sunnudagur, 30. nóvember 2008

Tvær meinlegar skynvillur

Bjarni samdi þessa ræðu alveg sjálfur og flutti hana við messu fyrsta sunnudag í aðventu
30.11. 2008 kl. 11:00.


“Eitt höfuðeinkenni hómó sapíens er það að við erum alltaf að rembast.”


I
Hvernig er að vera þú?
Hér stend ég og horfi á þig, hér erum við þessi hópur fólks saman kominn, og samt veit enginn hvernig það er að vera þú, nema kannski þú.

Í gær kom ég sjálfum mér á óvart og það gerðis við jafn hversdagslega iðju og skeggrakstur. Ég var í minni leikfimi, búinn að skjótast út í heitapott í Laugardalslauginni til að fá ferskt loft og taka inn leifarnar af sólarljósinu þar sem blessunin var að hníga undarlega snemma í suð-vestri. Næsta vers hjá mér var svo að fara út í kirkju og gefa saman hjón. Þá dugir nú ekki að vera órakaður svo ég dró fram græjurnar sem ég á til þess arna, en uppgötva þá að raksápan er búin. Stundum hef ég séð menn raka sig í útisturtunni í laugunum og ég hugsaði með mér að nú skyldi ég bregða á þetta ráð. En sem ég stend undir heitri bununni og hefst handa þá átta ég mig á því að allt snýr öfugt í hausnum á mér. Ég hef bara ekki haft þann háttinn á að raka mig í sturtu, og þetta hversdagslega verk vafðist fyrir mér hafandi enga spegilmynd af sjálfum mér til að horfa á. Ég stóð þarna eins og unglingspiltur við rakstursæfingar klaufskur og hikandi og uppgötvaði að í raun kynni ég ekki að raka mína eigin kjálka heldur kynni ég bara að raka karlinn í speglinum. Ég varð að hafa fyrir því að snúa hugsuninni frá spegilmyndinni, standa inni í sjálfum mér og gæta þess að skera mig ekki til blóðs. Þá gerðist það. Mér til undrunar fann ég hve langt var síðan ég hafði verið þarna staddur. Bara kyrr inni í sjálfum mér, hugsandi um mig, hittandi sjálfan mig fyrir. “Já, sæll!” sagði ég við sjálfan mig. “Hérna erum við þá báðir.” En klukkan var að verða og stutt í að bjöllurnar færu að hringja úti í kirkju og ég dreif mig áfram en stóð mig þó að því að segja við sjálfan mig með ásökunartóni: “Bjarni, þú ert alltaf að flýta þér eitthvert annað!”

Allan daginn var ég hálfpartinn með hugann við sjálfan mig og þessari spurningu laust aftur og aftur niður í hugann: Hvernig er að vera ég? Hvernig er bragðið af lífinu mínu? Hljómurinn í minni sál – hvernig er hann?

Mig langar að spyrja þig þar sem þú situr núna í kirkjubekknum, finnur fyrir eigin líkamsþunga og dregur andann: Hvernig er að vera þú? Hvernig er bragðið af lífinu þínu? Hvernig er hljómurinn í sálinni þinni? Eða í höfðinu á þér? Stundum er bara skarkali hérna uppi í kollinum á mér? Endalaus skarkali. Er nokkuð skarkali í þínu höfði?


II
Hann stendur fyrir framan fólkið sitt hann Jesús í guðspjalli dagsins. Hann er kominn heim í samkunduhúsið í Nasaret. Þarna þekkti hann hverja gólfflís, hverja súlu og bitana í loftinu hafði hann talið þúsund sinnum þegar hann var barn og hafði leiðst í helgihaldinu. Andlitin sem blöstu við honum voru gamalkunn. Í þessum andlitum hafði hann speglað sig frá því hann mundi eftir sér. Hér var eldra fólk sem hafði hastað á hann og hrósað honum sem krakka og jafnaldrar sem hann hafði verið samferða í skóla. Enn hafa sögur af bernskubrekum hans verið í minni margra sem þarna voru. M.a. atburðurinn þegar hann varð eftir á hátíðinni í Jerúsalem. Þetta var hans fólk. Og hún María hefur setið þarna og horft á drenginn sinn, elsta barnið sitt. Að líkindum orðin ekkja. Er hann stendur upp til að lesa þá er honum fengin bók Jesaja spámanns. Hann lýkur upp bókinni og finnur staðinn þar sem ritað er:

„Andi Drottins er yfir mér
af því að hann hefur smurt mig.
Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap,
boða bandingjum lausn
og blindum sýn,
láta þjáða lausa
og kunngjöra náðarár Drottins.
Síðan lukti Jesús aftur bókinni, fékk hana þjóninum og settist niður en augu allra í samkundunni hvíldu á honum. Hann tók þá að tala til þeirra: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.“
Og allir lofuðu hann og undruðust þau hugnæmu orð sem fram gengu af munni hans og sögðu: „Er þetta ekki sonur Jósefs?” (Lúk. 4.18-21)

Það er mannlegt eðli að spegla sig í fólki og aðstæðum. Og það sem gerir þessa frásögn svo magnaða er einmitt sú gildishlaðna umgjörð sem hún hefur. Jesús er ekki í einhverju samkunduhúsi hann er í þorpinu sínu, innan um fólkið sitt. Hér er allt það sem hefur mótað hann og sagt honum hver hann er og hver hann ekki er. En Jesús kemur öllum á óvart með því að hann gengur ekki út frá spegilmynd sinni, talar ekki fyrir hönd Jesú Jósefssonar sem allir eru búnir að kortleggja frá fæðingu og teikna upp í huga sínum, heldur stendur hann inni í sjálfum sér þegar hann mætir fólkinu. Og það er rétt að rifja það upp að sagan endar með ósköpum því allir í samkundunni fylltust reiði er leið á samtalið, „spruttu upp, hröktu hann út úr borginni og fóru með hann fram á brún fjalls þess sem borg þeirra var reist á, til þess að hrinda honum þar ofan. En hann gekk gegnum miðja mannþrögnina og fór leiðar sinnar.” Segir Lúkas guðspjallamaður. (Lúk. 4. 29-30)


III
Við manneskjur búum við þá skynvillu að ýmist skynjum við okkur ofursmá eða ofurstór og við látum smæð okkar og stærð útiloka hvort annað. Það sem vakti reiði fólksins var það að enda þótt allir fyndu að Jesús skynjaði smæð sína frammi fyrir samfélaginu sem hafði alið hann upp og komið honum til manns, þá gat hann á sama tíma tekið við því stóra hlutverki sem honum hafði verið falið af Guði föður: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.“ mælti hann, og fólkið spurði: „Er þetta ekki sonur Jósefs?” Og allt endaði með því að fólkið varð viti sínu fjær af reiði.

Manstu eftir Jesú á asnanum? Þar er þetta sama að gerast og því er sú saga líka gjarnan lesin einmitt á fyrsta degi í aðventu. Jesús er óendanlega smár á þessum asna þar sem hann ríður í átt að voldugum múrveggjum Jerúsalemborgar, um leið er hann svo ógnarstór að yfirvöldin óttast uppþot og óðagot hjá fólki og reiðiviðbrögðin verða sterk.

Hvernig er að vera þú? Skynjar þú hve smár þú ert? Hversu vanmáttugur þú ert og líklegur til að verða fyrir skakkaföllum? Skynjar þú að í raun og veru ertu deyjandi? Já, bráðum ertu ekki. Bráðum er ég ekki heldur. Getur þú í sömu mund lyft hjarta þínu og hugsað í anda þínum hátt upp og horft yfir líf þitt allt frá bernsku og til þessa dags? Já, það getur þú líka. Þú getur m.a.s. brugðið þér í andanum á leifturhraða til útlanda, farið á móti tímanum á einhvern fjarlægan stað þar sem þú áður varst. Þú megnar sömu leiðis að vera hjá fjarlægum ástvinum þar sem þau eru. Já, svo langt getum við gengið í þessu að við segjum allsgáð og vakandi áður en við göngum til altaris í samkundunni okkar: “Lyftum hjörtum vorum til himins og hefjum þau til Drottins!”
- Það er undarlegt að vera hómó sapíens.

Eitt höfuðeinkenni hómó sapíens er það að við erum alltaf að rembast. Ýmist óttums við að vera ekki neitt eða við rembumst við að sigra heiminn, en við eigum svo bágt með að taka við þeirri kláru staðreynd að við erum ógnarsmá og ógnarstór í senn og eigum þess aldrei kost að vera bara annað hvort. Hin sanna mennska Jesú var m.a. í því fólgin að hann hvíldi sáttur innra með sjálfum sér verandi í senn ógnarsmár og ógarnstór. Þess vegna náði græðgin ekki tökum á honum og hann þurfti ekki að eiga neitt nema fötin sem hann stóð í. Hann vissi að hann átti allt og þurfti því ekki að höndla neitt heldur gat hann bara miðlað áfram til allra.


IV
Þar er komin önnur mjög meinleg skynvilla sem Jesús frá Nasaret getur læknað okkur af. Við höldum að við séum það sem við höndlum. Við sjáum ekki betur en að menn séu afrekin sem þeir vinna, eignirnar sem þeir halda. “Merkin sýna verkin!” segjum við og höldum barasta að við höfum rétt fyrir okkur, að þannig séu menn vegnir og metnir í raun og veru. En þetta er ekki svona. Við erum það sem við miðlum. Þú ert fyrst og síðast það sem þú gefur en ekki það sem þú hefur. Og það sem þú hefur áttu ekki fyrr en þú ert búinn að láta það af hendi, þá fyrst áttu það!

Hvers vegna rís Jesús frá Nasaret upp yfir alla konunga þessa heims? Hvað er það sem gerir hann að konungi konunganna í vitund okkar? Það er bara þetta! Hann gaf allt. Hann var handa öðrum.

Þetta er t.d. ástæðan fyrir því að við erum í efnahagslægð núna. Kreppan er komin vegna þeirrar skynvillu að menn séu það sem þeir höndla. Svo förum við að rembast og rembast og leitast við að vera miklir menn en erum allan tímann að gera lítið úr okkur sjálfum, safnandi upp drasli og dóti í stað þess að miðla því. Sönn mennska vill ekki höndla heldur miðla. Hún vill dreifa auði og völdum og hugmyndum og hrósi og fegurð og umhyggju og virðingu... ...og öllum hinum gæðunum sem eru svo ágæt ef við kunnum að þiggja þau í stað þess að sækja þau.

sunnudagur, 23. nóvember 2008

Nú er lag fyrir mannsandann að rísa upp

Þessa prédikun sömdum við og fluttum hvort í sinni kirkjunni, Vídalínskirkju og Laugarneskirkju sunnudaginn 23.11. 2008 kl. 11:00.

I
‘Nú er lag fyrir mannsandann að rísa upp og skapa. Sú þjóðfélagsgerð sem sett hefur fjármagn ofar mennskunni er fallin og íslensk þjóð er gengin inn í hugmyndafræðilegt uppnám. Nú er lag fyrir mannsandann að rísa upp og skapa!’ Þessar hugrenningar og margar fleiri voru viðraðar á einkar athyglisverðu málþingi sem haldið var í Reykjavíkurakademíunni í gær á vegum húmanistahreyfingarinnar.

Þar var tjáð sú vissa að um leið og við hefjum nýja fjárlagagerð sé ekki síður brýnt að ákvarða þá þjóðfélagsgerð sem við viljum hafa og rækta.
Og spurt var: Hvort ætlum við að hugsa þjóðfélagsgerð okkar út frá þörfum manna eða markaðar? Spurt var þess sama og Kristur spyr í guðspjalli dagsins, - spurt að frumþörfum mannsins. Viljum við lifa í samfélagi þar sem allir njóta heilbrigðisþjónustu? Viljum við að menntakerfið sé opið öllum? Á samfélag okkar líka að vera handa minnihlutahópum eða eigum við að halda áfram að skipuleggja ójöfnuð?
„....hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín.” segir Jesús Kristur í guðspjalli dagsins. Hér er engin málamiðlun við valdið sem hagræðir í eigin þágu. Húmanistinn Jesús gerir skýlausa kröfu um manngildi.


II
Við fögnuðum því í vikunni að langþráð lán fékkst frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, þótt sú gleði væri ekki skuggalaus. Nú skal hagkerfi okkar snúið í gang með handafli í þeirri von að hreyfillinn vakni og taki að virka eins og honum er ætlað. En hvað er honum ætlað? Vitum við hvert skal sigla fleyinu þegar vélar þess hafa verið ræstar? Nú ríður á að þjóðin komist í tengsl við vilja sinn. Þjóðarviljinn verður að rumska af dvala sínum og kannast við sjálfan sig ef vel á að fara því staðreyndin er sú að við höfum þegið mikið að láni frá alþjóðlegri valdastofnun sem auk þess hefur íhlutunarrétt og íhlutunargetu um málefni okkar. Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að þegar mikið vald safnast á einn stað þá er því iðulega misbeitt. Þannig er það í veröldinni og við höfum enga ástæðu til að ætla að annað gildi um alþjóða gjaldeyrissjóðinn en aðra digra sjóði þessa heims. Við lifum á tímum alþjóðavæðingar þar sem ofsafengin valdssöfnun á sér stað en ekki valddreifing. Lýðræði fer hrakandi í heiminum. Mannréttindi eiga undir högg að sækja. Ójöfnuður vex með skipulögðum hætti.

Valdið sem safnar sjálfu sér horfir á Ísland frá sjónarhóli hagkvæmninnar. Orkukreppa og matvælaskortur eru fyrirsjáanleg vandamál í veröldinni en hér eru fallvötn og hiti í jörðu. Hér er líka fiskur í landhelgi, nægtir af hreinu vatni og menntuð þjóð. Allt verður þetta ómetanlegt í fyrirsjáanlegri framtíð.

Ef við setjum upp gleraugu ofurvaldsins, horfum á landið okkar frá sjónarhóli samsteypunnar, orkurisans. Hvernig lítur þá hið vel rekna Ísland út? Rekstrareiningin Ísland! Hvernig skyldi hún vera?

Þar býr starfssöm þjóð sem þiggur laun en hefur látið samsteypunni eftir yfirráð auðlinda sinna.
Þar býr þýlynd þjóð sem unir sér við ódýra neyslu hins alþjóðlega afþreyingariðnaðar en hefur gleymt sögum sínum og ljóðum.
Stillt þjóð sem býr í fáum byggðakjörnum í hæfilegri nálægð við erlendar verksmiðjur sem nýta orkuauðlindir sínar á eyjunni.
Lipur þjóð sem annast móttöku ferðamanna og hefur af því tekjur að lóðsa þá um landið sem hún átti.

Kæri söfnuður. Ég vona að þið hristið hausinn innra með sjálfum ykkur yfir þeirri hryggðarmynd sem ég dreg hér upp. En ég dreg hana samt upp því hún er ekki svo fjarlægur möguleiki. Það segir sig sjálft að hér gæti verið um hagkvæman rekstur að ræða og þar með segir það sig líka sjálft að samsteypur veraldarinnar eru komnar með augastað á okkur. Og hvar eru þær? Þær eru hvarvetna þar sem mikið vald safnast á fáar hendur. Og við skulum ekki vera slík börn, - eða á ég að segja slíkir eyjaskeggjar? - að halda að þeir geti ekki verið í Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. IMF er ekki vinur þjóðarinnar heldur yfirþjóðlegur banki í viðskiptum.
Við munum fá tilboð. Það verður haft samband. Tilboðin munu hljóma vel. Og þau verða borin fram af geðþekku fólki. Vafnvel góðum og gegnum Íslendingum. Tilboð um afsal nátúruauðlinda í ljósi erfiðrar stöðu. Þannig verður það.

Nú stöndum við Íslendingar frammi fyrir nýrri sjálfstæðisbaráttu sem verður harðari en sú sem stóð á 19. og 20. öld. Því nú er um mikinn auð að tefla. Áður var um það rætt af fullri alvöru að flytja sveltandi landslýð upp á Jósku heiðarnar því hér var ekkert að hafa. Sú staða er breytt. Við búum í ríku landi þar sem nýta má orku, sjávafla, hreint vatn og mannauð með arðbærum hætti. Ekkert nema sterkur, meðvitaður og samhentur þjóðarvilji mun standast í þeirri baráttu.

Hér kemur okkur að góðu haldi hin forna viska kristinnar trúar. Að kristnum skilningi er samansöfnun valds á fáar hendur óheillaþróun en dreifing þess er lífinu í hag. „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.” Segir Jesús Kristur m.a. í guðspjalli dagsins. - Ég birtist þér í hverjum einasta manni, er hann að segja. Valdið sem gefur líf, hugurinn sem sem stendur að baki öllu undri veruleikans hefur dreift sér svo kyrfilega að hann býr í hverri einustu persónu sem þú mætir. Það boðskapur trúarinnar. Og í pistli dagsins fullyrðir Páll postuli að öll sköpunin stynji og hafi fæðingarhríðir bíðandi þess að úr rætist fyrir mannfólkinu á jörðinni. - Allt sem lifir á samleið. Öll náttúran þjáist með manninum í heiminum og maðurinn þjáist með náttúrunni. Örlög manns og heims eru samantvinnuð. Enginn er einn.


III
Undanfarin ár hefur hugtakið mannréttindi verið vinsælt og mikið notað. Á málþingi húmanistahreyfingarinnar sem ég vitnaði til kom m.a. fram sú skoðun sem ég vil taka undir að það þýðir lítið að tala fjálglega um mannréttindi þegar fólk veit ekki í hverju mennskan er fólgin. Hvað er það að lifa sem heil og virk manneskja? Hvernig finnur maður tilgang með lífinu? Þessum spurningum þarf að svara í samfélagi dagsins. Á málþinginu var fullyrt að menntakerfið okkar hafi þann ágalla að það dragi fremur úr innra lífi barnanna okkar en að vekja þau til sjálfstæðrar vitundar. Já, það var talað um innra líf og það harmað hvernig tíðarandinn hefur rænt þorra almennings og ómótuð börn vitundinni um gildi þess að lifa innra lífi og að leyfa sköpunarþörfinni að blómstra. Þess í stað höfum við alið þau upp í stöðugum samanburði hvert við annað og látið þau synda eins og fiska í vatni sigurvegaramenningarinnar þar sem svo margir upplifa sig tapara og enginn lifir í núinu en allir eru að flýta sér eitthvert annað burt frá stað og stund og ipod-skarkalinn hefur tekið yfir svo að enginn getur hugsað heila hugsun. Í stað þess að við spyrjum börnin okkar um hamingju þeirra höfum við haft áhuga á fyrirætlunum þeirra. Hvað ætlar þú að verða? Höfum við spurt en látið vera að inna þau eftir því sem öllu varðar: Hver ertu? Þannig höfum við skert mennsku barnanna okkar um leið og við höfum talið okkur upptekin við að hlúa að þroska þeirra og gæta mannréttinda þeirra. Já, við þurfum að hugsa menntakefi okkar upp á nýtt. Hugsa það út frá þörfum barnsins.

Eins var á málþinginu rætt um eðli heilbrigðisþjónustu í hinni nýju þjóðfélagsgerð Íslands. Þar heyrðist sú skoðun að það sé hin rétta mennska að þú greiðir fyrir heilbrigðisþjónustuna á meðan þú ert heilbrigður en ekki þegar þú ert orðinn veikur og getur það ekki. Er þetta ekki hárrétt? Heilbrigðisþjónustu skyldi maður borga á meðan maður þarf hennar ekki við. Þetta hlýtur að segja sig sjálft. Því er það hagur okkar að hafa samfélag þar sem allir njóta öruggrar heilbrigðisþjónustu sem búið er að greiða.


IV
Já, nú verðum við að huga að þjóðfélagsgerðinni um leið og fjárlagagerð er unnin. Nú ríður á að þjóðarviljinn sé vakinn af blundi og við spyrjumst á um grundvallargildi. Viljum við, nennum við að lifa í lýðræðisþjóðfélagi þar sem tekið er mark á mannlegum þörfum, þar sem mannréttindi eru ræktuð og friður iðkaður? Viljum við, nennum við að hafa fyrir því að dreifa með okkur valdi og fjármunum svo að hér lifi þjóð sem verði sjálfstæður gerandi í eigin tilveru, eða ætlum við að afhenda frá okkur þjóðfélagið í hendur samsteypunnar?

Það skipbrot sem þjóðfélagsgerð okkar hefur liðið er e.t.v. ekki svo slæmt þegar upp er staðið. E.t.v. var gerð þjóðfélagsins einmitt röng. E.t.v fól hún í sér slíka meinbugi að svona hlaut að fara. Því við settum fé í fyrirrúm en ekki fólk. Nú er það krafa heilbrigðrar skynsemi og um leið krafa frelsarans að við setjum mennskuna í forgang og búum til þjóðfélag þar sem veruleikinn er allur með. Þar sem maður og náttúra er samferða og við strengjum þess heit sem manneskjur að yfirgefa ekki hvert annað uppi á þessari eyju heldur dreifum við valdi, hugmyndum, fé, hæfileikum og umhyggju. Já, nú er lag fyrir mannsandann að rísa upp og skapa!

sunnudagur, 9. nóvember 2008

Inntak lífsins er ást

Prédikun okkar flutt sunnudaginn 9.11. 2008

Textar dagsins: Jesaja. 12. 2-6, Rómverjabréfið. 10. 8-17, Matteus. 9. 35-38

“Já, hvað er það sem raunverulega getur linað mannlegar þjáningar? Ég spyr þig, vegna þess að ég veit að þú veist svarið jafn vel og ég. Hvað er til sem dregur úr kvíða, bætir sorg, mildar reiði, hjálpar í vanmætti... Það er mannleg snerting. Snerting og nærvera. Ást. Það er það eina sem dugir.”


I

Guðspjallið segir okkur frá því að Jesús kenndi í brjósti um mannfjöldann. Hvað er það?

Í fyrravetur fékk Matthildur dóttir mín þá hugmynd að fara í fjögurra mánaða heimsreisu um Asíu og Ástralíu á þessum vetri. Ég fann að sú tilhugsun olli mér strax kvíða að horfa á eftir henni tvítugri í slíka ferð. Hún var hins vegar mjög staðföst í þessu og hefur lagt samviskusamlega fyrir megnið af launum sínum og nú í upphafi mánaðarins lagði hún af stað ásamt nokkrum vinkonum. Fyrsti áfangastaður var Delí á Indlandi. Ég upplifði það nóttina sem hún fór að mig verkjaði fyrir brjóstinu þegar við kvöddumst. Ég kenndi til í brjóstinu, fann sárlega til vegna þess að á milli okkar ríkir ást og sú staðreynd að hún væri að leggja í slíka langferð kallaði fram líkamlegan sársauka. Þó hafði ég undirbúið mig vikum saman m.a. með því að eiga hér bænasamfélag með góðu fólki þar sem við reglulega felum hana og mörg önnur málefni góðum Guði. Guðspjallið segir frá því að Jesús hafði verk fyrir brjóstinu, hann fann til hérna er hann sá mannfjöldan, hann fann til í hjartanu.
Við verðum að gæta þess að rugla ekki saman ást og meðaumkvun. Sú kennd, að kenna í brjósti um einhvern, á ekkert skylt við meðaumkvun. Ástin býr í brjósti manns, meðaumkvunin er einhversstaðar annarsstaðar. Enginn vill láta aumkva sig en öll þráum við að vera elskuð og að elska.

II

Það er kristniboðsdagurinn í dag og þá er þetta guðspjall lesið í mörgum kirkjum og rifjað upp hvernig Jesús kenndi til þegar hann sá fólk, einkum fólk sem hafði margar óuppfylltar þarfir. Hann sá mannfjöldann og skildi og fann að þau voru hrjáð og umkomulaus eins og sauðir sem engan hirði hafa.

Það er margt fólk á Íslandi sem upplifir sig hrjáð og umkomulaust í dag. Það er mikill kvíði og þungar áhyggjur í brjósti margra. Ekki síst þeirra sem hafa fyrir börnum að sjá en eru að missa lífsviðurværi sitt. Það skiljum við.

Jesús Kristur horfir á íslenska þjóð og kennir til, kennir í brjósti um þau sem illa eru leikin og illa verða leikin. Hann aumkar engan, gerir ekki lítið úr neinum, en samlíður finnur til með fólki. Og svo segir hann við okkur: “Uppskeran er mikil en verkamenn fáir. Biðjið því drottin uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.”

III

Höfum við ekki flest fundið fyrir því að það er líkt og gleðin sé horfin af mörgum andlitum sem við mætum. Það er áhyggjusvipur á fólki, kvíði í augnaráði og líka reiði. Við þessar aðstæður segir Jesús: “Uppskeran er mikil en verkamenn fáir. Biðjið því drottin uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.”

Verkamenn Jesú Krists eru þau öll sem eiga hjarta sem finnur til með öðrum. Þau sem eiga augu til að sjá óuppfylltar þarfir meðbræðra sinna og löngun til þess að bæta úr, styðja, gleðja, vera samferða.

Sá sem horfir á meðbróður sinn með meðaumkvun ætlar ekki að vera samferða, hann er bara að horfa. Meðaumkvun er engin gæska. Meðaumkvun hjálpar engum en það gerir ástin. Ítrekað er um það fjallað í guðspjöllunum að Jesús horfið á fólk með ástúð. Við segjum stundum og ég þori ekki að sverja fyrir að hafa ekki einhverntíman orðað það þannig sjálf(ur) að Jesús hafi verið kærleiksríkur og góður maður. En það er villandi að tala þannig því Jesús var meira en kærleiksríkur. Kærleikur er ekki nóg. Guð sendi ekki son sinn í heiminn vegna þess að hann hefði kærleiksríka afstöðu til veraldarinnar. “Svo ELSKAÐI Guð heiminn” segir Biblían. “Svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn.” (Jóh. 3.16)
Mér er ekki nóg að vita það að maki minn hafi kærleiksríka afstöðu til mín. Mér dugir ekki að finna að börnin mín hugsi til mín með kærleika. Það nægir mér ekki. Ekkert dugir hamingjunni minna en ástin. Ástin veldur nefnilega efnahvörfum. Hún er eins og eldur, hún lætur okkur kenna til í brjóstinu svo við brennum. Um leið og ég nefni við ykkur hana Matthildi dóttur mína þá finn ég til í hjartanu, vegna þess að ég elska hana, ég elska barnið mitt, og einmitt núna get ég ekki varist áhyggjum hennar vegna.

Ást veldur efnahvörfum en kærleikur veldur bara skipulagsbreytingum.

IV

Hlustaðu á þetta: “Þegar Jesús sá mannfjöldan gat hann ekki varist áhyggjum af stjónmálaástandinu.” Gæti þetta staðið í Biblíunni? “Þegar Jesús sá mannfjöldann varð hann þungt hugsi yfir hernámi Rómverja á Gyðingum og þeirri þróun sem það hafði hrundið af stað.” Nei, svona væri ekki hægt að lýsa Jesú. Jesús kenndi til. Hann horfði á fólkið og brann innra með sér, hann kenndi í brjósti um fólkið vegna aðstæðna þess.

Þessari köldu veröld dugir ekki bætt skipulag og aukinn kærleikur manna í millum. Kærleikur er ekki nóg. M.a.s. réttlæti er ekki nóg. Þessi kalda veröld þarfnast þess að vera elskuð. Hvert og eitt okkar þarfnast ástar. Við þurfum og þráum umhyggju sem sprettur af ást.

Hvað er það sem linar þjáningar? Já, hvað er það sem raunverulega getur linað mannlegar þjáningar? Ég spyr þig, vegna þess að ég veit að þú veist svarið jafn vel og ég. Hvað er til sem dregur úr kvíða, bætir sorg, mildar reiði, hjálpar í vanmætti… Það er mannleg snerting. Snerting og nærvera. Ást. Það er það eina sem dugir.

Ég heyrði um hversdagslegt atvik sem átti sér stað í húsi einu í borginni. Fimm ára stúlka vaknaði upp í rúmi sínu um miðja nótt því hana hafði dreymt illa. Hún hljóp berfætt inn í svefnherbergi foreldra sinna og vakt föður sinn grátandi. Pabbinn tók barnið í fangið bar hana aftur yfir í herbergið, lagði hana í rúmið, breiddi yfir barnið og strauk henni yfir hárið og sagði: “Nú skaltu sofna aftur og ekki vera hrædd, Guð og englarnir gæta þín.” - “Guð og englarnir er ekki nóg” svaraði þá telpan kjökrandi “Ég þarf einhvern sem hefur skinn.”

Fagnaðarerindi trúarinnar er einmitt það að Guð hefur skinn. Við trúum á Guð sem gerðist maður, tók á sig hold. Guð er með skinn til þess að við getum skilið inntak lífsins og þjónað lífinu. Inntak lífsins er ást.

“Nýtt boðorð gef ég ykkur” sagði Jesús við lærisveina sína. “Nýtt boðorð gef ég ykkur, að þið elskið hvert annað. Eins og ég hef elskað ykkur skuluð þið einnig elska hvert annað. Á því munu allir þekkja að þið eruð mínir lærisveinar, ef þið berið elsku hvert til annars.” (Jóh. 13. 34-35) Skynjarðu hve róttæk orð Jesú eru? Hann fyrirskipar ást milli lærisveina sinna. Einkenni kirkju hans á að vera elskan í samskiptum manna. Hvers vegna? Vegna þess að það dugir ekkert minna.

V

Nú eru erfiðleikatímar hjá Íslenskri þjóð. Tími kvíða og reiði. Í gær varð sá átakanlegi atburður að Alþingishúsið var grýtt af reiðum mannfjölda. Alþingi er vettvangur lýðræðisins, samtalsins sem þjóðin á innbyrðis. Við skiljum öll þær tilfinningar sem búa að baki þessu verki en réttmæti þess verðum við að meta.

Dýpst skoðað liggur ástæða bankahrunsins og allra þeirra atburða sem við erum nú að lifa í stjórnlausri græðgi, taumleysi. Við munum ekki bæta vandann með meira stjórnleysi. Öllu heldur verðum við að tala saman, virkja lýðræðið og iðka það. Samtímamenn Jesú bjuggust við uppþotum og byltingu hvar sem hann kom, því að hann hafnaði hverskyns órétti og gerði engan mannamun. Lærisveinar Jesú ólu þá von í brjósti að hann myndi fá þjóðina til að rísa upp gegn hernámi Rómverja en aðferð Jesú var alltaf hin sama, hann iðkaði samtal. M.a.s. óvinirnir þurftu að þola ástríki hans og virðingu. Lýðræði var göngulag hans í öllum samskiptum.

Nú eru örlagatímar sem krefjast róttækra aðgerða. Stjórnleysi er ekki róttæk aðferð því rót vandans sem við er að etja er einmitt stjórnleysi. Núna er þörf á róttækri elsku, elsku sem gerir engan mannamun og engar málamiðlanir um sannleikann heldur leitar hans uns hún finnur hann. Nú verðum við að elska, finna til hvert með öðru, verkja undan aðstæðum náungans, svo að sú samvitund megi skapast að við “eigum hvert annað og hönd í hönd stöndum við sterk saman.”

Amen.