miðvikudagur, 26. desember 2012

Bjartur í Sumarhúsum og Jósef Jakobsson

“Þú getur haft mig fyrir því að frelsið er meira vert en lofthæðin í bænum” mælir Bjartur í Sumarhúsum. Í átján ár hefur hann stritað fyrir hreppstjórann og nú á hann fyrir fyrstu útborgun í frelsinu sem er það að eiga sinn bæ, sinn hund, sínar rollur og sína konu. Og það er tíkin Títla sem ein hlýðir á mál húsbóndans þar sem hann “gengur um í sínu eigin túni rannsakar vallgrónar rústirnar, athugar steininn í stekkjarveggjunum, rífur í huganum og byggir upp aftur sams konar bæ og hann er fæddur í og uppalinn fyrir austan heiði.” “Það er ekki allt komið undir risinu […] það er frelsið í landinu sem við erum öll að sækjast eftir, Títla mín. Sá sem stendur í skilum er konungur. Sá sem dregur fram sínar kindur býr í höll. (Halldór Laxness, Sjálfstætt fólk, fyrsta útgáfa s. 19) Þannig hefst sú saga sem Halldór Laxness skráði í tveimur bindum og heitir Sjálfstætt fólk. Sagan af Bjarti í Sumarhúsum og því fólki og skepnum sem með honum þrauka er saga af hörmung. Er fyrri kona hans, Rósa, var dáin af barnsförum, og Bjartur er á för heim í Sumarhús eftir jarðarförina með nýja konu Finnu að nafni og aldraða móður hennar sem Hallbera heitir og presturinn hafði komið inná hann því þær voru vegalausar, þá vappar tíkin við hlið honum „vonglöð í hjarta. Það er yndislegt að fara heim. Og í hvert skipti sem hún var komin nokkra faðma fram úr honum, þá snéri hún við, og leit til hans full af óbilandi trúnaðartrausti, sneri við í stórum boga. Hún bar slíka lotningu fyrir húsbónda sínum, að hún dirfðist ekki að ganga framar en hann. Það sem hundurinn leitar að, finnur hann hjá manninum. Hann hallaðist áfram móti mjallrokinu og teymdi Blesa, en gaut oft auga til hundkvikindisins síns, - þetta grey, lúsugt og ormaveikt, en hvar býr tryggðin sjálf, ef ekki í þessum mórauðu augum, […] Það sem maðurinn leitar að finnur hann í augum hundsins.” (s. 216) Samband Bjarts og tíkurinnar hljómar líkt og viðlag í gegnum söguna alla, því hver hundstíkin tekur við af annari í beinan kvennlegg og er því í raun alltaf söm. Af öllum persónum er tíkin hans nánasti aðstandandi í þrotlausri baráttu fyrir frelsi og sjálfstæði. Þar ber aldrei skugga á. Mögnuð er lýsingin er Bjartur fer með hest sinn og hund í fjárleitir, skilur Rósu ófríska og vannærða eftir heima því engin er kýrin og mjólkin og kjöt skyldi ekki borðað á bænum fyrr en búið væri að draga fram dilka og standa í skilum við hreppstjórann. En konunni til hugarhægðar tjóðrar hann eitt lamb við staur svo hún hafi félagsskap í fjarveru hans. Þessu lambi slátrar Rósa, og bjargar þannig lífi sínu og barnsins sem hún ber undir belti, drekkur blóð, borðar mör, sýgur merg og neytir kjöts. En sökum þess að hún vogar ekki að segja bónda sínum sannleikann um lambið sem nú er horfið og líka af þeirri ástæðu að hann veit að barnið sem hún gengur með er ekki hans barn heldur hreppstjórasonarins á Rauðsmýri þá er hann á fjöllum að leita lambsins þegar Rósa fæðir. Er hann kemur af heiðinni eftir mikla hrakningaför finnur hann konu sína dána á köldu baðstofugólfinu en tíkarskarnið hefur hringað sig utan um hvítvoðunginn og haldið í honum lífinu. Þar er komin Ásta Sóllilja. Það sem hundurinn leitar að finnur hann hjá manninum og það sem maðurinn leitar að finnur hann í augum hundsins. Bjartur í Sumarhúsum er í sömu aðstöðu og Jósef Jakobsson. Báðir lifa þeir undir ranglátu yfirvaldi og fara hrakförum með konu sinni sem ber barn einhvers annars. Ástarraunir, ranglát yfirvöld og ólán mætir þessum mönnum báðum en þó er sitthvað sem skilur þá að. Hefði María átt hann Bjart í Sumarhúsum hefði gistingin í gripahúsinu aldrei verið þegin. Eina persónu lagði Bjartur mesta fæð á af öllum persónum sögunnar, það var kýrin sem kvenfélagið kom inná hann með heilsu kvenna og barna í huga og lét fylgja vetrarbyrgðir af heyfóðri. Úr gömlum vetlingi sem geymdur var í hjónarúminu í dýnunni undir seinni konunni taldi Bjartur fram hundrað krónur og greiddi kýrverðið út í hönd. Með tilkomu kýrinnar tóku börnin sem fjölgað hafði á heimilinu að braggast, heimilisbragurinn mildaðist allur og sá dagur kom að Finna reis úr rekkju en þar hafði hún haft vetrardvöl. Ekkert af þessu gladdi heiðarbóndann. “Varðar þig og kvenfélagið nokkurn skapaðan hlut um mína konu, mér er spurn. Eða mín börn?” Mælti hann við hreppstjórann er hann kom að skila honum kýrverðinu því þetta hafði verið gjöf. “Ef ég hvorki skulda þér né kvenfélaginu, þá vil ég líka mælast til þess, að hvorki þú né kvenfélagið blandir þér út í mína konu og mín börn. Ég á mína konu og mín börn í lífi og dauða. Og það kemur mér einum við og hvorki þér né kvenfélaginu, hvort mín börn braggast vel eða illa.” (s. 291-2) Ótalin eru börnin í sögunni sem Finna elur andvana eða deyja í frumbernsku og ótaldar ferðir Bjarts yfir heiðina með hest sinn og hund að grafa börn í garðinum hjá prestinum. Hvers kyns aðvaranir eða ráð, hótanir, grátstafir eða bænir falla sem vatn af gæs. Bjartur er sjálfstæður maður. Svo greinir Mattesus frá: „Er vitringarnir voru farnir þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi og segir: „Rís upp, tak barnið og móður þess og flý til Egyptalands. Þar skaltu vera uns ég segi þér því að Heródes mun leita barnsins til að fyrirfara því.“ Hefði hún María átt hann Bjart í Sumarhúsum hefðu hermenn Heródesar hremmt barnið. Vandi Bjarts og allra sem eiga öryggi sitt undir honum komið er sá að það sem hann leitar að finnur hann í augum hundsins. Hundsaugun eru hans stóra svar því þau tjá honum þá hollustu sem hann þráir að finna en finnur hvergi nema þar. Á meðan Bjartur horfir í augu hundsins horfir Jósef í augu barnsins. Ekkert augnatillit er jafn krefjandi og barnsaugun því barnið lofar engu en krefst alls. Vanhirt hundstíkin lúsug og ormaveik fylgir húsbónda sínum í órofatryggð og mænir á hann jafnt þótt hún sé barin. Þegar Bjartur er búinn að berja Ástu Sóllilju þá hættir hún að þora að horfa á hann nema í laumi þótt hún elski hann og þrái nálægð hans. Sá sem leitar lokasvars í augum hundsins mætir aldrei augnaráði barnsins því það mun dylja ásjónu sína fyrir honum. Um þennan veruleika ræðir Gabríel erkiengill við Sakaría föður Jóhannesar skírara í formálskafla sögunnar um Jesú eins og hún er skráð hjá Matteusi. Hann lýsir fyrir Sakaría því hlutverki sem drengurinn hans verði kallaður til og hvernig hann muni undirbúa komu frelsarans í heiminn: “Hann mun ganga frammi fyrir [Guði] í anda og krafti Elía, til að snúa hjörtum feðra til barna sinna og gefa óhlýðnum réttlátt hugarfar og búa Drottni altygjaðan lýð.”(Lúk. 1.17) Í þessum orðum bjarmar af þeim nýju lífsmöguleikum sem jólin boða. Hér heyrist krafan sem fólgin er í fæðingu barnsins í Betlehem. Krafan um hlýðni við lögmál lífsins, krafan um að hjörtu feðra snúi að börnum þeirra í stað þess að spegla sig í valdinu sem raðar öllu og öllum í goggunarröð. Sjálfstætt fólk er saga um óhlýðni við lífslögmálið, saga af hörmung þess rangláta hugarfars þegar hundsaugun eru valin umfram augu barnsins. Þegar Bjartur ber fyrri konu sinni á brýn daginn eftir brúðkaupið að e.t.v. hafi hún átt vingott við fleiri en sig þá „rís hún upp í reiði: Það veit Guð og Jesús Kristur, að ef ég sé eftir nokkrum sköpuðum hlut, þá sé ég eftir að hafa ekki haft þá alla í staðinn fyrir að giftast þér, sem tekur sauðkindina langt fram yfir mannssálina og trúir á hundinn. Það vildi ég óska að ég hefði haft vit á að snúa aftur í dag og fara heim til pabba og mömmu.”(s. 55) Í sögulok þegar búið er þrotið og Bjartur stendur uppi í vanskilum og vanmáttugri reiði búinn að reka Ástu Sóllilju ófríska af höndum sér með löðrungi þá er það Þórir bóndi á Gilteigi sem mælir fram orð Garbríels engils: „…aðalatriðið hélt ég væri þó það, að trúa á sín börn, hvað sem í skerst. Það hef ég alltaf gert. Hvað sem kom fyrir mín börn, ég rak þau aldrei burt. (s.317) Munurinn á göngulagi þessara tveggja manna, Bjarts í Sumarhúsum og Jósefs Jakobssonar, liggur í því að annar þiggur ekki ráð af neinum en hinn kann að hlusta og leiða hugann að annars konar viðbrögðum. Annar tortryggir allt sem að honum snýr og lítur á hvers kyns aðstoð sem fjandsamlega íhlutun eða hnýsni, hinn þiggur það sem vel er meint, opnar dyr sínar fyrir heimsóknum fátækra fjárhirða sem ekkert eiga nema lotninguna og þakklætið og eins fyrir vitringum frá framandi löndum sem koma færandi hendi. Gæfa hinnar heilögu fjölskyldu sem lýst er í Matteusar- og Lúkasarguðspjalli er sú að saman standa þau opin fyrir lífinu og því stendur lífið opið fyrir þeim og frásögnin af lífsbaráttu þeirra er full af æðruleysi því hún er sögð frá sjónarhóli nægta og þakklætis. Í þeirri sögu er konungurinn Heródes aftur fulltrúi þess valds sem finnur það sem það leitar að í augum hundsins og því er hann fátækur þótt auðugur sé og hræddur búandi í hervirki. Heimsókn og erindi vitringanna er honum ögrun því hann lifir í veröld stigveldisins þar sem augu barnsins eru hundsuð og barnamorðin í Betlehem drynja líkt og fjarlægar þrumur í bakgrunni sögunnar. Saga Jesú líkt og Sjálfstætt fólk Halldórs Laxness opnar á þann sannleika að menning sem trúir á hundinn mun alltaf brjóta lífslögmálið. Menning sem innst inni er bundin í goggunarraðir og stigveldissamskipti mun aldrei finna frið og jafnvægi því hún lifir og nærist á ójöfnuði. Menning hundsins mun alltaf skipuleggja fátækt sem órjúfanlegan þátt í mannlífinu því án hins fátæka skortir þann hagstæða samanburð sem leitað er að. Í nýlegri skýrslu Rauðakrossins og Hjálparstarfs kirkjunnar sem ber heitið Farsæld (http://www.raudikrossinn.is/doc/10417478?wosid=false) er ákall til íslenskrar þjóðar um að yfirgefa hugarfar hundsins en taka við kröfu barnsins og viðurkenna þá staðreynd að við erum öll fædd til lífs og mannréttinda. Í stað þess að veðja á aumingjagæskuna sem er skilgetið afkvæmi stigveldishugsunarinnar í glímunni við fátæktarvandann er bent á mannréttindi annars vegar og þekkingu okkar á því hvernig efla má fólk að völdum í eigin lífi hins vegar. Þar er þess krafist að engin börn lifi slíka æsku sem lýst er í Sumarhúsum heldur skuli vaxandi kynslóð fá að treysta því að þau eigi foreldra, feður og mæður, já samfélag sem snýr hjarta sínu að þeim og dreifir valdi sínu til allra sem lifa. Bjartur í Sumarhúsum stendur einn frammi fyrir heiminum, fastur í fjötrum tíðarandans og eigin hugarfars og í sögulok er niðurstaðan þessi: “Einyrkinn kemst ekki úr kreppunni um allar aldir, hann heldur áfram að vera til í hörmung, eins lengi og maðurinn er ekki mannsins skjól, heldur versti óvinur mannsins.” (s. 345)

3 ummæli:

sportstotolink sagði...

Youre so cool! I dont suppose Ive read something such as this before. So nice to find somebody with authentic applying for grants this subject.
사설토토

sportstototopcom sagði...

Thanks for sharing a great article.
You are providing wonderful information, it is very useful to us.
Keep posting like this informative articles.
스포츠토토탑

totosafedb.com sagði...

Well I definitely enjoyed studying it. This information provided by you is very practical for good planning. 토토사이트