föstudagur, 13. mars 2009

Afsökunarbeiðni til Breiðavíkurþolenda

Bjarni skrifar:
Loksins rann upp sá tími að fulltrúi almennings á Íslandi, forsætisráðherra landsins, gæti borið fram afsökunarbeiðni við það fólk sem var rænt barnæsku sinni með tilstuðlan opinberra aðila á upptökuheimilum ríkisins um miðja síðustu öld. Loksins er það að gerast að heljartök þóttavaldsins eru að linast í hinu opinbera rými svo að það megi gera svo einfaldan hlut sem það er að biðjast fyrigefningar á mistökum.
Jóhanna Sigurðardóttir gat gert þetta af þeirri einföldu ástæðu að hún hefur varðveitt heilbrigði sitt og aldrei gengið hótunarvaldinu á hönd. Það er nefnilega þannig að sérhver maður verður að lúta því valdi sem hann hyggst beita.
E.t.v. eru nýir tímar að renna upp. Hugsanlega munu stjórnmál taka að snúast um almannahagsmuni og virðingu fyrir lífi hins venjulega manns. Hugsanlega.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sérhver maður verður að lúta því valdi sem hann hyggst beita. Orð að sönnu!