sunnudagur, 1. janúar 2012

Nú vantar heiminn Lagarfljótsbreiðan og Jökulsárdjúpan kærleika

Prédikun okkar á gamlárskvöldi:
Á þessum áramótum erum við öll sem unnum kristni og kirkju frekar hugsi. Á nýju ári verða tvennar biskupskosningar og það mun miklu skipta að það ferli sem fram undan er verði uppbyggilegt og sameinandi og að loknum þessu vali hafi kirkjan sem hreyfing í samfélaginu eignast endurnýjaða hugsjón og trúverðugleika í vitund almennings.

Þegar horft er fram á veg er ekki síður gagnlegt að líta vel um öxl og gæta að hvaðan maður er að koma. Sagan er gjarnan besti vegvísirinn inn í framtíðina. Í sögu kirkjunnar eigum við margar góðar fyrirmyndir og leiðtoga sem gott er virða fyrir sér og á þessum gamlársdegi langar mig að kynna fyrir okkur öllum einn þeirra sem allt of lítill gaumur hefur verið gefinn. Hann hét Sigurður Zóphónías Gíslason og þjónaði sem sóknarprestur á Þingeyri við Dýrafjörð á árunum 1929 – ’43.

Sr. Sigurður hafði þjónandi hjarta og frjálsan huga. Frelsi hans var ekki síst fólgið í þeirri djúpu skuldbindingu sem hann átti gagnvart Jesú Kristi sem aftur birtist í því hve einlæglega hann skuldbatt sig þjónustunni við sóknarfólkið og þjóðfélag samtíma síns.

Það sem upphaflega vakti forvitni okkar hjóna þegar barnabarn hans sendi okkur sýnishorn af skrifum afa síns var það með hvílíkri hlýju og rökþunga hann mælti með kvenfrelsi og auknu kynfrelsi á þeim tímum er slíkt hefur ekki átt upp á pallborðið víða. Ég gríp niður í ferðalýsingu sr. Sigurðar er hann í júlímánuði sumarið 1942 fór austur á land að vitja æskuslóða sinna og fleiri staða á Austurlandi, en hann var fæddur á Egilsstöðum í Vopnafirði árið 1900.

„Nú varð mér litið á Jökulsá. Hún var þannig á litinn að líkast var sem tröll og forynjur óbyggðanna hefðu verið að þvo ullina sína í henni um daginn og hana eigi alllitla. Nú fór ég að hugsa um þá sem hlotið hefðu hina votu sæng í hinu kólgugráa jökulvatni bæði fyrr og síðar. Aðeins fyrir örfáum árum höfðu kennari af Jökuldal og stúlka úr Vopnafirði, búsett í Reykjavík farist í ánni úr kláfi. Og þegar við fórum yfir brúna þar sem Jökla fellur ægileg ásýndum í þröngum, háum gljúfrum kom mér í hug ágætur fagur sveinn sem fól Jökulsá harma sína. Hann hafði elskað á breiðara grundvelli en þá var leyfilegt í almenningsáliti, en nú er hreint ekki óalgengt. Heimurinn hafði ekki rúm fyrir svona mikla ást. Þó fannst honum að Jökulsá í sínu þrengsta gljúfri gæti komið henni fyrir. Þær enda á margvíslegan hátt Íslendingasögurnar. Nú vantar heiminn lagarfljótsbreiðan og jökulsárdjúpan kærleika.

Og svo þýtur bíllinn burt frá þröngu gljúfri með þá heitu ósk í svellandi brjósti farþegans úti við rúðuna að takast mætti að vekja til lífsins aftur þennan ítra hugdjarfa mann, er fleygði sér niður í ægidjúpið. Örlagastraumurinn bar sorg hans í gleymskunnar haf og það er von mín að upp úr bæði þessum og öðrum þrengslum andlegs lífs á Íslandi liðins tíma, mætti stíga andi víðsýnis og bróðurlegs skilnings á hjörtu og hugð náunga vors og samferðamanns.”

Hér talar hugrakkur leiðtogi og mannvinur og lyftir upp minningu ungs samkynhneigðs manns sem hann sjálfsagt hefur minnist frá uppvaxtarárum þarna eystra og kvatt hefur lífið í örvæntingu. Hann kallar hann ítran, fagran og hugdjarfan og tengir hann beint við Íslendingasögurnar.

Hjörtur Þórarinsson tengdasonur Sigurðar sem safnað hefur saman skrifum hans og fært þau bókasafni Skálholts til varðveislu hefur leitt líkur að því að sr. Sigurður sér fyrsti íslenski karlmaðurinn sem opinberlega hafi tekið undir hugmyndir ýmissa kvenfélaga að komið yrði á mæðralaunum í samfélagi okkar eins og síðar varð raunin. Í erindi sem Sigurður flutti rétt þrítugur að aldri og gefið var út á prenti 1. janúar 1932 hafnar hann þeirri forsjárhyggju sem viðgangist gagnvart konum og hlutverkum þeirra og hvetur menn til að láta sér skiljast að konan sé full frjáls.
„Starf hennar verður aldrei takmarkað,” segir hann orðrétt „af þeirri eðlilegu ástæðu, að eðli konunnar getur gripið yfir öll viðfangsefni lífsins. Konan er fullgildur maður. Og það er maðurinn, sem á að vera herra tilverunnar, og stjórna öllum hreyfingum hennar. Þess vegna er ómögulegt að bægja konunni frá neinu svæði lífsins og segja henni það óviðkomandi, nema svo sé að hafa eigi einhver íshús í andans heimi, þar sem hatur og kærleiksleysi eigi að fá að lifa ósnortið af blæ hins innra sumars. - Að hægt skuli vera að deila um það, hvar starfssvið konunnar liggi, byggist á vanþekkingu á eðli hennar. – Hún er ekki álitin fullgildur maður, hún er ekki álitin að eiga verkefni að rækja á þeim stað, sem um er deilt. En konan á allstaðar verkefni, svo framarlega sem því er trúað, að kærleikurinn einn komi sérhverju góðu verki af stað.” Síðar segir hann: „Konunum hefur verið bægt frá mörgum starfsviðum og sum eru enn ekki opin fyrir þeim, eins og t.d. prestsþjónustan, sem þær hljóta þó að vera sérstaklega vel fallnar til.”
Höfum hugfast að þarna talar þrítugur karlmaður!

Sr. Sigurður varð mörgum harmdauði er hann lést þann1. janúar 1943 í snjófljóði er hann var á leið til kirkju í Hrauni í Keldudal utar í Dýrafirði til að messa á nýársdagsmorgni.
Við fráfall sitt skildi hann eftir eiginkonu sína Guðrúnu Jónsdóttur og sex börn og við minningarathöfn sem haldin var í embættisbústaðnum eftir að lík hans fannst í febrúarmánuði árið ’43 segir sr. Eiríkur J. Eiríksson:
„Þeir voru margir sem hingað áttu erindi til prestsins síns, en hinir e.t.v. fleiri sem fóru á fund mannsins sem hér átti heima, hins glaða sífellt hjálpsama manns, er vildi greiða úr hverjum vanda er borinn var upp fyrir honum og sannar leitaði að þörfum manna og vandkvæðum ef hann mætti með einhverjum hætti bæta úr. – Nú hafa lokast dyr fyrir mörgum, við vonum að þær opnist á ný en varla með þeim hætti er var. Skólar eru enn reistir, próf fara fram, menn eru útskrifaðir til embættisþjónustu, en ekkert af þessu þarf að tryggja að við eignumst ekki prest hér heldur vin í raun, góðan bróður, barnslega einlægan í að vilja vel og öllum ætlandi gott eitt. Þetta hús mun standa svo lengi er við megum til þess horfa í þessari birtu og mikil virðing má af því standa í framtíðinni eigi hún að jafnast á við þann góðhug sem hér kom til dyra og bauð gestum til stofu. Og gestirnir voru margir, þeir voru annarar trúar menn. Stefán Skáld frá Hvítadal mat hann mikils og Meulenberg biskup. Og ein samúðarkveðja til ekkjunnar kom frá fulltrúa Frönsku þjóðarinnar þar sem hann þakkar velvild auðsýnda hinum minnstu bræðrum.”

Sigurður lifði á miklum umbrota- og breytingatímum. Í ferðalýsingu sinni austan af Héraði leggur hann enni að bílrúðunni er bifreiðin þýtur áfram í átt frá hinu þrönga gljúfri, en er Sigurður fæddist var enn engin bifreið í landinu. Eina heimstyrjöld hafði hann lifað og önnur var í hámarki er hann lést. Sviptingar þess samtíma sem Sigurður þekkti voru síst minni en við lifum nú við upphaf 21. aldar.

Síðasta vor fórum við hjón utan til Búdapest í Ungverjalandi og sátum þar ráðstefnu um stöðu kristninnar í Evrópu. Þar voru saman komnir fulltrúar margra ólíkra kirkjudeilda og trúarhreyfinga til að bera saman bækur sínar og horfa til framtíðar. Þar var m.a. rætt um trúarleiðtoga 21. aldarinnar. Þegar við förum yfir glósurnar okkar frá ráðstefnunni og rifjum upp það sem fróðir fyrirlesarar lögðu þar áherslu á þá sjáum við að það sem menn telja mikilvægt að leiðtogar nútímans hafi til að bera er margt af því sem einkenndi þennan prest sem uppi var á fyrri hluta 20. aldar.

Eitt áhersluatriðið sem gjarnan kom fram í máli manna var trúverðugleiki leiðtogans sem persónu. Í minningarorðum sr. Eiríks er þess getið að margir hafi leitað til prestsins, en þó hafi fleiri komið að finna manninn sjálfan. Sigurður Gíslason hefur verið góður hlustandi og átt sterka tilfinningagreind til að bera. Þá er þess einnig getið að menn annarra trúarbragða hafi átt gott saman við hann að sælda og að Sigurður hafi eignast vináttu manna úr ólíkum menningarheimum. Ljóst er að hann hefur ekki fyrst og fermst litið á sig sem embættismann stofnunar heldur sem þjón Guðsríkis. Á ráðstefnunni sem við sátum var mikið rætt um einmitt þetta. Um gildi þess að kristnir leiðtogar hefðu getu til þess að sjá út fyrir eigin trúarstofnun og vera einfaldlega í þjónustu Guðsríkis, sífellt lærandi eitthvað nýtt, með skapandi og opinn huga.

Í þriðja lagi er ljóst að séra Sigurður átti lifandi trú. Vígsluræðu sína í nóvembermánuði árið 1927 hóf hann með þessari bæn.
"Ástríki frelsari vor, Drottinn Jesús Kristur. Lofaður sértu og vegsamaður fyrir kærleika þinn og að þú manst stöðugt til vor, sérð þarfir vorar og kemur til vor til þess að hjálpa oss. Gef að vér megum í dag opna hjörtu vor fyrir þér, að vér megum loka þig inni í sál vorri svo að vér getum verið heillaðir af þér og öðlast þitt heilaga líf. Guðdómleg elskan víki aldrei frá oss svo vér getum lifað sem sannir lærisveinar þínir..."

Svona biður sá einn sem gengur með Kristi. Engum nema lærisvein Jesú getur dottið í hug að loka hann inni í sál sinni svo að hann megi heillast af honum og öðlast hans heilaga líf! Hér er á ferð skapandi trúarhugsun og trúarlegt ímyndunarafl sem á viðspyrnu í sönnu guðssamfélagi. Á nefndri ráðstefnu var ítrekað að því vikið að prestar og aðrir kristnir leiðtogar þyrftu einfaldlega að eiga lifandi trú á Jesú.

Það er styrkjandi að fá að kynnast sögu og boðun svona manns og gott til þess að vita að prédikana- og greinasafn hans skuli varðveitt. Þar fór sannur leiðtogi, trúverðug persóna og sálgætir sem ekki þurfti að styðjast við embætti sitt sjálfs sín vegna heldur nýtti það í þjónustu við mannlífið í lifandi trú á frelsarann Jesú.

Við eigum fleiri fyrirmyndir í hópi genginna kynslóða en okkur grunar og það er mikilvægt að halda þeim á lofti og leyfa góðilimi hins elskandi trúararfs að fylgja okkur inn í nýtt ár. Nú eru orðin vatnaskil í sögu íslensku þjóðkirkjunnar. Við vitum það öll. Nýr tími er runninn upp en við vitum ekki hvað hann felur í sér. „Nú vantar heiminn lagarfljótsbreiðan og jökulsárdjúpan kærleika” mælti sr. Sigurður Zóphónías Gíslason, og enn eru það orð að sönnu. Eigum við ekki að taka undir bæn hans að „upp úr þessum og öðrum þrengslum andlegs lífs á Íslandi liðins tíma mætti stíga andi víðsýnis og bróðurlegs skilnings á hjörtu og hugð náunga vors og samferðamanns” svo að kristin kirkja megi finna þá samleið með íslenskri þjóð sem er mannlífinu til heilla og reynast um ókomna tíð þjóðinni það skjól sem hún er kölluð til.

Amen.