laugardagur, 30. ágúst 2008

Í minningu herra Sigurbjörns Einarssonar

Eftirfarandi prédikun verður flutt í Vídalínskirkju í Garðabæ og í Laugarneskirkju í Reykjavík sunnudaginn 31. ágúst kl. 11:00.

15. sunnudagur eftir þrenningarhátíð
Textar: Jes. 49.13-16a, 1.Pét. 5.5c-11, Matt. 6. 24-34


Þessa daga drúpir þjóð og kirkja höfði í trega og þökk við fráfall herra Sigurbjörns Einarssonar biskups. Með íslenskri þjóð búa margar sameiginlegar minningar um persónu hins aldna kirkjuföður og við vitum og finnum að með honum er lagstur til hvíldar einn mesti fyrirbiðjandi þessarar þjóðar og vökumaður kristinnar kirkju.

Við hjónin eigum margar minningar um samneyti við herra Sigurbjörn og frú Magneu sem gætt hafa líf okkar og ein sú dýrmætasta er orðn 13 ára gömul frá þeim árum er við þjónuðum í Vestmannaeyjum og börnin okkar voru ung. Þá þáði söfnuður Landakirkju heimsókn þeirra hjóna. Herra Sigurbjörn prédikaði í kirkjunni og svo var boðið til almenns borgarafundar í Eyjum þar sem fólki gafst kostur á að hlýða á og spyrja biskupinn um það sem því lá á hjarta. Jafnframt fengum við að bjóða þeim Magneu og Sigurbirni til kvöldverðar á heimili okkar sem við undirbjuggum af kostgæfni og gættum þess m.a. að gera börnum okkar grein fyrir því sem okkur hafði sjálfum verið kennt í æsku að þar færu mestu heiðurshjón þessa lands og að herra Sigurbjörn væri gáfaðasti maður á Íslandi. Þau skyldu því haga sér vel í hvívetna og vera hljóð og stillt við kvöldverðarborðið. Er gestina bar að garði fundum við að áminningar okkar höfðu verið óþarfar því húsið fylltist af hátíð þegar frú Magnea gekk inn yfir þröskuldinn í peysufötunum og þau hófu heimsókn sína á því að ávarpa börnin og færa þeim gjafir.

Miðlungurinn okkar hún Matthildur var þá 7 ára og sat uppáfærð við matborðið og datt hvorki af henni né draup frekar en drengjunum tveimur. Þá tökum við skyndilega eftir því að dóttir okkar situr tárfellandi í sæti sínu og ljóst er að eitthvað stendur fast í hálsi hennar. Var þá staðið upp frá borði og slegið á bak barninu svo að hún losnaði úr klípunni, en tárin héldu áfram að streyma því hún taldi sig hafa raskað helgi stundarinnar. Þá beygði herra Sigurbjörn sig fram yfir borðið, horfði í augu hennar með þessari sérstöku birtu sem hann ætíð átti tiltæka og mælti: Matthildur mín, veistu að þú ert líka falleg þegar þú grætur?! Við þessi orð og þetta atlæti hvarf öll skömm sem dögg fyrir sólu og barnið brosti og hló í gegnum tárin.

Boðskapur öldungsins til barnsins á þessari stundu var sá sami og greina má þegar lesnar eru prédikanir Sigurbjörns, sú frétt sem hvert mannsbarn þráir að heyra, fagnaðarboðin sem gleðja innst og dýpst: Þú ert elskað barn. Á þér hvíla ástaraugu sem gleðjast yfir þér líka þegar þú grætur. Guð elskar þig jafnt í veikleika sem styrk.

Náðarboð, fagnaðarerindi.

“Verið ekki áhyggjufull um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin? Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppsekra né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn?
Og hví eruð þér áhyggjufull um klæðnað? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra.”

Herra Sigurbjörn segir í einni prédikun sinni um þennan texta: “Hvað sérðu hjá liljunni á vellinum, hvað sérðu hjá fugli himinsins? Þú sérð lífið í starfandi, skapandi auðlegð. En þú sérð meira. Þú sérð föður lífsins. Blómið veit ekki af sér. Af hverju opnar það krónuna á móti sólargeislunum? Af hverju hlúir það fræi sínu, af hverju sendir það rótarangann dýpra og dýpra, uns það finnur næringu? Það er einhver, sem veit af því, einhver, sem hefur búið það þeim eðlisviðbrögðum, sem sjá lífi þess borgið, einhver, sem sér og heyrir og skynjar fyrir þess hönd. Eða lóan, sem kemur á vori og fer að hausti. Hvað veit hún um íslenskt veðurfar? Hvað kann hún um árstíðaskipti? Hvað veit hún í landafræði? Hún veit ekki neitt. En það er einhver, sem veit um hana, veit fyrir hennar hönd, vísar henni til vegar, hefur forsjón fyrir henni. Þú sérð m.ö.o. þegar þú gefur gaum að lilju og lóu, ekki aðeins undur lífsins, þú sérð umhyggusemi, sem er jafn nærfærin eins og hún er vísdómsrík. Faðir lífsins er faðir þinn. Það er hann og ekki þú, sem hefur forsjá fyrir þér og þínum, hans umhyggja og ekki þín, hans fyrirhyggja, viska og máttur. Það sem eðlisleiðslan er dýrinu og blóminu, það er vitið þér, því að þú færð að lifa vakandi, þú ert í Guðs mynd, þú hefur hugsun, þú berð ábyrgð. En undrið mikla í tilverunni er hvorki eðlisviðbrögð náttúrunnar né vitund þín, heldur hugurinn, sem í hvoru tveggja lifir, faðirinn, sem veit um þig og hverja lífveru.” (Sigurbjörn Einarsson, 2006, Meðan þín náð, bls. 148)

Þú berð ábyrgð.
Herra Sigurbjörn boðaði ekki náðina eina, fögnuðinn. Hann lagði óhikað fram kröfuna, lögmál Guðs. Þú berð ábyrgð sagði hann í samhengi þess guðspjalls sem flutt er í kirkjum landsins í dag, þú getur ekki bæði þjónað Guði og mammón. Sá Guð sem á og elskar þig og veröld alla krefur þig til þátttöku í verki sínu, umhyggju sinni. “Faðir lífsins er faðir þinn. Það er hann og ekki þú, sem hefur forsjá fyrir þér og þínum,” sagði hann “hans umhyggja og ekki þín, hans fyrirhyggja, viska og máttur.”

Þannig átti krafa lögmálsins grundvöll í veruleika náðarinnar í allri hugsun herra Sigurbjörns, hann treysti hinum elskandi föður alls lífs og boðaði kærleika hans sem skírast birtist í Kristi Jesú, lífi hans, verki og orði. Lögmálskrafan sem hann óhikað bar fram í predikun sinni var borin uppi af þrá eftir ríki Guðs og réttlæti, ekki réttlæti manna. Náttúrunni lýsti hann af lotningu og áhuga, geta mannsandans var honum hugstæð en undrið mikla í tilverunni, viðfang tilbeiðslu hans var hvorki maður né náttúrua “heldur hugurinn, sem í hvoru tveggja lifir, faðirinn, sem veit um þig og hverja lífveru.”

Þannig mætir lögmálskrafa Guðs þeim sem á hann trúa ekki sem umvöndun eða ávítur heldur sem þrá eftir samfélagi. Guð kallar menn til afturhvarfs. Í sömu prédikun farast biskupnum svo orð: “Þessi nýja stefna heitir afturhvarf, þetta nýja líf heitir trú, vitund um Guð, samfélag við Krist.”

Á borgarafundinum sem boðað var til í Vestmannaeyjum fyrir 13 árum og á var minnst hér að framan voru lagðar fram margar spurningar fyrir hinn vitra kennimann og hann svaraði þannig að allir skildu. Er talið barst að málefnum spíritismans fundu allir að andrúmsloftið magnaðist. Kona ein í salnum spurði hann hvort ekki væri Guðs gjöf að vera skyggn. Hann tók sér sér málhvíld og það varð algjör þögn í salnum uns hann svaraði alvarlegur í bragði: “Við eigum öll að vera skyggn!” Svo þagði hann, og við ungu prestarnir gutum augum hvort á annað í undrun. Svo endurtók hann orð sín og bætti um betur: “Við eigum öll að vera skyggn - á lifandi fólk.” Svo lýsti hann fordæmi Jesú hvernig hann sá og skildi skyggnum huga það sem bærðist í vitund samferðarmanna og bar vitni ásjónu hins alskyggna elskandi föður.
Engum fundarmanni duldist að herra Sigurbirni var mikið niðrifyrir en mál sitt lagði hann fram án þess að niðurlægja spyrjandann og án þess líka að svíkja áheyrendur sína um það sem var honum helgast og í sál hans brann, fagnaðarboðin um Jesú Krist sem kallar alla menn til afturhvarfs og ábyrgðar í sköpun sinni.

Guð blessi minningu herra Sigurbjörns og frú Magneu, helgi sorg ástvina og gefi þeirri kirkju sem þau unnu og þjónuðu með lífi sínu öllu náð til að bera kærleiksboð Guðs áfram til komandi kynslóða.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Verulega ánægjulegt að rekast á skrif ykkar yndælu hjóna hérna á netinu. Frábær viðbót við opna umræðu.

Hr. Sigurbjörn var án nokkurs vafa einn blessaðasti maður sem að ég hef hitt. Það fundu það flestir strax við nálægð við hann, að yfir honum ríkti ljós heimsins. Guð blessi hann og hans og varðveiti.

Nafnlaus sagði...

Þakka ykkur fyrir góð og kærleiksrík skrif á vefnum. Sjaldgæft að sjá svo góð skrif á vefnum. Gangi ykkur ætíð vel.

Það var sérlega notalegt að finna kærleikann skína úr skrifunum um minninguna um Sigurbjörn biskup, þann einstaka mann.

Getið þið leiðbeint okkur Íslendingum að eiga gott aðgengi að visku hans á vefnum? Ég held að það gæti verið þjóðinni gott veganesti á næstu misserum.

Getið þið skoðað það mál?

Kveðjur, Sveinn Guðmundsson, 1957

Hjónablogg sagði...

Þakka þér fyrir viðbrögðin Sveinn.

Við munum koma þeim skilaboðum á framfæri við vefstjóra Biskupsstofu að það verði birt með reglulegum hætti eitthvað á tru.is eftir dr. Sigurbjörn. Það er vitaskuld til mikið magn á tölvutæku formi af hans skrifumsem sem auðvelt hlýtur að vera að bera fram.

b. kv.
Jóna Hrönn og Bjarni