Hér er prédikun okkar frá þessu sunnudegi:
„Guð blessi Ísland” flest munum við hvar við vorum þegar þessi orð féllu. Sl. miðvikudag var þess minnst að þá voru tvö ár liðin frá Guð- blessi-Ísland deginum. Og fjölmiðlar tóku upp á því að spyrja fólk þeirra ágætu spurningar: Blessaði Guð Ísland? Það er hollt að velta því fyrir sér.
Blessun er ekki einhliða gjörningur heldur er hún alltaf fólgin í samskiptum. Maður tekur við blessun og blessar aðra sem við því vilja taka. Blessaður, blessuð segjum við og heilsum fólki og við hlustum eftir því hvort undir kveðjuna er tekið og hvernig við henni er tekið. Hér er á ferðinni eitthvað sem er almennt mannlegt. Blessun er ekki bara frá Guði, en um hana gildir alltaf að hún gerist í samskiptum. Tökum eftir því að það tíðkast um alla veröld að menn rísi á fætur þegar Drottinleg blessun er flutt. Það er eitthvað sem knýr okkur til þess að taka upprétt við blessun Guðs. Eitthvað veldur því að við viljum vera í virkri líkamsstöðu þegar blessunin er flutt og meðtekin.
Textar dagins í dag eru allir um þetta. Þeir eru um það hvernig maður tekur við blessun frá Guði og hvernig unnt er að hliðra sér hjá henni með því að lifa beygður inn í sjálfan sig.
Hjá Esekíel spámanni fáum við ævaforna þjóðfélagsrýni sem hljóðar svona: „En Ísraelsmenn segja: „Drottinn breytir ekki rétt.“ Er það breytni mín sem ekki er rétt, Ísraelsmenn, eruð það ekki öllu fremur þið sem breytið ekki rétt? [...] Snúið við, hverfið frá öllum afbrotum ykkar svo að þau verði ykkur ekki að falli. Varpið frá ykkur öllum þeim afbrotum sem þið hafið framið. Fáið ykkur nýtt hjarta og nýjan anda. Hvers vegna viljið þið deyja, Ísraelsmenn? Því að mér þóknast ekki dauði nokkurs manns, segir Drottinn Guð. Snúið við svo að þið lifið. (Esekíel 18.29-32)
Blessun er s.s. ekki eitthvað bleikt eða köflótt, blessun er ekki áhald eða aðferð, hún er hið góða líf. Blessun er gæðin við það að vera til. Hún er þetta sem við viljum fyrir alla muni ekki missa vegna þess að þá er ekki til einskis að lifa. Enginn getur bent á blessunina en allir geta miðlað henni eða hafnað henni og allir vita hvað hún er; að hún er það sem skilur á milli lífs og dauða. „Snúið við svo að þið lifið!” segir Guð fyrir munn spámannsins. Framar í sama kafla er komið algerlega beint að efninu og þeim skilaboðum klárlega komið áleiðis að eina aðferðin til þess að taka við blessun sé sú að iðka réttlæti:
„Sé einhver réttlátur iðkar hann rétt og réttlæti. [...] Hann beitir engan ofríki, skilar skuldunauti veði sínu, hann fremur ekki rán, hann gefur hungruðum mat sinn, hann skýlir nöktum með klæðum, hann lánar ekki gegn vöxtum, stundar ekki okur, hann heldur hendi sinni frá illum verkum, hann fellir óvilhallan úrskurð í deilum manna, hann fer að lögum mínum og breytir í öllu eftir reglum mínum og fylgir þeim. Hann er réttlátur. Þess vegna mun hann lifa, segir Drottinn Guð.” (Esek. 18.5-9)
Blessaði Guð Ísland? Er spurt. E.t.v er rétt að svara svona:
Þjóð sem ekki stendur í fæturna getur ekki tekið við blessun frá Guði.
Þjóð sem trúir því að græðgi sé góð fyrir heildina þegar upp er staðið mun ekki þrífast.
Þjóð sem viðheldur fátækt og vill ekki jöfnuð milli manna mun koðna.
Þjóð sem metur dugnað og heiðarleika minna en kunnáttu í lögmálum spilavíta mun fara halloka.
Þjóð sem skilgreinir velferð sína í ljósi einfaldra útreikninga á hagvexti en skilur ekki gildi félagsauðs og menntunar mun farast í heimsku sinni.
Þetta er ekkert flókið. Svona hefur þetta alltaf verið. Blessun er upp á líf og dauða og við henni verður ekki tekið nema standandi.
„Leggið því af lygina og talið sannleika hvert við sinn náunga því að við erum hvert annars limir.” Segir postulinn síðan í pistli dagsins. Þar ber að sama brunni. Hér er vísað til þess félagslega innsæis að þjóðin sé líkami.
- Hættum að ljúga því að sjálfum okkur og hvert að öðru að allir séu einir er verið að segja. Við erum hvert annars limir! Ef einn limur líkamans þjáist þá þjást allir með honum, það er svo einfalt og við vitum það öll. Þótt bara lítill hluti þjóðarinnar hrekist út úr heimilum sínum vegna kreppunnar þá stöndum við öll á götunni, því við tilheyrum hvert öðru. Þótt einungis fá börn í landinu fái ekki tannlæknisþjónustu þá varðar það okkur öll vegna þess að við eigum bara eina æsku. Þótt fá börn sem sárlega þurfa á talæfingum að halda til þess að þau nái tökum á málinu fái ekki hjálpina þá finnum við að okkur verður öllum stirt um tal, því við eigum eitt móðurmál. Þótt einungis fáir afar og ömmu einangrist frá afkomendum sínum vegna þess að þau hafa ekki lengur efni á því að bera sig almennilega og kjósa að einangrast fremur en að auðmýkjast þá erum við öll að einangrast því við eigum öll okkar nánustu.
Hættum að ljúga! Segja þeir báðir, Esekíel spámaður og Páll postuli. Hættum að láta eins og allir séu einir. Við erum hér öll saman og við komum hvert öðru við.
Hver græðir á blekkingu? Hver græðir á samstöðuleysi? Hvers hagsmunir eru það að fólk vilji ekki kannast við rétt náunga síns til þess að njóta viðunandi velferðar? Hvert sem svarið er þá er það alltént ekki almenningur sem græðir. Guð vill almannahag. Fagnaðarerindið, góðu fréttirnar sem kristin kirkja ber öld fram af öld er fregnin af því að líf hins almenna manns hefur verið sett á dagskrá. Mennskan sjálf í margbreytileika sínum er hafin upp í Jesú frá Nasaret. Lífið þitt, líf mitt, svo auðsæranlegt og viðkvæmt sem það er, er lýst heilagt í Jesú Kristi. Nærðu þessu?
„Þið eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni sem er spilltur [...] en endurnýjast í anda og hugsun og íklæðast hinum nýja manni sem skapaður er í Guðs mynd og breytir eins og Guð vill og lætur réttlæti og sannleika helga líf sitt. Leggið því af lygina og talið sannleika hvert við sinn náunga því að við erum hvert annars limir. [...] Hinn stelvísi hætti að stela en leggi hart að sér og geri það sem gagnlegt er með höndum sínum svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim sem þurfandi er. [...] Verið góðviljuð hvert við annað, miskunnsöm, fús til að fyrirgefa hvert öðru eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið ykkur.”
Nærðu þessu? Hér eru engin geimvísindi á ferð. Kannski gamalt orðalag, en engin geimvísindi.
- Við höfum bara hvert annað. Vitið þið það? Við lifum bara hér saman á þessari eyju úti í hafi. Við erum líka bara eitt mannkyn á einni lítilli plánetu í myrkum geimnum og það er ekkert að fara. Enginn kemst í burtu. Við neyðumst til þess að tala saman, koma okkur saman.
Prófum að vera sanngjörn og segja satt er tillaga úr Guðs orði. Hættum að stela! „Hinn stelvísi hætti að stela en leggi hart að sér og geri það sem gagnlegt er með höndum sínum svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim sem þurfandi er.”
- Að kristnum sið er það þjófnaður að miðla ekki þeim sem þurfandi er. Það er stuldur að nota það sem mann ekki vantar á meðan aðrir þurfa á því að halda. Þú átt ekki með réttu annað en það sem þig vantar. Það sem umfram er eiga þau sem skortir. Þetta er kristin afstaða til efnislegra gæða. Hættum að stela segir postulinn.
Við lifum í menningu sem blekkir og blekkir. Við ljúgum því m.a. hvert að öðru að helgastur allra dóma sé séreignin og enginn mætir skjótari viðurlögum en sá sem misvirðir séreignarréttinn. Samt vitum við sem satt er að allt sem við eigum höfum við bara að láni og séreign er einungis mæliaðferð sem gott er að nota til þess að dreifa gæðum. Það er einfalt að telja hausa, þess vegna er hagkvæmt að nota séreign sem einingu á efni, eins og við t.d. notum vött á rafmagn og Richterkvarða á titring.
Statt upp! Segir Jesús í Guðspjalli dagsins (Matt 9.1-8) við lamaðan mann sem vegna fötlunar sinnar hafði veri rændur réttinum til þess að eiga viðunandi tilveru. Statt upp! En maðurinn lá umkringdur vörgum sem vildu eymd hans og ætluðu honum ekkert nema þjáninguna eina. Á þekjunni fyrir ofan biðu hins vegar vinaraugu. Fjórir góðir vinir sem höfðu borið hann að húsinu, mismunað honum upp á þak, rofið þar vænt gat án allrar grenndarkynningar og látið hann síga niður til Jesú. Jesús sá trú þeirra segir guðspjallið. Jesús sá trú þeirra og það var nóg.
Biðjum Guð að gefa okkur trú að við fáum risið á fætur og tekið við lífinu saman.
Guð blessi Ísland
sunnudagur, 10. október 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
bjóst við að sjá einhverja umræðu um séreignir eins og í Silfrinu í dag en nei prestaprédikun!
Í silfrinu í gær komu Gunnar Smári Egilsson og Óli Örn Eiríksson með athyglisverðar tillögur sem gætu komið amk að hluta til í stað afskrifta. Þær ganga út á að í stað afskrifta þá leysi ÍLS til sín eignirnar og lántakendur breytist í leigjendur gegn um einskonar lyklafrumvarp.
Það þarf ekki að rífast um afskriftir , ÍLS yfirtekur viðkomandi eign.Með þessu væru margar samfélagslegar flugur slegnar í einu höggi.
Einn ávinningur væri að með þessu gæti myndast vísir að siðmenntuðum leigumarkaði á Íslandi.
Í allri umræðunni um afskriftir eða ekki afskriftir gleymist oft 3 veigamiklir þættir :
A : Rótin að þessari uppákomu ,sem er íslenska séreignastefnan.
B : Hvað kostar að afskrifa ekki neitt ? Það er ávísun á langvinna skuldakreppu og landflótta mikilvægs aldurshóps fyrir hagkerfið.
C : Hversu raunhæft er að afskrifa meðan fasteignamarkaðurinn er enn á sterum frá 007 ? Það virðist vera mikil óskhyggja í gangi í bankakerfinu um að halda lofti í skuldabólu sem er löngu sprungin.
Það er óhjákvæmilegt að hluti af lántakendum þurfa að fara gegn um gjaldþrot. Það þarf þá að gerast með mannlegum hætti, og Tillagan frá Silfrinu í gær væri sennilega besta lausnin fyrir þennan hóp.
Þó allt óselt og yfirveðsett íbúðarhúsnæði breyttist í leiguhúsnæði, þá má byggja nokkur þúsund leiguíbúðir í viðbót til að komast upp í svipað hlutfall og í nágrannalöndunum.
Á Íslandi er séreignarhlutfallið 82 %, sem er arfleifð frá þeim tíma sem húsbyggjandinn fékk gefins peninga, þegar verðbólgan eyddi láninu á nokkrum árum. Víðast hvar er séreignarhlutfallið mun lægra.
Nú er þörf á nýrri hugsun í húsnæðismálum
Guðmundur Guðmundsson
Skrifa ummæli