sunnudagur, 28. mars 2010

Biðröð er skilaboð

Svona prédikaði Bjarni í dag:

Veistu hvert var fyrsta verk Jesú Krists þegar hann hóf starf sitt? Hann stóð í röð. Ég fór að hugleiða þetta í samhengi við umræður síðustu viku um raðir sem fólki er boðið upp á að standa í til þess að þiggja mataraðstoð.
Guðspjöllin greina frá því að margir komu til Jóhannesar að fá iðrunarskírn í ánni Jórdan. Menn hafa staðið í röð og beðið eftir að kæmi að þeim. Svo stendur Jesús þarna dag einn og það er komin að honum í röðin. Það er hálf kindugt að sjá Jesú fyrir sér standandi í röð, bíðandi. Ekki beint Jesúlegt finnst manni við fyrstu tilhugsun. En hann hefur staðið þarna og beðið eftir að kæmi að honum, og það rímar við síðari ritningarlestur dagsins: “Hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur.” (Fil. 2.6-7) Matteus segir svo frá viðbrögðum Jóhannesar er hann sér Jesú: „Mér er þörf að skírast af þér og þú kemur til mín!” Jesús svaraði honum: „Lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti.” Og Jóhannes lét það eftir honum.” segir guðspjallamaðurinn. (Matt. 3. 13-15)

Þannig hófst starfsferill frelsarans á því að hann beið í röð. En það er því merkilegra að aldrei virðist Jesús hafa búið til neinar raðir í sínu starfi. Hans nálgun var einhvernvegin alltaf þannig að hann ýmist var á ferðinni, gangandi langar vegalengdir, komandi inn í nýjar og nýjar aðstæður. Eða þá hann sat umhverfis borð og það var verið að matast og ræða saman. Iðulega talaði hann við marga í einu, greip atugasemdir sem komu fljúgandi og gerði þær að umtalsefni handa öllum sem voru með. Hann heimsótti fólk, hafði frumkvæði að því að ræða við sjúka einstaklinga, heyrði bælt hróp af vegarkanti eða kom auga á mann uppi í tré og bað um samskipti. Og þegar hann gaf mat þá fengu allir í einu og urðu mettir! Það er engin röð í mettundarfrásögunni en tekið fram að þar var mikið gras til að sitja í. (Jóh. 6.10) Sagan um það þegar Jesús er kallaður í hús forstöðumannsins vegna andláts er dæmigerð. Hann er beðinn um að koma og hann leggur samstundis af stað. Þá kemur kona ein aftan að honum í mannfjöldanum og snertir hann til þess að þiggja lækningu, en hún hafði haft blóðlát í 12 ár. Hún hlýtur sína bót og áfram skundar Jesús áleiðis í næsta verkefni þar sem hann gefur barninu lífið að nýju. (Matt.9.18-26)
Ekkert er fjær starfsaðferðum Jesú frá Nasaret en biðröðin. Hans aðferð var öll í hreyfingunni, engar raðir, ekkert hik eða bið.
Öll höfum við staðið í biðröðum. Það er eitthvað við biðröðina sem óvirkjar mann. Maður er verikfæralaus og valdaður á meðan staðið er í röð. Þess vegna eru raðir t.d. mjög mikilvægar í allri hernaðarmenningu. Þar standa menn helst endilega í röðum og ganga líka í röðum milli staða. Það er vitanlega gert vegna þeirra sálrænu áhrifa sem raðir hafa á fólk. Raðir ræna mann einstaklingseðlinu og búa til númer.
- „Þú ert númer 7 í röðinni” segir röddin í símanum. Og þá veistu það. Allt í einu ertu kominn í röð og þig langar að bíta í símtólið. - Stundum höfum við auðvitað enga lausn aðra en biðröðina, en það er samt staðreynd sem ekki verður móti mælt að því þunglamalegra sem manlífið er, því lengri verða raðirnar. Það þekkjum við úr mannkynssögunni. Langar raðir eru jafnan skilaboð um máttleysi og skort, þær draga bitið úr fólki og bera vitni um skort á hugmyndaauðgi. Raðir verða til vegna óskilvirkni. Biðröð er stífla, hún er skortur á streymi. Og svo er líka mjög gott að nota biðraðir til að tjá vald. Biðraðir inn á læknastofur eru dæmi um svona vitleysu. Það geta allir skipulagt tíma sinn, líka læknar. Biðröðin vinnur gegn tilgangi læknisins því hún dregur heilsuna úr sjúklingnum með því að hún eykur á vanmátt hans. Sá sem ætlar að ná heilsu verður fyrst að vera viss um að hann vilji og geti verið við stjórnvölinn í eigin lífi og það er ekki gott að byrja heilsuáhlaupið með því að hanga í röð. Því hygg ég að Jesús hafi jafnan verið á ferð og lagt upp úr því að hitta á fólk með þeim hætti að hann efldi það til valda í eigin lífi. Flestar lækningasögurnar enda á því að Jesús segir eitthvað á þessa leið: „Trú þín hefur læknað þig, farðu í friði!” M.ö.o. Þú ákvaðst að þiggja heilsu þína og þess vegna fékkstu hana. Haltu nú sterkur áfram!

Guðspjall dagsins (Jóh. 12.1-6) greinir frá Jesú við kjöraðstæður. Hann er í mat heima hjá vinum sínum í Betaníu á laugardagskvöldi, daginn fyrir pálmasunnudag. Enginn að bíða, allir að njóta samveru og matar. Þá gerist þessi óvenjulegi atburður að María vinkona hans tekur pund af ómenguðum, dýrum nardussmyrslum og smyr fætur Jesú og þerrar þá með hári sínu. „En húsið fylltist af ilmi smyrslanna.” Segir orðrétt. Svona smyrsl kostuðu formúgu.
Við vitum að Jesús vissi að brátt yrðu dagar hans taldir. Það vissu ekki þau sem með honum voru, þótt hann hafi ítrekað verið búinn að reyna að segja þeim það. E.t.v. var María sú eina sem skynjaði stöðuna rétt. Það er þannig með ástina að hún er hugmyndarík og lausnamiðuð. Ef þú elskar þá finnur þú leiðir til þess að segja það, jafnvel þótt þú vitir ekki hvernig á að fara að því. Ástin sættir sig ekki við hindranir og takmarkanir. Það er falleg mynd sem dregin er upp í guðspjallinu þegar María smyr fætur Jesú með ilmandi smyrslum og þerrar svo með hári sínu. Falleg og einhvernvegin svo brilljant aðferð til þess að segja eitthvað sem öllu skiptir, segja allt án þess að mæla orð af vörum. Og þá gerist það sem alltaf gerist þegar mikið er gefið. Einhver hneykslast. “Hví voru þessi smyrsl ekki seld fyrir þrjúhundruð denara og gefin fátækum?” Þá vitum við það, smyrslin kostuðu þrjúhundruð dagsverk. Hér hafði María s.s. hellt heilum árslaunum verkamanns yfir fætur Jesú og þerrað með hári sínu! Og það er tekið fram að það var Júdas Ískaríot sá sem síðar sveik Jesú sem sagði þetta og að hann hafi í raun ekki sagt þetta vegna umhyggju sinnar fyrir fátækum heldur vegna eigin ágirndar á fé.
„Láttu hana í friði.” svaraði Jesús „Láttu hana í friði. Hún hefur geymt þetta til greftrunardags míns. Fátæka hafið þið ætíð hjá ykkur en mig hafið þið ekki ávallt.“

Þetta andsvar Jesú hefur verið notað gegn fátæku fólki í aldanna rás með því að segja að Jesús hafi fullyrt að það yrði alltaf til fátækt fólk. „Fátæka hafið þið ávallt hjá ykkur en mig hafið þið ekki ávallt.”
Getur verið að Jesús hafi með orðum sínum einmitt verið að ávarpa þetta viðhorf til lífsins sem tryggir að fátækt muni alltaf blómstra hvernig sem árar? Viðhorf stífninnar og hugmyndaleysisins sem býr til endalausar biðraðir, viðhorf nægjuseminnar sem snúið er að öðru fólki á meðan lifað er í óhófi. – ‘Aðrir skulu spara og erfða á meðan ég get lifað í ofneyslu.’ Getur verið að Jesús hafi verið að segja við Júdas og okkur hina svikarana alla saman að á meðan við höfnum réttlætinu og jöfnuðinum muni fátækir ætíð vera á meðal okkar með allri þeirri eyðileggingu sem fátæktinni fylgja? Ég skil þessi orð þeim skilningi.

María var sú eina sem var með á nótunum ríki Guðs þetta laugardagskvöld í Betaníu og gat lifað í takti við það. Hún skildi eðli hinnar guðlegu sóunar ef svo má að orði komast. Guð er alltaf að sóa gæsku sinni og ríkdómi á okkur en við gerum ekkert nema að nurla og safna og metast. Lífið streymir til okkar úr öllum áttum og tækifærin blasa við, en við viljum ekki sjá og ekki heyra. Þess vegna kreppir að á öllum sviðum.

Við Íslendingar erum t.d. alveg óvart einhver ríkasta þjóð í heimi. Við lifum í stórkostlegu landi sem býr yfir slíku aðdráttarafli og orku og auðlindum að því verður ekki með orðum lýst en við bara höfum ekki smekk fyrir því. Okkur var gefið meira en nokkurri annari þjóð, og núna þegar skortur er fyrirsjáanlegur á landrými, vatni og fæðu í veröldinni og ekkert land á hnattkúlunni hefur viðlíka stöðu og Ísland, þá erum við bara að rífast og bölsótast og erum ferlega óánægð. Við höfum fengið að mennta okkur og ferðast um allan heim og eiga tengsl og samskipti við allar þjóðir og menningarheima, en við erum fyrst og síðast alveg ferlega skúffuð. Já, við erum bara svo ægilega niður dregin af því að það er búið að fara svo illa með okkur að við getum bara ekki á heilum okkur tekið.

Hér á eftir mun hún Friðlín Björt Ellertsdóttir ganga upp að altarinu til þess að fermast. Hún ætlar að svara sjálfri spurningu lífsins, hvort hún vilji hafa Jesú Krist sem leiðtoga sinn. Það er ekkert leyndarmál að hún og hennar fjölskylda gekk í gegnum þá erfiðu reynslu í vetur að Friðlín varð fyrir bíl hér á Sundlaugaveginum og það er mikil Guðs mildi að hún skuli vera heil hér á meðal okkar. Friðlín! Ég veit að það er horft á þig með miklu þakklæti í dag. Þakklæti fyrir líf þitt og heilsu, að þú skyldir varðveitast og það að þú skulir vera sú yndislega manneskja sem þú ert. Hvað veldur því að fjölskylda sem verður fyrir öðru eins áfalli og þið urðuð fyrir í vetur skuli samt sitja hér í hjartans þakklæti og gleði? Ástæðan er sú að í gegnum raunirnar komust þið að því hvað lífið er dýrmætt. Þið leyfðuð atburðarás lífsins að sýna ykkur hve mikið ykkur hefur verið gefið. Þið tókuð við lífinu, þáðuð batann og sigurinn úr Guðs góðu hendi. Skelfingin snérist í von og angistin í sigur. Svona starfar Guð. Og einmitt svona vill hann líka starfa meðal Íslenskrar þjóðar að við hleypum voninni að og komum auga á allt það sem við eigum og höfum og kunnum að meta það og deila því hvert með öðru.

Amen.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir þessa prédikun, Bjarni minn. Fær mann til að hugsa.
Bestu kveðjur,
Ármann