sunnudagur, 23. nóvember 2008

Nú er lag fyrir mannsandann að rísa upp

Þessa prédikun sömdum við og fluttum hvort í sinni kirkjunni, Vídalínskirkju og Laugarneskirkju sunnudaginn 23.11. 2008 kl. 11:00.

I
‘Nú er lag fyrir mannsandann að rísa upp og skapa. Sú þjóðfélagsgerð sem sett hefur fjármagn ofar mennskunni er fallin og íslensk þjóð er gengin inn í hugmyndafræðilegt uppnám. Nú er lag fyrir mannsandann að rísa upp og skapa!’ Þessar hugrenningar og margar fleiri voru viðraðar á einkar athyglisverðu málþingi sem haldið var í Reykjavíkurakademíunni í gær á vegum húmanistahreyfingarinnar.

Þar var tjáð sú vissa að um leið og við hefjum nýja fjárlagagerð sé ekki síður brýnt að ákvarða þá þjóðfélagsgerð sem við viljum hafa og rækta.
Og spurt var: Hvort ætlum við að hugsa þjóðfélagsgerð okkar út frá þörfum manna eða markaðar? Spurt var þess sama og Kristur spyr í guðspjalli dagsins, - spurt að frumþörfum mannsins. Viljum við lifa í samfélagi þar sem allir njóta heilbrigðisþjónustu? Viljum við að menntakerfið sé opið öllum? Á samfélag okkar líka að vera handa minnihlutahópum eða eigum við að halda áfram að skipuleggja ójöfnuð?
„....hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín.” segir Jesús Kristur í guðspjalli dagsins. Hér er engin málamiðlun við valdið sem hagræðir í eigin þágu. Húmanistinn Jesús gerir skýlausa kröfu um manngildi.


II
Við fögnuðum því í vikunni að langþráð lán fékkst frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, þótt sú gleði væri ekki skuggalaus. Nú skal hagkerfi okkar snúið í gang með handafli í þeirri von að hreyfillinn vakni og taki að virka eins og honum er ætlað. En hvað er honum ætlað? Vitum við hvert skal sigla fleyinu þegar vélar þess hafa verið ræstar? Nú ríður á að þjóðin komist í tengsl við vilja sinn. Þjóðarviljinn verður að rumska af dvala sínum og kannast við sjálfan sig ef vel á að fara því staðreyndin er sú að við höfum þegið mikið að láni frá alþjóðlegri valdastofnun sem auk þess hefur íhlutunarrétt og íhlutunargetu um málefni okkar. Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að þegar mikið vald safnast á einn stað þá er því iðulega misbeitt. Þannig er það í veröldinni og við höfum enga ástæðu til að ætla að annað gildi um alþjóða gjaldeyrissjóðinn en aðra digra sjóði þessa heims. Við lifum á tímum alþjóðavæðingar þar sem ofsafengin valdssöfnun á sér stað en ekki valddreifing. Lýðræði fer hrakandi í heiminum. Mannréttindi eiga undir högg að sækja. Ójöfnuður vex með skipulögðum hætti.

Valdið sem safnar sjálfu sér horfir á Ísland frá sjónarhóli hagkvæmninnar. Orkukreppa og matvælaskortur eru fyrirsjáanleg vandamál í veröldinni en hér eru fallvötn og hiti í jörðu. Hér er líka fiskur í landhelgi, nægtir af hreinu vatni og menntuð þjóð. Allt verður þetta ómetanlegt í fyrirsjáanlegri framtíð.

Ef við setjum upp gleraugu ofurvaldsins, horfum á landið okkar frá sjónarhóli samsteypunnar, orkurisans. Hvernig lítur þá hið vel rekna Ísland út? Rekstrareiningin Ísland! Hvernig skyldi hún vera?

Þar býr starfssöm þjóð sem þiggur laun en hefur látið samsteypunni eftir yfirráð auðlinda sinna.
Þar býr þýlynd þjóð sem unir sér við ódýra neyslu hins alþjóðlega afþreyingariðnaðar en hefur gleymt sögum sínum og ljóðum.
Stillt þjóð sem býr í fáum byggðakjörnum í hæfilegri nálægð við erlendar verksmiðjur sem nýta orkuauðlindir sínar á eyjunni.
Lipur þjóð sem annast móttöku ferðamanna og hefur af því tekjur að lóðsa þá um landið sem hún átti.

Kæri söfnuður. Ég vona að þið hristið hausinn innra með sjálfum ykkur yfir þeirri hryggðarmynd sem ég dreg hér upp. En ég dreg hana samt upp því hún er ekki svo fjarlægur möguleiki. Það segir sig sjálft að hér gæti verið um hagkvæman rekstur að ræða og þar með segir það sig líka sjálft að samsteypur veraldarinnar eru komnar með augastað á okkur. Og hvar eru þær? Þær eru hvarvetna þar sem mikið vald safnast á fáar hendur. Og við skulum ekki vera slík börn, - eða á ég að segja slíkir eyjaskeggjar? - að halda að þeir geti ekki verið í Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. IMF er ekki vinur þjóðarinnar heldur yfirþjóðlegur banki í viðskiptum.
Við munum fá tilboð. Það verður haft samband. Tilboðin munu hljóma vel. Og þau verða borin fram af geðþekku fólki. Vafnvel góðum og gegnum Íslendingum. Tilboð um afsal nátúruauðlinda í ljósi erfiðrar stöðu. Þannig verður það.

Nú stöndum við Íslendingar frammi fyrir nýrri sjálfstæðisbaráttu sem verður harðari en sú sem stóð á 19. og 20. öld. Því nú er um mikinn auð að tefla. Áður var um það rætt af fullri alvöru að flytja sveltandi landslýð upp á Jósku heiðarnar því hér var ekkert að hafa. Sú staða er breytt. Við búum í ríku landi þar sem nýta má orku, sjávafla, hreint vatn og mannauð með arðbærum hætti. Ekkert nema sterkur, meðvitaður og samhentur þjóðarvilji mun standast í þeirri baráttu.

Hér kemur okkur að góðu haldi hin forna viska kristinnar trúar. Að kristnum skilningi er samansöfnun valds á fáar hendur óheillaþróun en dreifing þess er lífinu í hag. „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.” Segir Jesús Kristur m.a. í guðspjalli dagsins. - Ég birtist þér í hverjum einasta manni, er hann að segja. Valdið sem gefur líf, hugurinn sem sem stendur að baki öllu undri veruleikans hefur dreift sér svo kyrfilega að hann býr í hverri einustu persónu sem þú mætir. Það boðskapur trúarinnar. Og í pistli dagsins fullyrðir Páll postuli að öll sköpunin stynji og hafi fæðingarhríðir bíðandi þess að úr rætist fyrir mannfólkinu á jörðinni. - Allt sem lifir á samleið. Öll náttúran þjáist með manninum í heiminum og maðurinn þjáist með náttúrunni. Örlög manns og heims eru samantvinnuð. Enginn er einn.


III
Undanfarin ár hefur hugtakið mannréttindi verið vinsælt og mikið notað. Á málþingi húmanistahreyfingarinnar sem ég vitnaði til kom m.a. fram sú skoðun sem ég vil taka undir að það þýðir lítið að tala fjálglega um mannréttindi þegar fólk veit ekki í hverju mennskan er fólgin. Hvað er það að lifa sem heil og virk manneskja? Hvernig finnur maður tilgang með lífinu? Þessum spurningum þarf að svara í samfélagi dagsins. Á málþinginu var fullyrt að menntakerfið okkar hafi þann ágalla að það dragi fremur úr innra lífi barnanna okkar en að vekja þau til sjálfstæðrar vitundar. Já, það var talað um innra líf og það harmað hvernig tíðarandinn hefur rænt þorra almennings og ómótuð börn vitundinni um gildi þess að lifa innra lífi og að leyfa sköpunarþörfinni að blómstra. Þess í stað höfum við alið þau upp í stöðugum samanburði hvert við annað og látið þau synda eins og fiska í vatni sigurvegaramenningarinnar þar sem svo margir upplifa sig tapara og enginn lifir í núinu en allir eru að flýta sér eitthvert annað burt frá stað og stund og ipod-skarkalinn hefur tekið yfir svo að enginn getur hugsað heila hugsun. Í stað þess að við spyrjum börnin okkar um hamingju þeirra höfum við haft áhuga á fyrirætlunum þeirra. Hvað ætlar þú að verða? Höfum við spurt en látið vera að inna þau eftir því sem öllu varðar: Hver ertu? Þannig höfum við skert mennsku barnanna okkar um leið og við höfum talið okkur upptekin við að hlúa að þroska þeirra og gæta mannréttinda þeirra. Já, við þurfum að hugsa menntakefi okkar upp á nýtt. Hugsa það út frá þörfum barnsins.

Eins var á málþinginu rætt um eðli heilbrigðisþjónustu í hinni nýju þjóðfélagsgerð Íslands. Þar heyrðist sú skoðun að það sé hin rétta mennska að þú greiðir fyrir heilbrigðisþjónustuna á meðan þú ert heilbrigður en ekki þegar þú ert orðinn veikur og getur það ekki. Er þetta ekki hárrétt? Heilbrigðisþjónustu skyldi maður borga á meðan maður þarf hennar ekki við. Þetta hlýtur að segja sig sjálft. Því er það hagur okkar að hafa samfélag þar sem allir njóta öruggrar heilbrigðisþjónustu sem búið er að greiða.


IV
Já, nú verðum við að huga að þjóðfélagsgerðinni um leið og fjárlagagerð er unnin. Nú ríður á að þjóðarviljinn sé vakinn af blundi og við spyrjumst á um grundvallargildi. Viljum við, nennum við að lifa í lýðræðisþjóðfélagi þar sem tekið er mark á mannlegum þörfum, þar sem mannréttindi eru ræktuð og friður iðkaður? Viljum við, nennum við að hafa fyrir því að dreifa með okkur valdi og fjármunum svo að hér lifi þjóð sem verði sjálfstæður gerandi í eigin tilveru, eða ætlum við að afhenda frá okkur þjóðfélagið í hendur samsteypunnar?

Það skipbrot sem þjóðfélagsgerð okkar hefur liðið er e.t.v. ekki svo slæmt þegar upp er staðið. E.t.v. var gerð þjóðfélagsins einmitt röng. E.t.v fól hún í sér slíka meinbugi að svona hlaut að fara. Því við settum fé í fyrirrúm en ekki fólk. Nú er það krafa heilbrigðrar skynsemi og um leið krafa frelsarans að við setjum mennskuna í forgang og búum til þjóðfélag þar sem veruleikinn er allur með. Þar sem maður og náttúra er samferða og við strengjum þess heit sem manneskjur að yfirgefa ekki hvert annað uppi á þessari eyju heldur dreifum við valdi, hugmyndum, fé, hæfileikum og umhyggju. Já, nú er lag fyrir mannsandann að rísa upp og skapa!

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Nýja Ísland !

Í Jesús Kristi við sjáum ljós,
ljósið sem eilíft mun skína.
Hann elskar þig Ísland,
þú ástfagra land,
og alla íbúa þína.