Það er sagt að borgir deyi innan frá. Í hjarta flestra stórborga er myrkur kjarni, einskonar svarthol þar sem einungis virðast þrífast fjármálastofnanir á daginn og barir á kvöldin auk hótela. Það er með miðbæinn eins og jólin, hann er sannleiksspegill. Kjarni borgarinnar segir satt. Hann lýsir því hver við erum og hvað við elskum. Hann segir frá smekk okkar og hann fjallar um þrá okkar og framtíðarsýn.
Ingólfstorg hefur þróast skemmtilega. Þar eiga mótorhjólakappar og hjólabrettagengi viðurkenndan vettvang og á þessu svæði hefur skapast mannlíf sem er uppbyggilegt. Það er eitthvað ærlegt við þetta torg, eitthvað Íslenskt og gott. Yfir því er andi samræðu og samskipta, öfugt við svo mörg önnur torg í borginni þar sem hraðinn og smekkleysið ríkir.
Nú er runninn upp nýr tími í Íslensku samfélagi. Ég trúi því að nú séu orðin þau vatnaskil að þessi unga þjóð vilji í raun huga að almannahagsmunum og treysti sér til þess að segja upp hinum fámenna Íslenska aðli sem svo lengi og með svo sjálfsögðum hætti hefur deilt og drottnað í landi okkar í gegnum margvísleg kerfi og stofnanir. Ég hygg að það ágæta fólk sem á þessar lóðir og hefur lögformlegan rétt til þess að gera þarna það sem það vill verði nú að sætta sig við orðinn hlut og víkja hagsmunum sínum til hliðar fyrir almannahag. Þjóðin mun sennilega ekki taka því að svona verði haldið áfram.
Við erum rænt og ruplað samfélag sem verður að draga lærdóm af sögu sinni. Næstu ár munu leiða í ljós hvort við nennum að vera þjóð, hvort við orkum að rísa á fætur og hafa fyrir því að tala saman og ráða ráðum okkar eða hvort svo fari að við látum veraldarvaldið svæfa okkur til hlýðni enn og aftur með sínum einföldu aðferðum sem alltaf hafa virkað og alltaf hafa leitt til fátæktar og niðurlægingar hinna mörgu.
2 ummæli:
Við höfum ekkert lært og munum ekkert læra. Það sést m.a. á því að // 30% fólks er fúst / FLokkinn enn að velja / sem landið hefur lagt í rúst / og langar allt að selja //
Sbr: Var Helförin nokkurn tíma farin?
Fuglar fá stundum martröð, það heitir fuglamartröð. Borgir geta líka fengið martröð..Reykjavík æpir uppúr svefni INGÓLFSTORG!!
Skrifa ummæli