni eigi hún að jafnast á við þann góðhug sem hér kom til dyra og bauð gestum til stofu. Og gestirnir voru margir, þeir voru annarar trúar menn. Stefán Skáld frá Hvítadal mat hann mikils og Meulenberg biskup. Og ein samúðarkveðja til ekkjunnar kom frá fulltrúa Frönsku þjóðarinnar þar sem hann þakkar velvild auðsýnda hinum minnstu bræðrum.”
Sigurður lifði á miklum umbrota- og breytingatímum. Í ferðalýsingu sinni austan af Héraði leggur hann enni að bílrúðunni er bifreiðin þýtur áfram í átt frá hinu þrönga gljúfri, en er Sigurður fæddist var enn engin bifreið í landinu. Eina heimstyrjöld hafði hann lifað og önnur var í hámarki er hann lést. Sviptingar þess samtíma sem Sigurður þekkti voru síst minni en við lifum nú við upphaf 21. aldar.
Síðasta vor fórum við hjón utan til Búdapest í Ungverjalandi og sátum þar ráðstefnu um stöðu kristninnar í Evrópu. Þar voru saman komnir fulltrúar margra ólíkra kirkjudeilda og trúarhreyfinga til að bera saman bækur sínar og horfa til framtíðar. Þar var m.a. rætt um trúarleiðtoga 21. aldarinnar. Þegar við förum yfir glósurnar okkar frá ráðstefnunni og rifjum upp það sem fróðir fyrirlesarar lögðu þar áherslu á þá sjáum við að það sem menn telja mikilvægt að leiðtogar nútímans hafi til að bera er margt af því sem einkenndi þennan prest sem uppi var á fyrri hluta 20. aldar.
Eitt áhersluatriðið sem gjarnan kom fram í máli manna var trúverðugleiki leiðtogans sem persónu. Í minningarorðum sr. Eiríks er þess getið að margir hafi leitað til prestsins, en þó hafi fleiri komið að finna manninn sjálfan. Sigurður Gíslason hefur verið góður hlustandi og átt sterka tilfinningagreind til að bera. Þá er þess einnig getið að menn annarra trúarbragða hafi átt gott saman við hann að sælda og að Sigurður hafi eignast vináttu manna úr ólíkum menningarheimum. Ljóst er að hann hefur ekki fyrst og fermst litið á sig sem embættismann stofnunar heldur sem þjón Guðsríkis. Á ráðstefnunni sem við sátum var mikið rætt um einmitt þetta. Um gildi þess að kristnir leiðtogar hefðu getu til þess að sjá út fyrir eigin trúarstofnun og vera einfaldlega í þjónustu Guðsríkis, sífellt lærandi eitthvað nýtt, með skapandi og opinn huga.
Í þriðja lagi er ljóst að séra Sigurður átti lifandi trú. Vígsluræðu sína í nóvembermánuði árið 1927 hóf hann með þessari bæn.
"Ástríki frelsari vor, Drottinn Jesús Kristur. Lofaður sértu og vegsamaður fyrir kærleika þinn og að þú manst stöðugt til vor, sérð þarfir vorar og kemur til vor til þess að hjálpa oss. Gef að vér megum í dag opna hjörtu vor fyrir þér, að vér megum loka þig inni í sál vorri svo að vér getum verið heillaðir af þér og öðlast þitt heilaga líf. Guðdómleg elskan víki aldrei frá oss svo vér getum lifað sem sannir lærisveinar þínir..."
Svona biður sá einn sem gengur með Kristi. Engum nema lærisvein Jesú getur dottið í hug að loka hann inni í sál sinni svo að hann megi heillast af honum og öðlast hans heilaga líf! Hér er á ferð skapandi trúarhugsun og trúarlegt ímyndunarafl sem á viðspyrnu í sönnu guðssamfélagi. Á nefndri ráðstefnu var ítrekað að því vikið að prestar og aðrir kristnir leiðtogar þyrftu einfaldlega að eiga lifandi trú á Jesú.
Það er styrkjandi að fá að kynnast sögu og boðun svona manns og gott til þess að vita að prédikana- og greinasafn hans skuli varðveitt. Þar fór sannur leiðtogi, trúverðug persóna og sálgætir sem ekki þurfti að styðjast við embætti sitt sjálfs sín vegna heldur nýtti það í þjónustu við mannlífið í lifandi trú á frelsarann Jesú.
Við eigum fleiri fyrirmyndir í hópi genginna kynslóða en okkur grunar og það er mikilvægt að halda þeim á lofti og leyfa góðilimi hins elskandi trúararfs að fylgja okkur inn í nýtt ár. Nú eru orðin vatnaskil í sögu íslensku þjóðkirkjunnar. Við vitum það öll. Nýr tími er runninn upp en við vitum ekki hvað hann felur í sér. „Nú vantar heiminn lagarfljótsbreiðan og jökulsárdjúpan kærleika” mælti sr. Sigurður Zóphónías Gíslason, og enn eru það orð að sönnu. Eigum við ekki að taka undir bæn hans að „upp úr þessum og öðrum þrengslum andlegs lífs á Íslandi liðins tíma mætti stíga andi víðsýnis og bróðurlegs skilnings á hjörtu og hugð náunga vors og samferðamanns” svo að kristin kirkja megi finna þá samleið með íslenskri þjóð sem er mannlífinu til heilla og reynast um ókomna tíð þjóðinni það skjól sem hún er kölluð til.
Amen.
Á þessum áramótum erum við öll sem unnum kristni og kirkju frekar hugsi. Á nýju ári verða tvennar biskupskosningar og það mun miklu skipta að það ferli sem fram undan er verði uppbyggilegt og sameinandi og að loknum þessu vali hafi kirkjan sem hreyfing í samfélaginu eignast endurnýjaða hugsjón og trúverðugleika í vitund almennings.
Þegar horft er fram á veg er ekki síður gagnlegt að líta vel um öxl og gæta að hvaðan maður er að koma. Sagan er gjarnan besti vegvísirinn inn í framtíðina. Í sögu kirkjunnar eigum við margar góðar fyrirmyndir og leiðtoga sem gott er virða fyrir sér og á þessum gamlársdegi langar mig að kynna fyrir okkur öllum einn þeirra sem allt of lítill gaumur hefur verið gefinn. Hann hét Sigurður Zóphónías Gíslason og þjónaði sem sóknarprestur á Þingeyri við Dýrafjörð á árunum 1929 – ’43.
Sr. Sigurður hafði þjónandi hjarta og frjálsan huga. Frelsi hans var ekki síst fólgið í þeirri djúpu skuldbindingu sem hann átti gagnvart Jesú Kristi sem aftur birtist í því hve einlæglega hann skuldbatt sig þjónustunni við sóknarfólkið og þjóðfélag samtíma síns.
Það sem upphaflega vakti forvitni okkar hjóna þegar barnabarn hans sendi okkur sýnishorn af skrifum afa síns var það með hvílíkri hlýju og rökþunga hann mælti með kvenfrelsi og auknu kynfrelsi á þeim tímum er slíkt hefur ekki átt upp á pallborðið víða. Ég gríp niður í ferðalýsingu sr. Sigurðar er hann í júlímánuði sumarið 1942 fór austur á land að vitja æskuslóða sinna og fleiri staða á Austurlandi, en hann var fæddur á Egilsstöðum í Vopnafirði árið 1900.
„Nú varð mér litið á Jökulsá. Hún var þannig á litinn að líkast var sem tröll og forynjur óbyggðanna hefðu verið að þvo ullina sína í henni um daginn og hana eigi alllitla. Nú fór ég að hugsa um þá sem hlotið hefðu hina votu sæng í hinu kólgugráa jökulvatni bæði fyrr og síðar. Aðeins fyrir örfáum árum höfðu kennari af Jökuldal og stúlka úr Vopnafirði, búsett í Reykjavík farist í ánni úr kláfi. Og þegar við fórum yfir brúna þar sem Jökla fellur ægileg ásýndum í þröngum, háum gljúfrum kom mér í hug ágætur fagur sveinn sem fól Jökulsá harma sína. Hann hafði elskað á breiðara grundvelli en þá var leyfilegt í almenningsáliti, en nú er hreint ekki óalgengt. Heimurinn hafði ekki rúm fyrir svona mikla ást. Þó fannst honum að Jökulsá í sínu þrengsta gljúfri gæti komið henni fyrir. Þær enda á margvíslegan hátt Íslendingasögurnar. Nú vantar heiminn lagarfljótsbreiðan og jökulsárdjúpan kærleika.
Og svo þýtur bíllinn burt frá þröngu gljúfri með þá heitu ósk í svellandi brjósti farþegans úti við rúðuna að takast mætti að vekja til lífsins aftur þennan ítra hugdjarfa mann, er fleygði sér niður í ægidjúpið. Örlagastraumurinn bar sorg hans í gleymskunnar haf og það er von mín að upp úr bæði þessum og öðrum þrengslum andlegs lífs á Íslandi liðins tíma, mætti stíga andi víðsýnis og bróðurlegs skilnings á hjörtu og hugð náunga vors og samferðamanns.”
Hér talar hugrakkur leiðtogi og mannvinur og lyftir upp minningu ungs samkynhneigðs manns sem hann sjálfsagt hefur minnist frá uppvaxtarárum þarna eystra og kvatt hefur lífið í örvæntingu. Hann kallar hann ítran, fagran og hugdjarfan og tengir hann beint við Íslendingasögurnar.
Hjörtur Þórarinsson tengdasonur Sigurðar sem safnað hefur saman skrifum hans og fært þau bókasafni Skálholts til varðveislu hefur leitt líkur að því að sr. Sigurður sér fyrsti íslenski karlmaðurinn sem opinberlega hafi tekið undir hugmyndir ýmissa kvenfélaga að komið yrði á mæðralaunum í samfélagi okkar eins og síðar varð raunin. Í erindi sem Sigurður flutti rétt þrítugur að aldri og gefið var út á prenti 1. janúar 1932 hafnar hann þeirri forsjárhyggju sem viðgangist gagnvart konum og hlutverkum þeirra og hvetur menn til að láta sér skiljast að konan sé full frjáls.
„Starf hennar verður aldrei takmarkað,” segir hann orðrétt „af þeirri eðlilegu ástæðu, að eðli konunnar getur gripið yfir öll viðfangsefni lífsins. Konan er fullgildur maður. Og það er maðurinn, sem á að vera herra tilverunnar, og stjórna öllum hreyfingum hennar. Þess vegna er ómögulegt að bægja konunni frá neinu svæði lífsins og segja henni það óviðkomandi, nema svo sé að hafa eigi einhver íshús í andans heimi, þar sem hatur og kærleiksleysi eigi að fá að lifa ósnortið af blæ hins innra sumars. - Að hægt skuli vera að deila um það, hvar starfssvið konunnar liggi, byggist á vanþekkingu á eðli hennar. – Hún er ekki álitin fullgildur maður, hún er ekki álitin að eiga verkefni að rækja á þeim stað, sem um er deilt. En konan á allstaðar verkefni, svo framarlega sem því er trúað, að kærleikurinn einn komi sérhverju góðu verki af stað.” Síðar segir hann: „Konunum hefur verið bægt frá mörgum starfsviðum og sum eru enn ekki opin fyrir þeim, eins og t.d. prestsþjónustan, sem þær hljóta þó að vera sérstaklega vel fallnar til.”
Höfum hugfast að þarna talar þrítugur karlmaður!
Sr. Sigurður varð mörgum harmdauði er hann lést þann1. janúar 1943 í snjófljóði er hann var á leið til kirkju í Hrauni í Keldudal utar í Dýrafirði til að messa á nýársdagsmorgni.
Við fráfall sitt skildi hann eftir eiginkonu sína Guðrúnu Jónsdóttur og sex börn og við minningarathöfn sem haldin var í embættisbústaðnum eftir að lík hans fannst í febrúarmánuði árið ’43 segir sr. Eiríkur J. Eiríksson:
„Þeir voru margir sem hingað áttu erindi til prestsins síns, en hinir e.t.v. fleiri sem fóru á fund mannsins sem hér átti heima, hins glaða sífellt hjálpsama manns, er vildi greiða úr hverjum vanda er borinn var upp fyrir honum og sannar leitaði að þörfum manna og vandkvæðum ef hann mætti með einhverjum hætti bæta úr. – Nú hafa lokast dyr fyrir mörgum, við vonum að þær opnist á ný en varla með þeim hætti er var. Skólar eru enn reistir, próf fara fram, menn eru útskrifaðir til embættisþjónustu, en ekkert af þessu þarf að tryggja að við eignumst ekki prest hér heldur vin í raun, góðan bróður, barnslega einlægan í að vilja vel og öllum ætlandi gott eitt. Þetta hús mun standa svo lengi er við megum til þess horfa í þessari birtu og mikil virðing má af því standa í framtíðinni eigi hún að jafnast á við þann góðhug sem hér kom til dyra og bauð gestum til stofu. Og gestirnir voru margir, þeir voru annarar trúar menn. Stefán Skáld frá Hvítadal mat hann mikils og Meulenberg biskup. Og ein samúðarkveðja til ekkjunnar kom frá fulltrúa Frönsku þjóðarinnar þar sem hann þakkar velvild auðsýnda hinum minnstu bræðrum.”
Sigurður lifði á miklum umbrota- og breytingatímum. Í ferðalýsingu sinni austan af Héraði leggur hann enni að bílrúðunni er bifreiðin þýtur áfram í átt frá hinu þrönga gljúfri, en er Sigurður fæddist var enn engin bifreið í landinu. Eina heimstyrjöld hafði hann lifað og önnur var í hámarki er hann lést. Sviptingar þess samtíma sem Sigurður þekkti voru síst minni en við lifum nú við upphaf 21. aldar.
Síðasta vor fórum við hjón utan til Búdapest í Ungverjalandi og sátum þar ráðstefnu um stöðu kristninnar í Evrópu. Þar voru saman komnir fulltrúar margra ólíkra kirkjudeilda og trúarhreyfinga til að bera saman bækur sínar og horfa til framtíðar. Þar var m.a. rætt um trúarleiðtoga 21. aldarinnar. Þegar við förum yfir glósurnar okkar frá ráðstefnunni og rifjum upp það sem fróðir fyrirlesarar lögðu þar áherslu á þá sjáum við að það sem menn telja mikilvægt að leiðtogar nútímans hafi til að bera er margt af því sem einkenndi þennan prest sem uppi var á fyrri hluta 20. aldar.
Eitt áhersluatriðið sem gjarnan kom fram í máli manna var trúverðugleiki leiðtogans sem persónu. Í minningarorðum sr. Eiríks er þess getið að margir hafi leitað til prestsins, en þó hafi fleiri komið að finna manninn sjálfan. Sigurður Gíslason hefur verið góður hlustandi og átt sterka tilfinningagreind til að bera. Þá er þess einnig getið að menn annarra trúarbragða hafi átt gott saman við hann að sælda og að Sigurður hafi eignast vináttu manna úr ólíkum menningarheimum. Ljóst er að hann hefur ekki fyrst og fermst litið á sig sem embættismann stofnunar heldur sem þjón Guðsríkis. Á ráðstefnunni sem við sátum var mikið rætt um einmitt þetta. Um gildi þess að kristnir leiðtogar hefðu getu til þess að sjá út fyrir eigin trúarstofnun og vera einfaldlega í þjónustu Guðsríkis, sífellt lærandi eitthvað nýtt, með skapandi og opinn huga.
Í þriðja lagi er ljóst að séra Sigurður átti lifandi trú. Vígsluræðu sína í nóvembermánuði árið 1927 hóf hann með þessari bæn.
"Ástríki frelsari vor, Drottinn Jesús Kristur. Lofaður sértu og vegsamaður fyrir kærleika þinn og að þú manst stöðugt til vor, sérð þarfir vorar og kemur til vor til þess að hjálpa oss. Gef að vér megum í dag opna hjörtu vor fyrir þér, að vér megum loka þig inni í sál vorri svo að vér getum verið heillaðir af þér og öðlast þitt heilaga líf. Guðdómleg elskan víki aldrei frá oss svo vér getum lifað sem sannir lærisveinar þínir..."
Svona biður sá einn sem gengur með Kristi. Engum nema lærisvein Jesú getur dottið í hug að loka hann inni í sál sinni svo að hann megi heillast af honum og öðlast hans heilaga líf! Hér er á ferð skapandi trúarhugsun og trúarlegt ímyndunarafl sem á viðspyrnu í sönnu guðssamfélagi. Á nefndri ráðstefnu var ítrekað að því vikið að prestar og aðrir kristnir leiðtogar þyrftu einfaldlega að eiga lifandi trú á Jesú.
Það er styrkjandi að fá að kynnast sögu og boðun svona manns og gott til þess að vita að prédikana- og greinasafn hans skuli varðveitt. Þar fór sannur leiðtogi, trúverðug persóna og sálgætir sem ekki þurfti að styðjast við embætti sitt sjálfs sín vegna heldur nýtti það í þjónustu við mannlífið í lifandi trú á frelsarann Jesú.
Við eigum fleiri fyrirmyndir í hópi genginna kynslóða en okkur grunar og það er mikilvægt að halda þeim á lofti og leyfa góðilimi hins elskandi trúararfs að fylgja okkur inn í nýtt ár. Nú eru orðin vatnaskil í sögu íslensku þjóðkirkjunnar. Við vitum það öll. Nýr tími er runninn upp en við vitum ekki hvað hann felur í sér. „Nú vantar heiminn lagarfljótsbreiðan og jökulsárdjúpan kærleika” mælti sr. Sigurður Zóphónías Gíslason, og enn eru það orð að sönnu. Eigum við ekki að taka undir bæn hans að „upp úr þessum og öðrum þrengslum andlegs lífs á Íslandi liðins tíma mætti stíga andi víðsýnis og bróðurlegs skilnings á hjörtu og hugð náunga vors og samferðamanns” svo að kristin kirkja megi finna þá samleið með íslenskri þjóð sem er mannlífinu til heilla og reynast um ókomna tíð þjóðinni það skjól sem hún er kölluð til.
Amen.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)