Prédikun dagsins:
Dónaskapur hefur alltaf virkað. Það er ákveðin aðferð í mannlegum samskiptum að beita dónaskap til þess að ná sínu fram. Þessi aðferð hefur margar hliðar en er samt í rauninni einföld. Jesús var snillingur í að afhjúpa dónahátt. Í dag fáum við að fylgjast með einstaklingi þola þrautreyndar dónaaðferðir í mannlegum samskiptum, og sagan er merkileg fyrir þær sakir að það er Jesús sjálfur sem beitir aðferðinni en niðurstaða samskiptanna verður sú að hann tapar en fórnalambið sigrar.
Sagan er skráð í 15. kafla Matteusarguðspjalls og aðdragandinn er sá að Jesús á í höggi við valdsmenn samtíma síns, farísea og fræðimenn. Þeir eru að argast í honum fyrir það að fylgja ekki tiltenknum hreinsunarsiðum Gyðinga út í hörgul sem vörðuðu handþvotta í tengslum við máltíðir, en Jesús svarar þeim og segir: “Ekki saurgar það manninn sem inn fer í munninn, hitt saurgar manninn sem út fer af munni.”(v.11)
Og þegar lærisveinarnir koma til hans eftir á og biðja hann að útskýra hvað hann átti við þá svarar hann: “Skiljið þið ekki að allt, sem inn kemur í munninn, fer í magann og lendir síðan í safnþrónni? En það sem út fer af munni kemur frá hjartanu. Og slíkt saurgar manninn. Því að frá hjartanum koma illar hugsanir, manndráp, hórdómur, saurlifnaður, þjófnaður, lúgvitni, lasmælti. Þetta er það sem saurgar manninn. En það að eta með óþvegnum höndum saurgar engan mann.”(v.20)
Þannig vildi hann að lærisveinarnir skildu að það eru ekki ytri reglur og aðferðir sem gera mann að góðum manni heldur er það afstaða hjartans sem úrslitum ræður. - Þú ert það sem þú hugsar og það sem þú vilt. Heilindi þín ráðast af ástæðum verka þinna. Hugsaðu út í hvers vegna þú gerir það sem þú gerir. Spurðu sjálfan þig hvað það raunverulega er sem knýr þig áfram. Græðgi, ótti? Eða umhyggja og virðing?
Nú, jæja.
Lærisveinarnir héldu að kennslunni væri lokið og vissu ekki að það voru bara frímínútur þegar þeir gengu af stað til byggða Týrusar og Sídonar eins og sagt er frá í Guðspjallinu. “Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: ‘Miskunna þú mér, Drottinn, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda.’” (v.22)
Það er þrennskonar dónaskapur sem virkar best. Þar er þöggunin efst á lista og hér gefur Jesús lærisveinum sínum sýnishorn af þessháttar hegðun:
‘Miskunna þú mér, Drottinn, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda.’” Hrópaði konan “En Jesús svaraði henni engu orði.” stendur í textanum. Og nú fáum við líkt og í falinni myndavél að fylgjast með siðferðislegum hrakförum lærisveinanna þar sem þeir óðara koma til Jesú, ganga hressir inn í andrúmsloft þöggunarinnar og segja: “Láttu hana fara, hún eltir okkur með hrópum.” (v.23)
Það er eitthvað notalegt við þöggun. Þetta að vera samtaka með mörgum um að sjá hvorki né heyra einhvern sem hrópar og gargar. Það er viss stemmning sem skapast. Einhvers konar samheldni, tegund af málfrelsi þótt bannað sé að tala. Tilfinning fyrir því að allt sé fína lagi. “Láttu hana fara, hún eltir okkur með hrópum.” Þeir voru búnir að sjá Jesú tala við allskonar lið. Nýlega höfðu þeir setið uppi með fleiri þúsund manns sem þurfti að gefa að borða af því það var orðið ósjálfbjarga útí í óbyggðum, og lærisveinarnir hafa vísast verið fegnir að sjá að Jesús gæti einhversstaðar dregið línu í sandinn gagnvart aðgangshörðum þiggjendum. Auk þess vissu allir að það var ókurteisi af konu að ávarpa karlmenn að fyrra bragði, og svo var ekki eins og hún væri Gyðingur. Þetta var kanverks kona. Útlendingur.
Nú var komið að annari aðferð dónaháttarins sem er sú að jaðarsetja fólk með því að tala um það þannig að það heyri. Jesús horfir á lærisveinana og segir þannig að ekki fer fram hjá neinum: “Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt.” (v.24) Þvílíkur meistari! Í einni setningu var hann búinn að teikna upp yfirburði sína og þeirra allra gagnvart þessari konu. Þeir voru í sendiför, þeir voru á Guðs vegum, og erindi þeirra varðaði bara Ísraelsþjóðina en ekki þessa útlensku konu. Það þarf sanna meistara til þess að segja óþægilega hluti með snyrtilegum hætti. Nú hlaut konan að átta sig á stöðu sinni og hætta þessari þrákelkni. Ekki að furða að barnið hennar væri illa haldið eigandi svona stjórnlausa móður.
Þá segir: “Konan kom, laut honum og sagði: ‘Drottinn, hjálpa þú mér!’” (v.25)
Það er eitthvað varðandi samband foreldris og barns sem er heilagt. Foreldri sem biður fyrir barni sínu hefur allan rétt frammi fyrir Guði. Það er þannig. Bæn foreldris fyrir barni sínu er eitt af náttúruöflunum. “Drottinn, hjálpa þú mér!” mælti konan af stillingu en orðum hennar fylgdi undiralda réttlætisins, krafa lífsins. Konan lét aðferð tvö, jaðarsetninguna, ekki á sér hrína heldur bað fyrir barni sínu, stóð á rétti sínum og í hlutverki sínu, enda þótt hún skildi ekki hvað Jesús var að fara.
En kennslustundinni var ekki lokið og þar með ekki hlutverki kanversku konunnar sem fræðara. Enn urðu lærisveinarnir að sjá hvernig þriðja aðferð dónaháttarins er óvirkjuð og aftengd með hreinu hjartalagi, en sú aðferð er fólgin í þungbærum merkimiðum. Jesús svaraði: “Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana.” (v.26)
Nú ætluðu lærisveinarnir vart að trúa sínum eigin eyrum. Þetta gat meistarinn. Hann gat verið harður við frekt fólk sem ekki kunni að haga sér! Hélt þessi kona virkilega að hún væri jafningi þeirra? Nei varla. Og hafi svo verið þá mátti henni vera ljóst að hún var... já, hann hafði sagt það sjálfur, svo þeir gátu bara notað orðið, það vissu svo sem allir hvað þessir útlendingar voru kallaðir, hún var bara....hundur! Já stundum þarf bara að segja hlutina eins og þeir eru! Svona gaggandi kellingar þurfa bara að fá það óþvegið! Gott hjá honum!
Þá talaði konan af sömu stillingu og áður, og það hefur vottað fyrir húmor og reiði er hún horfði beint í augu frelsarans og mælti: “Satt er það Drottinn, þó eta hundarnir mola þá sem falla af borðum húsbænda þeirra.”(v.27)
Nei, nú kastar tólfunum! Hugsuðu lærisveinarnir. Nú verður Jesús að senda þessa konu öfuga frá sér. Hér er þetta endanlega farið yfir öll strik, hún hagar sér eins og það sé hún sem setji reglurnar hér en ekki meistarinn!
“Þá mælti Jesús við hana: ‘Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.’ Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu.” (v.28)
---
Lærisveinarnir höfðu haldið að Jesús væri í þeirra liði og víst var hann það en bara ekki með þeim hætti sem þeir höfðu búist við og vonað. Þeir vissu ekki að kanverska konan hafði komið inn á sviðið sem stundakennari svo að þeir fengju að verða vitni að samskiptum sem þeir þurftu að læra að tileinka sér. Því sjálfir áttu þeir eftir að kynnast þöggun, jaðrasetningu og orðaleppum valdsins í veröldinni. Þeirra beið margvíslegt mótlæti sem allir kynnast sem í raun ganga erinda réttlætis í heiminum. Höfum í huga að bara einn þessarra ungu manna átti t.d. eftir að ná gamals aldri. Einn af hópnum tók líf sitt í uppgjöf, tíu urðu píslarvottar trúarinnar, einungis Jóhannes lærisveinn varð aldraður maður eftir því sem sagnir herma. Hver var svo kennslan?
• Kanveska konan tók ekki við þögguninni því hún elskaði barnið sitt og tók ekki við fálæti sem svari því það var henni algerlega framandi.
• Þegar Jesús setti hana út á jaðar samfélagsins með þeim orðum að hann væri ekki sendur nema til samlanda sinna, þá kom hún bara nær. Jaðarsetning með ummælum í 3. persónu hreif ekki á hana því hún vissi að dóttir hennar sem var veik var engin afgangsstærð, barnið hennar var engin aukapersóna á leiksviði veruleikans.
• Og svo þegar Jesús greip þetta alþekkta hugtak sem Gyðingar notuðu um útlendinga og kallaði hana hund, þá gekk hún enn nær, laut honum og talaði á þann máta að ljóst var að ekki einu sinni freklegur dónaskapur með merkimiðum og orðaleppum gat hrakið hana af þeim grundvelli sem hún stóð á. Mennsku hennar varð ekki rænt með því að kalla hana nöfnum, reisn hennar sem persónu var ekki fengi að láni utan frá heldur bjó hún í hjartanu. Þess vegna varðveitti hún húmorinn og einbeitnina og mælti: “Satt er það, Drottinn, þó eta hundarnir mola þá sem falla af borðum húsbænda þeirra.”
Og þegar lærisveinarnir héldu að nú væri hún endanlega búin að glata stöðu sinni, þá hafði hún einmitt staðfest kröfu sína og rétt sinn. “Kona, mikil er trú þín.” Mælti Jesús “Verði þér sem þú vilt.”
---
• Manstu þá tíð fyrir ekki löngu síðan að það tíðkaðist í þjóðfélagi okkar að hafa þögn um laun og um hlunninndi og um ferli í ákvörðunum? Þöggun var álitin mikilvægur liður í skilvirkni samfélagsins.
• Manstu þegar spurt var t.d. að óskiljanlegum ofurlaunum stjórnenda á þessum nýliðnu tímum þá var svarið þetta: „Almenningi kemur það ekkert við. Þetta er markaðurinn.” Þannig var allur almenningur settur á jaðar aðal veruleikans. Aðal veruleikinn var einungis ætlaður fáum og við kyngdum því ögn ringluð en skilningsrík.
• Manstu hvað menn voru svo kallaðir sem mótmæltu?
Þöggun, jaðarsetning og merkimiðar eru á öllum tímum aðferð valdsins sem safnar sjálfu sér. Og manstu hvað allur almenningur var í raun andaktugur í ótta sínum við þetta vald? Þetta vald sem í dag hefur sannast að var ekkert nema sýndarvald, dónavald.
Og nú erum við enn farin að heyra valdið tjá sig og segja að almenning varði ekki um þetta og komi ekki hitt við því þetta sé nú markaðurinn. Okkur varðar víst t.d. ekkert um laun manna í skilanefndum bankanna. Þetta er bara markaðurinn.
Kristin hugsun hafnar þessu hugarfari og krefst þess núna eins og á öllum tímum að tekið sé mark á mannlegum þörfum og almennu réttlæti.
• Kristin hugsun hafnar ósýnileika, ógagnsæi og leynd af því að það er dónalegt.
• Kristin kirkja krefst þess að enginn sé jaðarsettur því hún veit að veruleikinn er einn og við erum öll aðilar að honum.
• Kristinn siður hafnar líka útskúfuninni sem fólgin er í merkimiðum og orðaleppum vegna þess að Jesús setti líf og þarfir venjulegs fólks á dagskrá en afhjúpaði dónavaldið sem á öllum öldum er svo nægjusamt fyrir annarra hönd að því liggur við að tárast.
Amen.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
Frábært. Takk fyrir.
Trúlaus segir:
Það er hressandi að sjá að einhverjir innan kirkjunnar líti á Jesú sem sanna fyrirmynd í daglegum athöfnum en ekki bara upphafna táknmynd. Sögur af Jesú eiga að innblása (og þá sérstaklega trúuðum) mönnum kjark til að breyta aðstæðum og umhverfi sínu til góðs fyrir alla. Þið talið tungumál nútímans og ykkar boðskapur er þarfur, jafnt fyrir þá sem trúa og hina, takk fyrir.
Góður pistill og lærdómsríkur. Þökk!
Samt finnst mér merkilegt með preststéttina og þekki ég það af eigin raun, hve mikið þarf til fyrirgefningar, ég þekki það t.d. að 13 ára stúlka bað eitt sinn fyrirgefningar vissra prestshjóna en með engu móti fékk hún þá fyrirgefningu, þetta kalla ég hræsni.
Skrifa ummæli