sunnudagur, 30. nóvember 2008

Tvær meinlegar skynvillur

Bjarni samdi þessa ræðu alveg sjálfur og flutti hana við messu fyrsta sunnudag í aðventu
30.11. 2008 kl. 11:00.


“Eitt höfuðeinkenni hómó sapíens er það að við erum alltaf að rembast.”


I
Hvernig er að vera þú?
Hér stend ég og horfi á þig, hér erum við þessi hópur fólks saman kominn, og samt veit enginn hvernig það er að vera þú, nema kannski þú.

Í gær kom ég sjálfum mér á óvart og það gerðis við jafn hversdagslega iðju og skeggrakstur. Ég var í minni leikfimi, búinn að skjótast út í heitapott í Laugardalslauginni til að fá ferskt loft og taka inn leifarnar af sólarljósinu þar sem blessunin var að hníga undarlega snemma í suð-vestri. Næsta vers hjá mér var svo að fara út í kirkju og gefa saman hjón. Þá dugir nú ekki að vera órakaður svo ég dró fram græjurnar sem ég á til þess arna, en uppgötva þá að raksápan er búin. Stundum hef ég séð menn raka sig í útisturtunni í laugunum og ég hugsaði með mér að nú skyldi ég bregða á þetta ráð. En sem ég stend undir heitri bununni og hefst handa þá átta ég mig á því að allt snýr öfugt í hausnum á mér. Ég hef bara ekki haft þann háttinn á að raka mig í sturtu, og þetta hversdagslega verk vafðist fyrir mér hafandi enga spegilmynd af sjálfum mér til að horfa á. Ég stóð þarna eins og unglingspiltur við rakstursæfingar klaufskur og hikandi og uppgötvaði að í raun kynni ég ekki að raka mína eigin kjálka heldur kynni ég bara að raka karlinn í speglinum. Ég varð að hafa fyrir því að snúa hugsuninni frá spegilmyndinni, standa inni í sjálfum mér og gæta þess að skera mig ekki til blóðs. Þá gerðist það. Mér til undrunar fann ég hve langt var síðan ég hafði verið þarna staddur. Bara kyrr inni í sjálfum mér, hugsandi um mig, hittandi sjálfan mig fyrir. “Já, sæll!” sagði ég við sjálfan mig. “Hérna erum við þá báðir.” En klukkan var að verða og stutt í að bjöllurnar færu að hringja úti í kirkju og ég dreif mig áfram en stóð mig þó að því að segja við sjálfan mig með ásökunartóni: “Bjarni, þú ert alltaf að flýta þér eitthvert annað!”

Allan daginn var ég hálfpartinn með hugann við sjálfan mig og þessari spurningu laust aftur og aftur niður í hugann: Hvernig er að vera ég? Hvernig er bragðið af lífinu mínu? Hljómurinn í minni sál – hvernig er hann?

Mig langar að spyrja þig þar sem þú situr núna í kirkjubekknum, finnur fyrir eigin líkamsþunga og dregur andann: Hvernig er að vera þú? Hvernig er bragðið af lífinu þínu? Hvernig er hljómurinn í sálinni þinni? Eða í höfðinu á þér? Stundum er bara skarkali hérna uppi í kollinum á mér? Endalaus skarkali. Er nokkuð skarkali í þínu höfði?


II
Hann stendur fyrir framan fólkið sitt hann Jesús í guðspjalli dagsins. Hann er kominn heim í samkunduhúsið í Nasaret. Þarna þekkti hann hverja gólfflís, hverja súlu og bitana í loftinu hafði hann talið þúsund sinnum þegar hann var barn og hafði leiðst í helgihaldinu. Andlitin sem blöstu við honum voru gamalkunn. Í þessum andlitum hafði hann speglað sig frá því hann mundi eftir sér. Hér var eldra fólk sem hafði hastað á hann og hrósað honum sem krakka og jafnaldrar sem hann hafði verið samferða í skóla. Enn hafa sögur af bernskubrekum hans verið í minni margra sem þarna voru. M.a. atburðurinn þegar hann varð eftir á hátíðinni í Jerúsalem. Þetta var hans fólk. Og hún María hefur setið þarna og horft á drenginn sinn, elsta barnið sitt. Að líkindum orðin ekkja. Er hann stendur upp til að lesa þá er honum fengin bók Jesaja spámanns. Hann lýkur upp bókinni og finnur staðinn þar sem ritað er:

„Andi Drottins er yfir mér
af því að hann hefur smurt mig.
Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap,
boða bandingjum lausn
og blindum sýn,
láta þjáða lausa
og kunngjöra náðarár Drottins.
Síðan lukti Jesús aftur bókinni, fékk hana þjóninum og settist niður en augu allra í samkundunni hvíldu á honum. Hann tók þá að tala til þeirra: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.“
Og allir lofuðu hann og undruðust þau hugnæmu orð sem fram gengu af munni hans og sögðu: „Er þetta ekki sonur Jósefs?” (Lúk. 4.18-21)

Það er mannlegt eðli að spegla sig í fólki og aðstæðum. Og það sem gerir þessa frásögn svo magnaða er einmitt sú gildishlaðna umgjörð sem hún hefur. Jesús er ekki í einhverju samkunduhúsi hann er í þorpinu sínu, innan um fólkið sitt. Hér er allt það sem hefur mótað hann og sagt honum hver hann er og hver hann ekki er. En Jesús kemur öllum á óvart með því að hann gengur ekki út frá spegilmynd sinni, talar ekki fyrir hönd Jesú Jósefssonar sem allir eru búnir að kortleggja frá fæðingu og teikna upp í huga sínum, heldur stendur hann inni í sjálfum sér þegar hann mætir fólkinu. Og það er rétt að rifja það upp að sagan endar með ósköpum því allir í samkundunni fylltust reiði er leið á samtalið, „spruttu upp, hröktu hann út úr borginni og fóru með hann fram á brún fjalls þess sem borg þeirra var reist á, til þess að hrinda honum þar ofan. En hann gekk gegnum miðja mannþrögnina og fór leiðar sinnar.” Segir Lúkas guðspjallamaður. (Lúk. 4. 29-30)


III
Við manneskjur búum við þá skynvillu að ýmist skynjum við okkur ofursmá eða ofurstór og við látum smæð okkar og stærð útiloka hvort annað. Það sem vakti reiði fólksins var það að enda þótt allir fyndu að Jesús skynjaði smæð sína frammi fyrir samfélaginu sem hafði alið hann upp og komið honum til manns, þá gat hann á sama tíma tekið við því stóra hlutverki sem honum hafði verið falið af Guði föður: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.“ mælti hann, og fólkið spurði: „Er þetta ekki sonur Jósefs?” Og allt endaði með því að fólkið varð viti sínu fjær af reiði.

Manstu eftir Jesú á asnanum? Þar er þetta sama að gerast og því er sú saga líka gjarnan lesin einmitt á fyrsta degi í aðventu. Jesús er óendanlega smár á þessum asna þar sem hann ríður í átt að voldugum múrveggjum Jerúsalemborgar, um leið er hann svo ógnarstór að yfirvöldin óttast uppþot og óðagot hjá fólki og reiðiviðbrögðin verða sterk.

Hvernig er að vera þú? Skynjar þú hve smár þú ert? Hversu vanmáttugur þú ert og líklegur til að verða fyrir skakkaföllum? Skynjar þú að í raun og veru ertu deyjandi? Já, bráðum ertu ekki. Bráðum er ég ekki heldur. Getur þú í sömu mund lyft hjarta þínu og hugsað í anda þínum hátt upp og horft yfir líf þitt allt frá bernsku og til þessa dags? Já, það getur þú líka. Þú getur m.a.s. brugðið þér í andanum á leifturhraða til útlanda, farið á móti tímanum á einhvern fjarlægan stað þar sem þú áður varst. Þú megnar sömu leiðis að vera hjá fjarlægum ástvinum þar sem þau eru. Já, svo langt getum við gengið í þessu að við segjum allsgáð og vakandi áður en við göngum til altaris í samkundunni okkar: “Lyftum hjörtum vorum til himins og hefjum þau til Drottins!”
- Það er undarlegt að vera hómó sapíens.

Eitt höfuðeinkenni hómó sapíens er það að við erum alltaf að rembast. Ýmist óttums við að vera ekki neitt eða við rembumst við að sigra heiminn, en við eigum svo bágt með að taka við þeirri kláru staðreynd að við erum ógnarsmá og ógnarstór í senn og eigum þess aldrei kost að vera bara annað hvort. Hin sanna mennska Jesú var m.a. í því fólgin að hann hvíldi sáttur innra með sjálfum sér verandi í senn ógnarsmár og ógarnstór. Þess vegna náði græðgin ekki tökum á honum og hann þurfti ekki að eiga neitt nema fötin sem hann stóð í. Hann vissi að hann átti allt og þurfti því ekki að höndla neitt heldur gat hann bara miðlað áfram til allra.


IV
Þar er komin önnur mjög meinleg skynvilla sem Jesús frá Nasaret getur læknað okkur af. Við höldum að við séum það sem við höndlum. Við sjáum ekki betur en að menn séu afrekin sem þeir vinna, eignirnar sem þeir halda. “Merkin sýna verkin!” segjum við og höldum barasta að við höfum rétt fyrir okkur, að þannig séu menn vegnir og metnir í raun og veru. En þetta er ekki svona. Við erum það sem við miðlum. Þú ert fyrst og síðast það sem þú gefur en ekki það sem þú hefur. Og það sem þú hefur áttu ekki fyrr en þú ert búinn að láta það af hendi, þá fyrst áttu það!

Hvers vegna rís Jesús frá Nasaret upp yfir alla konunga þessa heims? Hvað er það sem gerir hann að konungi konunganna í vitund okkar? Það er bara þetta! Hann gaf allt. Hann var handa öðrum.

Þetta er t.d. ástæðan fyrir því að við erum í efnahagslægð núna. Kreppan er komin vegna þeirrar skynvillu að menn séu það sem þeir höndla. Svo förum við að rembast og rembast og leitast við að vera miklir menn en erum allan tímann að gera lítið úr okkur sjálfum, safnandi upp drasli og dóti í stað þess að miðla því. Sönn mennska vill ekki höndla heldur miðla. Hún vill dreifa auði og völdum og hugmyndum og hrósi og fegurð og umhyggju og virðingu... ...og öllum hinum gæðunum sem eru svo ágæt ef við kunnum að þiggja þau í stað þess að sækja þau.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Bjarni, ekki láta það fréttast að þú skegglaus maðurinn rakir þig ekki í sturtunni, maður á altaf að raka sig í sturtu og nota venjulega sápu, hitin og vatnið opnar húðina og mýkir skeggbroddana, þannig að hnífurinn smýgur áreynslulaust í gegn.

Raksápa er gerð fyrir menn sem raka þurra og kalda húð.

Sturta og raka er það sem heldur manni mjúkum eins og barnsrass í framan.

Nafnlaus sagði...

Ágætu hjón,

Þrátt fyrir að ég sé trúleysingi, hef ég notið þess að lesa predikanir ykkar og langaði bara til að þakka fyrir mig og benda á smá pistil sem ég skrifaði nýlega á bloggið mitt um upplifun mína af trú og trúleysi og það sem sameinar okkur í leitinni að hinu góða.

http://robertb.blog.is/blog/robertb/entry/731285/

Kær kveðja,
Róbert Björnsson

Nafnlaus sagði...

Róbert Björnsson

Þakka þér kærlega fyrir þessi orð. Ég las pistilinn og er feginn afstöðu þinni. Ég held nefnilega að við eigum að þola hvert öðru margbreytilegar trúarhugmyndir en ekki gera málamiðlanir um réttlætið. Ég lít ætíð á sjálfan mig sem húmanista og þeim augum lít ég Jesú frá Nasaret líka. Hann krafði samtíð sína um mannmiðlæga siðahugsun, sbr. "hvíldardagurinn varð til mannsins vegna en ekki maðurinn vegna hvíldardagsins", o.fl. o.fl.

Allir húmanistar, bæði þau sem trúa á tilvist æðri máttar og þau sem engu trúa í þeim efnum, geta staðið saman í þeim atriðum sem eru grundvallandi fyrir heilbrigt samfélag þar sem við treystum hvert öðru og stöndum saman. Krafan sem gera verður að mínum dómi til allra lífsskoðunarfélaga er sú að þau auki félagsauð og dragi úr hroka. Gildir þar einu hvort þær lífsskoðanir eru trúarlegs eða eingöngu heimspekilegs eðlis.

Bjarni Karlsson

Nafnlaus sagði...

Það er þetta með Skeggið!!!

Sannleikurinn er sá að ég safnaði skeggi skömmu fyrir þrítugt og bar það fram að fertugu. Ástæða þess að ég safnaði því var einmitt sú að andlitið á mér var eins og barnsrass og fólk þekkti mig ekki frá fermingarbörnunum. Svo þegar kollvikin voru orðin nógu há og grámi farinn að færast í skeggið vogaði ég loks að láta það flakka.

Það er e.t.v. þess vegna sem ég hef ekki hugsað þetta mál jafn ítarlega og þessi nafnlausi aðili sem fyrstur kommmenteraði.

Bjarni