sunnudagur, 14. mars 2010

Hugarafl og lögmál rausnarinnar

Svona prédikaði Bjarni í dag:


Ég er heiðarlega stoltur af unglingunum okkar hér í kirkjunni og hverfinu og bara á landinu öllu. Á fimmtudagskvöldið síðasta var t.d. haldin góugleði með góðum mat, skemmtiatriðum, söng og dansi í félagsmiðstöðinni að Dalbraut þar sem margt eldra fólk býr. Þar komu m.a. ungir sveinar úr 10. bekk Laugalækjarskóla til að syngja og leika fyrir fólkið. Þeir kalla sig Lækjarbræður og eru alveg endalaust fyndnir og flottir og þeim fylgdi svo mikil hlýja og gleði að ein góð kona sem komin er yfir hundrað árin sagði mér að hún vildi endilega kynna langömmustelpurnar sínar fyrir þessum ungu mönnum. Sama dag var glæsilegur hópur unglinga á okkar vegum í félaginu Adrenalíni gegn rasimsa á kayakæfingu í Laugardalslauginni á um það bil sem samfélagsverðlaun Fréttablaðsins voru tilkynnt í Þjóðmenningarhúsinu og var Adrenalínfélagði í hópi fimm aðila sem tilnefndir voru í flokkinum til atlögu gegn fordómum. Formaður sóknarnefndar mætti fyrir okkar hönd og tók við tilnefningunni. Í Adrenalínstarfinu eru nú um 40 unglingar af margvíslegu bergi brotnir sem eiga það sameiginlegt að vilja bæta heiminn með vináttu og gagnkvæmum skilningi.

Ég var líka sérlega sáttur þegar ég vissi að samstarfshópurinn Hugarafl fengi aðal viðurkenninguna í okkar flokki því ég hef lengi fylgst með hugsjónastarfi Auðar Axelsdóttur og samherja hennar þar sem gengið er út frá þeirri hugmyndafræði í þjónustu við geðsjúka að notendur þjónustunnar séu í beinni samvinnu við fagfólk á jafnréttisgrunni. Þar er forsjárhyggju í samskiptum hafnað en gengið út frá því að hver og einn sé ábyrgur í eigin lífi og þekki sjálfur sínar þarfir. Í stað þess að horfa á sjúkleika fólks er horft til styrkleika þess. Í stað þess að mæna á hindranir er hugað að lausnum í samvinnu allra sem í kringum einstaklinginn standa.
Hjá Hugarafli er spurt eins og Jesús spyr Filippus þegar hann lítur upp í guðspjalli dagsins og sér mannfjölda koma til sín: „Hvar eigum við að kaupa brauð svo að þessir menn fái mat?” (Jóh. 6.5)
Hvar eigum við að kaupa brauð? Í huga Jesú var setningin: „Þetta er bara þitt vandamál!” ekki til. Eða getur þú séð Jesú fyrir þér halda ræðu yfir fólkinu og segja: „Þið eruð nú meiru kjánarnir. Æðandi út í óbyggðir í fyrirhyggjuleysi! Sannlega, sannlega segi ég ykkur, þetta er ykkar vandamál!”? Nei, einhvernvegin er þessi sena mjög úr dúr við anda guðspjallanna. Enda gefur Jóhannes lesandanum þær upplýsingar að Jesús sagði þetta til þess að reyna lærisveininn Filippus, en sjálfur vissi hann hvað hann ætlaði að gera. Filippus svaraði eins og ég hefði sennilega líka gert. Hann fór að leggja saman í huganum hvað kostaði að gefa nokkur þúsund manns að borða, fór svo yfir eignastöðuna og svaraði með mjög ábyrgum hætti: „Brauð fyrir tvöhundruð denara nægðu þeim ekki svo að hver fengi lítið eitt.” (v.7)

Hjá Hugarafli er ekki hugsað svona. Þar á bæ er ekki litið svo á að 2+2 séu nauðsynlega 4. Þess vegna fengu þau viðurkenningu Fréttablaðsins undir liðnum til atlögu gegn fordómum. Það er ekki hægt að reikna sig út úr vítahring fyrirfram gefinna hugmynda, fordóma. Það er ekki hægt að feta sig tæknilega og faglega frá óttanum við skort og einsemd, sem er rót allra fordóma. Ég heyrði forstöðukonuna Auði Axelsdóttur eitt sinn lýsa því á stórum fundi er hún hafði undirbúið komu hjúkrunarfólks inn á heimili þar sem þörf var á þjónustu en langvarandi vanlíðan hafði einangrað viðkomandi frá umheiminum svo að það tók tíma að ávinna traust og persónulegan trúnað til þess eins að heimilisfólk gæti þegið þá þjónustu sem þörf var á. Nú var dagurinn kominn þegar hjúkrunarfólk skyldi heimsækja og búið var að baka og færa heimilið í stand til að taka höfðinglega á móti gestum. Dyrabjallan hringdi um það bil sem kveikt hafði verið á kerti á elhúsborðinu, dyrnar opnuðust og inn gengu tveir fulltrúar heilbrigðiskerfisins. Þeir staðnæmdust í fordyrinu. Tóku upp úr pússi sínu eiturbláar skóhlífar sem smellt var undir áður en gengið var með nokkru fasi inn í íbúðina, þegið sæti, tekin upp mappa og spurt: “Hvert er ykkar vandamál?”

Þar með var með afgerandi hætti búið að koma því á hreint að hér mættust tvær tegundir fólks, skjólstæðingar og fagfólk, sem ekki væru hluti af veruleika hvert annars. - Hvert er ykkar vandamál?!

Spurning Jesú var aldrei þessi. Hann spurði öllu heldur: „Hvað viltu að ég geri fyrir þig?” (Mark. 10.51) Þjónusta Jesú frá Nasaret var notendastýrð en ekki hlaðin forsjárhyggju.

Þegar Filippus hafði lokið sínum útreikningum og túlkað niðurstöðurnar öllum í óhag kom annar lærisveinn, Andrés og segir við Jesú: „Hér er piltur sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska.” (v.9)

Sérðu fáránleikann í þessu? Þarna voru fleiri þúsundir manna saman komnar. - „Hér er piltur sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska.” -
Og ég sé fyrir mér barnið rétta fram pokaskjattann sinn með brauðinu sem mamma hafði bakað og fiskunum sem frændi hafði veitt og hann vissi eins og öll börn að nestið að heiman er besta nesti í heimi. Andrés stendur þarna við hlið drengsins en kemur svo til sjálfs sín og bætir við: „En hvað er það handa svo mörgum?” (v.9) Orðrétt stendur: “Jesús sagði: ‘Látið fólkið setjast niður.’ Þarna var gras mikið. Menn settust nú niður, um fimm þúsund karlmenn að tölu. Nú tók Jesús brauðin, gerði þakkir og skipti þeim út til þeirra sem þar sátu og eins af fiskunum, svo mikið sem þeir vildu.”

Á þessm árum var látið duga að telja karlana eina, við virðum löngu liðnu fólki það til vorkunnar. En þarna hafa sjálfsagt verið konur ekki síður og jafnvel börn. En missum nú ekki af aðal atriðum málsins...
Tvennt skiptir hér mestu.
Jesús tekur matvælin og gerir þakkir og fólk fær svo mikið sem það vill.

Hér birtist annars vegar þakklát afstaða til gæða lífsins, og hins vegar valdeflandi nálgun við fólk.

Þakklæti og valdefling!

Svona gera þau alla daga í Hugarafli. Líka í Gauraflokknum í Vatnaskógi sem vann samfélagsverðlaun Fráttablaðsins í flokki sem nefndur er frá kynslóð til kynslóðar. Og um hvað snýst starf Slysavarnarfélagsins Landsbjargar annað en þakklæti og virðingu fyrir lífi fólks og stuðning við fólk í neyð til þess að ná aftur valdi á lífi sínu? Landsbjörg hlaut einmitt aðal verðlaunin þetta árið fyrir sitt frábæra starf. Eða hefur þú hitt hann André Bachmann sem var útnefndur hvunndagshetjan í þessari sömu afhendingu? Það er þess virði að taka strætó bara til þess að sitja í hjá honum þegar hann er að keyra að ekki sé talað um að koma þegar hann er að skemmta. Frá honum streymir þakklæti til lífsins og allir skynja að hann ætlar ekki að taka völdin af neinum heldur vill hann fólki einfaldlega vel, og einmitt þess vegna skapar hann gleði og bjartsýni í kringum sig.

Í pistli dagsins segir Páll: „Sá sem sáir sparlega mun og sparlega uppskera og sá sem sáir ríflega mun og ríflega uppskera. [...] Guð er þess megnugur að veita ykkur ríkulega allar góðar gjafir til þess að þið í öllu ávallt hafði allt sem þið þarfnist og getið sjálf veitt ríkulega til allra góðra verka.” (2. Kor. 9. 6 og 8)

Nei, 2+2 eru ekki nauðsynlega 4. Enn dýpra í veruleikann heldur en lögmál stærðfræðinnar er grópað lögmál rausnarinnar. Æðsta tákn rausnarinnar er fórnargjöf Jesú Krists er hann gaf líf sitt á krossinum svo að við mættum lifa. Það er fórnargjöfin, það er rausnin sem liggur lífinu við hjartastað. Barnið í sögu þessa sunnudags var með á nótunum. Við skulum gefa gaum að börnunum okkar og unglingunum. Drengurinn í Guðspjalli dagsins er fulltrúi hinnar himnesku rausnar sem er raunsærri á eðli veruleikans heldur en nokkurt exelskjal. Því segi ég við okkur öll í Jesú nafni: Líttu upp og sjáðu, það er engin kreppa!

Amen.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

hjkl