föstudagur, 29. ágúst 2008

Líkaminn er góður

Nú er rætt um nektarsýningar eina ferðina.
Tryggasta leiðin til að auka kynferðislegt ranglæti er sú að grafa umræðuna niður í harðlínur þar sem takast á þau sem vilja banna alla opinbera nekt og hin sem vilja yfir höfuð ekkert banna.

Í þessari umræðu eru viss aðalatriði sem ég held að sé gott að hafa í huga. Hér ætla ég að nefna tvennt.

Í fyrsta lagi er líkaminn góður.
Þessi staðhæfing er ekki sjálfsögð í okkar vestrænu menningu þar sem líkamsandúð er rótgróin og birtist ýmist í sjúklegri upphafningu á breyttum og "bættum" líkömum eða í algerri fyrilitningu á mannslíkamanum þar sem leikið líkamsofbeldi verður m.a. afþreying fjöldans. Eins birtir tungumál okkar þá staðreynd að við fjarlægjum okkur líkamanum. T.d. segjum við auðveldlega: Ég er hugur eða ég er andi. En við segjum ekki: Ég er líkami. Þessar staðreyndir eiga sér langa tilurðarsögu í menningu okkar. Þar kemur gríska heimspekin og kristin guðfræði mjög við sögu. Við berum öll ábyrgð á þeirri sögu og erum að skrifa hana núna. En líkaminn er góður! Ég fullyrði og tel mig geta rökstutt að það sé heilbrigð skynsemi og líka kristin trú að segja það.

Önnur fullyrðing mín er þessi: Jafningjasamskipti eru forsenda góðra kyntengsla.
Þessi staðhæfing er heldur ekki sjálfsögð. Hvers vegna leita gagnkynhneigðar konur að hávaxnari, tekjuhærri, frumkvæðismeiri og almennt valdameiri karlmönnum til kyntenglsa en karlar leita að lágvaxnari, tekjulægri, hæglátari og almennt valdaminni konum til kyntengsla? Hvað er það sem gerir valdamun kynjanna aðlaðandi í samvitund menningar okkar? Ástæður þessa er unnt að rekja. Þær liggja í líka í hugmyndasögu okkar og menningu öld fram af öld. Menning okkar hefur 'erótíserað' valdamun kynjanna og sú ákvörðun kostar ótal mannslíf á hverjum einasta degi. Drengirnir okkar upplifa sig karlmannlega þegar þeir ríkja í samskiptum, dætur okkar upplifa sig kvenlegar þegar þær víkja. Hér liggur rót stórkostlegs vanda sem gerir það að verkum að stærsti heilsufarsvandi kvenna í öllum þekktum samfélögum er ekki sjúkdómur af nokkurri sort eða slys heldur ofbeldi af hendi karlmanna í nánum tengslum.

Það er ekkert að því að fólk komi saman til þess að skoða líkama hvert annars. Líkaminn er góður. Nekt er góð. En það gildir um líkamleg samskipti líkt og öll samskipti að gæði þeirra ráðast ekki af forminu heldur inntakinu. Samfarir tveggja einstaklinga geta við einar aðstæður verið staðfesting á gagnkvæmum sáttmála um ást og umhyggu sem gera báða aðila ríka og sterka en við aðrar aðstæður getur nákvæmlega sama líkamlega athöfn rænt persónurnar mennsku sinni og reisn.

Gallinn við klámið er líkamsandúðin og valdsdýrkunin sem þar er tjáð. Gallinn við þá starfssemi sem Geiri Golfinger stendur fyrir er sú sama. Á ytra borði er ekkert að því að fólk komi saman til þess að skoða líkamann á öðru fullveðja fólki, en það breytir ekki þeirri staðreynd að við vitum að inni á nektardansstöðum er fólk svipt mennsku sinni og reisn. Andrúm starfsseminnar er hatur á líkamanum og beiting valds. Við vitum sem sagt að starfssemi nektarstaða er röng og ofbeldisfull en við búum í menningu sem öldum saman hefur tamið sér að horfa á form samskipta en ekki á inntak þeirra. Þess vegna ná lögin okkar ekki yfir inntak heldur bara form. Þessu þurfum við að breyta.

Líkaminn góður og jafningjasamskipti eru forsenda góðra kyntengsla.

Bjarni Karlsson

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Vá hvað þetta er góður pistill. Þú rokkar Bjarni!

Davíð Þór sagði...

Kærar þakkir fyrir yfirveguð og skynsamleg skrif um viðkvæmt málefni. Hins vegar langar mig að benda á að það er erfitt, ef ekki ógjörningur, að setja reglur um inntak samskipta. Það er mun auðveldara að setja lög um form þeirra. Þar er klandrið sem við stöndum frammi fyrir.

Hjónablogg sagði...

Satt segir þú Davíð Þór. Þó hafa menn nú búið til hugtakið andi laganna til þess að klóra í bakkann.

Á endanum byggjum við ekki landið með lögum heldur með gildum. Lög má setja en gildi þarf að rækta.

Ein merkileg hlið á þessu máli er sú að fólk sem fyrirlítur mannslíkamann rífst gjarnan um nektarstaði. Annar hópurinn vill endilega hafa þá sem flesta í nafni frjálshyggju hinn þolir ekki nekt í nafni einhverskonar misskilinnar dyggðahyggju sem jafnvel er sögð byggð á kristinni trú.

Þetta er kúnstugt. Kristin kirkja hefur hins vegar nakinn karlmannslíkama í sínu lógói. Kristin kirkja skilgreinir sig sem mannslíkama, líkama Jesú Krists.Innst inni veit kirkja Jesú að líkaminn er góður og að jafningjasamskipti eru forsenda hins góða lífs. Líka kynlífs.

Bjarni

Nafnlaus sagði...

Frábær pistill. Ég mun vísa á hann á mínu bloggi. Sem lögfræðingur get eg bætt því einu við að lög leysa ekki allan vanda - og sennilega ekki þennan, sbr. aths. hér að framan.

Hjónablogg sagði...

Þakka þér athugasemdina Gísli.
Hvar bloggar þú annars?

b. kv.
Bjarni

adda sagði...

Góður pistill.
Í almennu umræðuna með hann.
Kveðja,
Guðríður Adda Ragnarsdóttir