sunnudagur, 25. mars 2012

Biskupskosningar í seinni umferð

Nú verður kosið á milli tveggja frambjóðenda í biskupskjöri í seinni umferð og eftir miðjan apríl kemur í ljós hver hefur verið valinn til þjónustunnar. Við hjónin styðjum dr. Sigurð Árna Þórðarson til embættis.

Eitt það fyrsta sem maður nemur í návist Sigurðar Árna er það að hann er listfengur maður og hefur auga fyrir því fagra. Sá sem getur verið á valdi listarinnar hefur líka djúpan anda. Sigurður Árni hefur ekki bara auga fyrir tónum, orðum og litum heldur ber hann ekki síður skyn á litbrigði mannlífsins og honum er eðlislægt að sjá hið einstaka í fari þess sem hann mætir. Það er gott að vera nálægt Sigurði Árna því hann hefur áhuga fyrir því sem fólk hefur fram að færa og þegar hann tekur orðið í hópi fólks gerir hann það augljóslega til þess að varpa því aftur út í hópinn og leyfa hugmyndunum að taka á sig form. Allir sem þekkja Sigurð Árna þekkja hann af samtalinu, hlustuninni og velviljanum. Þess vegna vitum við að hann verður ekki leiðtogi sem einangrast með eigin hugsanir og hugmyndir heldur er hann leiðtogi sem alltaf er að læra.

Biskupsembættið er sterk táknmynd fyrir kirkjuna í landinu. Sá sem er biskup ber embættið á persónu sinni. Við höfum átt langa samleið með sr. Sigurði Árna og við vitum af reynslu að hann er opinn fyrir nútímanum.

Í persónu Sigurðar Árna sameinast ýmsir ólíkir pólar:
Þótt hann kunni manna best að hvíla í hefðinni og sinni hinu hefðbundna prestshlutverki þá vill hann um fram allt þekkja samtíð sína og horfa til framtíðar.
Undir fáguðu og hlýlegu viðmóti býr óþol í sr. Sigurði Árna. Óþol gagnvart ójafnrétti og hvers kyns þvingunarvaldi.
Hann á rætur í leikmannahreyfingu kirkjunnar og hefur alla tíð átt þá þrá að sjá barna- og unglingastarf kirkjunnar blómstra en um leið er hann doktor í trúfræði með áherslu á íslenska menningu.
Hefðbundinn kristindómur liggur sr. Sigurði Árna við hjartastað en einmitt vegna þess að Jesús Guðspjallanna er vinur hans hefur hann þróað með sér víðsýna og milda lífsafstöðu.
Sigurður Árni hefur lifað mikla reynslu bæði í starfi og einkalífi og hver sem kemur inn á heimili þeirra hjóna, Elínar Sigrúnar Jónsdóttur og Sigurðar Árna, finnur að undir þaki þeirra býr hamingja. Sigurður og Elín eru jafningjar og samherjar sem varpa ljósi hvort á annað.

Við berum þá von í brjósti að Sigurður Árni Þórðarson verði næsti biskup Íslands.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ágætu hjón - ég kann hreint ekki við svona áróður.

- Hlynur Þór Magnússon

Nafnlaus sagði...

Góð grein hjá ykkur.

Mikilvægt að hafa í huga að það er verið að velja eftir hæfni einstaklings en ekki kynferði,
en sumir fjölmiðlar hafa slegið þessu upp eins og málið snúist um að velja milli karls og konu.
-Hanna

Nafnlaus sagði...

Þegar ráðið er í starf er yfirleitt spurt um menntun, reynslu og hvað viðkomandi getur færst starfinu. Í mínum huga skarar Sigurður Árni fram úr á öllum þessum sviðum.

Nafnlaus sagði...

Heiðruðu hjón! Mörgum þykir mikilvægt að afstaða þeirra til biskupsefnanna sé ekki opinber og er það ástæða þess að ritari þessa skrifar ekki undir nafni hér. Ekki það að Sigurð skyldi ekki styðja til góðra verka, ekki það að hann yrði ekki góður biskup. Það að gagnrýna skrif ykkar hér yrði því miður til þess að viðkomandi teldist stuðningsaðili að framboði Agnesar Margrétar-Sigurðardóttur, sem ritarinn kýs einnig að vera hlutlaus um. Aftur á móti er sú gagnrýni á skrif ykkar sem hér er fram sett byggð á því að í henni er lítið innihald; kirkjupólítískar víddir eru ekki skýrðar. Þið viljið leiðtoga - virðist vera málið. En með því að nefna Agnesi ekki á nafn og varpa síðan upp hinum og þessum neikvæða pólnum sem þið viljið ekki sjá að verði, þar með gerið þið henni að mörgu leiti upp ýmsa ókosti á ómálefnalegan hátt. Þið gefið í skyn - með því að bera þau ekki saman eða geta Agnesar í engu - að það sem Sigurður hafi, það hafi hinn aðilinn ekki. Nú þarf ekki að ganga lengra í að rekja þann punkt, en að lokum má benda á æpandi spurningu sem felst í pistlinum - í fullri vinsemd - hvaða guðfræði aðhyllist þið í þessu samhengi? Samtal, hlustun og velvilji getur orðið að innihaldslausri froðu þegar orkan fer í að þóknast almenningsálitinu. Hamingjan er ekki eitthvað sem við vinnum okkur inn eða sýnum í kvöldverðarboðum. Jesús Kristur keppti ekki að því að verða "hamingjumaður í lífi og starfi". Sigurður er baráttumaður og hefur skarpa framtíðarsýn, það er rétt, en í því felast líka eiginleikar sem róta upp illviðrum, espa upp guðleysingja og kalla fram vanmáttarkennd hjá þeim sem fagna ekki sama láni í lífinu og sr. Sigurður. Það er í fljótu bragði einn meginmunur á þessum tveimur kandídötum að mínu mati sem þið hjónin megið hugsa um í ljósi sögunnar sem sögð var í sunnudagaskólunum í gær; af barninu sem stendur guðsríkið opið að dómi Krists, þar sem lærisveinarnir kíta um það hver þeirra sé mesti vinurinn. Agnes er "bara" sú sem hún er - á meðan Sigurður er alltaf að reyna vera sá sem þú vilt að hann sé. Góðar stundir, í Guðs friði. Ónefndur Vinur.

Nafnlaus sagði...

Ein spurning til þess sem skrifar hér nafnlaust að ofan og sett fram í vinsemd. Ertu 13 ára?

-Guðfinnur Sigurvinsson.

Nafnlaus sagði...

Er það ekki augljóst Guðfinnur?

- Alfinnur.