Ég má til að segja hérna frá nýju námskeiði sem ég stend fyrir í safnaðarheimili Laugarneskirkju næstu sex þriðjudagskvöld. Yfirskriftin er sú sama og hér að ofan.
Ég fékk skemmtilegustu konu sem ég hef hitt lengi Margréti Sigfúsdóttur snilling og hússtjórnarkennara til að útskýra einfaldlega hvernig hægt er að gera góðan og ódýran mat án þess að henda helmingnum af honum. Sjálfur tilheyri ég pakka-kynslóðinni. Örbylgjan varð okkar lausn með tilheyrandi umbúðum og drasli af því að við höfum ekki tíma. Margrét kann ráð við þess háttar.
Pakka-kynslóðin er líka alltaf að láta narra sig til að henda peningum. Þess vegna fékk ég langreyndan bankamann, kerfisfræðing og heimilisföður til að kenna okkur einfalt heimilisbókhald. Hann heitir Snorri Halldórsson og er öðlingur og gull að manni. Sjálfur mun ég svo tala tvö síðustu kvöldin um hina fornu visku sem býr á bak við bænina "Gef oss í dag vort daglegt brauð" auk þess sem ég fjalla um hvað við meinum þegar við segjum að heimilið sé heilagt.
Þetta verður bara gaman. Fyrst tvö þriðjudagskvöld með Margréti svo önnur tvö með Snorra áður en ég kenni tvö síðustu kvöldin. Við byrjum þriðjudaginn næsta, 30.9. kl. 20:40 og tímum lýkur 22:00.
Nú hefur fólk sem sagt góða afsökun fyrir því að koma í kirkju. Allir þurfa jú að spara! Nú heldur enginn að þú sért að koma út úr skápnum, skilja, frelsast eða brjálast þótt þú leggir bílnum fyrir utan kirkjuna að kvöldi til. Notaðu þetta einstaka tækifæri, finndu Laugarneskirkju á leitarvél já.is og láttu vaða!
Bjarni Karlsson, sóknarprestur
sunnudagur, 28. september 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli