Hér kemur prédikun okkar í dag. Við höfum hvort sitt upphaf en sameiginlegt meginmál
Upphaf Jónu Hrannar:
Þegar ég var fertug að aldri hafði dagskrástjóri ríkisútvarpsins samband við mig og bað mig að lesa Passíusalmana í útvarpinu. Ég vissi strax að það yrði ekki létt verk og mér fannst á þeirri stundu að ég gæti varla geta staðið undir slíkri beiðni, enda höfðu margir merkir karlar og konur gert það með miklum ágætum, og raunar með ógleymanlegum hætti. Ég fékk að hugsa málið en tók ákvörðun þegar ég sagði föður mínum frá þessu. Hann var þá langt leiddur af heilabilun en þegar ég færði honum fréttirnar ljómaði andlit hans og hann faðmaði mig og sagðist vera svo stoltur. Faðir minn sr. Bolli Gústavsson hafði um miðjan aldur sjálfur lesið sálmana í útvarpinu og ég man eftir því þegar hann fór til Akureyrar og settist inn í stúdíó á Hótel Varðborg og las þá alla inn á einum degi. Það fór ekki þannig hjá mér, ég var í hálfan mánuð að taka upp lesturinn og ég leitaði mér hjálpar. Ég fékk Guðrúnu Ásmundsdóttur leikkonu til að lesa yfir sálmana með mér og hún fylgdi mér í upptökurnar fyrstu skiptin til að biðja fyrir mér. Það voru mér ógleymanlegar stundir sem ég átti með trúkonunni Guðrúnu Ásmundsdóttur, því hún opnaði huga minn og hjarta fyrir þessu aldna listaverki. Ég gleymi aldrei hversu mjög hún þekkti og elskaði þennan trúararf. Hún sagði við mig að ég hefði ekki flutt sálmana án hnökra en ég hefði lesið þá af tilfinningu, það hefði skipt meginmáli. En faðir minn, sem á þessum tíma vissi ekki hvaða dag vikunnar hann var að lifa, þekkti fæsta með nöfnum og vissi stundum hreinlega ekki hvar hann var á landinu, mundi alla föstuna að setjast við útvarpið kl.10 á kvöldin til að hlusta á dóttur sína lesa sálmana. Ég man þegar það gerðist við fyrsta lestur þá hringdi mamma grátandi í mig til að láta mig vita að þessu hefði hann ekki gleymt. Bara síðast í gær var ég að skíra í heimahúsi og þá barst talið af Passíusálmunum og þá sagði afinn sem er sextugur maður að hann hefði sem barn setið með sálmabókina fyrir framan sig og hlustað en amma hans hefði kunnað þá alla utan að.
Upphaf Bjarna:
Nú við upphaf föstunnar hefur vakið athygli að hin þekkta Simon Wiesenthal-stofnun sem lengi hefur barist gegn kynþáttafordómum með áherslu á að gyðingaofsóknir í Þýskalandi nasismans bendir á Passíusálma Hallgríms Péturssonar sem dæmi um and-gyðinglegt efni sem ekki hæfi sem útvarpsefni.
Mig langar að segja ykkur frá kynnum mínum af Passíusálmunum:
Ég átti afasystur sem Guðlaug hét og við vorum einkar náin. Hún var fædd árið 1897, þegar Passíusálmarnir voru 231 árs. Núnar eru þeir orðnir 315 ára. Frænka, eins og hún jafnan var nefnd kenndi mér að lesa og skrifa og kenndi mér líka heilmikið að hugsa og biðja. Þegar ég var kominn á menntaskólaaldur áttum við okkar vikulegu fundi þar sem ég las fyrir hana eitthvert gott trúarlegt efni og á föstunni voru það alltaf Passíusálmarnir. Það voru ógleymanlegar stundir. Síðast las ég þá fyrir hana þar sem hún lá inni á hjúkrunardeildinni í Hafnarbúðum en þá brá svo við að rödd heyrðist handan við tjaldið, það var rödd eldri herra sem þar sat hjá konu sinni og jafnan þegar ég kom og las, þuldi hann sálmana utanbókar. Við urðum vel kunnugir og það sem sameinaði okkur var fjársjóður Passíusálmanna.
Meginmál:
Það er merkilegt að hugsa til þess hvernig Passíusálmarnir hafa fylgt íslenskri þjóð síðan á 17 öld. Þeir hafa verið gefnir út meira en 80 sinnum á Íslandi frá því þeir voru fyrst prentaðir árið 1666 eða að meðaltali meira en 20 sinnum á hverri öld. Yfirleitt voru þeir ekki gefnir út í viðhafnarútgáfu heldur fátæklega til fara líkt og þjóðin sjálf, eins og herra Sigurbjörn Einarsson komst að orði í formála að útgáfu passíusálmanna sem prentuð var í tilefni af þrjúhundruðustu ártíð þeirra árið 1966. Þar segir hann um sálmana:
“Þeir voru handleiknir með dýpri lotningu en aðrir munir sem alþýða hafði í höndum og þeir voru ein sú auðsuppspretta sem gerði þjóðina andlega ríka þótt hún væri líkamlega snauð. Við lestur og söng passíusálmanna hefur íslensk alþýða lifað djúpa, listræna nautn, auk alls þess sem þeir gáfu henni af trúarlegu innsæi og lífsspeki.”
Lífsspeki Hallgríms er hógvær og það væri ekki í anda Passíusálma hans að þeir væru varðir með skarkala eða stóryrðum. Við lifum á tímum mikilla upphrópana sem berast að okkur úr svo mörgum áttum og birtast á forsíðum og í fyrisögnum þannig að enginn getur melt nema brot af því öllu. Sá virðist vera mestur og selja best sem harðast ásakar eða hæst hampar. En e.t.v. eigum við ekkert íslenskt listaverk sem talar betur inn í þær aðstæður en einmitt Passíusálmarnir.
Þegar Hallgrímur íhugar samskipti Jesú við Pílatus og líka Heródes staðnæmist hann víða en ekki síst við þögn frelsarans. Þögn Jesú frammi fyrir valdinu verður honum að einskonar spegli þar sem hann skoðar sitt eigið líf:
Ónytju tal og mælgin mín
Mér til falls koma ætti.
En, Jesú, blessuð þögnin þín
Það allt fyrir mig bætti.
(Pass. 20. 6)
Sú mynd sem Hallgrímur dregur upp af Jesú er fyrst og síðast hógvær og þögul. Þögn Krists er ærandi í eyrum valdsins en hún ilmar í hjarta þess sem trúir og færir honum styrk. Lýsing Hallgríms á þeim viðtökum sem Jesús fékk hjá Heródesi er eitthvað svo hræðilega nútímaleg, það er eins og hann standi á Lækjartorgi frammi fyrir gjammandi tíðaranda:
Þegar Heródes herran sá,
hann varð mjög glaður næsta;
Af honum heyrt hafði og helzt vill fá
hans ásýnd líta glæsta.
Forvitinn mörgu frétti að,
fýsn holdsins kapp á lagði
með byrstu bragði.
Jesús tók ekki undir það,
við öllum spurningum þagði.
Margir finnast nú hér í heim
Herídis líkar réttir.
Guðs orð er skemmt og gaman þeim
sem glens eða nýjar fréttir....
... (21.1-2)
Hallgrímur kemur víða við í sálmum sínum en hann er ekki að tala við alla. Í eðli sínu eru Passíusálmarnir trúnaðarsamtal sem fram fer undir vissum formerkjum. Í stuttum inngangi sem hann ritar ræðir hann um gildi þess að bera alla daga minninguna um þjáningar Jesú í hjarta sínu og sá sem það gerir “geymir hinn dýrasta hlut.” Sálmarnir eru bornir fram fyrir “öll upp á Jesúm lítandi augu og Jesúm elskandi hjörtu” eins og hann sjálfur kemst að orði. Útgangspunkturinn er sameiginleg reynsla af Jesú. Trúnaðarsambandið við þann sem sálmarnir lýsa er forsenda og samnefnari alls sem þeir segja. Þeir eru ferðalag, píslarganga, sem okkur býðst að eiga með Hallgrími og öllum trúuðum í fótspor Krists.
Krossferli að fylgja þínum
fýsir mig, Jesú kær,
væg þú veikleika mínum,
þó verði ég álengdar fjær.
Þá trú og þol vill þrotna,
þrengir að neyðin vönd,
reis þú við reirinn brotna
og rétt mér þína hönd. (11)
Sú þrá hjartans sem hér er lýst og sú reynsla sem að baki býr sameinar einum huga. Þögnin er svar trúarinnar þegar þessi þrá er hædd, - þögnin og lofsöngurinn.
En hvað er hæft í staðhæfingum um and-gyðingleg viðhorf í Passíusálmunum?
Þegar Hallgrímur rekur þjáningar Jesú þá byggir hann á guðspjöllum Nýja Testamenntisins og í sálmum hans finnum við allar helstu persónur og leikendur. Þar er Júdas sem svíkur, Pétur sem afneitar og lærisveinarnir allir sem flýðu, Símon frá Kyrene sem ber krossinn nauðugur, Jósef frá Arimaþeu sem lætur eftir gröf sína. Þar er Kaifas æðstiprestur og aðrir fulltrúar hinnar ráðandi stéttar í Gyðingalandi, að ógleymdum Heródesi, Pílatusi og rómverskum hermönnum þeirra. Þar er fanginn Barrabas og ræningjarnir tveir sem krossfestir voru með Jesú. Enginn af öllum þeim sem nefndir eru standa keikir. Enginn stendur keikur á Golgata, þar dvelja allir í ósigrinum og niðurlægingunni. Píslarsaga Jesú leiðir okkur á þennan stað þar sem enginn hrósar sér en allir lúta honum einum sem hrópar: Það er fullkomnað. Á Golgatahæð verða hæðnishrópin svo ámátleg, stærilætið svo glatað. Þess vegna er hollt að dvelja við krossinn, því hver getur í sannleika staðið upp og sagst vera stoltur af sjálfum sér? Hver ætlar í alvöru að hrósað sér?
Júðar þig, Jesú, strengdu,
ég gaf þar efni til,
syndir mínar þér þrengdu,
þess nú ég iðrast vil... (Pass. 6.11)
Tökum eftir því að hutakið Júðar var ekki skammaryrði á 17. öld. Hallgrímur horfir á Jesú Krossfestann og veit það eitt að sökin er hans eigin. “Ég gaf þar efni til, syndir mínar þér þrengdu, þess ég nú iðrast vil.”
Þegar Hallgrímur í 14. sálmi víkur sögunni að þjónum æðstaprestsins sem gættu Jesú um nóttina eftir fyrstu yfirheyrslurnar þá staðnæmist hann ekki við sök þessara samlanda hans en horfir lengra og nær okkur:
Soninn Guðs ekki þekktu þeir,
því syndga hinir langtum meir,
sem kallast vilja kristnir bezt,
Kristum þó lasta allra mest. (14.12)
Hræsnarar þeir, sem hrekki og synd
hylja þó undir frómleiks mynd,
líkjast þessum, er lausnarann
lömdu blindandi og spjöðu hann. (14.13)
Loks snýr hann kastljósinu þangað sem það alltaf leitar í allri hugsun Hallgríms:
Sjálfan slær mig nú hjartað hart,
hef ég án efa mikinn part
af svoddan illsku ástundað.
Auðmjúklega ég meðgeng það. (14.20)
Sáð hef ég niður syndarót,
Svívirðing mín er mörg og ljót.
Uppskerutímann óttast ég,
angrast því sálin næsta mjög. (14.21)
Hann notar líkinguna af fræinu til að lýsa þeim áhrifum sem hver maður hefur á eigið líf og örlög. Það er hin þekkta hugsun að svo muni hver uppskera sem hann hefur til sáð. Þessa alþekktu og sterku líkingu tekur hann áfram og færir yfir á verk Jesú er hann leitast við að lýsa því hvernig þjáning Jesú og dauði breytir aðstöðu allra manna:
Blóðdropar þínir, blessað sáð,
ber þann ávöxt, sem heitir náð,
þann sama Guð mér sjálfur gaf,
sáluhjálp mín þar sprettur af. (14.23)
Hallgrímur er að kalla menn til afturhvarfs og iðrunar. Hann vill að áheyrendur sínir endurnýist í trú og hætti að rembast að hætti heimsins. Það er hið djúpstæða þakklæti fyrir gjöf lífsins í Jesú Kristi sem ólgar og streymir í hverjum sálminum af öðrum og allir sem lesa sálma Hallgríms opnum huga lifa hina djúpu listrænu nautn. En hvað er listræn nautn? Hún er alltaf þátttaka í sannleika. Skáld verður ekki skáld vegna skáldskapar síns. Allir geta skáldað en það eru fáir sem megna að segja satt og gera það fallega. Það er sannleikurinn um manninn í Passíusálmunum sem fær okkur til að trúa því sem þar er sagt um Guð. Hallgrímur er maður af holdi og blóði, maður með sögu sem við þekkjum, kunnur ást og ótta, gleði og sorgum, styrk og veikleika mannlegs lífs og þegar hann talar um hina stóru óleysanlegu gátu sem liggur líkt og mara á hverri hugsandi sál, gátu þjáningarinnar, - þá er hann á heimavelli.
Við erum öll að þjást. Við erum öll að berjast harðri lífsbaráttu og vitum oft ekki okkar rjúkandi ráð. Þess vegna elskum við passíusálmana. Gagnið sem Hallgrímur vinnur íslenskri þjóð með Passíusálmum sínum er það að hann greinir þjáninguna og lýsir henni þannig að allir geta kannast við hana í eigin lífi og svo dregur hann upp mynd að Jesú Kristi þannig að við sjáum hve nákominn hann er okkur hverju og einu.
Nei, erindi Hallgríms er ekki að lasta eða lofa menn eða þjóðir. Hann hyggst hvorki ásaka fólk né hampa. Þá list er heimurinn einfær um að annast jafnt á 17. og 21. öld. Hallgrímur lofsyngur Jesú einan og játar fyrst og síðast eigin syndir. Þess vegna er heilbrigt og hressandi að lesa sálma hans í dag og alla tíma.
Amen.
sunnudagur, 26. febrúar 2012
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
,,Enginn af öllum þeim sem nefnir eru standa keikir."
Ha?
Enginn af öllum þeim sem nefnir eur stendur keikur.
Ein euro.
Sæll nafnlaus. Það stendur: Enginn af þeim sem nefndir eru standa keikir.
Við erum að reyna að útskýra að allir eru taparar í Golgataatburðinum og allir græða. Enginn stendur keikur á Golgata en vegna þess sem þar átti sér stað er einmitt staðfest að allt fólk má standa upprétt í eigin tilveru.
b.kv.
Bjarni
Chuyên cung cấp các loại bình phun bọt tuyết Pallas như: Bình phun bọt tuyết Pallas 16 lít, bình phun bọt tuyết Pallas 18 lít, bình phun bọt tuyết Pallas 22 lít, bình phun bọt tuyết Pallas 25 lít, bình phun bọt tuyết Pallas 30 lít, bình phun bọt tuyết Pallas 40 lít, bình phun bọt tuyết Pallas 60 lít,...
Skrifa ummæli