sunnudagur, 12. apríl 2009

Líkaminn lýgur ekki

Gleðilega páska!
Í dag stendur Jesús Kristur fyrir hugskotssjónum okkar, réttir fram gegnum stungnar hendur sínar og biður okkur að snerta sig.

Hefur þú setið við glugga á kaffhúsi við fjölfarið torg eða bara í bíl á Laugaveginum og fylgst með fólki ganga hjá? Það er svo áhugavert að virða fyrir sér fólk. Amma konunnar minnar hét Jónína Jóhannesdóttir. Aldrei heyrði ég hana baktala nokkurn mann og í hverri mannssál sá hún eitthvað fallegt. Það besta sem hægt var að gera fyrir hana á efri árum var að bjóða henni í ís-bíltúr og leggja svo bílnum við Laugaveginn til að virða fyrir sér fólkið. Jóna amma var upp alin í borginni og vissi engan stað fegurri en miðborg Reykjavíkur, þar var fólk og þar var fjölbreytni. Í hennar augum bar hver manneskja með sér eitthvað sem draga mátti lærdóm af.

Í umhverfi mínu á barns- og unglingsárum var kona sem margir horfðu á. Enginn var eins og hún og við krakkarnir og unglingarnir kímdum þar sem hún fór um götur og ganga því hún gekk kengbogin og talaði einkennilegri mjóróma röddu. Einhverntímann var ég á ferð með foreldrum mínum akandi austur um sveitir og þá benti móðir mín mér á bæinn þar sem þessi kona hefði verið niðursetningur þegar hún var barn og hún gaf í skyn að e.t.v. væri samhengi á milli erfiðrar lífsreynslu hennar og þess hvernig hún bar sig og tjáði sig sem fullorðin manneskja. Ég var bara unglingur og sá hana fyrir mér berandi eitthvað ósköp þungt sem barnslíkaminn hefði ekki ráðið við, en hugleiddi það ekkert frekar.
Þegar þessi gamla kona dó var ég kominn nær tvítugu minnir mig og það vildi svo til að síðustu dægrin sem hún lifði var það ein frænka mín sem vitjaði hennar á dánarbeðið. Eftir á fregnaði ég að andspænis dauðanum hefði það gerst að þessi gamla kona rétti loks úr bakinu og lá eðlilega í rúmi sínu og talaði styrkum rómi. Á dánabeðinu var eins og nýr lífskraftur hefði verið leystur úr læðingi og loks eftir alla hennar mæðu auðnaðist henni að koma til sjálfrar sín í samskiptum við annað fólk.

Oft hefur mér orðið hugsað til þessarar konu og ég hef spurt mig hvað það muni hafa verið sem beygði hana og þvingaði með þeim hætti að hún lifði nær öllu lífi sínu kengbogin svo að hún gat ekki horft framan í samferðarmenn sína heldur sá umhverfi sitt alltaf úr hálfsmetra hæð. Hvað var það sem lék hana svo hart til líkama og sálar að hún fann þessa einu útleið að beygja sig í duftið og tala syngjandi rómi fram í ellina?

Já, manneskjur eru merkilegar og mótun persónunnar er flókið ferli. Í því ferli öllu er eitthvað varðandi mannslíkamann sem ekki lýgur. Okkur getur þótt líkaminn svíkja okkur á ýmsan máta, okkur getur fundist hann bregðast okkur og taka stjórn af viljanum, en hann lýgur ekki. Líkaminn lýgur ekki. Það er þess vegna sem þú veist þegar ástvinir þínir ljúga, þú kannt að lesa það sem líkami þeirra segir. Þú veist í margra metra fjarlægð hvað þeim líður sem þú elskar. Og þú þekkir líka hvernig góð snerting megnar að veita kjark og kraft og huggun en vond snerting rænir mann þeim sömu gæðum. Líkaminn lýgur ekki.

Hefur þú séð styttuna frægu eftir Michelangelo sem nefnd er Piata og stendur varðveitt bak við skothelt gler í Péturskirkjunni í Róm? Þar túlkar listamaðurinn Maríu guðsmóður með Jesú látinn í fangi sér. Fá listaverk eru stórkostlegri. María reynir að hylja illa leikinn líkama sonar síns með hvítu líni og maður skynjar umvefjandi móðurást yfirbugaða með fullorðinn karlmannslíkama látinn í fanginu. Líkaminn lýgur ekki. Eina svarið gegn sannleikanum sem Jesús Kristur bar með sér, það eina sem hægt var að gera til að þagga hann var að ráðast að líkama hans, afklæða hann og færa hann í háðungarflíkur, særa hann og þvinga og hengja hann upp til að deyja. Sagan um Jesú segir okkur svo margt. Hún segir okkur m.a. hvað líkaminn er máttugur og ögrandi.

Ég sá þig í morgun, og mjög varst þú orðin breytt,
svo myndin gat tæplega heitið að líktist þér neitt,
og áður en varði var hugur minn fullur af hryggð
við hverfulleik blómsins og aldursins viðurstyggð.

Hér lýsir skáldið Jón Helgason líðan sinni eftir að hafa rekist á gamla æskuást. Myndin sem hann hafði varðveitt í huganum var önnur en sú sem við blasti… og áður en varði var hugur minn fullur af hryggð
við hverfulleik blómsins og aldursins viðurstyggð!?
- Hver hefur kennt okkur að eitthvað sé viðurstyggilegt við hverfulleikann? Hvaðan kemur sú hugsun að öldrun sé annað en falleg?

Líkaminn er svo máttugur í sannleika sínum, hann ber okkur skýr skilaboð og að því leyti sem við erum hrædd við lífið erum við líka hrædd við líkamann. Að því leyti við höfnum veruleikanum finnum við okku knúin til að hafna mannslíkamanum því hver einasti mannslíkami segir sanna sögu. Hver líkami er yfirlýsing. Við eigum engan stað annan til þess að vera en líkamann. Að því leyti sem þú og ég finnum okkur heima í eigin skinni er líf okkar líka merkingarfullt og bærilegt. Gamla konan náði ekki að rétta úr sér og mæla með sinni eiginlegu rödd fyrr en á dánabeðinu. Líkami hennar tjáði þannig mikla örlagasögu, mikla neyð og sársauka sem gerði það að verkum að heilu mannslífi var lifað án þess að hún fengi að kannast við sjálfa sig fyrr en á síðustu dögum lífsins. Menning okkar hefur í aldanna rás borið með sér neikvæð skilaboð um líkamann sem á okkar tímum hafa orðið háværari en nokkru sinni. Afþreyingariðnaðurinn sýnir þrotlausa upplausn líkamans í ótal myndum með sífellt nýjum aðferðum. Ýmist er líkaminn afmyndaður í beinum árásum eða upphafinn í óraunveruleika sem allt þjónar því markmiði að auka á óöryggi fólks í eigin skinni.

Á bænadögum og páskum virðum við fyrir okkur líkama Jesú og allt sem um hann varð. Á páskadagsmorgni stendur Jesús upp risinn fyrir hugskotssjónum okkar, réttir fram gegnum stungnar hendur sínar og biður okkur að snerta sig. Hvað merkir það? Hvað merkir upprisa holdsins, upprisa líkamans? Líkaminn lýgur ekki.

Steinninn sem velt hafði verið fyrir grafarmunnann var innsiglaður valdi keisarans. Í gröf sinni var Jesús fangi dauðans og valdsins í heiminum. Þetta tvennt sem við óttumst umfram allt; sjúkdómar, hrörnun og dauði á aðra hönd heimskan, græðgin og vægðarleysi heimsins á hina. Gröf Krists - örglög mannsins undir valdi dauðans og heimsins.

Svo stendur Jesús sýnir okkur særðan og svívirtan líkama sinn og segir „Lítið á hendur mínar og fætur að það er ég sjálfur. Þreifið á mér og gætið að.”
- Sjáðu mig segir hinn særði og yfirgefni Kristur við þig. Þú sem alltaf ert á flótta frá veruleikanum. Ég er hann. Ég er veruleikinn.
- Snertu mig segir hinn upp risni Jesús. Snertu mig, þú sem óttast valdið í heiminum. Ég er valdið. Ég er hið sanna vald.
Sjúkdómar, hrörnun og dauði gera tilkall, heimskan, græðgin og vægðarleysið gerir það líka, en ég er veruleikinn ég er valdið sem að eilífu ríkir. Það er gott að vera maður af holdi og blóði segir hinn upp risni, mennskan er góð og þú mátt velja hana, umfaðma hana, þiggja hana. „Lítið á hendur mínar og fætur að það er ég sjálfur. Þreifið á mér og gætið að.” Líkaminn lýgur ekki.

Þegar við notum hugtakið þjóðarlíkami þá erum við að vísa til einhvers sem við vitum að er satt. Þjóðarlíkami! – það er einhver ærleg samvitund sem við eigum og höfum. Ekki satt? Við höfum fundið til í þjóðarlíkamanum á þessum mánuðum og misserum. Skynjum við ekki hvernig sá líkami er gegnum stunginn af heimskunni, græðginni og vægðarleysinu? Það gildir um þjóðarlíkamann jafnt sem mannslíkamann að sterk öfl vinna að upplausn hans?
Við skulum ekki undrast það því menning okkar hefur svo lengi óttast líkamann og sannleika hans. Hvernig ætti slík menning sem niðurlægir líkamann í síbylju að varðveita þjóðarlíkamann heilan? Hvernig á samfélag sem sér sig knúið til að hafna sannleika líkamans að taka við sannleika þjóðarlíkamans? Hvernig á slíkt samfélag að þora að kannast við þjóðarvilja og rækta samstöðu um raunveruleg lífsgildi?

„Hví eruð þið óttaslegin og hvers vegna vakna efasemdir í hjarta ykkar?” spyr hinn upp risni freslari í aðstæðum dagsins. „Lítið á hendur mínar og fætur að það er ég sjálfur. Þreifið á mér og gætið að.”
Þau myrku og sterku öfl sem vilja upplausn líkamans og krefjast hennar í sífellu, þau sömu öfl sem krossfestu Krist, vilja ekki samstöðu þjóðarlíkamans. Upprisa þjóðarviljans er þeim andstæð og meðvitund manna um gæði lands og sjávar er sem eitur í beinum þeirra. Hinn ævaforni ótti við líkamann og hverfulleika efnisins sem birtist í skefjalausri ásælni og undirokun á öllum tímum hefur á okkar öld náð nýjum hæðum. Þvingunarmáttur keisarans í Róm á dögum Krists er barnaleikur við hliðina á því valdi sem í dag þjakar jarðarkúluna svo að jöklarnir bráðna og reiði jarðarbúa vex jafn hratt og uppreiknaðar skuldir þeirra.

Páskamorgunn boðar sigur lífsins yfir dauðanum og sigur hins þjónandi valds yfir þvingunarvaldinu. Innsigli keisarans var rofið er bjargi var bifað af gröf og þannig var ekki einasta vald sjúkdóma og dauða sett undir afstætt ljós heldur líka vald heimsins. Sigur páskanna merkir að dauðinn neyðist til að þjóna lífinu og veraldarvaldið neyðist til að þjóna mannlegum þörfum. Mennskan er staðfest í eitt skipti fyrir öll.

Kristur er upp risinn – Við megum óhrædd lifa og óhrædd deyja.
Kristur er upp risinn – Við megum verja almannaheill.
Kristur er upp risinn – Við megum taka við landinu okkar, fegurð þess, ögrunum þess og auðlindum.
Kristur er upp risinn – Við megum hafna þvingunarvaldinu og lifa sem frjálsir menn.

Amen.

Engin ummæli: