Ég má til að segja hérna frá nýju námskeiði sem ég stend fyrir í safnaðarheimili Laugarneskirkju næstu sex þriðjudagskvöld. Yfirskriftin er sú sama og hér að ofan.
Ég fékk skemmtilegustu konu sem ég hef hitt lengi Margréti Sigfúsdóttur snilling og hússtjórnarkennara til að útskýra einfaldlega hvernig hægt er að gera góðan og ódýran mat án þess að henda helmingnum af honum. Sjálfur tilheyri ég pakka-kynslóðinni. Örbylgjan varð okkar lausn með tilheyrandi umbúðum og drasli af því að við höfum ekki tíma. Margrét kann ráð við þess háttar.
Pakka-kynslóðin er líka alltaf að láta narra sig til að henda peningum. Þess vegna fékk ég langreyndan bankamann, kerfisfræðing og heimilisföður til að kenna okkur einfalt heimilisbókhald. Hann heitir Snorri Halldórsson og er öðlingur og gull að manni. Sjálfur mun ég svo tala tvö síðustu kvöldin um hina fornu visku sem býr á bak við bænina "Gef oss í dag vort daglegt brauð" auk þess sem ég fjalla um hvað við meinum þegar við segjum að heimilið sé heilagt.
Þetta verður bara gaman. Fyrst tvö þriðjudagskvöld með Margréti svo önnur tvö með Snorra áður en ég kenni tvö síðustu kvöldin. Við byrjum þriðjudaginn næsta, 30.9. kl. 20:40 og tímum lýkur 22:00.
Nú hefur fólk sem sagt góða afsökun fyrir því að koma í kirkju. Allir þurfa jú að spara! Nú heldur enginn að þú sért að koma út úr skápnum, skilja, frelsast eða brjálast þótt þú leggir bílnum fyrir utan kirkjuna að kvöldi til. Notaðu þetta einstaka tækifæri, finndu Laugarneskirkju á leitarvél já.is og láttu vaða!
Bjarni Karlsson, sóknarprestur
sunnudagur, 28. september 2008
mánudagur, 15. september 2008
Hagkvæmur rekstur og heimasæla
Nú er á döfinni alveg sérstakt fræðslutilboð í Laugarneskirkju sem mig langar að vekja athygli á hér þar sem það á beint erindi við fjölskyldurnar í landinu auk þess sem ég er frekar stoltur af þessu tiltæki.
Við munum bjóða upp á fræðslukvöld sex þriðjudaga í röð kl. 20:40 – 22:00
sem bera yfirskirftina Hagkvæmur rekstur og heimasæla.
• Að skapa gott heimili og spara í leiðinni.
• Heimilismatur, heimilisbókhald, heimilisbragur.
Margrét Sigfúsdóttir hússtjórnarkennari og snillingur, Snorri Halldórsson kerfisfræðingur og bankamaður annast fræðsluna ásamt undirrituðum.
Fyrsta kvöldið af sex hefst á fræðslu Margrétar Sigfúsdóttur þriðjudaginn 30. sept.
Þó mun ég bjóða upp á fræðslu strax frá þriðjudeginum næsta (16.9.) þar sem ég legg guðfræðilegan grunn að þeirri fræðslu sem fram mun fara með því að fjalla um hvað átt er við þegar menn segja að heimilið sé heilagt. Hvað er heilagt við heimili og hvaða hagnýtu merkingu hefur sú fullyrðing?
Ástæða þess að við viljum gera þetta er sú að við breyttar efnahagsaðstæður þurfa fjölskyldur að temja sér nýtt göngulag sem ekki er síst í því fólgið að rifja upp gamalt göngulag í heimilisrekstri og heimilisbrag. Við erum pakka-kynslóðin. Við höfum vanist því að fá allt í umbúðum með einföldum leiðbeiningum þar sem helmingi vörunnar er fleygt og hins neytt í flýti. Nú er kominn tími til að rifja upp hvernig maður unir heima hjá sér og finnur eirð í sínum beinum án þess að kaupa umbúðir og afþreyingu. Hvernig fer maður að við að skapa heimasælu?
Þess má geta að kvöldsöngur er alla þriðjudaga kl. 20:00 í kirkjunni svo að gott er að vera með þar og koma svo yfir á fræðslukvöldið í safnaðarheimilinu.
Bjarni Karlsson
srbjarni@ismennt.is
Við munum bjóða upp á fræðslukvöld sex þriðjudaga í röð kl. 20:40 – 22:00
sem bera yfirskirftina Hagkvæmur rekstur og heimasæla.
• Að skapa gott heimili og spara í leiðinni.
• Heimilismatur, heimilisbókhald, heimilisbragur.
Margrét Sigfúsdóttir hússtjórnarkennari og snillingur, Snorri Halldórsson kerfisfræðingur og bankamaður annast fræðsluna ásamt undirrituðum.
Fyrsta kvöldið af sex hefst á fræðslu Margrétar Sigfúsdóttur þriðjudaginn 30. sept.
Þó mun ég bjóða upp á fræðslu strax frá þriðjudeginum næsta (16.9.) þar sem ég legg guðfræðilegan grunn að þeirri fræðslu sem fram mun fara með því að fjalla um hvað átt er við þegar menn segja að heimilið sé heilagt. Hvað er heilagt við heimili og hvaða hagnýtu merkingu hefur sú fullyrðing?
Ástæða þess að við viljum gera þetta er sú að við breyttar efnahagsaðstæður þurfa fjölskyldur að temja sér nýtt göngulag sem ekki er síst í því fólgið að rifja upp gamalt göngulag í heimilisrekstri og heimilisbrag. Við erum pakka-kynslóðin. Við höfum vanist því að fá allt í umbúðum með einföldum leiðbeiningum þar sem helmingi vörunnar er fleygt og hins neytt í flýti. Nú er kominn tími til að rifja upp hvernig maður unir heima hjá sér og finnur eirð í sínum beinum án þess að kaupa umbúðir og afþreyingu. Hvernig fer maður að við að skapa heimasælu?
Þess má geta að kvöldsöngur er alla þriðjudaga kl. 20:00 í kirkjunni svo að gott er að vera með þar og koma svo yfir á fræðslukvöldið í safnaðarheimilinu.
Bjarni Karlsson
srbjarni@ismennt.is
mánudagur, 8. september 2008
Siðferðisleg og himnesk gæði
Þessa prédikun sömdum við hjónin og fluttum hvort í sínu lagi í Garðakirkju og Laugarneskirkju 7. 9. 2008.
Textar þessa sunnudags eru magnaðir: Job 19.25-27, Pistill: Ef 3.13-21, Guðspjall: Lúk 7.11-17
Í gær var borinn til hinstu hvíldar dr. Sigurbjörn Einarsson biskup. Á banalegunni undirbjó hann útför sína af kostgæfni sem fólst í því að allt sem sagt yrði og gert bæri vitni um sigur lífsins og að fagnaðarerindið sem hann boðaði í lífi sínu fengi að hljóma við hinstu kveðju. Stundin var helg og kirkjan full af ríku þakklæti þjóðar og ástvina. Sr. Jón Dalbú Hróbjartsson þjónaði og greindi m.a. í ræðu sinni frá síðustu orðum sem herra Sigurbjörn hafði ritað á banalegu sinni. Þau hljóðuðu svo: “Jesús er á krossinum sínum að skapa páska handa mér og öllum. Dýrð sé þér Drottinn minn.”
Sagan af Jesú frá Nasaret er lýsing á þeim gæðum sem mestu varða hverja lifandi manneskju. Sá sem á myndina af Jesú Kristi á krossinum uppmálaða fyrir augum sér og skilur í hjarta sínu og trúir heilshugar þeim fögnuði að á krossinum þjáist Guð með okkur í allra stað, sá gengur ekki undirbúningslaust til móts við verkefni lífsins.
Þjáningin mætir öllum. “Það missa allir allt sem þeim er gefið” kvað skáldið og þeim orðum verður ekki hnekkt. Þjáning, missir og sorg eru jafn sjálfsagðir þættir þessa jarðlífs og fögnuður, ást og gleði. Krossinn tjáir okkur að Guð veit og þekkir af eigin raun þann kalda veruleika sem enginn fer varhluta af.
Sagan af Jesú eru lýsing á gæðum, segi ég, um leið og hún lýsir sammannlegum aðstæðum.
Í Guðspjalli dagsins birtist ekkja og móðir sem er að fylgja einkasyni til grafar. Einsemd hennar er alger, maki og einkasonur hafa kvatt þennan heim og eftir stendur hún allslaus. Er þetta ekki það sem við óttumst mest, ég og þú? Óttumst við sem erum foreldrar ekki mest af öllu að þurfa að standa yfir moldum okkar eigin barna? Og hvaða hjón hugsa ekki þá hugsun að dag einn muni leiðir óhjákvæmilega skiljast? Við sjáum hana þar sem hún gengur tilfinningalega og félagslega yfirgefin, ekkja í líkfylgd einkasonar. Og ofan í kaupið er það söguleg staðreynd að kona í þessari aðstöðu var í raun fjárhaglsega á vonarvöl í samtíma sínum.
“Og er Drottinn sá hana kenndi hann í brjósti um hana” segir guðspjallamaðurinn. Hvaða gæði eru hér á ferð? Þessi gæði heita samkennd og siðferði. Jesús sá þessa ókunnugu konu og samleið með henni vegna aðstæðna hennar. Hér er verið að lýsa þeim siðferðislegu gæðum sem Jesús bjó að með sjálfum sér. Samkvæmt sögum guðspjallanna var Jesús slík siðvera að hann setti sig í annarra spor, leið með þeim sem þjáðust, gladdist með þeim sem fögnuðu. M.ö.o. hann kunni og vildi deila gæðum með samferðamönnum sínum.
Dr. Páll Skúlason hélt fyrirlestur á föstudaginn var í tilefni af afmælishátið Siðfræðistofnunar HÍ sem hann stofnaði ásamt dr. Birni Björnssyni heitnum og fleira góðu fólki. Í mjög athyglisverðum fyrirlestri sínum gagnrýndi hann það almenna viðhorf að fyrst þurfi menn efnisleg gæði; fæði, klæði, húsnæði og annað slíkt, þá komi huglæg gæði svo sem færni og þekking áður en huga beri að siðferðislegum gæðum. Þetta telur hann vera fræðilega villu í menningu okkar og heldur því fram að í raun og sann sé þessu öfugt farið hjá mönnum, að brýnustu lífsgæði mannlegrar tilveru séu siðferðisleg en þar á eftir komi huglæg gæði og loks hin efnislegu, sem sannarlega skipti miklu máli en geti ekki orðið að gagni nema siðvit og hugvit fari fyrir. Að deila með öðrum eru helstu mannlegu gæðin að áliti dr. Páls Skúlasonar prófessors. Siðferðisleg gæði skapa að hans áliti félagsauð sem gera að það verkum að menn treysta hver öðrum og verða færir um að deila á milli sín. Við þær aðstæður telur hann að það gerist að manneskjan fari að spyrja sjálfa sig um þetta sem kallað er réttlæti.
Hér erum við hópur fullorðins fólks á sunnudegi að hlusta á Biblíusögur. Hvers vegna notum við tíma okkar til þess að lesa Biblíusögur hvert fyrir annað? Höfum við ekkert þarfara við tímann að gera? Ástæða þess að við erum hér er nákvæmlega sú að m.a.s. sjálfur tíminn sem sannarlega er ekki ómældur og líður hratt og er því ein af verðmætustu gæðum okkar verður lítils virði ef við eigum engan sið til þess að styðjast við. Dr. Páll Skúlason heldur því fram að siðferði sé veruleiki sem líkist tungumálinu. Eins og barnið læri að tala með æfingu og samskiptum þannig vaxi einnig siðurinn með þjálfun og siðferðisleg hugsun dafni þar sem hún sé iðkuð í samfélagi manna. Biblíusögur eru þetta. Þær eru ekki síst þjálfun í siðferði sem gæðir tímann inntaki, merkingu. Hefði Jesús ekki kennt í brjósti um ekkjuna frá Nain, hefði hann verið siðferðislega blankur og horft á þessa konu sem fyrirbæri en ekki manneskju, þá værum við ekki hér. Það er siðferði Jesú, samlíðun hans með fólki og færni hans til þess að deila með öðrum sem er forsenda þessarar sögu.
“Og er Drottinn sá hana kenndi hann í brjósti um hana og sagði við hana: „Grát þú eigi!“
Fyrstu viðbrögð við þessum fyrirmælum hljóta þó að vera þau að hér fari Jesús yfir strikið. Þú einfaldlega fyrirskipar ekki hugarástand og síst af öllu segir þú syrgjanda að hætta að gráta. Þetta geta ekki talist mannasiðir og virðist jafnvel bera vott um skort á siðviti.
Já, satt er það. Það gildir um fleira sem Jesús sagði og gerði, að enginn annar getur talað með þeim hætti.
“Grát þú eigi!” segir Jesús við ekkjuna. “Verið ekki áhyggjufull um líf ykkar!” sagði hann í guðspjalli síðasta sunnudags. “Hví eruð þið hræddir?” spurði hann lærisveina sína í bráðum sjávarháska.
Hin stóra frétt allra þessara sagna er sú að Jesús Kristur býr yfir þeim gæðum sem standa undir hvatningu hans. Hann hefur gæði að bjóða sem hann deilir fúslega. Annars vegar eru það hin siðferðislegu gæði sem á var minnst, hæfnin til þess að deila með öðrum sem laðar fram réttlæti í samskiptum manna. Og ég stenst ekki mátið, áður en ég tala um þau önnur gæði sem Jesús deilir, að vekja athygli á könnun Lýðheilsustöðvar sl. vetur sem einmitt leiddi í ljós að það að veita liðveislu og samfylgd öðru fólki gæfi mesta hamingju. Já, Lýðheilsustöð fór á stúfana að rannsaka andlegt ástand þessarar þjóðar og kanna hamingjustuðulinn og spyrja hvað einkenni hamingjusamt fólk. Niðurstaðan þar var sú að lífsstíll þeirra sem upplifa hamingju er gefandi. Hin hamingjusömu hafa veitula afstöðu til manna og málefni. Sjáið bara lúxusmarkainn í Perlunni um daginn. Þar voru ekki afgangar til sölu heldur mátti einungis færa fram það sem maður vildi helst halda sjálfur. Haldið þið að Ólaf Stefánsson hafi ekki langað að eiga treyjuna sína? Að sjálfsögðu! Enda söfnuðust 30 miljónir, og í kringum markaðinn varð gífurleg gleði þar sem verið var að bæta líf kvenna og barna í Jemen. Af hverju gerði fólk þetta? Vegna þess að þegar siðferðisleg gæði fá að vera í sínu rétta sæti þá langar fólk að deila með öðrum. Það var það sem gerðist. Þetta tiltæki lýsir ekki bara samlíðun frumkvöðulsins Jóhönnu Kristjánsdóttur heldur ber vott um innsæi hennar í mannlegt eðli. Það er gott að gefa. Okkur langar að hafa kjark og tækifæri til þess að lifa veitulu lífi. “Sælla er að gefa en þiggja” er líka haft eftir Jesú sjálfum í Postulasögunni (Post. 20.35). Sælla er að gefa en þiggja.
Og er Drottinn sá hana kenndi hann í brjósti um hana og sagði við hana: „Grát þú eigi!“ Og hann gekk að og snart líkbörurnar en þeir sem báru námu staðar. Þá sagði hann: „Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!“
Ég nefndi það að Jesús hefði tvennslags gæði að bjóða. Siðferðislegu gæðin hef ég nefnt. Hin eru himnesk. Jesús gekk að og snart líkbörunar en þeir sem báru námu staðar. Við lifum í tímanum, hverfulleikanum. Líkfylgdin nemur aldrei staðar í þessum heimi, allt stefnir í sömu átt, til moldar. Þess vegna er svo mikilvægt að Jesús fylgir orðum sínum eftir, snertir líkbörurnar svo að fylgdin nemur staðar. Táknið sem á eftir kemur, gjöfin sem hann færir ekkjunni frá Nain er hann reisir son hennar frá dauðum ber okkur boð himinsins.
Sigurbjörn Einarsson vissi að stundin nálgaðist. Hann sem svo margt hafði skrifað valdi orðin og merkingu þeirra af kostgæfni. Þar birtist kjarninn í starfi hans öllu og trú er skrifar: “Jesús er á krossinum sínum að skapa páska handa mér og öllum. Dýrð sé þér Drottinn minn.”
Siðferðisleg gæði er hægt að eiga án þess að gera Drottinn að sínum, án þess að lofa nafn Drottins og dýrka það, en hin himnesku gæði veitast einungis við snertingu. Jesús snerti börurnar og þá staðnæmdist allt. Þannig snerti hann Sigurbjörn sem ungan mann svo að hann staðnæmdist í þeim friði sem heimurinn getur hvorki gefið né tekið. Í þeim sanna friði kvaddi hann þetta líf vitandi það eitt að “Jesús er á krossinum sínum að skapa páska handa mér og öllum. Dýrð sé þér Drottinn minn.”
Textar þessa sunnudags eru magnaðir: Job 19.25-27, Pistill: Ef 3.13-21, Guðspjall: Lúk 7.11-17
Í gær var borinn til hinstu hvíldar dr. Sigurbjörn Einarsson biskup. Á banalegunni undirbjó hann útför sína af kostgæfni sem fólst í því að allt sem sagt yrði og gert bæri vitni um sigur lífsins og að fagnaðarerindið sem hann boðaði í lífi sínu fengi að hljóma við hinstu kveðju. Stundin var helg og kirkjan full af ríku þakklæti þjóðar og ástvina. Sr. Jón Dalbú Hróbjartsson þjónaði og greindi m.a. í ræðu sinni frá síðustu orðum sem herra Sigurbjörn hafði ritað á banalegu sinni. Þau hljóðuðu svo: “Jesús er á krossinum sínum að skapa páska handa mér og öllum. Dýrð sé þér Drottinn minn.”
Sagan af Jesú frá Nasaret er lýsing á þeim gæðum sem mestu varða hverja lifandi manneskju. Sá sem á myndina af Jesú Kristi á krossinum uppmálaða fyrir augum sér og skilur í hjarta sínu og trúir heilshugar þeim fögnuði að á krossinum þjáist Guð með okkur í allra stað, sá gengur ekki undirbúningslaust til móts við verkefni lífsins.
Þjáningin mætir öllum. “Það missa allir allt sem þeim er gefið” kvað skáldið og þeim orðum verður ekki hnekkt. Þjáning, missir og sorg eru jafn sjálfsagðir þættir þessa jarðlífs og fögnuður, ást og gleði. Krossinn tjáir okkur að Guð veit og þekkir af eigin raun þann kalda veruleika sem enginn fer varhluta af.
Sagan af Jesú eru lýsing á gæðum, segi ég, um leið og hún lýsir sammannlegum aðstæðum.
Í Guðspjalli dagsins birtist ekkja og móðir sem er að fylgja einkasyni til grafar. Einsemd hennar er alger, maki og einkasonur hafa kvatt þennan heim og eftir stendur hún allslaus. Er þetta ekki það sem við óttumst mest, ég og þú? Óttumst við sem erum foreldrar ekki mest af öllu að þurfa að standa yfir moldum okkar eigin barna? Og hvaða hjón hugsa ekki þá hugsun að dag einn muni leiðir óhjákvæmilega skiljast? Við sjáum hana þar sem hún gengur tilfinningalega og félagslega yfirgefin, ekkja í líkfylgd einkasonar. Og ofan í kaupið er það söguleg staðreynd að kona í þessari aðstöðu var í raun fjárhaglsega á vonarvöl í samtíma sínum.
“Og er Drottinn sá hana kenndi hann í brjósti um hana” segir guðspjallamaðurinn. Hvaða gæði eru hér á ferð? Þessi gæði heita samkennd og siðferði. Jesús sá þessa ókunnugu konu og samleið með henni vegna aðstæðna hennar. Hér er verið að lýsa þeim siðferðislegu gæðum sem Jesús bjó að með sjálfum sér. Samkvæmt sögum guðspjallanna var Jesús slík siðvera að hann setti sig í annarra spor, leið með þeim sem þjáðust, gladdist með þeim sem fögnuðu. M.ö.o. hann kunni og vildi deila gæðum með samferðamönnum sínum.
Dr. Páll Skúlason hélt fyrirlestur á föstudaginn var í tilefni af afmælishátið Siðfræðistofnunar HÍ sem hann stofnaði ásamt dr. Birni Björnssyni heitnum og fleira góðu fólki. Í mjög athyglisverðum fyrirlestri sínum gagnrýndi hann það almenna viðhorf að fyrst þurfi menn efnisleg gæði; fæði, klæði, húsnæði og annað slíkt, þá komi huglæg gæði svo sem færni og þekking áður en huga beri að siðferðislegum gæðum. Þetta telur hann vera fræðilega villu í menningu okkar og heldur því fram að í raun og sann sé þessu öfugt farið hjá mönnum, að brýnustu lífsgæði mannlegrar tilveru séu siðferðisleg en þar á eftir komi huglæg gæði og loks hin efnislegu, sem sannarlega skipti miklu máli en geti ekki orðið að gagni nema siðvit og hugvit fari fyrir. Að deila með öðrum eru helstu mannlegu gæðin að áliti dr. Páls Skúlasonar prófessors. Siðferðisleg gæði skapa að hans áliti félagsauð sem gera að það verkum að menn treysta hver öðrum og verða færir um að deila á milli sín. Við þær aðstæður telur hann að það gerist að manneskjan fari að spyrja sjálfa sig um þetta sem kallað er réttlæti.
Hér erum við hópur fullorðins fólks á sunnudegi að hlusta á Biblíusögur. Hvers vegna notum við tíma okkar til þess að lesa Biblíusögur hvert fyrir annað? Höfum við ekkert þarfara við tímann að gera? Ástæða þess að við erum hér er nákvæmlega sú að m.a.s. sjálfur tíminn sem sannarlega er ekki ómældur og líður hratt og er því ein af verðmætustu gæðum okkar verður lítils virði ef við eigum engan sið til þess að styðjast við. Dr. Páll Skúlason heldur því fram að siðferði sé veruleiki sem líkist tungumálinu. Eins og barnið læri að tala með æfingu og samskiptum þannig vaxi einnig siðurinn með þjálfun og siðferðisleg hugsun dafni þar sem hún sé iðkuð í samfélagi manna. Biblíusögur eru þetta. Þær eru ekki síst þjálfun í siðferði sem gæðir tímann inntaki, merkingu. Hefði Jesús ekki kennt í brjósti um ekkjuna frá Nain, hefði hann verið siðferðislega blankur og horft á þessa konu sem fyrirbæri en ekki manneskju, þá værum við ekki hér. Það er siðferði Jesú, samlíðun hans með fólki og færni hans til þess að deila með öðrum sem er forsenda þessarar sögu.
“Og er Drottinn sá hana kenndi hann í brjósti um hana og sagði við hana: „Grát þú eigi!“
Fyrstu viðbrögð við þessum fyrirmælum hljóta þó að vera þau að hér fari Jesús yfir strikið. Þú einfaldlega fyrirskipar ekki hugarástand og síst af öllu segir þú syrgjanda að hætta að gráta. Þetta geta ekki talist mannasiðir og virðist jafnvel bera vott um skort á siðviti.
Já, satt er það. Það gildir um fleira sem Jesús sagði og gerði, að enginn annar getur talað með þeim hætti.
“Grát þú eigi!” segir Jesús við ekkjuna. “Verið ekki áhyggjufull um líf ykkar!” sagði hann í guðspjalli síðasta sunnudags. “Hví eruð þið hræddir?” spurði hann lærisveina sína í bráðum sjávarháska.
Hin stóra frétt allra þessara sagna er sú að Jesús Kristur býr yfir þeim gæðum sem standa undir hvatningu hans. Hann hefur gæði að bjóða sem hann deilir fúslega. Annars vegar eru það hin siðferðislegu gæði sem á var minnst, hæfnin til þess að deila með öðrum sem laðar fram réttlæti í samskiptum manna. Og ég stenst ekki mátið, áður en ég tala um þau önnur gæði sem Jesús deilir, að vekja athygli á könnun Lýðheilsustöðvar sl. vetur sem einmitt leiddi í ljós að það að veita liðveislu og samfylgd öðru fólki gæfi mesta hamingju. Já, Lýðheilsustöð fór á stúfana að rannsaka andlegt ástand þessarar þjóðar og kanna hamingjustuðulinn og spyrja hvað einkenni hamingjusamt fólk. Niðurstaðan þar var sú að lífsstíll þeirra sem upplifa hamingju er gefandi. Hin hamingjusömu hafa veitula afstöðu til manna og málefni. Sjáið bara lúxusmarkainn í Perlunni um daginn. Þar voru ekki afgangar til sölu heldur mátti einungis færa fram það sem maður vildi helst halda sjálfur. Haldið þið að Ólaf Stefánsson hafi ekki langað að eiga treyjuna sína? Að sjálfsögðu! Enda söfnuðust 30 miljónir, og í kringum markaðinn varð gífurleg gleði þar sem verið var að bæta líf kvenna og barna í Jemen. Af hverju gerði fólk þetta? Vegna þess að þegar siðferðisleg gæði fá að vera í sínu rétta sæti þá langar fólk að deila með öðrum. Það var það sem gerðist. Þetta tiltæki lýsir ekki bara samlíðun frumkvöðulsins Jóhönnu Kristjánsdóttur heldur ber vott um innsæi hennar í mannlegt eðli. Það er gott að gefa. Okkur langar að hafa kjark og tækifæri til þess að lifa veitulu lífi. “Sælla er að gefa en þiggja” er líka haft eftir Jesú sjálfum í Postulasögunni (Post. 20.35). Sælla er að gefa en þiggja.
Og er Drottinn sá hana kenndi hann í brjósti um hana og sagði við hana: „Grát þú eigi!“ Og hann gekk að og snart líkbörurnar en þeir sem báru námu staðar. Þá sagði hann: „Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!“
Ég nefndi það að Jesús hefði tvennslags gæði að bjóða. Siðferðislegu gæðin hef ég nefnt. Hin eru himnesk. Jesús gekk að og snart líkbörunar en þeir sem báru námu staðar. Við lifum í tímanum, hverfulleikanum. Líkfylgdin nemur aldrei staðar í þessum heimi, allt stefnir í sömu átt, til moldar. Þess vegna er svo mikilvægt að Jesús fylgir orðum sínum eftir, snertir líkbörurnar svo að fylgdin nemur staðar. Táknið sem á eftir kemur, gjöfin sem hann færir ekkjunni frá Nain er hann reisir son hennar frá dauðum ber okkur boð himinsins.
Sigurbjörn Einarsson vissi að stundin nálgaðist. Hann sem svo margt hafði skrifað valdi orðin og merkingu þeirra af kostgæfni. Þar birtist kjarninn í starfi hans öllu og trú er skrifar: “Jesús er á krossinum sínum að skapa páska handa mér og öllum. Dýrð sé þér Drottinn minn.”
Siðferðisleg gæði er hægt að eiga án þess að gera Drottinn að sínum, án þess að lofa nafn Drottins og dýrka það, en hin himnesku gæði veitast einungis við snertingu. Jesús snerti börurnar og þá staðnæmdist allt. Þannig snerti hann Sigurbjörn sem ungan mann svo að hann staðnæmdist í þeim friði sem heimurinn getur hvorki gefið né tekið. Í þeim sanna friði kvaddi hann þetta líf vitandi það eitt að “Jesús er á krossinum sínum að skapa páska handa mér og öllum. Dýrð sé þér Drottinn minn.”
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)