sunnudagur, 21. febrúar 2010

Ekki þjónustupía heldur frelsari

Prédikun Bjarna í dag:

Það hittist skemmtilega á að konudaginn hér á Íslandi ber upp á fyrsta sunnudag í föstu þegar kristnir menn um allan heim hefja undirbúning páska með því að ganga í sjálfa sig og huga að eigin breytni. Tvær stórar og áhrifaríkar helgisagnir eru dregnar fram og fluttar í kirkjum; sagan af syndafallinu í aldingarðinum og sagan af freistingunum í eyðimörkinni. Hinn gamli maður, Adam og Eva, kljást við veruleika óttans og illskunnar í fyrri sögunni, en í þeirri síðari sjáum við Jesú Krist birta hinn nýja mann, og þá nýju lífsmöguleika sem mannkyni bjóðast í glímunni við óttann í ljósi fagnaðarerindisins.

Freistingin er sú sama í báðum sögum. Í fyrri frásögninni eru þessi tvö tré, tré skilningsins og tré lífsins, og þau standa fyrir þessa merkilegu sammannlegu þrá eftir því að eiga heiminn með því að kunna skil á öllu milli himins og jarðar og geta svo líka lifað að eilífu. Já, það er hálf brjálæðingslegt en um leið fyndin staðreynd að í hverri einustu mannlegri sál skuli dyljast sú blákalda löngun að eiga helst allan heiminn! „Allt þetta mun ég gefa þér ef þú fellur fram og tilbiður mig.” Segir freistarinn við Jesú í eyðimörkinni. Og hvert mannlegt eyra skynjar freistinguna, löngunina til þess að gera einmitt þetta lítilræði, falla sem snöggvast fram og tilbiðja freistarann til þess að eignast allan heiminn.

Það er magnað að tala um syndafallsfrásögnina á konudegi sökum þess að í þeirri syndahrunsfrásögn sem okkur er nærtækust í íslensku samfélagi í dag er ekki ein einasta kona í aðalhlutverki en í sögunni sem skráð er í 3. kafla 1. Mósebókar er það konan sem tekur frumkvæðið og karlinn fylgir.

Skyldi það vera tilviljun að þegar sköpunarsögurnar tvær sem mynda upphaf Gamla testamentisins eru lesnar þá er karlinum og konunni lýst sem jafningjum? Og ef eithvað er þá hallar heldur á karlinn Adam. Í fyrsta kafla segir Guð við sjálfan sig: „Vér viljum gera manninn eftir vorri mynd, líkan oss. [...] Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd. Hann skapaði hann eftir Guðs mynd. Hann skapaði þau karl og konu.” (1.Mós. 1.26-27) Maðurinn er þá karl og kona samkvæmt fyrri sköpunarsögunni. Karl og kona í jafningjasamskiptum, það er maðurinn.

Í síðari sköpunarsögunni sem skráð er í öðrum kafla Mósebókar er Adam einn á rangli þar til Drottinn Guð tekur hann og setur hann í aldingarðinn Eden „til þess að yrkja hann og gæta hans” segir orðrétt. (2.15) Og er hér komin fyrsta og æðsta starfslýsing í atvinnusögu mannkyns; yrkja og gæta. „Og Drottinn sagði: ‘Eigi er það gott að maðurinn sé einn. Ég vil gera honum meðhjálp við hans hæfi.’” (2.18) Bent hefur verið á að hebreska hugtakið ‚ezer‘ sem býr á bak við orðasamhengið ‘meðhjálp við hans hæfi’ er á annað hundrað stöðum í GT notað um það þegar Guð grípur inn í aðstæður þjóðar sinnar. ‚Ezer‘ táknar þannig guðlegt inngrip eða hjálp að ofan en á ekkert skylt við þjónkun eða það að vera undir annan settur. Guð lætur djúpan svefn falla á Adam, tekur úr honum rif og fyllir aftur með holdi. „Og Drottinn Guð myndaði konu af rifinu sem hann hafði tekið úr manninum og leiddi hana til mannsins.” (2.22) Eva kemur þannig sem „ezer” eða frelsari inn í söguna en ekki sem þjónustupía svo að ekki er hægt að halda fram einhverri meintri kristilegri stigveldishyggju innan hjónabandsins á grundvelli síðari sköpunarsögunnar svo mjög sem hún þó hefur verið til þess notuð um aldirnar. Auk þess vekur athygli að sagan endar á því að lýsa búferlaflutningi karlsins til konunnar en ekki öfugt þegar til hjúskapar er stofnað þegar segir: „Af þessum sökum yfirgefur maður föður sinn og móður sína og býr með eiginkonu sinni, og þau verða eitt.” (2.24)

Á ég að segja ykkur hvers vegna ég endursagði syndafallsfrásögnina hér áðan í stað þess að hún væri flutt beint af Biblíunni? Ástæðan er sú að fólk misskilur hana almennt vegna þess að í gegnum aldirnar hefur rangtúlkunum verið haldið á lofti og þessi saga notuð til þess að auðmýkja konur, og ég gat ekki hugsað mér að láta alla foreldra sunnudagaskólabarnanna ganga hér yfir í safnaðarheimilið með söguna í höfðinu og allar þær fyrirframgefnu rangtúlkanir í hjartanu sem gera það eitt að eitra mannlífið. Það er ekki hægt að lesa syndafallsfrásögnina hráa af þeirri einföldu ástæðu að áróðursmaskína karlaveldisins er fyrir löngu búin að eyðileggja hana í hugum fólks. Við höfum lært að sjá fyrir okkur konuna sem framhleypna og heimska og Adam sem fórnarlamb aðgæsluleysis hennar. Og hlustaðu nú á orðaskipti Guðs við Evu og segðu sjálfum þér hvað þú heyrir:

„Mikla mun ég gjöra þjáningu þína er þú verður barnshafandi. Með þraut skaltu börn fæða, samt skaltu hafa löngun til manns þíns en hann skal drottna yfir þér.” (2.16)

Hvað heyrir þú? Heyrir þú ekki Guð lýsa yfir refsingu vegna óhlýðni konunnar og að sú refsing sé fólgin í líkamlegum þjáningum og yfirdrottnun karlsins? Og dregur þú ekki þá ályktun að Guð hafi ákveðið að karlar skuli ríkja yfir konum og líkama þeirra enda sé það það sem þær sjálfar vilji: „Samt skaltu hafa löngun til manns þíns” segir Guð „en hann skal drottna yfir þér.”

„Við Adam sagði [Guð]: Vegna þess að þú hlýddir röddu konu þinnar og ást af trénu sem ég bannaði þér að eta af, þá sé akurlendið bölvað þín vegna. Með erfiði skaltu hafa viðurværi af því alla þína ævidaga. Þyrna og þistla skal landið gefa af sér og þú skalt lifa á grösum merkurinnar. Í sveita þíns andlitis skaltu brauðs þíns neyta þar til þú hverfur aftur til jarðarinnar því af henni ertu tekinn. Því að mold ert þú og til moldar skaltu aftur hverfa.” (2.17-19)

- Mold ert þú og til moldar skaltu aftur hverfa segir Guð.
Við hverja einustu útför eru þessi orð endurtekin. „Af jörðu ertu tekinn, að jörðu skaltu aftur verða...” og nú spyr ég þig: lýkur þar því sem sagt er? „Af jörðu ertu tekinn, að jörðu skaltu aftur verða...” Eru þetta síðustu orin sem flutt eru yfir kistu látins ástvinar að kristnum sið? Nei, klárlega ekki. Moldinni er ekki ausið tvisvar, heldur er henni ausið þrisvar sinnum eins og vatninu yfir höfuð skírnarbarnsins. Þrisvar er vatninu ausið til lífs og þrisvar er moldinni ausið til lífs, vegna þess að heilög kirkja geymir í brunni visku sinnar vitneskjuna um það að Guð vill líf og frelsi og jöfnuð og fegurð og réttlæti og sannleika. Sannleikurinn um konuna og karlinn, veruleiki mennskrar tilveru er ekki fólginn í áhrínisorðum Guðs í syndafallssögunni, enda erum við stödd í fyrstu þremur köflunum á því mikla bókasafni sem nefnt er Biblía. Lífið er ekki fætt til að þjást heldur til þess að sigra. Líkaminn er ekki gerður til þess að auðmýkjast og meiðast heldur til þess að fagna og njóta. Hin sanna verklýsing mannsins á jörðinni er ekki erfiði og dauði heldur sú sem Adam var fengin í upphafi; að yrkja og gæta. Því er mælt yfir hverri einustu gröf og kistu: Af jörðu skaltu aftur upp rísa!

Frá því er sagt í helgisögninni um syndafallið að Guð neyðist til þess að reka Adam og Evu burt úr Paradís því að hann getur ekki treyst því að þau seilist ekki í ávöxt lífsins trés og lifi þannig að eilífu í ástandi syndarinnar. En áður en að brottrekstrinum kemur segir svo: „Og Drottinn Guð gerði skinnkirtla handa Adam og konu hans og lét þau klæðast þeim.”
- Þetta er fyrsta merkið. Skinnkirtlarnir sem konunni og karlinum eru fengnir eru tákn um það að Guð hyggst leysa mannkyn undan valdi syndarinnar. Guð vill ekki andrúmsloft ásökunar og sektarkenndar, ástand þjáningar, undirokunar og erfiðis. Undirokun karla á konum er andstyggð í augum hans. Þjáning þín og mín er ekki það sem Guð óskar okkur. Allt heimsins ólán með sínum uppskeru- og aflabrestum, sjúkdómum, náttúruhamförum, hernaði, svikum og grimmd er ekki Guðs vilji. „Af jörðu skaltu aftur upp rísa!” segir Guð við sært og sundrað mannkyn.

En þær eiga það sameiginlegt helgisagnirnar báðar, sagan af syndafallinu í aldingarðinum og sagan freistingunum í eyðimörkinni, að það er eitthvað varðandi vilja mannsins sem úrslitum ræður.
Freistarinn ávarpar og maður svarar.
Eva leit á tréð og Adam horfði á ávöxtinn en augu Jesú voru fest á Orði Guðs. Hvert og eitt brást við í ljósi þess hvar augu þeirra hvíldu.

Þú ræður augum þínum. Þú ræður hvert þú horfir. Hver sá sem iðkar bæn og lestur Guðs orðs og gerir það að daglegri iðju sinni er að taka ákvörðun um sín eigin augu. Og þegar augu okkar mæta augum frelsarans í reglulegri bæn og Orð Guðs stendur lifandi fyrir hugskotssjónum okkar af því að við höfum fest ást á því þá eignumst við meiri og meiri hlutdeild í hugarfari Krists, verðum frjálsari karlar og konur, upréttara fólk.

Amen.

4 ummæli:

Hjalti sagði...

"Allt heimsins ólán með sínum uppskeru- og aflabrestum, sjúkdómum, náttúruhamförum, hernaði, svikum og grimmd er ekki Guðs vilji."

Nú trúið þið því líklega að guðinn ykkar sé "skapari himins og jarðar". Náttúruhamfarir og sjúkdómar hljóta að vera það sem guð vildi fyrst að hann var á annað borð að skapa þetta.

Nafnlaus sagði...

Sæll Hjalti og takk fyrir kommentið. Ég skil helgisögnina um syndafallið einmitt sem skáldlega og innblásna lýsingu á þeirri furðu að böl og þjáning skuli þrífast í góðri sköpun Guðs. Bölið er jafn óvænt og höggormur sem kemur skríðandi aftan að þér og fer að spjalla.

Bjarni Karlsson

Hjalti sagði...

Sæll Bjarni

Ef þú átt við að boðskapurinn eigi meðal annars að vera: "Við ættum ekki að búast við hlutum eins og sjúkdómum og náttúruhamförum í sköpun góðs guðs.", þá get ég sammála þeim boðskap. Ef þú átt við að boðskapurinn sé einhvers konar útskýring á því hvers vegna náttúruhamfarir og sjúkdómar eru í sköpuninni, þá sé ég ekki hver sú útskýring er. Hver er útskýringin eiginlega? Hvernig útskýrir þú það að guð vill ekki sjúkdóma og náttúruhamfarir, en samt skapaði hann þetta?

Nafnlaus sagði...

Blessaður aftur Hjalti.
Biblían útskýrir ekki þjáninguna heldur undrast hana eins og ég og þú. Kristin trú er trú á guð sem hrópar grátandi: "Guð minn, Guð minn hví hefur þú yfirgefið mig?" Eina lausnin sem kristin trú boðar andspænis hinni óskiljanlegu þjáningu og tilgangsleysi lífsins er persónuleg nálægð og þátttaka í kjörum hvers annars. Þess vegna eru sagðar sögurnar um Jesú Guðs son sem tók á sig aðstæður samferðamanna sinna. Það eru sögur um guð sem er almáttugur í vanmætti sínum og er öruggur þótt hann viti ekki sitt rjúkandi ráð. Trúin á Jesú er ekki vatnshelt hugmyndakerfi heldur vinátta við persónu. Trúin á Jesú er ekki útskýringakerfi fyrir veruleikann heldur uppgötvun á nýjum lífsmöguleikum. Og þegar maður hefur eignast samfélag við Jesú gerist það að mann langar til að leiða fleiri til trúar. Trúin á Jesú verður að því dýrmætasta og besta sem maður á.

b.kv.
Bjarni Karlsson