miðvikudagur, 31. desember 2008

Friðarvit

Hér er prédikun Bjarna við aftansöng á gamlárskvöldi 2008 kl. 18:00


Við sungum hér hið þekkta ættjarðarljóð „Hver á sér fegra föðurland” þar sem því er lýst hvernig þjóðin “lifir sæl við ást og óð og auð, sem friðsæld gaf.” Og sú ósk er látin í ljósi að áfram megi hún una við „heita brunna, hreinan blæ og hátign jökla, bláan sæ,” og einkenni hennar verði þau að hún sé „grandvör, farsæl, fróð og frjáls - við ysta haf.” 

- „Ættjarðarljóð fara íslendingum illa,” skrifaði Halldór Laxness í bók sinni Grikklandsárinu „því eingin þjóð hefur svo kunnugt sé spilt Íslandi viljandi af annarri eins hörku heimsku og heiftúð og vér sjálfir, ekki einusinni danakonúngar.” (Halldór Laxness, Grikklandsárið, 17. k. 1980) Víst má telja að þessi orð sem rituð voru við upphaf 9. áratugarins hljómi með meiri alvöru í eyrum okkar nú en þá er þau fyrst voru rituð. 
- Ættjarðarljóð fara íslendingum illa.

Þess er minnst að er síðari heimstyrjöldinni lauk árið 1945 safnaðist fólk saman á Austurvelli við Alþingishúsið. Þar urðu fleyg orð eins stjórnmálaskörungs okkar er lýsti þeirri von og bæn að þeir sem unnið hefðu stríðið mættu og bera gæfu til að vinna friðinn. Var þjóðarsálin svo einhuga í friðarvilja sínum og andúð á öllu stríðsbrölti á þessum árum að við urðum ekki stofnaðilar að Sameinuðu þjónunum þetta sama ár, þar sem skilyrðin voru þau að lýsa yfir stríði á hendur Japönum og Þjóðverjum. Ísland gekk hins vegar til liðs við Sameinuðu þjóðirnar ári síðar.Er hin umdeilda ákvörðun var tekin um aðild Íslands að varnarbandalagi Nató-þjóða þremur árum síðar var það gert með fyrirvörum um að haldinn yrði sá sáttmáli sem aðildarríki Sameinuðu þjóðanna höfðu skuldbundið sig að virða, en samkvæmt honum er ríkjum óheimilt að beita valdi gegn öðrum ríkjum nema í brýnni sjálfsvörn (51. grein sáttmálans) eða samkvæmt skýrri heimild Öryggisráðsins (42. grein sáttmálans).

Fimmtíu árum síðar rufum við heit okkar, Íslensk þjóð, er við vorum aðilar að sprengjuárásum Nató í þeim átökum sem þá stóðu á Balkanskaganum. Í fyrsta sinn í sögu okkar litla lands rann blóð í okkar umboði árið 1999.

„Slíðra sverð þitt!” skipaði Jesús lærisveini sínum Pétri og bætti við: „Allir sem sverði bregða
munu fyrir sverði falla.” (Matt. 26.52) Hér gefur ritningin okkur glugga til að horfa út um. - Allir sem sverði bregða munu fyrir sverði falla! Friður og farsæld ávinnst ekki með stáli og blýi. Sverðslaginu, sprengjuregninu fylgir ógæfa sjálfum þeim sem það veitir. Í dag sjáum við flest og viðurkennum að með aðild okkar að Íraksstríðinu snemma á þessum áratug var friðarhugsjón okkar ungu þjóðar loks svikin með þeim hætti sem aldrei verður afmáð. Með þögn sinni og viðbragðaleysi samþykkti þjóðin gjörðir ráðamanna sinna enda var hún þá þegar orðin fullur þátttakandi í því andrúmi græðgisvæðingar sem nú hefur leitt okkur fram til háðungar andspænis öllum þjóðum og ekki þarf að fjölyrða um.

Hver á sér fegra föðurland,
með fjöll og dal og bláan sand,
með norðurljósa bjarmaband
og björk og lind í hlíð?
Með friðsæl býli, ljós og ljóð,
svo langt frá heimsins vígaslóð.
Geym, drottinn, okkar dýra land
er duna jarðarstríð.

Nú hljómar þessi þjóðræknissálmur sem háðvísa í eyrum hvers hugsandi Íslendings. Það þurfti ekki Jesú Krist til að segja þann einfalda sannleika að hver sem sverði bregður muni fyrir sverði falla. Það þarf bara heilbrigða skynsemi til að skilja að enginn vinnur stríð. Stríð ber alltaf í sér ósigurinn því eðli þess er að stela og slátra og eyða lífinu og lífið er bara eitt og við erum hluti af því öll. Við öndum að okkur sama súrefni, búum við sama haf, erum einnar ættar.

Hver á sér meðal þjóða þjóð,
er þekkir hvorki sverð né blóð
en lifir sæl við ást og óð
og auð, sem friðsæld gaf?
Við heita brunna, hreinan blæ
og hátign jökla, bláan sæ,
hún uni grandvör, farsæl, fróð
og frjáls - við ysta haf.

Ef við höfum enn snefil af þeirri íslensku samvitund sem við eitt sinn áttum, áður en trúin á markaðinn og hernaðinn, aflsmunina og yfirburðina hóf innreið sína í vitund okkar. Ef við eigum eitthvað eftir af sannri mennsku þá grætur hjarta okkar þegar þessi orð eru flutt, og háðungin sem þau bera rennur um hverja taug.Skáldið sér og veit að farsæld þjóðarinnar og auður hennar byggir á friðsæld. Friðsæld! “Hver á sér meðal þjóða þjóð sem þekkir hvorki sverð né blóð?” Þeirri spurningu getur íslensk þjóð ekki lengur svarað. Þennan söng getum við ekki framar sungið nema til þess að gráta horfið sakleysi. Þeir viðskiptahættir sem nú hafa fallið um sjálfa sig eiga rætur í herskárri afstöðu til lífsins og umhverfisins. Stolt og heimsk töluðum við um útrásarvíkinga, eins og víkingamenningin hefði verið eitthvað annað en bleyðuskapur. Við skulum átta okkur á því að strandhögg forfeðra okkar voru það sem í daglegu tali heitir fjöldamorð, nauðganir og rán. Í stað heiðarlegrar atvinnu var setið um vopnlausan friðsaman almenning og líf þeirra lagt í auðn. Það var öll rómantíkin. Svo báru menn gæfu til að leggja niður vopn í þessu landi. Sturlungaöld lauk, blóðþorstinn svíaði frá og menn tömdu sér frið.

Ef lausn lífsgátunnar væri fólgin í aflsmunum þá væri nú lífið einfalt. Ef fallþungi manna eða raddstyrkur, fjárstyrkur þeirra eða annar sýnileiki persónunnar réði sannleikanum og réttlætinu væri einfalt að vera maður í þessum heimi. En það er ekki svo. Hversu mörg kerfi sem við smíðum í viðleitni okkar til að hliðra okkur hjá flækjum tilverunnar þá sitjum við samt alltaf á endanum uppi með verkefni lífsins. Kommúnismi eða sósíalismi dugir ekki. Nasisminn reyndist ferlega. Kapitalisminn fer heldur ekki á leiðarenda, markaðurinn mun aldrei taka af okkur ómakið hversu mjög sem við þráum lausn frá því krefjandi og kvíðvænlega verkefni sem heitir þjóðfélag eða menning. Við búum alltaf með fólki og erum alltaf í núningi við náttúruna, hversu mjög sem við leitumst við að vera í friði fyrir öllu og öllum. Á endanum erum við alltaf þar sem Íslensk þjóð stendur í dag; andspænis kröfunni um skynsemi. Lífið krefst þess að við beitum skynsemi okkar. Vits er þörf. „Sá sem er seinn til reiði er betri en kappi og sá sem stjórnar geði sínu er meiri en sá sem vinnur borgir.”(Orðskv. 16. 32.) Þetta stendur skráð í hinum fornu Orðskviðum Salomons og ber því vitni að menn hafa lengi vitað hinn einfalda sannleika um heimsku hernaðarins og það að friðarvit er leiðin til auðs og farsældar. Í spádómsbók Jesaja er Messías kynntur til sögunnar, - hann sem koma skal: „Og hann mun dæma meðal lýðanna og skera úr málum margra þjóða. Og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum.”

Þvílíkt snilldarráð og blessun þegar þjóð öðlast það friðarvit að hún umbreytir hernaðarmætti sínum í græðandi afl; gerir plógjárn úr sverðum og sniðla úr spjótum! Og spámaðurinn lýsir friðarmenningu framtíðarinnar og segir: „Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð og ekki skulu þær temja sér hernað framar.” (Jes. 2.4.)
Já, menn temja sér hernað og þeir temja sér frið. Þannig er það. Einfaldast er þó að láta haukana ráða hverju sinni því þeir eru svo sannfærðir. Í þeirra augum er allt annað hvort eða; menn eru ýmist vinir eða óvinir, góðir eða vondir, svartir eða hvítir, Palestínumenn eða Gyðingar. En sá sem hefur friðarvit veit og sér að veruleikinn er einn og við erum öll aðilar að honum í fjölbreytileika okkar.

Íslensk þjóð hefur tapað sakleysi sínu. Syndafallið hefur átt sér stað og hún skynjar nekt sína líkt og Adam og Eva í garðinum forðum. Út rekin úr Edensgarði hins unga lýðveldis stöndum við í blygðun okkar með blóðugar hendur og það verður ekki horfið aftur heim. „Hver á sér fegra föðurland” er ónýtt ljóð og lag, háðungarsálmur, öfugmæli.

Er syndafallið var orðið að veruleika í sögunni um Adam og Evu segir svo: “Og Drottinn Guð gerði skinnkyrtla handa Adam og konu hans og lét þau klæðast þeim. [...] Og Drottinn Guð lét manninn fara úr aldingarðinum Eden til þess að yrkja jörðina sem hann var tekinn af.” (1. Mós. 3.21,23)Þannig tjáir helgisögnin þá vitneskju að Guð veiti okkur syndugum mönnum skjól ef við viljum við því taka og ljái striti okkar merkingu á jörðinni. Vörn okkar og skjól birtist í mörgu. Ekki síst í þeim háttum sem við temjum okkur er við hlýðum á visku Guðs Orðs og reynum að vera skynsöm, efla með okkur friðarvit og friðarmenningu í anda frelsarans Jesú.

Guð gefi Íslenskri þjóð að endurheimta sjálfa sig svo að strit hennar öðlist merkingu að nýju.

Amen.

mánudagur, 29. desember 2008

Biskupinn og allt hans hyski

Það er merkileg upplifun að tilheyra stétt sem nefnd er hyski í leiðara dagblaðs eins og raun varð á í Fréttablaðinu í gær.  Í framhaldi af þeirri nafnbót langar okkur að koma að nokkrum orðum.

Nú gerist það að allar stofnanir og kerfi samfélags okkar standa undir gagnrýnu ljósi.  Íslenskt þjóðfélag er að ganga í gegnum óhjákvæmilega sjálfsskoðun þar sem snúa þarf við öllum steinum í fjöru menningar okkar, endurmeta gildi og samhæfa göngulag þjóðarinnar upp á nýtt. Í því ferli gildir það jafnt um Þjóðkirkjuna sem aðrar grunnstoðir samfélags okkar að meta þarf stöðu hennar og hlutverk.

Ríkið er samstarfsvettvangur almennings þar sem vaka skal yfir almannaheill.  Þegar veraldlegt samfélag og yfirvöld taka afstöðu til trúfélaga og þess rýmis sem þau skulu hafa á almannavettvangi á fyrst og síðast að spyrja að einu.  Spyrja skal hvort viðkomandi trúfélög efli félagsauð.  Félagsauður er mælanleg gæði.  Hann varðar trúnaðinn í samskiptum fólks og þær væntingar sem við berum hvert til annars.  Þegar menn telja sig hafa ástæðu til að treysta náunga sínum og finnst að óhætt sé að reiða sig á kerfi og stofnanir samfélags síns þá heitir það félagsauður.  Hið veraldlega hlutverk allra trúarbragða er að auka félagsauð og ríkið verður að gera þá kröfu til skráðra trúfélaga að starf þeirra leggist á árar í þágu almannaheilla.  

Kristin kirkja er ekki til sjálfrar sín vegna.  Hún lifir og starfar í þágu þess samfélags sem hún þjónar.  Samfélagið á allan rétt að vísa kirkjunni út, kjósi það að gera það.  Kirkja Jesú frá Nasaret áskilur sér engan rétt en bendir í sífellu á þann rétt sem allir menn eiga.  Á tungutaki Biblíunnar heitir sá réttur Guðsbarnaréttur en í daglegu tali notum við hugtakið mannréttindi til að lýsa sömu vitneskju.  

Við megum ekki gleyma því að gera vissan greinarmun þegar við tölum um kirkju Krists í einu orðinu og Þjóðkirkju Íslands í hinu.  Þjóðkirkjan er, eins og allar kirkjudeildir, mannleg stofnun sem sett er til að þjóna kristninni, þjóna kirkju Jesú.  Þjóðkirkjan þarf aðhald frá samfélaginu og samfélagið þarf líka aðhald frá Þjóðkirkjunni, svo framarlega sem Þjóðkirkjan stendur sig í stykkinu.  Á hverjum tíma verður samfélagið að dæma um kirkjuna, hvort hún sé til gagns eða ekki.  Gagnvart kirkjunni á hið veraldlega samfélag allan rétt og kirkjan gæti ekki sótt rétt sinn af hörku, jafnvel þótt hún ætti hann að lögum.  Kirkja sem lögsækti samfélag sitt væri eins og foreldri sem lögsækir börn sín.  Samt stendur kirkjan ekki undir dómi manna og sækir ekki tilverurétt sinn til veraldarinnar.  Hún trúir því að hún sé sett af Guði, send af Guði. Þessi trú er líka tilfinning.  Rétt eins og foreldrar trúa og finna að þeir eru handa börnum sínum en börnin eru ekki handa þeim.  Þess vegna syngjum við sálma í kirkjunni sem segja m.a.:  "Kirkjan er oss kristnum móðir..."  Þessi vitund er hluti af sjálfsvitund kirkjunnar á öllum öldum.  

Það má og það verður að gagnrýna Þjóðkirkjuna.  Enginn einn getur talað fyrir hennar hönd. Þjóðkirkjan er samfélag hún er samvitund.  Hún er eins og aldrað foreldri sem veit að það getur ekki og má ekki segja fullveðja börnum sínum fyrir verkum.  Þegar þau velja að koma til hennar þá gera þau það á forsendum barnaréttarins, mannréttindanna.  Við (elhús)borð Kirkjunnar eigum við öll sama rétt og þar kemur enginn til að kenna öðrum.  Kirkjan vill ekki og má ekki hafa völd, hún kann bara að biðja og blessa, óska góðs og vona hið besta.  Hvert orð sem fellur inni í helgidóminum, hvort sem þar tala opinberir kennimenn eða aðrir, verður að vega og meta. Gagnrýna.  Enginn á síðasta orðið í kirkjunni, enginn nema Jesús Kristur.  Þetta er m.a. það sem átt er við þegar sagt er:  "Ég trúi á heilagan anda, heilaga almenna kirkju,..." Hagsmunir kristinnar kirkju á hverjum tíma eru þeir einir að fá að vera til staðar fyrir fólk.  Form þeirrar nærveru er í sjálfu sér aukaatriði.  Þjóðkirkjufyrirkomulagið hefur lengi reynst vel og átt drjúgan þátt í því að viðhalda félagsauði í landi okkar.  En það er ekki gallalaust.  Það felur m.a. í sér þá hættu að starf kirkjunnar birtist fólki í mynd einhverskonar forræðishyggju eða þröngvunar.  Kostirnir liggja í því að jöfnuður og samhljómur skapast í þeirri mikilvægu þjónustu sem trúarstofnunin veitir og allur almenningur finnur sig heima í öruggu og sanngjörnu andrúmslofti...  ef Þjóðkirkjan stendur sig í stykkinu.  

Við þurfum öll að standa okkur í stykkinu hvort sem það eru trúfélög, menntastofnanir, heilbrigðisstofnanir, fiskvinnslufyrirtæki, löggæslan, Veðurstofan, fjölmiðlar eða hverjar aðrar stofnanir samfélagsins sem njóta krafta okkar.  Okkur ber öllum að vanda okkur.  Sem einstaklingar og sem fagmenn berum við sameiginlega ábyrgð á félagsauði þjóðarinnar og megum ekki falla í þá gryfju að brjóta hann niður í átökum og stælum.  Leiðarar dagblaðanna gegna mikilvægu hlutverki í því að vera öruggur og sanngjarn vettvangur þar sem trúnaði er ekki brugðið við almenning heldur vandlega gætt að rökum í hverju máli og almenn kurteisi viðhöfð.


laugardagur, 27. desember 2008

Kyrrðin eins og á fjöllunum

Hér er komin ræða okkar hjóna á aðfangadegi.
Bjarni flutti hana við aftansöng kl. 18:00 í Laugarneskirkju og Jóna Hrönn kl. 23:00 við miðnæturguðsþjónustu í Garðakirkju.



Þú gengur inn í rökkvað gripahúsið. Augun er lengi að venjast myrkrinu en þú finnur ilminn af heyi og frá dýrunum heyrist jórtur og andardrátur. Er þú hefur náð að greina útlínur kemur þú auga á þau innar. Þau hafa tekið jötuna traustataki og búið nýfæddu barni hvílu. Hún situr með barnið í fangi sínu og leggur það á brjóst. Hann stendur álútur hjá. Augu þín dragast að hvítvoðungnum sem liggur vær á brjósti. Fæðingin er að baki. Barn og foreldrar hvílast í þögn og feginleika yfir sigri lífsins. Útifyrir veggjum fjárhússins er heimurinn með öllum sínum lokuðu dyrum. En yfir vægðarlausri veröld stendur himinn opinn...
„hverfur nætursorti,
og himneskan ljóma af sjörnu ber.
..
Sjá konungur englanna fæddur er.”

Hér stendur þú í kyrrðinni og allt er heilagt.
Þegar barn er fætt og tekur sín fyrstu andartök stendur tíminn í stað.

Kyrrðin, eins og hún var.
Kyrrðin, eins og á fjöllunum.
Hingað leitar hún enn
meðan öll borgin sefur.

Litla stund
eftir að ljósin slokkna
áður en sólin rís
seytlar hún fram, streymir
litla stund
eins og lind upp úr jörðinni.
Hannes Pétursson

- Kyrrðin eins og á fjöllunum.
Varirnar sem hér nærast á móðurbrjósti eru ómálga enn. Hér teiga þær næringu sína þessar varir sem mæla munu fram þau orð sem síðar munu næra lífs- og sannleiksþorsta mannkyns.
„Sælir eru fátækir í anda, því þeirra er himnaríki.
Sælir eru syrgjendur, því að þeir munu huggaðir verða.
Sælir eru hógværir, því þeir munu jörðina erfa.
Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu því þeir munu saddir verða.” ...„Allt sem þið gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þið gert mér.” ... „ „Í heiminum hafði þér þrenging, en verið hughraust ég hef sigrað heiminn.”

Þú greinir fálmandi hreyfingar örsmárra handa sem enn kunna ekki að grípa. Þessar hendur eiga eftir að snerta hina óhreinu og þjáðu sem enginn vill snerta. Þær eiga eftir að líkna og lækna. Og þær eiga líka eftir að hrinda um borðum víxlara og stólum dúfanasala, framkvæma réttlæti. Þessar sömu hendur munu brjóta brauðið og rétta kaleikinn áður en þær verða yfirbugaðar og reknar í gegn, festar á kross, af því að það er ekki pláss í veröldinni fyrir sannleikann, réttlætið og miskunnsemina.

Frá fyrstu stundu er krossinn nálægur þessu barni sem liggur við móðurbrjóst. Þessar smáu hendur munu um ókomnar aldir framkvæma réttlæti, halda vernd yfir öllum sem ekki eiga skjól.

Hefur þú haldið nöktu nýfæddu barni upp að brjósti þér? Klætt lítinn líkama varlega í mjúkar flíkur og gætt þess að fingur og tær smjúgi létt um ermar og skálmar? Þegar þú andar að þér ilmi barnsins er eitthvað sem vaknar inni í þér. Eitthvað sem alltaf var þarna og dvelur í hverri mannlegri sál. Það er samstaðan með lífinu. Í návist barnsins verður höndin þín styrk og mjúk.

Þegar María hefur laugað fæðingarblóðið úr dökku hári drengsins síns og þerrað líkama hans vefur hún hann reifum og leggur hann í jötuna. Þeirrar stundar mun hún síðar minnast er særður líkami hans er vafinn línblæjum með ilmjurtum á Golgatahæð.

Hér er hann kominn, konungur englanna, hann sem gefa mun veröldinni von. Í kvöld mátt þú horfa í augu englanna. Á þessu kvöldi stendur tíminn í stað því eilífðin snertir andrána og himinn Guðs er opinn. Ef þú vilt máttu ganga að jötunni, krjúpa niður og lúta þessu barni. Ef þú vilt.

Hér erum við á þessu kvöldi. Hér ert þú. Útifyrir veggjum kirkjunnar er heimurinn með öllum sínum lokuðu dyrum og öllu því sem tefur og truflar og vill ekki taka við barninu. Veröldin hefur hvorki rúm né tíma fyrir þetta barn. Hún hefur aldrei pláss og tíminn er aldrei réttur. Töfin og flýtirinn ræður ríkjum í heiminum en núið finnur hvergi stað...

Hér stend ég, og allt er gengið um garð –
með gjafir í framréttum höndum, ég, sá er tafðist
gekk yfir þungfær löndin án þess að eiga
mér örugga stjörnu sem vísaði leið.
Stend hér í ókunnu fjárhúsi, fullu af myrkri.
Fagnandi söngur englanna liðinn hjá.

Ég, sá er tafðist. Einn í ókunnu hreysi
og augu græn sem maurildi djúpt í sjó
horfa frá jötunni.
Jórtrað er inni í myrkri
hjá jötunni þar sem barnið svaf.
Hannes Pétursson

Þannig orti skáldið Hannes Pétursson um töfina, en þú ert hér í kvöld. Þú ert hérna núna.

Ég þekki ekki þitt líf. Veit ekki hvaða dyr hafa lokast á þig og veit ekki út í hvaða nótt þú gengur þegar þú ferð héðan út. Hvort þar lýsi nokkur örugg stjarna sem vísi þér leið. En þú hefur valið að vera hér, staðnæmast hjá barninu þessa stund. Englar himinsins horfa í augu þín í kvöld og góður Guð sér og þekkir alla þína vegu. Sorgir þínar og gleði þekkir Guð. Barnið í jötunni er staðfesting þess að þú ert ekki einn. Sjálfur Guð veit hvað það er að vera manneskja í vægðarlausum heimi.

Guð er eilíf ást,
engu hjarta er hætt.
Ríkir eilíf ást,
sérhvert böl skal bætt.
Lofið Guð, sem gaf,
þakkið hjálp og hlíf.
Tæmt er húmsins haf,
allt er ljós og líf.
Stefán frá Hvítadal


Amen.

sunnudagur, 7. desember 2008

Limbó

Hér er prédikun Bjarna flutt í Laugarneskirkju á öðrum sunnudegi í aðventu, 7.12.2008 kl. 11:00

„Hvernig gat það gerst að við sofnuðum og tókum ekki eftir því þegar þjófurinn læddist að börnum okkar og tók frá þeim eirðina, andrána svo að þau urðu prógramminu að bráð í endalausri framtíð?”


I

Ég var að hlýða yngsta syni mínum yfir fyrir próf í líffræði í vikunni. Hvað haldið þið að standi í fyrsta kaflanum í fyrstu kennslubókinni í lílffræði sem unglingarnir okkar lesa í menntaskóla? Þar stendur að allt sem lifir deyi að lokum. Þessi tíðindi færir hann Örnólfur Thorlasíus unga fólkinu: Allar lífverur á jörðinni deyja þegar þær eru búnar að lifa, og bætir við þeirri staðhæfingu að líffræðin fjalli um lífið og eðli þess en geti ekki svarað spurningum um tilgang lífsins eða um guð. Ég verð að játa að ég renndi þakkarhuga til míns gamla lærimeistara úr MH. „Flottur karl hann Örnólfur” hugsaði ég.

Einhver myndi e.t.v. líta svo á að dauðinn sé svo sjálfsagt mál að ekki þurfi að hefja líffræðibók á því að ræða veruleika hans. En Örnólfur Thorlasíus hefur umgengist ungt fólk allt sitt líf og hann veit að það er hollt einmitt þegar maður er sextán að verða sautján að vera minntur á staðreynd dauðans, því aldrei er maður eilífari í eigin huga og þ.a.l. aldrei eins líklegur til að fara sér að voða. En vitaskuld er það engin frétt að allt sem lifir deyji að lokum. Á nákvæmlega sama máta er það engin frétt sem Jesús færir í guðspjalli dagsins er hann segir: „Himinn og jörð munu líða undir lok.” Þetta er einmitt það sem allir vita. Allt fólk veit að veröldin er laus á límingunum. Við vitum ofurvel að við sjálf og allur veruleikinn er eitt flæðandi mengi sem aldrei stendur kyrrt. Við þurfum enga kreppu til að kenna okkur þá staðreynd að fasteign er bara skynvilla. Ekkert er fast. Engin eign er varanleg. Munið þið gömlu Volvo-bílana? „Fasteign á hjólum!” stóð í afturglugganum á þeim og maður var bara snortinn af að lesa þetta. En auðvitað ryðguðu þeir alveg eins og allir hinir og voru engin fasteign þegar upp var staðið.


Enda þótt þessi vitneskja, vitundin um hverfulleika efnisheimsins, sé öllum ljós þá er svo merkilegt að það er ekki óalgeng tilfinning að orð Jesú í guðspjöllunum um endalok alls veki með okkur tilfinninguna fyrir því að verið sé að hóta okkur eða gera tilraun til að hræða fólk til trúar. En ekki er Örnólfur Thorlasíus að hræða framhaldsskólanema þegar hann segir þeim að allar lífverur deyi?! „Himinn og jörð munu líða undir lok,” er líka bara formáli Jesú að stórmerkri yfirlýsingu sem vert er að staldra við. Setningin hljómar svo: „Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða.” Hér er gott umhugsunarefni. Skyldi eitthvað vera sem ekki líður undir lok?



II

Við hjónin fórum saman í Borgarleikhúsið í þarsíðustu viku að sjá stórmerkilegt leikrit, Dauðasyndirnar sjö. Einn af fjórum leikurum þeirrar sýningar, Halla Margrét Jóhannesdóttir, syngur eiinmitt hér í kórnum og ég verð að segja að það var stórkostlegt að upplifa hana og samstarfsfólk hennar á sviðinu sem raunar teygði sig um allan stóra salinn í Borgarleikhúsinu. Í þessu stykki fá áheyrendur að standa á hliðarlínunni í miklum hildarleik sem byggður er á hinum Guðdómlega gleðileik eftir ítalska skáldið Dante frá upphafi 14. aldar þar sem skáldið sjálft fer í sérstakan leiðangur niður í gegnum hinar níu hæðir helvítis. Í þessu verki eru það fjórir trúðar sem taka að sér að segja söguna og leiða áhorfendur með sér um völdunarhús myrkurs og lasta og sú húsaskipan sem þar opnast verður á köflum óþægilega lík ýmsu sem maður þekkir of vel í eigin tilveru. Helvíti verður manni nákomnara, kunnuglegra en maður hefði óskað, og svo er hlegið að þessu öllu saman og þegar maður loks er sestur upp í bílinn sinn eftir sýninguna og búinn að spenna beltið spyr maður sig „Hver var raunverulega trúðurinn í þessari sýningu?” Og hvað heldur þú að einkenni nú helvíti samkvæmt sögunni? Höfuðeinkenni helvítis er það að þar er bara fortíð og framtíð en nútíð finnst engin. Á fyrstu hæð í þessu merka fjölbýlishúsi, sem er svo haganlega fyrirkomið að önnur hæðin er undir þeirri fyrstu og svo koll af kolli niður á við, þar heitir Limbó. Í Limbó er allt eins og við viljum hafa það. Þar er allt til alls, engan skortir neitt og smjör drýpur af hverju strái. En það er eitthvað. Eitthvað sem ekki er hægt að þreifa á... Einhver óeirð í öllu og öllum. Íbúar Limbó sjá og vita að þeir hafa allt... en það er líka allt sem þeir hafa. Ástæðan er sú að þar er ekkert nú, bara fortíð og framtíð. Óbreytanleg fortíð og endalaus framtíð en enginn andrá.


Þegar íslensk vísitölufjölskylda sest að kvöldverðarborði kostar það sérstakt átak að draga alla samtímis inn í andrána. Það þarf að þagga í nokkrum gemsum, slökkva á tölvum, slá út flatskjáinn, draga I-podþræði út úr eyrum, slökkva á tónlist í útvarpi o.fl. o.fl. bara til þess að tryggja að þessar fjórar til fimm manneskjur sem þarna ætla að matast saman séu til staðar þennan rúma hálftíma. Og stundum megnum við ekki að standa í þeim átökum sem þetta kostar. Hvert einasta heimili verður aftur og aftur skarkalanum að bráð. Ég hef sagt það áður hér að ég held að sú kynslóð sem nú stendur á þröskuldi sín sjálfstæða lífs í þessu landi sé ruplaðasta og rændasta kynslóð sem staðið hefur á íslenskri grund. Við höfum rænt hana núinu í andrúmi samanburðar og ódýrrar afþreyingar. Frá blautu barnsbeini hafa þau verið í prógrammi, fylgt leiðsögn í hópi. Í sífellu hafa þau svo mátt þola það að vera borin saman við hópinn og ætlað að uppfylla árangursstaðla á öllum sviðum. Enginn er í 4. bekk heldur allir á leið í þann fimmta. Enginn er í 8. bekk því það eru samræmdu prófin sem gilda. Og að þeim loknum kemur spurningin stóra: Hvað ætlar þú að verða? Því okkur kemur ekkert við hver þú ert núna, þar eð núið er ekki til, bara framtíðin þar sem samkeppnin bíður og allt árangursmatið. Við afhentum þessari kynslóð GSM símann í einhverskonar öryggisskyni. Fyrir var veröld þeirra svo sem nógu skarkalasöm en frá þeim degi varð ekki stundlegur friður. Um svipað leiti bættust við flókin fjarskiptaforrit á vefnum, - msn kom ofan á sms, og nú hefur Facebook sallast ofan á Myspace og allt er þetta skemmtilegt í sjálfu sér nema hvað það er mikið álag að lifa, missa ekki af, verða ekki seinn í prógramminu, heyra og sjá allt sem nema skal og skila öllum verkefnum á réttum tíma svo að besta hvíldin er sú að hafa eitthvað í eyrunum og fá þá að vera einn með sjálfum sér í skjóli einhverra tóna sem yfirgnæfa öll hin áreitin.


„Gætið ykkar, vakið!” Segir Jesús frá Nasaret. „Þið vitið ekki nær tíminn er kominn. Svo er þetta sem maður fari úr landi, skilji við hús sitt og feli þjónum sínum umráðin, hverjum sitt verk. Dyraverðinum býður hann að vaka. Vakið því, þið vitið ekki nær húsbóndinn kemur, að kveldi, á miðnætti, í óttu eða dögun. Látið hann ekki finna ykkur sofandi þegar hann kemur allt í einu. Það sem ég segi ykkur, það segi ég öllum: Vakið!“

Þú ert dyravörður. Þér ber að vaka. Ef stolið er úr húsinu er ábyrgðin þín.

Hvernig gat það gerst að við sofnuðum og tókum ekki eftir því þegar þjófurinn læddist að börnum okkar og tók frá þeim eirðina, andrána svo að þau urðu prógramminu að bráð í endalausri framtíð? Og til að bíta hausinn af skömminni þá erum við búin að skuldsetja þau í þeirri sömu framtíð. Hvernig gat þetta gerst?



III

Við heyrum lifandi tónlist hér í dag í flutningi frábærra listamanna Nýja Kvartettsins. Hvers vegna settum við ekki bara nýja diskinn þeirra í græjurnar? Hér eru þessi fínu hljómflutningstæki, hvað vorum við að þiggja heimsókn þeirra sjálfra? Ástæðan er sú að við þekkjum muninn á lifandi tónlist og varðveittri tónlist. Við þekkjum muninn á að vera í leik eða í prógrammi. Við vitum hvað það er að lifa núna eða lifa seinna. Við vitum hvað það er að finna eirð í sínum beinum, vera með sjálfum sér, lifa stundina. Við vitum m.ö.o. ofur vel hvað Jesús meinar þegar hann segir okkur að vaka!


Í guðspjalli dagsins ögrar frelsarinn okkur til þess að þora að lifa vakandi og láta ekki ræna okkur og rupla. Nákvæmlega sama málefni er til staðar í þriðja boðorðinu þegar það áminnir okkur og segir “Halda skaltu hvíldardaginn heilagan.” Gleymdu ekki að leika þér! er verið að segja. Leyfðu hvíld og endurnæringu að koma. Láttu ekki núið af hendi. Slepptu ekki frá þér andránni því annars muntu deyja. “Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða.” Skyldi eitthvað vera sem ekki líður undir lok? Spurði ég áðan. Fortíð og framtíð líða undir lok. Það er ekkert í fortíð þinni sem skilgreinir þig að eilífu og dag einn er framtíð þinni lokið. En í andránni er Guð að hlusta á þig. Guð er alltaf hér. Hann er núna. Og áður en Guð segir okkur í boðorðum sínum að stela ekki eigum annarra eða misvirða líf þeirra, mannorð og heilsu þá biður hann okkur að missa ekki sjónar af lífinu, núinu.


Ég kann ekki að svara því hvernig allt gat farið eins og það fór og ég veit ekki um neinn sem kann það svar. Það eina sem ég þori að fullyrða er það að svarið við fortíðinni og framtíðinni liggur í núinu. Hún Heiðrún sem hér var borin til skírnar áðan lifir í núinu og það er engin leið að hitta hana nema þar. Ef við ætlum að standa við loforð okkar gagnvart henni og öðrum börnum okkar þá verðum við að finna leiðina aftur inn í núið, þar bíða þau eftir okkur börnin og þar er líka hann sem sagði: “Hver sem tekur við einu [...] barni í mínu nafni tekur við mér.” (Matt. 18.5)

Amen.