Prédikun á skírdagskvöldi 2009
Ég vissi að þetta var hann. Við strákarnir höfðum farið út að fiska. Í fyrsta sinn frá því ósköpin dundu yfir höfðum við bara ákveðið að gera eitthvað hversdagslegt. Tíberíasvatn. Ég þekki það eins og lófann á mér. Ef ég hefði aldrei yfirgefið netin og fylgt meistaranum. Ef ég hefði bara áfram verið Símon Jóhannesson þá hefði ég einmitt verið að þessu. Fiska.
Ég hafði verið að hugsa þetta þar sem við sátum um nóttina í bátnum og ekkert hafði veiðst. Ef ég bara hefði aldrei staðið á fætur, aldrei yfirgefið netin og bátinn... hvað þá?
Þá heyrðist röddin: „Drengir! Hafði þið nokkurn fisk?” Ég verð að viðurkenna að það fór um mig unaðstilfinning þegar þessi rödd barst ofan af ströndinni. Drengir! Hvað ég óskaði þess að vera einmitt drengur í hópi drengja, fiskimaður í áhöfn. Allt nema lærisveinn. Þessi maður, þessi rödd vissi ekkert um okkur og ég fann að okkur þótti það öllum frekar hressandi. Við hljótum að hafa hljómað kjánalega þegar við svöruðum hver um annann: “Nei!” eins og við værum fegnir því að hafa engan fisk.
Svo kom það. Maður er stundum svo seinn að hugsa: “Kastið netinu hægra megin við bátinn og þið munuð verða varir.” Við vorum bara svo fegnir að vera með, fegnir að vera ekki einhverjir lærisveinar heldur bara drengir. Við þrifum í netið og köstuðum eins langt og við gátum og ég dáðist að því með sjálfum mér að það væri bara eins og maður hefði engu gleymt. Ég hafði varla selppt hugsuninni þegar ég mundi hverju ég hafði gleymt. Netin hefðu ekkert þurft að fyllast mín vegna ég var búinn að kveikja. Og þegar þau fylltust allt í einu af öllum þessum fiski, þessari iðandi kös, þá byrjaði ég að gráta. Þeir héldu að ég væri að flýta mér til hans þegar ég gyrti mig og stökk frá borði, til að vaða í land. Ég grenja ekki fyrir framan fólk.
Þarna stóð hann búinn að kveikja kolaeld og setja fiska á glóðir. Dæmigert fyrir hann. Svo sátum við bara og mötuðumst. Strákarnir höfðu komið með eitthvað af aflanum og bætt á glóðirnar. Það var dauðaþögn. Hvað á maður svo sem að segja? Við biðum eftir því að hann ryfi þögnina.
- „Símon Jóhannesson!” Um leið og hann ávarpaði mig svona fann ég augnaráð hans hvíla á mér. Gat hann vitað hverju ég var að velta fyrir mér úti á vatninu hugsaði ég í einhverju fáti. „Símon Jóhannesson! Elskar þú mig?” Þegar hann spurði mig rifjaðist upp hvernig ég hafði látið þegar hann vildi þvo mér um fæturna þarna síðasta kvöldið. Eftir á var ég svo feginn þessum fótaþvotti þótt mér þætti uppátækið út í hött. „Aldrei að eilífu skaltu þvo fætur mína!” hafði ég sagt en hann hafði horft á mig einmitt þessu heita og krefjandi augnaráði sínu: „Ef ég þvæ þér ekki áttu enga samleið með mér.” (Jóh. 13.8) Hann var ekki að hóta mér. Það var ekkert svoleiðs. Og þegar ég gafst upp og leyfði honum að þvo mér um fæturna þá fann ég... Já, ég bara fann að hann elskaði mig.
Nú spurði hann mig að þessu sama, ég horfði yfir kolaeldinn sem aðskildi okkur, mætti augum hans eins yfirvegað og mér var unnt: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.” Og ég meinti það. Hann sleppti ekki af mér augunum en sagði „Gæt þú lamba minna.”
Ég horfði bara í gaupnir mér.
Ég var ekki hálfnaður með seinni bitann minn þegar ég fann að hann var byrjaður að horfa á mig aftur. Og svo kom það: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig.”
Ég gat aldrei reiknað hann út. Nú spurði hann mig í annað sinn að því sama og notaði líka gamla nafnið. Þegar við fórum út í Getsemanegarðinn eftir matinn síðasta kvöldið þá hafði hann vitað að ég tók með mér sverð. Ég hafði sýnt honum það og hann hafði bara verið jákvæður, horft á sverðið og sagt að þetta væri nóg. Það veit Guð að ég var bara að reyna að standa mig. Svo þegar þeir komu, Júdas og herflokkurinn. Ég sver að á þeirri stundu var ég tilbúinn að berjast og deyja. Ég sá rautt þegar ég greip til sverðsins og hjó inn í hópinn í myrkrinu. „Slíðara sverð þitt!” hrópaði Jesús og það var eins og rödd hans megnaði að frysta myndina. Ég hélt fyrst að hann væri að beita sér á einhvern af hermönnunum en hann stóð og horfði á mig! Allir horfðu á mig. „Slíðara sverð þitt! Allir sem sverði bregða munu fyrir sverði falla.” (Matt.26.52) Þetta sagði hann. Svo beygði hann sig niður og tók eitthvað upp sem lá blóðugt í grasinu. Ég frétti seinna að hann hafi heitið Malkus, sá sem ég sneið af eyrað. Hvaða refsingu skyldi ég ella hafa fengið hjá Rómverjum? Hann bjargaði mér gjörsamlega, ég væri ekki á lífi í dag. Kannski ekki Malkus þessi heldur. Maður getur ekki vitað.
- Jesús hafði s.s. spurt mig í annað sinn og ég ákvað að svara honum aftur heiðarlega: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.” Enn sleppti hann ekki augunum af mér, en sagði: „Ver hirðir sauða minna.”
Ég hafði vitað að þetta var hann áður en fiskarnir syntu í netið. Ég vissi líka að hann myndi spyrja mig í þriðja sinn.
Það er þannig með sumt að maður grefur það, geymir það í óminninu. Það vita allir sem hafa verið barðir til óbóta að það eru fyrstu höggin sem eru verst. Svo dofnar maður. En þegar ég sat við eldinn inni í hallargarði æðstaprestsins og sá þá berja Jesú... Þú getur ekki vanist slíku. Það dofnar ekkert þótt það haldi áfram. Ég var viti mínu fjær af skelfingu og reiði og neytti allra krafta til þess að sýnast venjulegur, falla inn í hópinn. Ég varð að sitja þarna, ég gat ekki farið og ekki heldur verið. Þá kom kona sem var þarna eitthvað innanbúðar og sagði: „Þú varst líka með Jesú frá Galíleu.” „Nei!” sagði ég, miklu hærra en ég hafði ætlað mér. Fólk snéri sér og góndi á mig. Ég skili ekki enn að ég skyldi segja þetta, og það svona hátt! Og þegar hin konan kom var ég búinn að tapa. Ég sór við sjálfan Guð að ég þekkti ekki þennan mann, þennan Jesú. Og í vissum skilningi var það satt. Ég þekkti ekki ranglætið og heimskuna sem blasti við mér, gat með engu móti kannast við auðmýkinguna, varnarleysið, afskræminguna sem orðin var á honum. Engin manneskja var fegurri og sannari, stærri en hann. Ég heyri enn höggin í huga mér þegar þeir slógu hann með hnefunum, eða hvernig þeir börðu hann með stöfunum. Hann stóð bara og barðist við að halda jafnvægi, sagði ekki eitt orð, lyfti ekki fingri. Svo hræktu þeir í andlitið á honum. Beint í andlitið hans. Það liðu mánuðir þangað ég gat sjálfur hrækt, bara svona eins og maður gerir. Ég hafði gegnið út í fordyrið til að losna undan athlyglinni, þá komu fleiri og það var einhver blanda af vorkunn og háði í þessu: „Víst ertu líka einn af þeim enda segir málfæri þitt til þín.” Ég var varla búinn að sleppa orðinu, sverjandi af mér allt og alla með Guðsnafn á vörum þegar hanagalið ómaði um allan hallargarðinn. Ég hefði eins getað orðið fyrir eldingu: „Á þessari nóttu áður en hani galar, muntu þrisvar afneita mér.” hafði hann sagt. (Matt. 26.33-34)
„Símon Jóhannesson, elskar þú mig?” Ég beið eftir þessu. Þrisvar hafði ég svikið hann, þrisvar hlaut hann að spyrja. Það hryggði mig. Samt vottaði ekki fyrir ásökun í þetta þriðja sinn ekki frekar en síðasta kvöldið þegar hann sagði fyrir um það sem verða mundi. Mér þótti gott að geta svarað honum afdráttarlaust í þriðja sinn enda þótt ég þyrfti ekki að upplýsa hann um það sem hann vissi ofurvel. Þess vegna sagði ég: „Drottinn, þú veist allt. Þú veist að ég elska þig.”
„Gæt þú sauða minna.” svaraði hann.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Takk Bjarni, þetta er afar skemmtileg nálgun og framsaga.
Væri stórkostlegt ef þú fengir líka Hildi Eir til að birta ræðuna sína frá því í dag (gær) á netinu einhversstaðar. Mér fannst hugleiðingar þar slíkur fjársjóður að í hann þyrfti að vera hægt að sækja einhversstaðar ítrekað.
Gleðilega Páska kæri vinur og kennari.
Knúsaðu familíuna alla frá okkur.
Kv. Baddi
Blessaður Baddi. Ef lesendur fara inn á tru.is má finna ræðu Hildar Eirar þar innan um fleiri prédikanir presta.
Já, þetta var frábær ræða og tímabæ bæði frá trúarlegu og pólitísku sjónarmiði.
kveðjur í bæinn.
Bjarni
Skrifa ummæli