Meðhöfundur okkar hjóna að þessari jólaræðu sem flutt var í Vídalínskirkju, Laugarneskirkju og kirkju Óháða safnaðarins er Árni Heiðar Karlsson organisti síðastnefnda safnaðarins og bróðir Bjarna:
Hvernig var þegar þegar þú fæddist? Veistu vikudaginn, þyngd og stærð, klukkan hvað? Veistu hver tók á móti þér, hverjir voru viðstaddir eða hver klippti á naflastrenginn? En um fram allt, veistu hvort þú varst velkominn?
Má ég gefa þér hugmynd? Nú eru jólaboð framundan hjá mörgum. Ég hvet þig til þess að prófa að gefa þig að barni sem þér er nákomið og leiða samtalið að fæðingu þess. Sjáðu hvernig sálin opnast þegar þú segir barni hvar þú hafir verið þegar það fæddist, hvernig þú fékkst fréttirnar, hvaða áhrif það hafði á þig og hvernig þér leið þegar þú sást það fyrst. Segðu því svo ánægjulegar sögur af samsktipum við það sem óvita. Það er eitthvað í okkur öllum sem elskar svona sögur. Ef við hugsum um það þá eigum við örugglega flest einhverja mynd í huganum af eigin fæðingu og frumbernsku, einskonar helgimynd sem staðfestir það hversu merkileg tilvist okkar er. Þessu nátengt er áhuginn á stjörnumerkjum þekktur í flestum menningarheimum; Undir hvaða stjörnu ertu fæddur, í hvaða stjörnumerki ertu? – í hugum þorra jarðarbúa er þetta raunhæf spurning sem fjallar um gildi persónunnar. Það er því ekki tilviljun að inn í fæðingarsöguna af Jesú komi stjörnuspekingar til að staðfesta konungdóminn. Þeir höfðu farið langar leiðir til að fylgja stjörnunni sem vísaði þeim veginn. Hér eru á ferðinni sammannlegir þættir sem við öll þekkjum.
Við þráum öll að heyra að við höfum verið velkomin inn í þennan heim. Ef þú kæmir í dag inn í 12 ára bekk og spyrðir: Er einhver lausaleikskrói hér inni? Þá myndu þau halda að þú værir starfsmaður frá ITR kominn til að kynna nýjan íþróttaleik – hinn vinsæka lausaleik. Svona hefur þjóðfélagi okkar farið fram, það sem eitt sinn var þöggun og skömm er það ekki lengur og orðaleppar sem tjá óttann við þann möguleika að vera ekki réttilega tilkominn hverfa úr málinu.
Við þekkjum áreiðanlega öll sögur úr okkar umhverfi um það hvernig fólk hefur við erfiðar aðstæður tekið ófæddum börnum af rausn og mannlegri reisn. Hversu margir eru þeir karlarnir sem hittu ástina í lífi sínu þegar hún var barnshafandi og gengu barninu í föðurstað og ólu það upp sem sitt eigið? Eða þegar ótrúnaður hafði orðið og barn varð til utan hjónabands og makinn sem brotið var á ákvað að gefa barninu pláss í lífi sínu þrátt fyrir allt og allt. Eða afar og ömmur sem tekið hafa á sig uppeldishlutverk þegar börn ólu börn. Ótal margar myndir fleiri mætti nefna.
- Er hægt að vera meira velkominn? Er hægt að þiggja stærri gjöf en þá að einhver sem ekki hafði blóðskyldu að gegna ákvað að elska mann og gefa manni réttinn til að vera sitt barn? Svona getur líf fólks blessast.
Jósef og María voru svona fjölskylda. Í upphafi Matteusarguðspjalls er greint frá angist Jósefs þegar hann varð þess vís að María væri með barni sem ekki gat verið hans barn. Og sökum þess að hann var grandavar vildi hann ekki gera henni opinbera minnkun og hugðist skilja við hana í kyrrþey. En Jósef fékk vitrun frá Guði að hann skyldi taka við barninu og móður þess og ala það upp sem sitt eigið. „Jósef gerði eins og engillinn hafði boðið honum” (Matt. 1.24.) segir Matteus og í Lúkasaguðspjalli bregst María eins við hlutverki sínu þegar hún segir við engilinn: „Sjá ég er ambátt Drottins verði mér eftir orðum þínum.” (Lúk. 1.38.) Hér er tjáð í formi helgisagnarinnar sú sama afstaða sem blessað hefur líf hverrar stórfjölskyldunnar af annari þegar manneskjur af holdi og blóði hafa ákveðið að þjóna lífinu með því að taka á móti ófæddum börnum af rausn og mannlegri reisn. Vitrunin um það að vera í þjónustu við lífið er hin stóra uppgötvun og það að fæðast inn í fjölskyldu sem skuldbindur sig barninu er hin stóra gæfa. Hver einasta barnsskírn felur m.a. í sér þessi brýnu félagslegu og tilfinningalegu skilaboð að barnið sé fætt inn í umhverfi sem skuldbindur sig gagnvart því. Þannig er blessun miðlað milli kynslóða.
Ungbörn á öllum tímum hafa þurft það sama til þess að vaxa úr grasi. Ungbarnið hefur ekki gerfiþarfir og segja má að flækjustigið við umönnun þess sé lágt þegar allt er í lagi. Það er aftur flækjustig tengslanetsins í kringum einstaklinginn sem getur orðið hátt og hefur verið það á öllum öldum þótt ljóst sé að með nútíma háttum og tækni hafi þetta aldrei verið snúnara og margar spurningar sem vakna.
Í byrjun næsta árs verður lagt fram frumvarp um lögleiðingu staðgöngumæðrunar á Alþingi og í síðustu vikur höfum við fylgst með heimkomu barns dragast á langinn sem fætt var á Indlandi af þarlendri staðgöngumóður en hlaut íslenskan ríkisborgararétt með ákvörðun frá Alþingi. Unnin hefur verið áfangaskýrsla hjá Heilbrigðisráðuneytinu um þessi mál þar sem varpað er fram upplýsingum og sjónarmiðum sem orðið gætu grundvöllur upplýstrar samfélagsumræðu um hvort leyfa eigi staðgöngumæðrun hér á landi. Alla þessa hluti þarf að skoða út frá fjölmörgum sjónarhornum, jafnt, læknisfræðilegum, félagslegum, lögfræðilegum og ekki síst siðfræðilegum.
Lífið er flókið og flækjustig mennskrar tilveru hefur lítil takmörk. Og leið okkar að því að geta mætt lífinu af sanngirni og rausn er oft á tíðum löng líkt og för vitringanna með gjafirnar sínar yfir lönd og álfur.
Flest fólk ber í brjósti sterka þrá eftir því að ala upp afkvæmi sem sé þess eigið hold og blóð. Það vitum við og við verðum að virða það. En ef við prófum að bregða okkur snöggvast svona vegalengd eins og til Víkur í Mýrdal, nema bara upp og út fyrir gufuhvolfið þar sem gott sjónarhorn er á hnöttinn og kjörið að velta fyrir sér þörfum heimsþorpsins. Þá blasir við úr þeirri hæð að á hvert par sem hyggur á barneignir horfa þúsund augu ungbarna sem vantar foreldra og ættu enga stærri gæfu en þá að fá ástríkt uppeldi. Ef við nýtum þetta sjónarhorn og horfum í augu eins þessara þúsunda barna og berum þörf þess saman við þörf okkar til þess að eiga afkvæmi af eigin holdi og blóði þá verður samanburðurinn óþægilegur.
Mörgum þykir freistandi að taka þá einföldu afstöðu að segja öll inngrip inn í náttúruleg ferli í tengslum við þungun og barnsfæðingu séu ætíð vavasöm. En slík inngrip eru nú þegar daglegt brauð og því væri sú afstaða yfirborðsleg. Við notum getnaðarvarnir, við samþykkjum fóstureyðingar að uppfylltum skilyrðum, tæknifrjógvun tíðkast og margt fleira mætti nefna sem felur í sér beina íhlutun í ferli þungunar og fæðingar. Nú þegar eru nokkur börn hér á landi sem eru sammæðra, þ.e.a.s. þau eiga mæður sem eru hjón þar sem önnur konan hefur gefið hinni egg sem frjógvað er með gjafasæði svo að barnið sem fæðist er nátengt báðum mæðrum sínum með sérstökum hætti, en faðirinn er gjarnan óþekktur sæðisgjafi. Já, flækjustig tilverunnar er ekkert að lækka. Því er vitringum nútímans enn frekari þörf á leiðarstjörnu en nokkru sinni.
Helgisögn jólanna flytur okkur skilaboð í þessu sambandi sem okkar kynslóð hefur síst efni á að fara á mis við. Atferli vitringanna og fjárhirðanna sem líka komu var það sama. Þeir sem komu langt að og eins hinir sem bara komu utan úr haga gerðu hið sama, þeir komu til að lúta barninu. Þeir krupu niður í taðið við jötuna þar sem barnið lá og lutu lífinu í þökk og undrun. - Hér erum við stödd við kjarna mennskrar tilveru og jafnframt erum við þar sem inntak hins kristna siðar blasir við. Hversu hátt sem flækjustig mannlífsins verður og hve títt sem nýjar tæknilausnir birtast við gömlum vanda þá er þörf hins varnarlausa lífs ætíð hin sama. Grátur barnsins í jötunni berst að eyrum okkar í gegnum flækjur og skarkala rúms og tíma og krefur okkur um hlýðni við lögmál lífsins og kærleikans.
Hvert barn á rétt á sinni fæðingarsögu, sinni persónulegu helgisögn. Þar á ekkert pukur heima og þar þurfa allar persónur og leikendur að njóta sannmælis og virðingar svo að tími lausaleikskróans sé liðinn og komi aldrei aftur.
Amen.
laugardagur, 25. desember 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Hvernig væri að þið færuð að skrifa blogg í staðinn fyrir að endurbirta bara predikanir og kosningaboðskapinn ykkar hérna? Þetta er ekki blogg.
Ágæti H.R. Ég óska þér gleðilegra jóla og hvet þig til þess að lesa það sem við skrifum. Við leggjum metnað í það að láta frá okkur vandaða og sanngjarna texta sem fjalla um samfélag okkar og þau gildi sem við höldum að séu mikilvægust. Svona er okkar blogg. Það góða við bloggheiminn er síðan það að manni er frjálst að láta fram hjá sér fara það sem manni ekki hentar eða líkar jafvel ekki.
b.kv.
Bjarni Karlsson
Skrifa ummæli