sunnudagur, 25. október 2009

Augnsamband

Bjarni prédikaði í dag:

I

Ég stóð ásamt konu minni á Kóngsins Nýjatorgi í Kaupmannahöfn á hádegi sl. mánudag og var að fá mér pylsu í morgunmat. Hún kostaði tvöfalt og við skömmuðumst okkar fyrir sjoppuskapinn en nutum trakteringanna því hvað er betra en pylsa með súrum gúrkum á konunglegu torgi? Þá heyrist einhver ónotalegur skarkali og smellur og sem við lítum við sjáum við konu sem komin var nokkuð við aldur falla á hjóli sínu með andlitið í götuna. Þetta var ljótt slys og ég rétti henni Jónu minni hálfétna pylsu en hljóp að konunni sem lá vönkuð og blóðug í götunni. Í sömu svifum kemur maður um þrítugt í hreinum og fínum jakkafötum og ég skynjaði strax að hann myndi ná betur til samlöndu sinnar þar sem hann kraup niður hjá okkur og fór að huga að henni. „Ég sæki stól og teppi!“ sagði ég við hann og ég hafði ekki gengið mörg skref þegar þjónn úr nærliggjandi kaffihúsi kom hlaupandi með teppi og þægilegan stól. En sem ég sný mér við með þetta í höndunum sé ég merkilega sjón. Ungi maðurinn hafði lagst í götuna og var kominn í fullkomið augnsamband við gömlu konuna þar sem hún lá bjargarlaus og ég fékk ekki varist tilhugsuninni um að eitthvað yrðu nú jakkafötin hans sjúskuð eftir þetta. Svo leit hann upp og bað mig að aðstoða þau því hún vildi reyna að standa á fætur. Þá kom í ljós að hún var meidd á fæti en við mismunuðum henni upp á stólinn og hagræddum teppinu utan um hana. Allan tímann kraup ungi maðurinn í jakkafötunum og gætti þess að missa aldrei augnsamband við konuna. Ég fór að huga að pylsunni minni sem var orðin köld og fylgdist með atburðarásinni því annar hjólreiðamaður stóð og var bersýnilega í sambandi við neyðarlínuna og var að lýsa ástandi konunnar. Áfram kraup ungi maðurinn og nú voru þau farin að ræðast við þar sem hún hélt með klúti við blæðandi sárið á kjálkanum og það voru ekki liðnar fimm mínútur fyrr en þau voru farin að gantast og ljóst var að skelfingin var liðin hjá enda þótt alvara málsins væri ekki orðin ljós því það er ekkert grín fyrir aldraða konu að falla af hjóli á harðann götusteininn.

II

Guðspjall dagsins er dæmisaga þar sem faðir biður syni sína að fara út og vinna í víngarði sínum. Annar tekur beiðni föðurins illa en sér sig svo um hönd, hinn segir já en fer hvergi og Jesús spyr viðmælendur sína: Hvor þeirra gerði vilja föðurins? (Matt 21.28-32)

Þær eru ófáar víngarðssögurnar og líkingarnar í Biblíunni og þær eiga það allar sameiginlegt að víngarðurinn táknar verksvið Guðs í veröldinni. Víngarðsvinnan er þátttaka í verki Guðs á jörð. En hvert er það verk? Hvaða verk vinnur Guð í heiminum? Því svarar m.a. Páll postuli í bréfi sínu til Filippímanna er hann lýsir verki Jesú: „Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur. Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig...“ (fil.2.6ff)

Það er ekki sérlega upplífgandi að liggja flatur í umferðargötu þar sem hundruðir manna fara gónandi hjá. Ég veit ekkert um þennan unga mann í og ég á víst aldrei eftir að sjá hann framar. Ég veit ekki hvað hann var að hugsa þegar hann lagðist í götuna við hlið konunnar og þekki ekki bakgrunn hans að hann skyldi velja sér það hlutverk að vera í beinu augnsambandi við hana á kostnað þessara ágætu jakkafata sem hann klæddist svo að hún væri ekki ein í lægingu sinni og skelfingu. Ég veit að hann var að vinna verk Guðs. Verk Guðs í Jesú Kristi er augnsamband við menn. Hann lægði sjálfan sig svo að við gætum horfst í augu við hann svo að við værum ekki ein í þjáningu okkar og í allri þeirri auðmýkingu sem lífinu fylgir.

„Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur. Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi.“

Ungi maðurinn samsamaði sig gömlu konunni í skelfingu hennar. Í stað þess að stumra yfir henni og aumka hana þá lagðist hann hjá henni og studdi hana í því að taka aftur við stjórn á eigin lífi. Hann bað mig ekki að hjálpa sér að reisa hana á fætur, hann bað mig að hjálpa þeim vegna þess að hún vildi standa á fætur. Heyrir þú muninn á þessu tvennu? Aðstoð unga mannsins var í því fólgin að konan náði aftur stjórn á eigin lífi og endurheimti þannig sjálfsvirðingu sína þótt hún væri slösuð og illa leikin.

Í lexíu dagsins heyrðum við áðan lýsingu svona viðskiptum í hinni frægu Rutarbók þar sem akureigandinn Bóas ræðir við Rut sem komin var sem útlendingur í ókunnugt land því hún vildi ekki yfirgefa aldraða tengdamóður sína er þær voru báðar orðnar allslausar í ekkjustandi:

„Taktu nú eftir, dóttir mín.“ mælti Bóas við þessa ókunnu stúlku. „Tíndu ekki kornöx á neinum öðrum akri og farðu ekki héðan heldur haltu þig að stúlkunum mínum. Hafðu augun á akrinum þar sem piltarnir eru að skera korn og gakktu á eftir þeim. Ég hef bannað vinnufólkinu að amast við þér. Ef þig þyrstir farðu þá að vatnskerunum og drekktu af þeim sem piltarnir hafa fyllt.“ Þá féll hún fram á ásjónu sína, laut til jarðar og sagði við hann: „Hvers vegna sýnir þú mér þá góðvild að virða mig, útlendinginn, viðlits?“ (Rut 2.8-12 )

Bóas óttaðist Guð og þekkti til verka hans og enn er akurinn sviðmynd sögunnar. Orð Bóasar lýsa skilningi og virðingu fyrir þörfum Rutar og tengdamóður hennar. Þær þurftu korn og vatn og virðingu og það skyldu þær fá í akri hans.

„Tollheimtumenn og skækjur verða á undan ykkur inn í Guðsríki“ segir Jesús við æðstu prestana og öldunga lýðsins í guðspjalli dagsins. Það er liðinn dagur frá innreiðinni í Jerúsalem, pálmasunnudegi. Átök hans við valdsmenn Gyðinga eru að ná hápunkti sínum, hann er búinn að hreinsa út úr musterinu með svo aðlaðandi reiði að haltir og blindir safnast að honum og börnin syngja í helgidóminum. Og nú standa þeir ráðþrota og spyrja hann: „Með hvaða valdi gerir þú þetta? Hver gaf þér þetta vald?“ (Matt. 21.23) Það er í þessu samhengi sem dæmisaga Jesú um synina tvo er sögð og svo mælir hann fram þessi býsn: „Tollheimtumenn og skækjur verða á undan ykkur inn í Guðsríki.“ Gagnrýni Jesú á valdsmenn samtíma síns var í því fólgin að hann benti á hroka þeirra og yfirdrepsskap. Hann tók sér stöðu við hlið úthrópaðra föðurlandssvikara sem tollheimtumennirnir voru og setti sig í spor þolenda mansals, haltir og blindir áttu rödd í návist hans og börnin sungu. Ég veit ekki hvort ungi maðurinn sem lagðist í götuna þekkti Jesú, en ég veit þó alltént að hann hefur orðið að sækja jakkafötin sín úr hreinsun öðru hvoru megin helgarinnar og svo veit ég líka að hann notaði aðferð Krists. Aðferð Krists þekkist alltaf. Hún þekkist á sjónarhorninu. Verk Guðs í heiminum er augnsamband við menn og manna í millum.

III

Þegar syrtir í álinn kemur í ljós úr hverju við erum gerð og hvaða aðferðum við beitum. Á fimmtudaginn var heyrðist í fréttum að ný samanburðarrannsókn á íslenskum börnum leiddi í ljós að nú þegar ár er liðið frá hruninu mikla er líðan barna í landinu almennt betri en hún var fyrir tveimur árum. Kemur þetta heim og saman við upplýsingar sem nýlega komu fram á samráðsfundi undir merkjum Laugarness á ljúfum nótum þar sem forystufólk þeirra félaga og stofnanna sem ábyrgð bera á velferð barna í Laugarneshverfi bera reglulega saman bækur sínar. Það virðist vera að foreldrar og aðrir ástvinir barna gefi þeim meiri gaum nú en áður. Íþróttaþjálfarar greina aukningu í áhorfi foreldra á íþróttaæfingar og keppnir. Börn eru almennt rólegri og það virðist vera meira við þau talað. Helst greina leikskólakennarar mun í því að nú eru lopavettlingar og húfur meira að detta inn og í stað dýrra kuldaskóa og sérstakra vaðstígvéla hafa komið aftur svona loðfóðruð gúmmístígvél eins og við mörg áttum hér áður fyrr og dugðu vel.

Það er ljóst að frá sjónarhóli flestra barna er ekki kreppa en öllu heldur aukið augnsamband.

Um þessar mundir eru á milli 350 og 400 börn og unglingar þátttakendur í safnaðarstarfinu. Ég verð að viðurkenna að aldrei í mínu starfi með börnum hafa verið minni agavandamál en einmitt núna og við sr. Hildur Eir og samstarfsfólk okkar erum sammála um að á þessu hausti hafa samverustundir með unga fólkinu verið sérlega innihaldsríkar og gefandi. Við erum sannfærð um að ástæðan er sú að aðstandendur barna, samfélag hinna fullorðnu, er einbeittara en nokkru sinni í því að missa ekki augnsamband við börnin sín. Við erum öll þátttakendur í verki Guðs á jörð og það gerist í hversdeginum. Og er það ekki táknrænt að tvö ný orðatiltæki hafa orðið lýsandi fyrir líðan þjóðarinnar og eru nú máluð á spjöld í skólum og saumuð í krossaum í handavinnu eldri borgara um land allt, önnur hefur af hagkvæmnisástæðum hlotið skammstöfunina H.F.F. en hin hljóðar á þessa leið: Guð blessi Ísland!

Sú fyrri fjallar um augnsambandið við veruleikann og manna í millum sú síðari um augnsambandið við góðan Guð.

Við erum kannske ekki svo glötuð eftir allt.

Amen.

1 ummæli:

Alfa sagði...

Blessaður Bjarni.
Mér finnst þessi saga alveg stórkostleg. Ég hlustaði á þig flytja þennan boðskap í Kolaportsmessu sem var vel við hæfi og vísar til innihaldsins.

Kær kveðja: Alfa Kristjánsdóttir.