mánudagur, 6. september 2010

Vinir í bata - 12 spora vinna

Öll höfum við margvíslegar tilfinningar sem við vitum ekki alveg hvað á að gera við. Margt fólk lifir hálfa æfina með íþyngjandi reynslu og tilfinningar sem gera vart við sig þegar minnst varir og valda depurð eða kvíða en hjá öðrum eru óuppgerðar hugsanir eins og kunningjar sem annað slagið líta í heimsókn en valda ekki beinum vandræðum þótt ekki séu heimsóknirnar skemmtilegar. Samtökin Vinir í bata gefa fólki kjörið og öruggt tækifæri til þess að vinna úr óuppgerðum tilfinningum og raða þeim í réttar hillur ef svo má að orði komast. Vinir í bata koma m.a. saman bæði í Laugarnessókn og Garðaprestakalli auk þess sem all margar fleiri kirkjur skapa rými fyrir þessa frábæru starfssemi.(sjá viniribata.is)

Laugarneskirkja býður upp á fyrsta kynningarfund strax á morgun, þriðjudag, kl. 20:00. Þá er gengið beint inn um aðaldyr kirkjunnar.

Fyrsti kynningarfundur í Garðaprestakalli verður haldinn í Brekkuskógum 1 á Álftanesi miðvikudaginn 29. sept. kl. 20:00. Brekkuskógar eru fallegt einbýlishús sem hýsir safnaðarstarf kirkjunnar og þar er notalegt og heimilislegt að vera.

Ekkert þátttökugjald er greitt en kaupa þarf bókina Tólf sporin - andlegt ferðalag sem fæst í Kirkjuhúsinu og ýmsum bókaverslunum. Skipt er í hópa eftir kynjum og unnið eftir þrautreyndu kerfi sem byggir á sporunum tólf, enda þótt hér sé ekki unnið sérstaklega með fíkn.

Reynslan af þessu starfi sl. 12 ár er hreint frábær og með því að koma á notalegan kynningarfund finnur fólk fljótlega hvort þessi nálgun eigi við það eða ekki.

Við hvetjum fólk til þess að koma og kynna sér málin og njóta um leið góðs félagsskapar.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Dugar ykkur kirkjunnar fólki ekki guðsorðið? Þurfið þið að fara á sálnaveiðar með því að nota hugmyndafræði 12 sporanna? Ég næ ekki þessari andlegu fátækt ykkar. Tólf spora prógrömm grundvallast á því að vera ekki tengd neinum trúarbrögðum, hvorki kristnum né öðrum. Mér er stórlega misboðið þegar fulltrúar skipulagðra trúarbragða eru að seilast langt útfyrir sitt svið, allt undir fölsku yfirskyni.

Elías Guðmundsson sagði...

Frábært framtak - 12sporin eru frábær leið að til að kynnast Guði og frábært að kirkjan vilji nýta þau í sínu starfi. Veit ekki um neinn sem hefur tapað á góðu 12 spora starfi :)

Nafnlaus sagði...

Kæri nafnlausi

Reynslusporin 12 eiga uppruna sinn í andlegri reynslu og þau fjalla um hana. Það veit allt 12 spora fólk. Það að játa vanmátt sinn, opna líf sitt fyrir æðri mætti og gera óttalaust uppgjör er merkileg reynsla sem enginn getur eignað sér en allir notað. Líka kristið fólk.

Verum glöð


Bjarni Karlsson

Kiddi sagði...

Af hverju þarf að viðurkenna vanmátt sinn? Af hverju ekki að trúa á sjálfan sig og það góða í öðrum? Af hverju þarf allt að fara í gegnum einhvern guð, kynnast guði og lifa með guði? Getum við ekki bara kynnst hvort öðru og lifað með hvort öðru? Flott ef fólk vill trúa á guð, ekkert mál. En mér finnst kominn tími á að fólk fari að trúa á sjálft sig.

Sigrun sagði...

Kiddi
Þetta er bara val, ef þú vilt ekki fara þessa leið þá er það í góðu, en það þarf ekki að rökræða allar leiðir sem fólk fer til að lifa betra lífi. Sumir vilja 12 spora leið og kynnast æðri mætti í gegnum það prógram á meðan aðrir vilja sálfræðing sem talar ekki um neinn æðri mátt. Það er bara fínt að hafa þetta val en algjör óþarfi að vanmeta hina leiðina ef maður kýs að taka aðra leiðina.