mánudagur, 15. september 2008

Hagkvæmur rekstur og heimasæla

Nú er á döfinni alveg sérstakt fræðslutilboð í Laugarneskirkju sem mig langar að vekja athygli á hér þar sem það á beint erindi við fjölskyldurnar í landinu auk þess sem ég er frekar stoltur af þessu tiltæki.

Við munum bjóða upp á fræðslukvöld sex þriðjudaga í röð kl. 20:40 – 22:00
sem bera yfirskirftina Hagkvæmur rekstur og heimasæla.

• Að skapa gott heimili og spara í leiðinni.
• Heimilismatur, heimilisbókhald, heimilisbragur.

Margrét Sigfúsdóttir hússtjórnarkennari og snillingur, Snorri Halldórsson kerfisfræðingur og bankamaður annast fræðsluna ásamt undirrituðum.

Fyrsta kvöldið af sex hefst á fræðslu Margrétar Sigfúsdóttur þriðjudaginn 30. sept.

Þó mun ég bjóða upp á fræðslu strax frá þriðjudeginum næsta (16.9.) þar sem ég legg guðfræðilegan grunn að þeirri fræðslu sem fram mun fara með því að fjalla um hvað átt er við þegar menn segja að heimilið sé heilagt. Hvað er heilagt við heimili og hvaða hagnýtu merkingu hefur sú fullyrðing?

Ástæða þess að við viljum gera þetta er sú að við breyttar efnahagsaðstæður þurfa fjölskyldur að temja sér nýtt göngulag sem ekki er síst í því fólgið að rifja upp gamalt göngulag í heimilisrekstri og heimilisbrag. Við erum pakka-kynslóðin. Við höfum vanist því að fá allt í umbúðum með einföldum leiðbeiningum þar sem helmingi vörunnar er fleygt og hins neytt í flýti. Nú er kominn tími til að rifja upp hvernig maður unir heima hjá sér og finnur eirð í sínum beinum án þess að kaupa umbúðir og afþreyingu. Hvernig fer maður að við að skapa heimasælu?

Þess má geta að kvöldsöngur er alla þriðjudaga kl. 20:00 í kirkjunni svo að gott er að vera með þar og koma svo yfir á fræðslukvöldið í safnaðarheimilinu.


Bjarni Karlsson
srbjarni@ismennt.is

Engin ummæli: