mánudagur, 7. júlí 2008

Paul Ramses og Jesús frá Nasaret

Hér gefur að líta fyrstu bloggfærslu okkar hjóna.
Á þessum vettvangi ætlum við að birta sitt af hverju sem okkur langar að koma á framfæri saman og hvort í sínu lagi.

Hér kemur prédikun sem við sömdum í gær, 6.7.'08, og fluttum í kvöldmessum kl. 20:00 í Garðakirkju og í Laugarneskirkju.
Textar þessa sunnudags eru: Sálm. 147.1-112., Kor. 9.8-12 og Mark. 8.1-9.


Íslensk þjóð stendur frammi fyrir hversdagslegum vanda þessa dagana. Ung fjölskylda frá fjarlægu landi leitar ásjár okkar þar sem heimilisfaðirinn álítur lífi sínu ógnað í heimalandinu. Hversdagslegur vandi segi ég því flóttamannavandinn er hversdagur í veröldinni. Milljónir eru á flótta um yfirborð þessa hnattar af margvíslegum ástæðum og eftir að við hófum Íraksstríð hefur þeim fjölgað mikið. Opinberar tölur herma að fram að Íraksstríði hafði þeim fækkað nokkuð en svo hafi þróunin orðið öfug.
Ein fjölskylda af milljónum knýr nú á dyr okkar með sérstökum hætti, og við vitum að þær eru miklu fleiri. Verðum við ekki bara að vera raunsæ? Hvernig eigum við svo sem að leysa flóttamannavandann? Þótt við tækjum við þúsund flóttamönnum á ári yrði það ekki nema dropi í hafið. Þótt við tækjum alla vara- og viðlagasjóði landsins og nýttum þá handa bágstöddum flóttamönnum, þá gætum við ekki breytt ástandinu.

Í Guðspjalli dagsins standa lærisveinar Jesú andspænis viðlíka vandamáli. Hversdagslegu vandamáli. Hópur fólks er orðinn svangur. Fæði til að borða, land til að bú á, þetta eru hversdagslegustu viðfangsefni allra hversdagslegra viðfangsefna. Enda segir í Guðspjallinu: “Um þessar mundir bar enn svo við að mikill mannfjöldi var saman kominn og hafði ekkert til matar.” Þessar aðstæður voru kunnuglegar. Mikið af fólki og lítið af mat. Dæmigerð uppákoma! “Jesús kallar þá til sín lærisveinana og segir við þá: „Ég kenni í brjósti um mannfjöldann. Menn hafa nú verið hjá mér þrjá daga og hafa ekkert til matar. Láti ég þá fara fastandi heim til sín örmagnast þeir á leiðinni en sumir þeirra eru langt að.“” 
Það var þetta sem gerði það svo fyrirhafnarsamt að vera í slagtogi við Jesú. Hann hafði samlíðan með fjöldanum. Hann setti sig í spor fólks. Matteus guðspjallamaður lýsir því m.a. svo á einum stað: “Er Jesús sá mannfjöldann kenndi hann í brjósti um hann því menn voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir er engan hirði hafa.” (Matt. 9.34.ff )

Vesen! Í sögu dagsins erum við stödd á einskonar óskipulagðri útihátíð. Fólk er saman komið í stórum hópi, hver og einn er þarna á eigin ábyrgð. Enginn hátíðararhaldari ábyrgur fyrir gæslu á svæðinu. Og þá gerist þetta sem oft gerist í mannfélagi, það bara skapast eitthvert ástand. En í stað þess að vísa vandanum til föðurhúsanna þá tekur Jesús aðstæðurnar inn á sig. Hann hefði getað fært rök fyrir heimsku og fyrirhyggjuleysis þessa fólks sem þarna var komið í sjálfheldu, matarlaust úti í óbyggð, en hann valdi aðra leið. “Ég kenni í brjósti um mannfjöldann!” Tökum líka eftir því að lærisveinarnir gagnrýna Jesú ekki fyrir þá afstöðu. Þeir gera það ekki en treysta sér þó engan veginn til að taka undir orð hans, heldur benda á vankantana, hindranirnar. „Hvar er hægt að fá brauð til að metta þetta fólk hér í óbyggðum?“ spyrja þeir. Og lái þeim hver sem vill. Jesús spurði þá: “Hve mörg brauð hafið þið?”

Þetta var alveg glötuð spurning. Við erum að tala um ekki færri en 8000 manns. Þarna voru 4000 karlmenn og lágmark annar eins fjöldi kvenn og barna ef ekki miklu fleira fólk. - Ég kenni í brjósti um fólkið, segir Jesús- Hvar ætti að vera hægt að kaupa brauð fyrir allan þennan mannfjölda? Spyrja lærisveinarnir.- Hve mörg brauð hafið þið?
Spurning Jesú er absúrd, fáránleg, út frá öllum venjulegum mælikvörðum. En það er einmitt þarna sem undrið gerist. Einhverjir í lærisveinahópnum fara að telja. Eitt, tvö, þrjú... sjö! “Við erum með sjö brauð!....”
Það er ekki líklegt að sá sem taldi brauðin og gaf upp niðurstöðuna hafi verið mjög upplitsdjarfur. Sjö brauð fundust í fórum lærisveinanna. Eitt brauð fyrir meira en þúsund manns! Það er alvöru kreppa.
“Þá bauð Jesús fólkinu að setjast á jörðina,” skrifar Markús guðspjallamaður, “tók brauðin sjö, gerði þakkir og braut þau og gaf lærisveinum sínum að þeir bæru þau fram. En þeir báru þau fram fyrir fólkið. Þeir höfðu og fáeina smáfiska. Hann bað Guð að blessa þá og bauð að einnig þeir skyldu bornir fram. Menn neyttu og urðu mettir.”
Hve mörg brauð hafið þið? Spurði Jesús. Tökum eftir því að Jesús spurði lærisveina sína ekki um það sem þeir ekki höfðu. Hvað hafið þið? Og þegar einhver þeirra átti næga trú til þess að horfa burt frá hindrununum sem sannarlega voru óyfirstíganlegar og byrja bara að gramsa ofan í skjóðuna sína og kanna stöðuna, þá var lausnin í sjónmáli.
Þetta litla trúarskref var það sem þurfti til þess að fjöldin fengi nægju sína. Í stað þess að einblína á hindranir tóku fylgjendur Jesú að skoða möguleika sína, hversu litlri sem þeir voru. Hvað get ég gert? Hvað er á mínu valdi?

Þessi sem brauðin taldi var enginn bjáni. Hann vissi að sjö brauð voru jafn lítið og ekkert brauð, tæknilega séð. Tæknilega séð var vandamálið óyfirstíganlegt. Tæknilega séð er flóttamannavandinn í heiminum íka óyfirstíganlegur. Hvorki þú né ég munum breyta þeirri staðreynd, og við erum ekki krafin um það. Jesús krefur okkur hins vegar um að gera það sem við getum í þeim aðstæðum sem við lifum við. Hve mikið pláss hafið þið? Spyr hann. Hafið þið pláss fyrir Paul Ramses frá Kenýju, eiginkonu hans og nýfæddan son? Höfum við pláss fyrir þessa fjölskyldu? Getur íslenskt samfélag tekið við þeim? Ef svar okkar er játandi, þá er það krafa Jesú frá Nasaret að hann fái hæli.
Því má bæta við að samkvæmt lögum um útlendinga nr. 96 frá árinu 2002 segir í 46. gr. “ Ekki skal endursenda flóttamann til annars ríkis (skv. c-, d- og e-lið 1. Mgr). ef hann hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd.
Þessi maður mun hafa búið hér á landi fyrir nokkrum árum. Barn hans er fætt hér á landi og kona hans er hér komin. Fulltrúar ABC hjálparstarfs munu hafa upplýsingar um að lífshætta steðji að manninum í heimalandi hans þar sem hann hafi tekið þátt í pólitísku framboði gegn ríkjandi valdhöfum.
Íslandsdeild Amnesty International hefur sent dómsmálaráðherra bréf þar sem farið er fram á að íslensk yfirvöld endurskoði ákvörðun sína um að vísa manninum úr landi án þess að skoða mál hans.
 Í bréfi sínu benda samtökin á að í ár séu “sextíu ár liðin frá því að Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt. Í fjórtándu grein hennar segir: „Rétt skal mönnum vera að leita og njóta griðlands erlendis gegn ofsóknum.“ Amnesty bendir líka á að réttur flóttamanna sé tryggður í alþjóðasamningum sem við erum aðilar að m.a. með flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1951. 
Í bréfinu er síðan fullyrt að Ríkisstjórnir Evrópuríkja hafa á undanförnum árum þróað með sér sameiginlega stefnu í málefnum flóttamanna sem leiði til þess að “almenn viðmið framkvæmdaráðs Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna [séu] ekki í heiðri höfð.” Þá telja samtökin það “mikið áhyggjuefni að íslensk yfirvöld taka æ færri hælisumsóknir til efnislegrar meðferðar og senda þess í stað hælisleitendur til þriðja lands.” Loks eru íslensk stjórnvöld hvött til að “endurskoða ákvörðunina ekki síst í ljósi þess að með endursendingu Paul Ramses til ítalíu hafa íslensk yfirvöld gengið á rétt nýfædds sonar hans til að njóta umönnunar beggja foreldra."

Það er kristinn siður að gera það sem í valdi manns stendur. Jesús spurði lærisveina sína ekki að því hvernig þeir hyggðust leysa það vandamál að fólk yrði svangt. Hann bað þá ekki að finna lausn á þeirri tilhneigingu í mannlegu félagi að allskonar óæskilegt ástand skapist. Hann sagði þeim einfaldlega hvernig honum leið við það að sjá aðstæður fólksins og svo bað hann þá að kíkja í skjóðurnar sínar og gera litla vörutalningu. Það var nóg. Svona var göngulag Jesú í málefnum fjöldans og einstaklingsins. Hann greindi þarfir fólks, setti sig í spor þess og gerði skýlausa kröfu til fylgjenda sinna að þeir gerðu slíkt hið sama í eigin lífi.

Svo lýkur sögunni ósköp pent með þessum orðum “Síðan tóku lærisveinarnir saman leifarnar, sjö körfur. En þar voru um fjögur þúsund manns. Síðan lét hann fólkið fara.”
Með þessu niðurlagi sögunnar er einfaldlega verið að segja þetta: Þegar við tökum mark á þörfum meðbræðra okkar þá höfum við nóg. Sjö körfur voru fullar af leifum brauðanna sjö. Í dýpsta eðli sínu er lífið nefnilega gjöf en ekki fengur og það streymir til þeirra sem leyfa því að streyma um sig til annarra. Þegar við óttumst tilhugsunina um að deila með öðrum þá er það vegna þess að okkur skortir skyn á veruleikann. Trúin á Jesú hjálpar okkur til að vera í slíkum raunveruleikatengslum. Amen.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir þessa hugvekju.

Nafnlaus sagði...

Og ef allir fátæklingarnir sem í afríku búa kæmu til evrópu yrðu nú ekki einu sinni eftir 7 brauð,svo að svona dæmisögur dæma sig nú bara sjálvar og það er ekki hægt að brúka þær til eins eða neins.

Nafnlaus sagði...

Kærar þakkir fyrir þetta. Já, þessi Jesú með allt sitt vesen!
Hugsanlega - hugsanlega - finnur einhver leið til að yfirstíga þá óleysanlegu hindrun að leyfa litlu barni að njóta samvista við föður sinn. Þrátt fyrir allt bölvað vesenið ...

Nafnlaus sagði...

Maturinn sem Evrópubúar henda sem afgang, útrunnið eða til að halda verðinu uppi, myndi nægja til að fæða alla Afríku.

Skipulagið í samkomulagi ríku þjóðarleiðtoganna er: Ríku þjóðirnar fyrst af ofgnóttinni og hinir bara ef afgangur er! (og ef hægt er að græða á því)

Evrópa byggði auð sinn á því að ræna Afríku öldum saman. Og gekk svo rækilega til verks að menningarsamfélögin hafa ekki náð sér.

kona

Nafnlaus sagði...

Já.

Sannarlega er lífið gjöf.

Eins og stjörnufræðingurinn sagði þegar hann virti fyrir sér næturhimininn:

,,Miklihvellur. Hann er sjö brauð og fimm fiskar í lagi!"

Balzac.

Nafnlaus sagði...

Ljúft að lesa þetta í Borgarfirðinum í smá leyfi frá blessaðri sólinni!