föstudagur, 22. apríl 2011

Gamall skandall

Prédikun okkar á skírdagskvöldi
Ég sé að Jesús hellir vatni í mundlaugina - ætlar hann að fara að þvo sér um hendurnar núna? Nei, hann tekur líndúkinn, bindur hann um sig og byrjar að þvo fæturna á Jóhannesi. – Hvernig dettur honum í hug að fara að þvo þessa óhreinu karlmannsfætur? Ætlar hann kannski að þvo fæturna á okkur öllum? Það væri ljóta verkunin, 12 lærisveinar, 24 skítugir fætur eftir daginn og rykugan veginn. Nú lýkur hann við að þvo Jóhannesi og jú, jú hann heldur áfram, Tómas er næstur. Ég ætla nú ekki að leggja það á hann að þvo fæturna á mér. Það væri þá frekar ég sem ætti að þvo hans fætur! Þetta er ekki hægt. Stundum er eins og Jesús sé ónæmur fyrir því sem er vandræðalegt. Hvern langar að snerta skítuga karlmannsfætur? ... Nú er hann kominn að mér og krýpur fyrir framan mig. – ‚Jesús!‘ Segi ég og er ákveðinn í málrómnum, ‚aldrei að eilífu skaltu þvo fætur mína.‘ Ég er ekki byrjaður að útskýra orð mín þegar hann stöðvar mig með augnaráði sínu og segir: ‚Pétur! Ef ég þvæ þér ekki þá áttu enga samleið með mér!‘ - Bíddu, samleið? Hugsa ég. Hvað eigum við annað en samleið? Ég ætla ekki að láta þennan undarlega fótaþvott koma upp á milli okkar... Gott og vel hann skal ráða, ég vil að hann ráði. ‚Drottinn, ekki aðeins fætur mína, líka hendurnar og höfuðið.‘ Fyrst hann vill fara að þvo mér þá má hann bara þvo mér!

Skrýtið með Jesú, hvað hann er óhræddur við snertingu. En það er einmitt það sem er svo stirt í samskiptum fólks það að snertast fallega og sýna eðlilega líkamlega umhyggju. Ég gleymi ekki þegar við vorum boðnir í hús Símonar farísea. Það var nú einhver ótrúlegasti atburður sem ég hef orðið vitni að á samleið minni með Jesú. Ég skil ekki ennþá að okkur skuli ekki bara öllum hafa verið hent út! Við vorum í miðju boði í þessu fína húsi. Ég hafði oft séð þessa villu og vissi eins og allir hver bjó þar, en hafði aldrei dreymt um að ég ætti eftir að koma þarna inn, venjulegur fiskimaður. Þá kemur kona ein úr bænum sem allir vissu að var bersyndug. Hún var með þennan fína alabastursbuðk með smyrslum. Hún nam staðar að baki Jesú til fóta hans og var grátandi. - Ætli hún sé að fara að biðja um lækningu, hugsaði maður. - Fólk lætur hann bara ekki í friði. Nei, nei, þá tók hún að væta fætur hans með tárum sínum, þerraði þá með höfuðhári sínu. Svo kyssti hún fætur hans og braut buðkinn svo að ilmurinn af þessum rándýru smyrslum sem hún smurði á fætur hans var samstundis kominn út í öll horn, svo hafi einhver ekki verið búinn að taka eftir henni þá voru allir með þarna. Vá, það stóðu allir á öndinni, hvernig datt henni þetta í hug?! Þetta var óneitanlega tilkomumikið en líka í rauninni fáránlegt og mjög fallegt. Svona eins og þessi fótaþvottur. Vandræðalegt og líka fallegt. Jesús var bara rólegur. Símon faríesi fór að tauta eitthvað við sjálfan sig og svo heyrðum við hann segja: ‘Væri þetta spámaður myndi hann vita hver og hvílík sú kona er sem snertir hann að hún er bersyndug!’ Jesús sagði þá við hann: ‘Símon, ég hef nokkuð að segja þér.’ Gat verið, hugsaði ég og hnippti í strákana. Það sást á svip hans að hann var búinn að finna einhverja líkingu eða dæmisögu til þess að setja fram. Símon svaraði honum svolítið hissa: ‘Segðu það, meistari. Og það stóð ekki á Jesú: ‘Tveir menn voru skuldugir lánveitanda nokkrum.‘ byrjaði hann ‚Annar skuldaði fimm hundruð denar en hinn fimmtíu. Nú gátu þeir ekkert borgað og þá gaf hann báðum upp skuldina. Hvor þeirra skyldi nú elska hann meira?’
... Þetta var náttúrulega snilld. Það var eins og hann ætti endalausar sögur til þess að stinga upp í faríseana og Símon mátti eiga það að hann var nú bara býsna einlægur og svaraði heiðarlega þótt hann vissi að hann væri að ganga í gildru: ‘Sá hygg ég sem hann gaf meira upp.’ sagði hann. Og þá horfði Jesús á hann með sínu hlýlega augnaráði og sagði: ‘Þú ályktaðir rétt.’ Svo snéri hann sér að konunni. Ég gæti trúað að einhver hafi haldið að hann æltaði að fara að tala um fyrir henni og senda hana kurteislega út, enda var þetta ótrúleg bíræfið af þessari konu. Já, líka þessari konu! En þótt hann snéri sér að konunni þá ávarpaði hann allt í einu Símon. Hann hafði augljóslega ekki lokið sér af við að kenna honum. ‘Sér þú konu þessa?’ ÚÚÚ það hafði bara ekkert annað komist að í boðinu nema hún, allra augu hvíldu á henni. Auðvitað sá hann konuna. Svo fékk Símon að heyra það: ‘Ég kom í hús þitt og þú gafst mér ekki vatn á fætur mína, en hún vætti fætur mína tárum sínum og þerraði þá með hári sínu.‘ Símon varð langleitur í framan. ‚Ekki gafstu mér koss, en hún hefur ekki látið af að kyssa fætur mína.‘ Við félagarnir bókstaflega engdumst en létum á engu bera. ‚Ekki smurðir þú höfuð mitt með olíu, en hún hefur smurt fætur mína með smyrslum. Þess vegna segi ég þér, hinar mörgu syndir hennar eru fyrirgefnar. Enda elskar hún mikið. En sá elskar lítið sem lítið er fyrirgefið.’

Þarna fannst mér að hann hefði átt að setja punktinn. Andrúmsloftið var orðið mettað af spennu. En Jesús lét ekki staðar numið þarna, heldur sagði hann við konuna: ‘Syndir þínar eru fyrirgefnar.’ Gat skeð. Það var alveg ferlegt þegar hann sagði svona. Það kostaði alltaf uppnám. Það vissu allir að enginn gat fyrirgefið syndir nema Guðs jálfur. Þarna sat Jesús umkringdur óvinum sem samþykktu hann ekki en það var eins og honum væri stundum fyrirmunað að lesa í aðstæður. Enda byrjaði nöldrið líkt og sjálfkrafa ‘Hver er sá er fyrirgefur syndir?!’ og nú beið ég eftir því sem hann alltaf sagði í svona aðstæðum, og það kom. Hann sat og horfði á konuna þar sem hún stóð: ‘Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði!’ Það var bara tímaspursmál hvenær þetta fólk færi að vera gott með sjálft sig. Trú ÞÍN hefur frelsað þig! Er hægt að segja svona við fólk sem er með allt sitt líf í óreiðu?

Nei, ég gleymi aldrei þessu matarboði. Og ég gleymi aldrei ásjónu konunnar þar sem hún stóð og horfði yfir veislusalinn áður en hún gekk hnarrreist út úr húsinu. Það var eins og það væri önnur kona að ganga út í stað þeirrar sem hafði gengið inn. Ásjóna hennar var bara breytt. Þetta var ekki lengur skemmd og niðurlægð manneskja, þarna gekk hún bara sterk og einbeitt og flott. Líkt og skömmin sem hún bar hefði orðið eftir einhversstaðar. Það sama var ekki hægt að segja um Símon. Hann og vinir hans voru náttúrulega bara pirraðir og einhvernveginn áttavilltir eins og alltaf þegar Jesús tók á þeim. Ég held samt að þeir hafi alveg haft hann á heilanum. Nógu oft voru þeir að kalla á hann eða koma til hans með allskonar fyrirspurnir.

Jæja, nú er hann búinn að þvo fæturna á okkur öllum og hann er staðinn upp, við mænum allir á hann, því maður veit aldrei hvað honum dettur í hug að segja eða gera næst. Nú sest hann niður, hann horfir á okkur og segir: ‘Skiljið þið hvað ég hef gert við ykkur.’ Við sitjum allir hálf aulalegir, sumri hrista hausinn horfandi í gaupnir sér. ‘Þið kallið mig meistara og Drottin, og þið mælið rétt því það er ég.’ Þetta var nákævmlega það sem ég var að meina. Þetta var það sem ég ætlaði að segja þegar hann greip frammí fyrir mér. Við áttum auðvitað að þvo fætur hans, hér er öllu snúið á hvolf, og hann veit það. ‚Fyrst ég sem er herra og meistari hef nú þvegið ykkur um fæturna, þá ber ykkur einnig að þvo hver annars fætur. Þjónn er ekki meiri en herra hans né sendiboði meiri en sá sem sendir hann. Þið vitið þetta og þið eruð sælir ef þið breytið eftir því.’

Merkilegt hvað Jesús er óræddur við líkama sinn og annarra. Fólk má bara snerta hann, faðma hann. Og hann er alltaf að snerta fólk og lækna það. Alls konar fólk. Betlara, fatlað fólk, Konuna með blóðlátin og jafnvel holdsveika! Já holdsveikir smitandi einstaklingar - Það er bara hans uppáhalds fólk! Og svo á hann til að gera svona skrýtna hluti sem eiginlega fara yfir strikið. Þessi fótaþvottur hérna, eða skandallinn í húsi Símonar er ekkert einsdæmi. Ég man þegar hann hitti blinda manninn við Sílóamlaugina og vildi verða við ósk hans um lækningu. Við ætluðum ekki að trúa eigin augum þegar hann fyrst hrækti í moldina þar sem þeir stóðu, gerði svo leðju úr hrákanum og strauk henni á augu mannsins! Svona gerir enginn. ‘Farðu og þvoðu þér í Sílóam!’ sagði hann við manninn. Og hann gerði það og fékk sjónina aftur.

Ég hef ekki verið verið rólegur síðustu daga, og það er ekki vegna þess að mér líði illa hérna í stórborginni. Jesús er búinn að vera að tala við okkur nánast eins og hann sé að kveðja okkur. Hann notar alls konar líkingar sem hljóma nánast eins og dylgjur: ‘Þegar kona fæðir er hún í nauð, því að stund hennar er komin. Þegar hún hefur alið barnið minnist hún ekki framar þrauta sinna af fögnuði yfir því að maður er í heiminn borinn. Eins eruð þið nú hryggir, en ég mun sjá ykkur aftur og hjarta ykkar mun fagna, og enginn tekur fögnuð ykkar frá ykkur.“ – Þetta sagði hann um daginn. Ætli hann sé að fara heitthvert? Maður spyr sig. Svo bætti hann við. ‘Á þeim degi munuð þið ekki spyrja mig neins.’ ....Sem mér þykir að vísu nokkuð ólíklegt því við erum alltaf að spyrja hann að einhverju. Og svo sagði hann: ‘hvað sem þið biðjið föðurinn um í mínu nafni mun hann veita ykkur. Hingað til hafði þið ekki beðið neins í mínu nafni. Biðjið og þið munið öðlast svo að fögnuður ykkar verði fullkominn.’ Ég verð að segja að minn fögnuður felst nú bara fyrst og fremst í því að fá að fylgja Jesú og hafa þetta eins og það er. Ég vona að honum detti ekki í hug að fara frá okkur. Ég get ekki séð fyrir mér að ég gæti átt einnhvern fullkomnari fögnuð en ég á nú þegar. Ég þakka það á hverjum degi að fá að vera með Jesú og vinum mínum í þessu.
Nei, ég er ekki rólegur. Ég verð bara að segja það. Og alls ekki þegar ég fer núna yfir samskipti okkar undanfarið. Hvað sagði hann svo... ‘Sú stund kemur og er komin‘ sagði hann. Já, ‘Sú stund kemur og er komin að þið tvístrist hver til sín og skiljið mig einan eftir. Þó er ég ekki einn því faðirinn er með mér.’ Það er alveg öruggt að við vinirnir munum aldrei skilja hann einan eftir. Við erum ekki þannig.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvernig stendur á því að bara sumir prestar eru jafnaðarmenn, því ekki allir? T.d. presturinn á Akureyri er hann ekki púra sjálfstæðismaður og dómkirkjupresturinn? Þeim er í raun ekki einu sinni vel við jafnaðarmenn ef eitthvað er. Hvernig getur staðið á því að þeir eru báðir í klúbbi sem leggur fæð á jafnaðarmenn á Íslandi þegar helsta idolið þeirra er jafnaðarmaðurinn Jesús Kristur?

Kveðja Valur, jafnaðarmaður