miðvikudagur, 11. mars 2009

Nafnlaus og raddlaus

Hér er prédikun okkar frá sunnudegi 8.3.2009

„Það fylgir því einsemd að vera þaggaður. Hefur þú e.t.v. einhverntíman talað og talað en mætt tómu augnaráði þeirra sem töldu sig betur vita og betur mega? Hvernig leið þér þá?”


I
Í sögu dagsins er borin fram spurning: „Hvað vilt þú að ég geri fyrir þig?” Það er Jesús sem ber spurninguna fram.

Veistu um einhvern sem elskar þig og vill vinna þér allt hið besta? Veistu um einhverja mannlega sál sem núna á þessari stundu eða einhvern tímann áður fyrr var til staðar fyrir þig og einfaldlega elskaði þig? Ég vona það. Það er gott að vera elskaður og það er gott að elska. Já, elskar þú einhvern? Ég trúi því að þú gerir það.

Stundum þegar við viljum vera góðar og artarlegar manneskjur við fólk sem orðið hefur fyrir áföllum segjum við: „Þú hefur samband ef það er eitthvað sem ég get gert.” Og þegar hinn horfir ráðviltur framan í okkur, þá ítrekum við orð okkar: „Ég meina það! -bara eitthvað, hvað sem er... þú hefur símann minn!” Svo kveðjum við og látum sjálfum okkur líða vel en vitum inn við beinið að við vorum ekki að opna heldur að loka á samskiptin. Það er nefnilega hægt að vera ósköp góður án þess að elska. Það er hægt að vera notalegur, viðkunnanlegur og ábyrgur en elska samt ekki.

Það fer engum sögum af því að Bartímeus blindi sem guðspjall dagsins greinir frá hafi verið ofsóttur af samferðamönnum sínum. Það er ekkert gefið í skyn að neinn hafi verið vondur við hann. Samt kom Jesús og bætti líf hans með svo róttækum hætti að allt varð nýtt.


II
Staða Bartimeusar var sú að hann var blindur og gat ekki séð, en það var þó ekki það sem helst háði honum ef sagan er lesin með athygli. Því auk þess að vera sjónlaus var hann bæði nafnlaus og raddlaus.
Bartimeus merkir bara sonur Tímeusar. Hann hét ekkert, persóna hans bar ekki nafn.
- Þegar barn er skírt er það ávarpað fullu nafni um leið og loforð Guðs og manna um mannréttindi þess er áréttað. Íslensk lög heimila m.a.s. dagsektir á foreldra sem trassa að gefa barni nafn, því það eru talin grundvallarréttindi að heita eitthvað, vera ekki bara sonur einhvers eða dóttir. Ofan á nafnleysi Bartimeusar bætist það að þegar hann hrópar á Jesú og biður hann að hjálpa sér, þá er hann þaggaður. „Margir höstuðu á hann, að hann þegði.” segir orðrétt í sögunni. Þöggun er tækni. Þöggun er þróuð aðferð, hópefli. Sonur Tímeusar var einn þeirra sem eru þaggaðir. Það fylgir því einsemd að vera þaggaður. Hefur þú e.t.v. einhverntíman talað og talað en mætt tómu augnaráði þeirra sem töldu sig betur vita og betur mega? Hvernig leið þér þá?

III
Sagan af Bartimeusi og Jesú er ekki bara lítil kraftaverkasaga. Hún hefur marga djúpa liti og undirliggjandi drætti sem ekki koma í ljós nema við langa íhugun og rannsókn á guðspjöllunum. Einn þáttur sögunnar er sá að Jesús og Bartímeus eru í sömu stöðu. Í Bartimeusi mætir Jesús einskonar spegilmynd sinni. Framar í Markúsarguðspjalli, í 8. kaflanum, er Jesús að glíma við nafnleysi sitt ef svo má að orði komast og raddleysið fylgir honum síðan allt til dauða. Enginn heyrir hann. Enginn tekur við því sem hann er að segja.

Í 8. kafla guðspjallsins spyr Jesús lærisveina sína í trúnaði: “Hvern segja menn mig vera?” Og lærisveinarnir segja honum það helsta sem um hann er sagt og slúðrað. - „En þið?” spyr hann „En þið, hvern segið þið mig vera?” Pétur svarar honum og segir: „Þú ert Kristur.” (Mark. 8.29) Matteus guðspjallamaður segir sömu sögu og greinir frá viðbrögðum Jesú og feginleika hans er Pétur kvað upp úr með persónu hans. Loksins var einhver mannleg sál sem sá og vissi hver hann var, að hann væri Kristur Guðs sonur! „Sæll ert þú Símon Jónasson Enginn maður hefur opinberað þér þetta heldur faðir minn á himnum. ” sagði Jesús við Pétur. Loksins hafði nafn hans hlotið merkingu í vitund einhverra. Jesús Kristur Guðs sonur var nafn hans. (Matt.16.18) Það er ekki tilviljun að í beinu framhaldi af játningu Péturs er raddleysi Jesú undirstrikað og þögguninni sem hann mátti í sífellu þola er lýst. Það fyrsta sem gerist eftir að Pétur er búinn að játa að Jesús sé Kristur er það að hann sjálfur reynir að þagga niður í Jesú! Orðrétt segir: „Þá tók Jesús að kenna þeim: ‘Mannssonurinn á margt að líða. Öldungarnir, æðstu prestarnir og fræðimennirnir munu útskúfa honum. Menn munu lífláta hann en hann mun upp rísa eftir þrjá daga.’ Þetta sagði Jesús berum orðum. En Pétur tók hann á einmæli og fór að átelja hann.” (Mark. 8.31-32) Þöggun!

Þegar Jesús reynir svo aftur í 9. kaflanum að fitja upp á þessu erfiða umræðuefni um yfirvofandi þjáningu sína og dauða og þráir ekkert annað en að þeir hlusti og taki við orðum hans, þá fara þeir að metast um það hver þeirra sé mestur! Þöggun!

Og í 10. kaflanum endurtekur sig þetta sama samskiptamunstur þegar Jesús segir þeim í þriðja sinn berum orðum: „’Nú förum við upp til Jerúsalem. Þar verður Mannssonurinn framseldur æðstu prestum og fræðimönnum. Þeir munu dæma hann til dauða og framselja hann heiðngjum. Og þeir munu hæða hann, hrækja á hann, húðstrýkja og lífláta en eftir þrjá daga mun hann upp rísa.’ Þá komu til Jesú Jakob og Jóhannes, synir Sebedeusar, og sögðu við hann: ‘Meistari, okkur langar að þú gerir fyrir okkur það sem við ætlum að biðja þig.’” (Mark. 10.33-35) Og hvað haldið þið að þeim hafi nú legið á hjarta blessuðum?... Fyrst má ég til að taka fram að þegar Matteus segir söguna er hún jafnvel enn verri, vegna þess að þar er það mamma þeirra Sebedeussona sem á við hann erindið fyrir þeirra hönd. Þar láta þeir mömmu sína tala fyrir sig og biðja um það að þegar þetta verði nú allt afstaðið og hann búinn að deyja og rísa frá dauðum þá fái þeir að vera aðal. “Lát þú þessa tvo syni mína sitja þér við hlið í ríki þínu hvorn til sinnar handa, annan til hægri handar þér og hinn til vinstri.” (Matt. 20. 21) - Ég veit ekki um neitt hugtak sem nær yfir svonalagað. Þetta er miklu meira og verra en bara þöggun.

Jesús stendur andspænis yfirvofandi þjáningum og dauða og þau sem eiga að heita vinir hans sjá bara tækifæri í stöðunni! En rödd hans heyrist ekki, þjáning hans, angistin sem nístir Jesú, einsemdin sem heltekur hann. Ekkert heyrist af því sem Jesús er að reyna að segja. M.a.s. hans nánustu vinir sjá bara tækifærið Jesú enginn kemur auga á frelsarann Jesú þar til veikburða rödd heyrist frá vegarkanti, „Sonur Davíðs, Jesús, miskunna þú mér!” Það má segja að Bartimeus blindi sé eini sjáandi maðurinn í 8., 9. og 10. kafla Markúsarguðspjalls! „Sonur Davíðs, miskunna þú mér!”

IV
Í augum allra hinna var Jesús bara tækifæri sem þurfti að spila rétt úr til þess að tryggja hagsmuni sína, en Bartimeus blindi sá frelsarann sjálfan. Og þessa þögguðu rödd heyrði Jesú, nam staðar og sagði: „’Kallið á hann.’ Þeir kalla á blinda manninn og segja við hann: ‘Vertu hughraustur, statt upp, hann kallar á þig.’ Blindi maðurinn kastaði frá sér yfirhöfn sinni, spratt á fætur og kom til Jesú.”
Jesús sagði við hann: ‘Bartimeus, þú hefur samband ef það er eitthvað sem ég get gert! Ég meina það -bara eitthvað, hvað sem er...’
....
Nei, hvað sagði Jesús í alvöru við Bartimeus? Hvernig spyr sá sem elskar? Þú veist það.

Engin ummæli: