Nú gerist það að allar stofnanir og kerfi samfélags okkar standa undir gagnrýnu ljósi. Íslenskt þjóðfélag er að ganga í gegnum óhjákvæmilega sjálfsskoðun þar sem snúa þarf við öllum steinum í fjöru menningar okkar, endurmeta gildi og samhæfa göngulag þjóðarinnar upp á nýtt. Í því ferli gildir það jafnt um Þjóðkirkjuna sem aðrar grunnstoðir samfélags okkar að meta þarf stöðu hennar og hlutverk.
Ríkið er samstarfsvettvangur almennings þar sem vaka skal yfir almannaheill. Þegar veraldlegt samfélag og yfirvöld taka afstöðu til trúfélaga og þess rýmis sem þau skulu hafa á almannavettvangi á fyrst og síðast að spyrja að einu. Spyrja skal hvort viðkomandi trúfélög efli félagsauð. Félagsauður er mælanleg gæði. Hann varðar trúnaðinn í samskiptum fólks og þær væntingar sem við berum hvert til annars. Þegar menn telja sig hafa ástæðu til að treysta náunga sínum og finnst að óhætt sé að reiða sig á kerfi og stofnanir samfélags síns þá heitir það félagsauður. Hið veraldlega hlutverk allra trúarbragða er að auka félagsauð og ríkið verður að gera þá kröfu til skráðra trúfélaga að starf þeirra leggist á árar í þágu almannaheilla.
Kristin kirkja er ekki til sjálfrar sín vegna. Hún lifir og starfar í þágu þess samfélags sem hún þjónar. Samfélagið á allan rétt að vísa kirkjunni út, kjósi það að gera það. Kirkja Jesú frá Nasaret áskilur sér engan rétt en bendir í sífellu á þann rétt sem allir menn eiga. Á tungutaki Biblíunnar heitir sá réttur Guðsbarnaréttur en í daglegu tali notum við hugtakið mannréttindi til að lýsa sömu vitneskju.
Við megum ekki gleyma því að gera vissan greinarmun þegar við tölum um kirkju Krists í einu orðinu og Þjóðkirkju Íslands í hinu. Þjóðkirkjan er, eins og allar kirkjudeildir, mannleg stofnun sem sett er til að þjóna kristninni, þjóna kirkju Jesú. Þjóðkirkjan þarf aðhald frá samfélaginu og samfélagið þarf líka aðhald frá Þjóðkirkjunni, svo framarlega sem Þjóðkirkjan stendur sig í stykkinu. Á hverjum tíma verður samfélagið að dæma um kirkjuna, hvort hún sé til gagns eða ekki. Gagnvart kirkjunni á hið veraldlega samfélag allan rétt og kirkjan gæti ekki sótt rétt sinn af hörku, jafnvel þótt hún ætti hann að lögum. Kirkja sem lögsækti samfélag sitt væri eins og foreldri sem lögsækir börn sín. Samt stendur kirkjan ekki undir dómi manna og sækir ekki tilverurétt sinn til veraldarinnar. Hún trúir því að hún sé sett af Guði, send af Guði. Þessi trú er líka tilfinning. Rétt eins og foreldrar trúa og finna að þeir eru handa börnum sínum en börnin eru ekki handa þeim. Þess vegna syngjum við sálma í kirkjunni sem segja m.a.: "Kirkjan er oss kristnum móðir..." Þessi vitund er hluti af sjálfsvitund kirkjunnar á öllum öldum.
Það má og það verður að gagnrýna Þjóðkirkjuna. Enginn einn getur talað fyrir hennar hönd. Þjóðkirkjan er samfélag hún er samvitund. Hún er eins og aldrað foreldri sem veit að það getur ekki og má ekki segja fullveðja börnum sínum fyrir verkum. Þegar þau velja að koma til hennar þá gera þau það á forsendum barnaréttarins, mannréttindanna. Við (elhús)borð Kirkjunnar eigum við öll sama rétt og þar kemur enginn til að kenna öðrum. Kirkjan vill ekki og má ekki hafa völd, hún kann bara að biðja og blessa, óska góðs og vona hið besta. Hvert orð sem fellur inni í helgidóminum, hvort sem þar tala opinberir kennimenn eða aðrir, verður að vega og meta. Gagnrýna. Enginn á síðasta orðið í kirkjunni, enginn nema Jesús Kristur. Þetta er m.a. það sem átt er við þegar sagt er: "Ég trúi á heilagan anda, heilaga almenna kirkju,..." Hagsmunir kristinnar kirkju á hverjum tíma eru þeir einir að fá að vera til staðar fyrir fólk. Form þeirrar nærveru er í sjálfu sér aukaatriði. Þjóðkirkjufyrirkomulagið hefur lengi reynst vel og átt drjúgan þátt í því að viðhalda félagsauði í landi okkar. En það er ekki gallalaust. Það felur m.a. í sér þá hættu að starf kirkjunnar birtist fólki í mynd einhverskonar forræðishyggju eða þröngvunar. Kostirnir liggja í því að jöfnuður og samhljómur skapast í þeirri mikilvægu þjónustu sem trúarstofnunin veitir og allur almenningur finnur sig heima í öruggu og sanngjörnu andrúmslofti... ef Þjóðkirkjan stendur sig í stykkinu.
Við þurfum öll að standa okkur í stykkinu hvort sem það eru trúfélög, menntastofnanir, heilbrigðisstofnanir, fiskvinnslufyrirtæki, löggæslan, Veðurstofan, fjölmiðlar eða hverjar aðrar stofnanir samfélagsins sem njóta krafta okkar. Okkur ber öllum að vanda okkur. Sem einstaklingar og sem fagmenn berum við sameiginlega ábyrgð á félagsauði þjóðarinnar og megum ekki falla í þá gryfju að brjóta hann niður í átökum og stælum. Leiðarar dagblaðanna gegna mikilvægu hlutverki í því að vera öruggur og sanngjarn vettvangur þar sem trúnaði er ekki brugðið við almenning heldur vandlega gætt að rökum í hverju máli og almenn kurteisi viðhöfð.
22 ummæli:
Kirkjan hefur alltaf og mun alltaf reyna að troða hlutunum uppá fólk.
Ég get ekki beðið eftir þeim degi þegar trúarbrögð, kirkjur og allt það rugl verður slegið af fyrir fullt og allt.
Það er löngu kominn tími á hinn trúlausa meirihluta til að láta í sér heyra og stoppa þessa vitleysu af.
Guð blessi ykkur og ykkar starf og allra þeirra sem reyna að standa á móti æpandi herskara andlausra guðleysingja sem virðast vera að yfirtaka alla umræðu í þjóðfélaginu.
Hyski eru þau sem búa eða starfa í húsi.
Í þessu dæmi er það hús Guðs.
Engin ástæða er til þess að hneykslast á þessu orði.
Er hyskið ekki bara þeir sem taka þátt í þögguninni.
Hyski hefur mjög neikvæða merkingu í nútíma íslensku og það er afar langt síðan það hafði eingöngu merkinguna undir sama þaki eins og vísað er til hér að ofan.
Dagblöð, þar með talið leiðarar, eru skrifuð á nútíma íslensku og því verður vart dregin önnur ályktun en sú að hér sé gert ráð fyrir neikvæðri merkingu.
Leiðarhöfundur er meðvitað að spila á tvíræðni í merkingu orðsins "hyski" en veit auðvitað að nútímaskilningur orðsins er "pakk", "rumpulýður". Talsmenn kirkju og kristni eru ekki áberandi á Eyjunni og því full ástæða til að þakka ykkar skrif. Kirkjusókn nú um jólin - meiri en í áraraðir - sýnir hvern sess kirkja og kristni eiga meðal þjóðarinnar. Það er hins vegar ekki eins hávaðasamt fólk og Vantrúarfólkið.
Þjóðkirkjan er auðvitað tímaskekkja, að ég sem stend utan trúfélaga, sé látin borga laun presta nær auðvitað engri átt.
Og að ríkið sjái um að innheimta sóknargjöld fyrir félagasamtök er algerlega ótrúlega vitlaust fyrirkomulag.
En varðandi það hvort prestar séu "hyski", þá vil ég ekki alhæfa um alla presta, síðuhöfundar eru t.d. mikil ljúfmenni.
Friðrik
Þetta rifjar upp gamla og dýrt kveðna níðvísu um löngu gengin biskup og fjölskyldu hans:
Sódómiskur sat við disk,
saup á viskí fínu.
Át þar biskup blautan fisk
með bölvuðu hyski sínu.
Það myndi fljótt nást sátt um þjóðkirkjuna ef meðlimir hennar þyrftu að skrá sig í hana af fúsum og frjálsum vilja um 18 ára aldur.
Meðlimir hennar og notendur myndu svo sjá um fjármögnun hennar. Við þetta myndi skýrast hversu mjög kirkjusinnað samfélagið er í raun.
Núna eru allir meira og minna sjálfkrafa innskráðir og þurfa að hafa fyrir því að skrá sig utan trúfélaga. Ef þessu er breytt þá myndast strax sátt um málefni trúfélaga. Það á alveg að vera hægt að skíra og ferma börn án þess að þau séu skráðir meðlimir þjóðkirkjunnar. Foreldrarnir geta reytt af hendi greiðslu fyrir þessa þjónustu ef þeir kjósa að njóta hennar. Það er gjörsamlega óþolandi að þessari stofnun sé troðið uppá samfélagið í þeirri mynd sem nú er. Er ekki nóg að við skattborgararnir greiðum þetta svokallaða guðfræðinám. Þurfum við líka að standa undir herskara presta sem virðast á ofurlaunum miðað við annað háskólamenntað fólk.
Sem andkristinn utanþjóðkirkjumaður ætti ég að geta kallað á nokkra presta til þess að hjálpa mér í garðinum og taka til í bílskúrnum, svæ dæmi séu tekin.
Ég borga þeim jú laun, en mun aldrei koma til með að nota mér þjónustu þeirra
Ég vann einn vetur við að skúra kirkju á höfuðborgarsvæðinu, og það kom mér verulega á óvart að kirjan var full af fólki á öllum aldri alla daga vikunnar í alls konar starfi sem var ekki endilega tengt trú á nokkrun hátt.
Kirkjur eru athvarf fyrir AA, fjölmarga kóra (og ég er ekki bara að meina kirkjukóra), tónlistarfólk notar kirkuna sem æfingahúsnæði, allar kirkjur eru fullar af barna- unglinga- og öldungastarfi, þar fer fram hjónabandsráðgjöf og sálgæsla og svo mætti endalaust telja.
Maður þarf ekki að vera trúaður til að sjá að kirkjan er þjóna mikilvægu hlutverki í samfélaginu og það ætti ekki nokkur að sjá eftir nokkrum skattkrónum í allt þetta.
Þóra
Eitthvað þarf jú að nota þessar milljarðafjárfestingar í.
Allt félagsstarf gæti farið fram í hlutlausum félagsheimilum ef ekki væri búið að ausa peningunum í kirkjurnar.
Vandi kirkju sem sameinaður er bankastofnunum þeim sem setja nú í hópatali þá sem minna meiga sína á guð og gaddinn er mikill. Jesús sjálfur rak bankamennina út úr musterinu en þjóðkirkjan er nú komin í lið með þeim. Í stað þess að kirkjan hafi tekið upp málstað þeirra sem undir verða hefur hún hljóðlátlega runnið inn í bankana í samrunaferli því sem farið var í í októberbyrjun þegar ríki og bankar voru sameinaðir. Þannig eru kúgarar hinna fátæku og þjóðkirkjan nú orðið að sitt hvorur dótturfyrirtæki hins sameinaða ríkisbanka. Sjáið þið í alvörunni ekki að kirkjan er að lenda í sama vanda og Baugsmiðlarnir að vera svo undirgefnir eigendum sínum að traust milli þeirra og almennings er stefnt í voða?
Í Suður Ameríku sem og í Suður Afríku gátu kristnar kirkjur spilað stórt hlutverk í baráttu alemnnings þar fyrir félagslegu réttlæti. Hlutverk þjóðkirkjunnar hefur hingað til fyrst og fremst verið að draga úr fólki kjarkinn og róa það. Þið hafið endurómað orð stjórnarformans ykkar og sagt fólki að fara heim og vera góð við börnin sín. Ef þið í þjóðkirkjunni veljið að standa utan við þetta stærsta félagslega uppgjör í íslensku samfélagi á seinni tímum munið þið varla aftur fá félagslegt hlutverk í samfélaginu.
Í síðustu kreppu valdi kirkjan að fela sig og að henni lokinni var áhrifamáttur hennar í samfélaginu þess vegna stórfellt minnkaður vegna þess að baráttufólk það sem kom út úr kreppunni sá ekki í henni neinn bandamann. Er nú svo komið að flestir Íslendingar mæta einu sinni á ári eða sjaldnar í kirkju og mjög fáir leita að leiðsögn þangað. Þrátt fyrir það hefur kirkjan ekkert lært og ætlar að gera sömu mistökin nema hvað í þetta sinn virðst hún ætla að taka hlut hinna sterku og valdamiklu í enn ríkara mæli en síðast. Þið í þjóðkirkjunni getið enn náð að breita um stefnu og sínt að þið eruð óháð eigendum ykkar og tekið þátt í því uppgjöri sem er að fara fram í samfélaginu en hver fer þó að verða síðastur.
Héðinn Björnsson
Hárrétt hjá þér Héðinn Björnsson.
Ef þjóðkirkjan stendur ekki sýnilega við bakið á almenningi og tekur afstöðu með almannaheill þannig að það finnist og því megi treysta, þá hefur þjóðin ekkert með slíka kirkju að gera. Gæti ekki verið þér meira sammála.
Bjarni Karlsson
Sæll Bjarni og gleðileg jól.
Það eru hverfandi líkur að þjóðkirkjan, taki afstöðu með almenningi, batteríið virkar ekki þannig.
Ég er ágætlega fróður maður en ég get ekki munað eftir einu einasta dæmi, þar sem kirkjan tók afstöðu með almenningi.
Ef þér dettur eitthvað í hug endilega láttu mig vita.
Kv Friðrik
Í fornu máli er orðið hyski notað yfir flokk manna eða föruneyti,samanber þar fer Margrét með sínu hyski !
Í síðustu kreppu rak kirkjan til dæmis miðstöð fyrir fólk í atvinnuleit. Hún hefur frá upphafi styrkt miðstöð um fjármál heimilanna. Mjög eftirminnilegt dæmi er skýrsla um fátækt á Íslandi sem Hjálparstarfið lét gera og biskup kynnti um síðustu fyrir nokkrum árum.
Jóna Hrönn og Bjarni tala um að enginn einn tali fyrir kirkjuna. Margir prestar hafa tjáð sig um ástandið, það hefur biskup líka og sagt margt fleira en að hugsa um börnin sín, þó að það sé líka mjög mikilvægt á þessum tímum. Alltaf má gera betur en ég velti fyrir mér hvað Héðinn er að biðja um.
Ég er kannski ekki síst að horfa til þess á tímum siðrofs hjá póitískum og efnahagslegum valdhöfum landsins hefur þjóðkirkjan verið hljóð og ég get ekki nema vellt því fyrir mér hvort eignarhaldið skifti þar ekki máli. Það má vel vera að einstakir prestar séu ekki ritskoðaðir ef þeir tala gegn valdhöfum en svo virðist vera að innan kirkjunnar sé komin á sú hefð að segja ekki neitt sem geti orkað tvímælis og halda sig helst til hlés í þjóðmálum. Það kemur illa niður á kirkjunni á þessum tímum þar sem "löglegt en siðlaust" er orðinn standardfrasi.
Það getur ekki verið kirkjan líti á að hlutverk hennar einskorðist við að standa fyrir athöfnum og gefa tónlistarstarfi húsaskjól. Sjái kirkjan ekki að hún eigi hlutverki að gegna í siðferðislegum málum er hún á viligötum að mínu mati.
Bla bla bla bla bla ble ble.
Mig langar að benda áhugasömum á að lesa prédikanir okkar hjóna hér á þessari síðu. Þar er t.d. nýleg prédikun sem ber heitið "Nú er lag fyrir mannsandann að rísa upp" sem skýrir vel sjónarmið okkar og var flutt þann 23.11. sl. Tvær prédikanir frá síðasta sumri og frá páskum bera heitinl "Tilraunin" og "Samsteypan og góði hirðirinn". Þar er nákvæmlega verið að ræða það sem hér er lýst eftir.
Ég legg til að ég fái með mér einn fulltrúa frá Siðmennt sem yrði mér samferða í störfu í eina viku snemma á næsta ári. Sá aðlili yrði að hafa góða menntun, helst sem sál- eða félagsfræðingur og gæti þá gefið skýrslu um það mannlíf og þann félagsauð sem hann yrði vitni að í lífi og starfi kirkjunnar. Ég veit af langri reynslu að fólk tæki því vel að hafa annan hæfan aðila með í sálgæsluviðtölum og annarri þjónustu. Ég hef oft haft með mér nema og það hefur virkað mjög vel.
Tek ég heilshugar undir það að kristin kirkja á ekkert erindi inn í almannarými samfélagsins nema að því leiti sem hún gerir gagn. Við verðum að gera þá kröfu til kirkjunnar eins og allra annarra félaga og stofnana sem vilja láta taka mark á sér. Eigi kirkjan að halda stöðu sinni verður það að byggjast á haldgóðum rekjanlegum upplýsingum. Vitaskuld.
Bjarni Karlsson
Bjarni Karlson segir:
Tek ég heilshugar undir það að kristin kirkja á ekkert erindi inn í almannarými samfélagsins nema að því leiti sem hún gerir gagn.
-o-o-o-
Hver metur það hvert gagnið er? Er það kirkjan sjálf? Mér þykir athyglivert að þú segir í blogginu að:
"Við (elhús)borð Kirkjunnar eigum við öll sama rétt og þar kemur enginn til að kenna öðrum. Kirkjan vill ekki og má ekki hafa völd, hún kann bara að biðja og blessa, óska góðs og vona hið besta."
Þetta átti sér ekki stoð í Vinaleið svo dæmi sé tekið. Þar var þessu þveröfugt farið.
Bjarni ....Þetta eru bara orð.
Sýndu fram á að kirkjan standi með fólkinu sínu og þá fá kirkjunnar menn kannski einhverja virðingu.
Eins og staðan er fáið þið enga virðingu frá mér , þá er ég ekki að tala um persónulega , ég á við kirjuna eins og hún leggur sig.
Satt best að segja finnst mér kirjan ekki hafa gert NEITT undanfarna áratugi nema að verða sér til skammar.
Arnar H.
Skrifa ummæli