Svona prédikaði Bjarni í dag:
Veistu hvert var fyrsta verk Jesú Krists þegar hann hóf starf sitt? Hann stóð í röð. Ég fór að hugleiða þetta í samhengi við umræður síðustu viku um raðir sem fólki er boðið upp á að standa í til þess að þiggja mataraðstoð.
Guðspjöllin greina frá því að margir komu til Jóhannesar að fá iðrunarskírn í ánni Jórdan. Menn hafa staðið í röð og beðið eftir að kæmi að þeim. Svo stendur Jesús þarna dag einn og það er komin að honum í röðin. Það er hálf kindugt að sjá Jesú fyrir sér standandi í röð, bíðandi. Ekki beint Jesúlegt finnst manni við fyrstu tilhugsun. En hann hefur staðið þarna og beðið eftir að kæmi að honum, og það rímar við síðari ritningarlestur dagsins: “Hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur.” (Fil. 2.6-7) Matteus segir svo frá viðbrögðum Jóhannesar er hann sér Jesú: „Mér er þörf að skírast af þér og þú kemur til mín!” Jesús svaraði honum: „Lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti.” Og Jóhannes lét það eftir honum.” segir guðspjallamaðurinn. (Matt. 3. 13-15)
Þannig hófst starfsferill frelsarans á því að hann beið í röð. En það er því merkilegra að aldrei virðist Jesús hafa búið til neinar raðir í sínu starfi. Hans nálgun var einhvernvegin alltaf þannig að hann ýmist var á ferðinni, gangandi langar vegalengdir, komandi inn í nýjar og nýjar aðstæður. Eða þá hann sat umhverfis borð og það var verið að matast og ræða saman. Iðulega talaði hann við marga í einu, greip atugasemdir sem komu fljúgandi og gerði þær að umtalsefni handa öllum sem voru með. Hann heimsótti fólk, hafði frumkvæði að því að ræða við sjúka einstaklinga, heyrði bælt hróp af vegarkanti eða kom auga á mann uppi í tré og bað um samskipti. Og þegar hann gaf mat þá fengu allir í einu og urðu mettir! Það er engin röð í mettundarfrásögunni en tekið fram að þar var mikið gras til að sitja í. (Jóh. 6.10) Sagan um það þegar Jesús er kallaður í hús forstöðumannsins vegna andláts er dæmigerð. Hann er beðinn um að koma og hann leggur samstundis af stað. Þá kemur kona ein aftan að honum í mannfjöldanum og snertir hann til þess að þiggja lækningu, en hún hafði haft blóðlát í 12 ár. Hún hlýtur sína bót og áfram skundar Jesús áleiðis í næsta verkefni þar sem hann gefur barninu lífið að nýju. (Matt.9.18-26)
Ekkert er fjær starfsaðferðum Jesú frá Nasaret en biðröðin. Hans aðferð var öll í hreyfingunni, engar raðir, ekkert hik eða bið.
Öll höfum við staðið í biðröðum. Það er eitthvað við biðröðina sem óvirkjar mann. Maður er verikfæralaus og valdaður á meðan staðið er í röð. Þess vegna eru raðir t.d. mjög mikilvægar í allri hernaðarmenningu. Þar standa menn helst endilega í röðum og ganga líka í röðum milli staða. Það er vitanlega gert vegna þeirra sálrænu áhrifa sem raðir hafa á fólk. Raðir ræna mann einstaklingseðlinu og búa til númer.
- „Þú ert númer 7 í röðinni” segir röddin í símanum. Og þá veistu það. Allt í einu ertu kominn í röð og þig langar að bíta í símtólið. - Stundum höfum við auðvitað enga lausn aðra en biðröðina, en það er samt staðreynd sem ekki verður móti mælt að því þunglamalegra sem manlífið er, því lengri verða raðirnar. Það þekkjum við úr mannkynssögunni. Langar raðir eru jafnan skilaboð um máttleysi og skort, þær draga bitið úr fólki og bera vitni um skort á hugmyndaauðgi. Raðir verða til vegna óskilvirkni. Biðröð er stífla, hún er skortur á streymi. Og svo er líka mjög gott að nota biðraðir til að tjá vald. Biðraðir inn á læknastofur eru dæmi um svona vitleysu. Það geta allir skipulagt tíma sinn, líka læknar. Biðröðin vinnur gegn tilgangi læknisins því hún dregur heilsuna úr sjúklingnum með því að hún eykur á vanmátt hans. Sá sem ætlar að ná heilsu verður fyrst að vera viss um að hann vilji og geti verið við stjórnvölinn í eigin lífi og það er ekki gott að byrja heilsuáhlaupið með því að hanga í röð. Því hygg ég að Jesús hafi jafnan verið á ferð og lagt upp úr því að hitta á fólk með þeim hætti að hann efldi það til valda í eigin lífi. Flestar lækningasögurnar enda á því að Jesús segir eitthvað á þessa leið: „Trú þín hefur læknað þig, farðu í friði!” M.ö.o. Þú ákvaðst að þiggja heilsu þína og þess vegna fékkstu hana. Haltu nú sterkur áfram!
Guðspjall dagsins (Jóh. 12.1-6) greinir frá Jesú við kjöraðstæður. Hann er í mat heima hjá vinum sínum í Betaníu á laugardagskvöldi, daginn fyrir pálmasunnudag. Enginn að bíða, allir að njóta samveru og matar. Þá gerist þessi óvenjulegi atburður að María vinkona hans tekur pund af ómenguðum, dýrum nardussmyrslum og smyr fætur Jesú og þerrar þá með hári sínu. „En húsið fylltist af ilmi smyrslanna.” Segir orðrétt. Svona smyrsl kostuðu formúgu.
Við vitum að Jesús vissi að brátt yrðu dagar hans taldir. Það vissu ekki þau sem með honum voru, þótt hann hafi ítrekað verið búinn að reyna að segja þeim það. E.t.v. var María sú eina sem skynjaði stöðuna rétt. Það er þannig með ástina að hún er hugmyndarík og lausnamiðuð. Ef þú elskar þá finnur þú leiðir til þess að segja það, jafnvel þótt þú vitir ekki hvernig á að fara að því. Ástin sættir sig ekki við hindranir og takmarkanir. Það er falleg mynd sem dregin er upp í guðspjallinu þegar María smyr fætur Jesú með ilmandi smyrslum og þerrar svo með hári sínu. Falleg og einhvernvegin svo brilljant aðferð til þess að segja eitthvað sem öllu skiptir, segja allt án þess að mæla orð af vörum. Og þá gerist það sem alltaf gerist þegar mikið er gefið. Einhver hneykslast. “Hví voru þessi smyrsl ekki seld fyrir þrjúhundruð denara og gefin fátækum?” Þá vitum við það, smyrslin kostuðu þrjúhundruð dagsverk. Hér hafði María s.s. hellt heilum árslaunum verkamanns yfir fætur Jesú og þerrað með hári sínu! Og það er tekið fram að það var Júdas Ískaríot sá sem síðar sveik Jesú sem sagði þetta og að hann hafi í raun ekki sagt þetta vegna umhyggju sinnar fyrir fátækum heldur vegna eigin ágirndar á fé.
„Láttu hana í friði.” svaraði Jesús „Láttu hana í friði. Hún hefur geymt þetta til greftrunardags míns. Fátæka hafið þið ætíð hjá ykkur en mig hafið þið ekki ávallt.“
Þetta andsvar Jesú hefur verið notað gegn fátæku fólki í aldanna rás með því að segja að Jesús hafi fullyrt að það yrði alltaf til fátækt fólk. „Fátæka hafið þið ávallt hjá ykkur en mig hafið þið ekki ávallt.”
Getur verið að Jesús hafi með orðum sínum einmitt verið að ávarpa þetta viðhorf til lífsins sem tryggir að fátækt muni alltaf blómstra hvernig sem árar? Viðhorf stífninnar og hugmyndaleysisins sem býr til endalausar biðraðir, viðhorf nægjuseminnar sem snúið er að öðru fólki á meðan lifað er í óhófi. – ‘Aðrir skulu spara og erfða á meðan ég get lifað í ofneyslu.’ Getur verið að Jesús hafi verið að segja við Júdas og okkur hina svikarana alla saman að á meðan við höfnum réttlætinu og jöfnuðinum muni fátækir ætíð vera á meðal okkar með allri þeirri eyðileggingu sem fátæktinni fylgja? Ég skil þessi orð þeim skilningi.
María var sú eina sem var með á nótunum ríki Guðs þetta laugardagskvöld í Betaníu og gat lifað í takti við það. Hún skildi eðli hinnar guðlegu sóunar ef svo má að orði komast. Guð er alltaf að sóa gæsku sinni og ríkdómi á okkur en við gerum ekkert nema að nurla og safna og metast. Lífið streymir til okkar úr öllum áttum og tækifærin blasa við, en við viljum ekki sjá og ekki heyra. Þess vegna kreppir að á öllum sviðum.
Við Íslendingar erum t.d. alveg óvart einhver ríkasta þjóð í heimi. Við lifum í stórkostlegu landi sem býr yfir slíku aðdráttarafli og orku og auðlindum að því verður ekki með orðum lýst en við bara höfum ekki smekk fyrir því. Okkur var gefið meira en nokkurri annari þjóð, og núna þegar skortur er fyrirsjáanlegur á landrými, vatni og fæðu í veröldinni og ekkert land á hnattkúlunni hefur viðlíka stöðu og Ísland, þá erum við bara að rífast og bölsótast og erum ferlega óánægð. Við höfum fengið að mennta okkur og ferðast um allan heim og eiga tengsl og samskipti við allar þjóðir og menningarheima, en við erum fyrst og síðast alveg ferlega skúffuð. Já, við erum bara svo ægilega niður dregin af því að það er búið að fara svo illa með okkur að við getum bara ekki á heilum okkur tekið.
Hér á eftir mun hún Friðlín Björt Ellertsdóttir ganga upp að altarinu til þess að fermast. Hún ætlar að svara sjálfri spurningu lífsins, hvort hún vilji hafa Jesú Krist sem leiðtoga sinn. Það er ekkert leyndarmál að hún og hennar fjölskylda gekk í gegnum þá erfiðu reynslu í vetur að Friðlín varð fyrir bíl hér á Sundlaugaveginum og það er mikil Guðs mildi að hún skuli vera heil hér á meðal okkar. Friðlín! Ég veit að það er horft á þig með miklu þakklæti í dag. Þakklæti fyrir líf þitt og heilsu, að þú skyldir varðveitast og það að þú skulir vera sú yndislega manneskja sem þú ert. Hvað veldur því að fjölskylda sem verður fyrir öðru eins áfalli og þið urðuð fyrir í vetur skuli samt sitja hér í hjartans þakklæti og gleði? Ástæðan er sú að í gegnum raunirnar komust þið að því hvað lífið er dýrmætt. Þið leyfðuð atburðarás lífsins að sýna ykkur hve mikið ykkur hefur verið gefið. Þið tókuð við lífinu, þáðuð batann og sigurinn úr Guðs góðu hendi. Skelfingin snérist í von og angistin í sigur. Svona starfar Guð. Og einmitt svona vill hann líka starfa meðal Íslenskrar þjóðar að við hleypum voninni að og komum auga á allt það sem við eigum og höfum og kunnum að meta það og deila því hvert með öðru.
Amen.
sunnudagur, 28. mars 2010
sunnudagur, 14. mars 2010
Hugarafl og lögmál rausnarinnar
Svona prédikaði Bjarni í dag:
Ég er heiðarlega stoltur af unglingunum okkar hér í kirkjunni og hverfinu og bara á landinu öllu. Á fimmtudagskvöldið síðasta var t.d. haldin góugleði með góðum mat, skemmtiatriðum, söng og dansi í félagsmiðstöðinni að Dalbraut þar sem margt eldra fólk býr. Þar komu m.a. ungir sveinar úr 10. bekk Laugalækjarskóla til að syngja og leika fyrir fólkið. Þeir kalla sig Lækjarbræður og eru alveg endalaust fyndnir og flottir og þeim fylgdi svo mikil hlýja og gleði að ein góð kona sem komin er yfir hundrað árin sagði mér að hún vildi endilega kynna langömmustelpurnar sínar fyrir þessum ungu mönnum. Sama dag var glæsilegur hópur unglinga á okkar vegum í félaginu Adrenalíni gegn rasimsa á kayakæfingu í Laugardalslauginni á um það bil sem samfélagsverðlaun Fréttablaðsins voru tilkynnt í Þjóðmenningarhúsinu og var Adrenalínfélagði í hópi fimm aðila sem tilnefndir voru í flokkinum til atlögu gegn fordómum. Formaður sóknarnefndar mætti fyrir okkar hönd og tók við tilnefningunni. Í Adrenalínstarfinu eru nú um 40 unglingar af margvíslegu bergi brotnir sem eiga það sameiginlegt að vilja bæta heiminn með vináttu og gagnkvæmum skilningi.
Ég var líka sérlega sáttur þegar ég vissi að samstarfshópurinn Hugarafl fengi aðal viðurkenninguna í okkar flokki því ég hef lengi fylgst með hugsjónastarfi Auðar Axelsdóttur og samherja hennar þar sem gengið er út frá þeirri hugmyndafræði í þjónustu við geðsjúka að notendur þjónustunnar séu í beinni samvinnu við fagfólk á jafnréttisgrunni. Þar er forsjárhyggju í samskiptum hafnað en gengið út frá því að hver og einn sé ábyrgur í eigin lífi og þekki sjálfur sínar þarfir. Í stað þess að horfa á sjúkleika fólks er horft til styrkleika þess. Í stað þess að mæna á hindranir er hugað að lausnum í samvinnu allra sem í kringum einstaklinginn standa.
Hjá Hugarafli er spurt eins og Jesús spyr Filippus þegar hann lítur upp í guðspjalli dagsins og sér mannfjölda koma til sín: „Hvar eigum við að kaupa brauð svo að þessir menn fái mat?” (Jóh. 6.5)
Hvar eigum við að kaupa brauð? Í huga Jesú var setningin: „Þetta er bara þitt vandamál!” ekki til. Eða getur þú séð Jesú fyrir þér halda ræðu yfir fólkinu og segja: „Þið eruð nú meiru kjánarnir. Æðandi út í óbyggðir í fyrirhyggjuleysi! Sannlega, sannlega segi ég ykkur, þetta er ykkar vandamál!”? Nei, einhvernvegin er þessi sena mjög úr dúr við anda guðspjallanna. Enda gefur Jóhannes lesandanum þær upplýsingar að Jesús sagði þetta til þess að reyna lærisveininn Filippus, en sjálfur vissi hann hvað hann ætlaði að gera. Filippus svaraði eins og ég hefði sennilega líka gert. Hann fór að leggja saman í huganum hvað kostaði að gefa nokkur þúsund manns að borða, fór svo yfir eignastöðuna og svaraði með mjög ábyrgum hætti: „Brauð fyrir tvöhundruð denara nægðu þeim ekki svo að hver fengi lítið eitt.” (v.7)
Hjá Hugarafli er ekki hugsað svona. Þar á bæ er ekki litið svo á að 2+2 séu nauðsynlega 4. Þess vegna fengu þau viðurkenningu Fréttablaðsins undir liðnum til atlögu gegn fordómum. Það er ekki hægt að reikna sig út úr vítahring fyrirfram gefinna hugmynda, fordóma. Það er ekki hægt að feta sig tæknilega og faglega frá óttanum við skort og einsemd, sem er rót allra fordóma. Ég heyrði forstöðukonuna Auði Axelsdóttur eitt sinn lýsa því á stórum fundi er hún hafði undirbúið komu hjúkrunarfólks inn á heimili þar sem þörf var á þjónustu en langvarandi vanlíðan hafði einangrað viðkomandi frá umheiminum svo að það tók tíma að ávinna traust og persónulegan trúnað til þess eins að heimilisfólk gæti þegið þá þjónustu sem þörf var á. Nú var dagurinn kominn þegar hjúkrunarfólk skyldi heimsækja og búið var að baka og færa heimilið í stand til að taka höfðinglega á móti gestum. Dyrabjallan hringdi um það bil sem kveikt hafði verið á kerti á elhúsborðinu, dyrnar opnuðust og inn gengu tveir fulltrúar heilbrigðiskerfisins. Þeir staðnæmdust í fordyrinu. Tóku upp úr pússi sínu eiturbláar skóhlífar sem smellt var undir áður en gengið var með nokkru fasi inn í íbúðina, þegið sæti, tekin upp mappa og spurt: “Hvert er ykkar vandamál?”
Þar með var með afgerandi hætti búið að koma því á hreint að hér mættust tvær tegundir fólks, skjólstæðingar og fagfólk, sem ekki væru hluti af veruleika hvert annars. - Hvert er ykkar vandamál?!
Spurning Jesú var aldrei þessi. Hann spurði öllu heldur: „Hvað viltu að ég geri fyrir þig?” (Mark. 10.51) Þjónusta Jesú frá Nasaret var notendastýrð en ekki hlaðin forsjárhyggju.
Þegar Filippus hafði lokið sínum útreikningum og túlkað niðurstöðurnar öllum í óhag kom annar lærisveinn, Andrés og segir við Jesú: „Hér er piltur sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska.” (v.9)
Sérðu fáránleikann í þessu? Þarna voru fleiri þúsundir manna saman komnar. - „Hér er piltur sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska.” -
Og ég sé fyrir mér barnið rétta fram pokaskjattann sinn með brauðinu sem mamma hafði bakað og fiskunum sem frændi hafði veitt og hann vissi eins og öll börn að nestið að heiman er besta nesti í heimi. Andrés stendur þarna við hlið drengsins en kemur svo til sjálfs sín og bætir við: „En hvað er það handa svo mörgum?” (v.9) Orðrétt stendur: “Jesús sagði: ‘Látið fólkið setjast niður.’ Þarna var gras mikið. Menn settust nú niður, um fimm þúsund karlmenn að tölu. Nú tók Jesús brauðin, gerði þakkir og skipti þeim út til þeirra sem þar sátu og eins af fiskunum, svo mikið sem þeir vildu.”
Á þessm árum var látið duga að telja karlana eina, við virðum löngu liðnu fólki það til vorkunnar. En þarna hafa sjálfsagt verið konur ekki síður og jafnvel börn. En missum nú ekki af aðal atriðum málsins...
Tvennt skiptir hér mestu.
Jesús tekur matvælin og gerir þakkir og fólk fær svo mikið sem það vill.
Hér birtist annars vegar þakklát afstaða til gæða lífsins, og hins vegar valdeflandi nálgun við fólk.
Þakklæti og valdefling!
Svona gera þau alla daga í Hugarafli. Líka í Gauraflokknum í Vatnaskógi sem vann samfélagsverðlaun Fráttablaðsins í flokki sem nefndur er frá kynslóð til kynslóðar. Og um hvað snýst starf Slysavarnarfélagsins Landsbjargar annað en þakklæti og virðingu fyrir lífi fólks og stuðning við fólk í neyð til þess að ná aftur valdi á lífi sínu? Landsbjörg hlaut einmitt aðal verðlaunin þetta árið fyrir sitt frábæra starf. Eða hefur þú hitt hann André Bachmann sem var útnefndur hvunndagshetjan í þessari sömu afhendingu? Það er þess virði að taka strætó bara til þess að sitja í hjá honum þegar hann er að keyra að ekki sé talað um að koma þegar hann er að skemmta. Frá honum streymir þakklæti til lífsins og allir skynja að hann ætlar ekki að taka völdin af neinum heldur vill hann fólki einfaldlega vel, og einmitt þess vegna skapar hann gleði og bjartsýni í kringum sig.
Í pistli dagsins segir Páll: „Sá sem sáir sparlega mun og sparlega uppskera og sá sem sáir ríflega mun og ríflega uppskera. [...] Guð er þess megnugur að veita ykkur ríkulega allar góðar gjafir til þess að þið í öllu ávallt hafði allt sem þið þarfnist og getið sjálf veitt ríkulega til allra góðra verka.” (2. Kor. 9. 6 og 8)
Nei, 2+2 eru ekki nauðsynlega 4. Enn dýpra í veruleikann heldur en lögmál stærðfræðinnar er grópað lögmál rausnarinnar. Æðsta tákn rausnarinnar er fórnargjöf Jesú Krists er hann gaf líf sitt á krossinum svo að við mættum lifa. Það er fórnargjöfin, það er rausnin sem liggur lífinu við hjartastað. Barnið í sögu þessa sunnudags var með á nótunum. Við skulum gefa gaum að börnunum okkar og unglingunum. Drengurinn í Guðspjalli dagsins er fulltrúi hinnar himnesku rausnar sem er raunsærri á eðli veruleikans heldur en nokkurt exelskjal. Því segi ég við okkur öll í Jesú nafni: Líttu upp og sjáðu, það er engin kreppa!
Amen.
Ég er heiðarlega stoltur af unglingunum okkar hér í kirkjunni og hverfinu og bara á landinu öllu. Á fimmtudagskvöldið síðasta var t.d. haldin góugleði með góðum mat, skemmtiatriðum, söng og dansi í félagsmiðstöðinni að Dalbraut þar sem margt eldra fólk býr. Þar komu m.a. ungir sveinar úr 10. bekk Laugalækjarskóla til að syngja og leika fyrir fólkið. Þeir kalla sig Lækjarbræður og eru alveg endalaust fyndnir og flottir og þeim fylgdi svo mikil hlýja og gleði að ein góð kona sem komin er yfir hundrað árin sagði mér að hún vildi endilega kynna langömmustelpurnar sínar fyrir þessum ungu mönnum. Sama dag var glæsilegur hópur unglinga á okkar vegum í félaginu Adrenalíni gegn rasimsa á kayakæfingu í Laugardalslauginni á um það bil sem samfélagsverðlaun Fréttablaðsins voru tilkynnt í Þjóðmenningarhúsinu og var Adrenalínfélagði í hópi fimm aðila sem tilnefndir voru í flokkinum til atlögu gegn fordómum. Formaður sóknarnefndar mætti fyrir okkar hönd og tók við tilnefningunni. Í Adrenalínstarfinu eru nú um 40 unglingar af margvíslegu bergi brotnir sem eiga það sameiginlegt að vilja bæta heiminn með vináttu og gagnkvæmum skilningi.
Ég var líka sérlega sáttur þegar ég vissi að samstarfshópurinn Hugarafl fengi aðal viðurkenninguna í okkar flokki því ég hef lengi fylgst með hugsjónastarfi Auðar Axelsdóttur og samherja hennar þar sem gengið er út frá þeirri hugmyndafræði í þjónustu við geðsjúka að notendur þjónustunnar séu í beinni samvinnu við fagfólk á jafnréttisgrunni. Þar er forsjárhyggju í samskiptum hafnað en gengið út frá því að hver og einn sé ábyrgur í eigin lífi og þekki sjálfur sínar þarfir. Í stað þess að horfa á sjúkleika fólks er horft til styrkleika þess. Í stað þess að mæna á hindranir er hugað að lausnum í samvinnu allra sem í kringum einstaklinginn standa.
Hjá Hugarafli er spurt eins og Jesús spyr Filippus þegar hann lítur upp í guðspjalli dagsins og sér mannfjölda koma til sín: „Hvar eigum við að kaupa brauð svo að þessir menn fái mat?” (Jóh. 6.5)
Hvar eigum við að kaupa brauð? Í huga Jesú var setningin: „Þetta er bara þitt vandamál!” ekki til. Eða getur þú séð Jesú fyrir þér halda ræðu yfir fólkinu og segja: „Þið eruð nú meiru kjánarnir. Æðandi út í óbyggðir í fyrirhyggjuleysi! Sannlega, sannlega segi ég ykkur, þetta er ykkar vandamál!”? Nei, einhvernvegin er þessi sena mjög úr dúr við anda guðspjallanna. Enda gefur Jóhannes lesandanum þær upplýsingar að Jesús sagði þetta til þess að reyna lærisveininn Filippus, en sjálfur vissi hann hvað hann ætlaði að gera. Filippus svaraði eins og ég hefði sennilega líka gert. Hann fór að leggja saman í huganum hvað kostaði að gefa nokkur þúsund manns að borða, fór svo yfir eignastöðuna og svaraði með mjög ábyrgum hætti: „Brauð fyrir tvöhundruð denara nægðu þeim ekki svo að hver fengi lítið eitt.” (v.7)
Hjá Hugarafli er ekki hugsað svona. Þar á bæ er ekki litið svo á að 2+2 séu nauðsynlega 4. Þess vegna fengu þau viðurkenningu Fréttablaðsins undir liðnum til atlögu gegn fordómum. Það er ekki hægt að reikna sig út úr vítahring fyrirfram gefinna hugmynda, fordóma. Það er ekki hægt að feta sig tæknilega og faglega frá óttanum við skort og einsemd, sem er rót allra fordóma. Ég heyrði forstöðukonuna Auði Axelsdóttur eitt sinn lýsa því á stórum fundi er hún hafði undirbúið komu hjúkrunarfólks inn á heimili þar sem þörf var á þjónustu en langvarandi vanlíðan hafði einangrað viðkomandi frá umheiminum svo að það tók tíma að ávinna traust og persónulegan trúnað til þess eins að heimilisfólk gæti þegið þá þjónustu sem þörf var á. Nú var dagurinn kominn þegar hjúkrunarfólk skyldi heimsækja og búið var að baka og færa heimilið í stand til að taka höfðinglega á móti gestum. Dyrabjallan hringdi um það bil sem kveikt hafði verið á kerti á elhúsborðinu, dyrnar opnuðust og inn gengu tveir fulltrúar heilbrigðiskerfisins. Þeir staðnæmdust í fordyrinu. Tóku upp úr pússi sínu eiturbláar skóhlífar sem smellt var undir áður en gengið var með nokkru fasi inn í íbúðina, þegið sæti, tekin upp mappa og spurt: “Hvert er ykkar vandamál?”
Þar með var með afgerandi hætti búið að koma því á hreint að hér mættust tvær tegundir fólks, skjólstæðingar og fagfólk, sem ekki væru hluti af veruleika hvert annars. - Hvert er ykkar vandamál?!
Spurning Jesú var aldrei þessi. Hann spurði öllu heldur: „Hvað viltu að ég geri fyrir þig?” (Mark. 10.51) Þjónusta Jesú frá Nasaret var notendastýrð en ekki hlaðin forsjárhyggju.
Þegar Filippus hafði lokið sínum útreikningum og túlkað niðurstöðurnar öllum í óhag kom annar lærisveinn, Andrés og segir við Jesú: „Hér er piltur sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska.” (v.9)
Sérðu fáránleikann í þessu? Þarna voru fleiri þúsundir manna saman komnar. - „Hér er piltur sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska.” -
Og ég sé fyrir mér barnið rétta fram pokaskjattann sinn með brauðinu sem mamma hafði bakað og fiskunum sem frændi hafði veitt og hann vissi eins og öll börn að nestið að heiman er besta nesti í heimi. Andrés stendur þarna við hlið drengsins en kemur svo til sjálfs sín og bætir við: „En hvað er það handa svo mörgum?” (v.9) Orðrétt stendur: “Jesús sagði: ‘Látið fólkið setjast niður.’ Þarna var gras mikið. Menn settust nú niður, um fimm þúsund karlmenn að tölu. Nú tók Jesús brauðin, gerði þakkir og skipti þeim út til þeirra sem þar sátu og eins af fiskunum, svo mikið sem þeir vildu.”
Á þessm árum var látið duga að telja karlana eina, við virðum löngu liðnu fólki það til vorkunnar. En þarna hafa sjálfsagt verið konur ekki síður og jafnvel börn. En missum nú ekki af aðal atriðum málsins...
Tvennt skiptir hér mestu.
Jesús tekur matvælin og gerir þakkir og fólk fær svo mikið sem það vill.
Hér birtist annars vegar þakklát afstaða til gæða lífsins, og hins vegar valdeflandi nálgun við fólk.
Þakklæti og valdefling!
Svona gera þau alla daga í Hugarafli. Líka í Gauraflokknum í Vatnaskógi sem vann samfélagsverðlaun Fráttablaðsins í flokki sem nefndur er frá kynslóð til kynslóðar. Og um hvað snýst starf Slysavarnarfélagsins Landsbjargar annað en þakklæti og virðingu fyrir lífi fólks og stuðning við fólk í neyð til þess að ná aftur valdi á lífi sínu? Landsbjörg hlaut einmitt aðal verðlaunin þetta árið fyrir sitt frábæra starf. Eða hefur þú hitt hann André Bachmann sem var útnefndur hvunndagshetjan í þessari sömu afhendingu? Það er þess virði að taka strætó bara til þess að sitja í hjá honum þegar hann er að keyra að ekki sé talað um að koma þegar hann er að skemmta. Frá honum streymir þakklæti til lífsins og allir skynja að hann ætlar ekki að taka völdin af neinum heldur vill hann fólki einfaldlega vel, og einmitt þess vegna skapar hann gleði og bjartsýni í kringum sig.
Í pistli dagsins segir Páll: „Sá sem sáir sparlega mun og sparlega uppskera og sá sem sáir ríflega mun og ríflega uppskera. [...] Guð er þess megnugur að veita ykkur ríkulega allar góðar gjafir til þess að þið í öllu ávallt hafði allt sem þið þarfnist og getið sjálf veitt ríkulega til allra góðra verka.” (2. Kor. 9. 6 og 8)
Nei, 2+2 eru ekki nauðsynlega 4. Enn dýpra í veruleikann heldur en lögmál stærðfræðinnar er grópað lögmál rausnarinnar. Æðsta tákn rausnarinnar er fórnargjöf Jesú Krists er hann gaf líf sitt á krossinum svo að við mættum lifa. Það er fórnargjöfin, það er rausnin sem liggur lífinu við hjartastað. Barnið í sögu þessa sunnudags var með á nótunum. Við skulum gefa gaum að börnunum okkar og unglingunum. Drengurinn í Guðspjalli dagsins er fulltrúi hinnar himnesku rausnar sem er raunsærri á eðli veruleikans heldur en nokkurt exelskjal. Því segi ég við okkur öll í Jesú nafni: Líttu upp og sjáðu, það er engin kreppa!
Amen.
sunnudagur, 7. mars 2010
Sjöundá er frábær sýning!
Bjarni skrifar:
Ég var að koma af sýningu Halaleikhópsins á verkinu Sjöundá og get ekki orða bundist að hvetja fólk til leikhúsferðar. Það voru fermingarbörn Laugarneskirkju sem venju samkvæmt fengu sérstaka sýningu á Æskulýðsdegi Þjóðkirkjunnar og þau sátu nelgd undir þessum tæplega tveggja tíma flutningi því efnistökin höfða til allra. Sjöundá er leikgerð á Svartfugli Gunnars Gunnarssonar sem árið 1929 var metsölubók er verkið fyrst kom út í Danmörku. Ágústu Skúladóttur og Þorgeiri Tryggvasyni hefur tekist vel upp ásamt leikhópnum sjálfum að vinna fram þetta verk og enn bætist fjöður í hatt Halaleikhópsins sem á heiður skilinn fyrir frammi stöðu sína.
Ég var að koma af sýningu Halaleikhópsins á verkinu Sjöundá og get ekki orða bundist að hvetja fólk til leikhúsferðar. Það voru fermingarbörn Laugarneskirkju sem venju samkvæmt fengu sérstaka sýningu á Æskulýðsdegi Þjóðkirkjunnar og þau sátu nelgd undir þessum tæplega tveggja tíma flutningi því efnistökin höfða til allra. Sjöundá er leikgerð á Svartfugli Gunnars Gunnarssonar sem árið 1929 var metsölubók er verkið fyrst kom út í Danmörku. Ágústu Skúladóttur og Þorgeiri Tryggvasyni hefur tekist vel upp ásamt leikhópnum sjálfum að vinna fram þetta verk og enn bætist fjöður í hatt Halaleikhópsins sem á heiður skilinn fyrir frammi stöðu sína.
laugardagur, 6. mars 2010
Nei með særðri samvisku
Bjarni skrifar:
Ég var að koma af kjörstað og sagði Nei. Vil nú gera grein fyrir atkvæði mínu.
I
Ég álít rétt að koma á kjörstað þegar til þess er boðað af þeirri ástæðu að lýðræðið er kjarni þjóðskipulags okkar. Þó virðist mér nú málum svo komið við þessa fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslu sem haldin er í framhaldi af synjun forseta að deiluefnið sé orðið að áhaldi í höndum þeirra sömu afla sem lögðu fjármálakerfi landsins á hliðina. Og eina ferðina halda þau um taumana. Þjóðin er hvött að kjörborði í einhverskonar herhvöt gegn erlendu valdi sem koma vilji okkur á kné, þegar hinir raunverulegu andstæðingar hagsældar og velferðar íslensks almennings eru hvorki Bretar né Hollendingar.
II
Hitt hefur mér orðið ljóst að ef við ekki höfnum Icesave lögunum í þessu kjöri þá muni þau taka gildi og úr því sem komið er væri það óráð. Tapið af biðinni er orðið svo mikið að við verðum að halda áfram í þeim samningafarvegi sem við erum og vona að samningar náist svo að hægt sé að snúa sér að hinu raunverulega verkefni; að sætta þjóðina. Það er ekki flókið að brjóta niður og skapa glundroða en sáttaferli er flókið og viðkvæmt, og valdið sem í sífellu safnar sjálfu sér og skarar eld að eigin köku á enga hagsmuni tengda sátt og samtöðu almennings, nema ef vera kynni að hann sameinaðist enn og aftur í einhverskonar þjóðarhroka, eins og nú er ýtt undir.
III
Vandi íslenskrar þjóðar er ekki fyrst og síðast fjárhagslegur. Við erum fólk sem numið hefur land en veit ekki enn hvort það vill lifa í þessu landi. Við erum fólk sem stofnað hefur lýðveldi en veit ekki hvort það ætlar vera þjóð. Þegar við tölum um ríkið, þá meinum við ekki okkur sjálf. Við eru ekki ríkið. Við höldum lög og reglur ef annað er ekki í boði. Á ytra borði erum við borgarar í ríki en hið innra erum við utangarðsmenn. Það er innbyggt í þjóðarvitund okkar að frá öndverðu að blóta á laun, stela undan skatti og hygla okkar nánustu. Og þegar sigurvegaramenning hinnar öfgafullu frjálshyggju barst til landsins undir lok síðustu aldar þá lét glamur hennar ljúft í eyrum okkar vegna þess að okkur skorti bæði þroska og siðvit. Því fór sem fór.
Bjartur í Sumarhúsum er persónugervingur þessa vanda. Hans hús stóð uppsteypt og autt í auðninni eins og húsin í borginni okkar og sú skepna sem honum stóð fjærst var mjólkurkýrin vegna þess að hann hafði í raun ekki lyst á lífinu. Heiðin, vergangurinn og blint bjargarleysið voru örlög hans og þeirra sem voru dæmd til að binda trúss sitt við hann.
IV
Núna á meðan við, íslenskur almenningur, sitjum við skjáinn og spáum í niðurstöður kosninganna og veltum fyrir okkur framhaldi mála er baráttan um Ísland háð utan við sjónarsvið okkar. Við vitum ofur vel að við erum rænd og rupluð þjóð og við vitum að persónur og leikendur í því drama eru ekki stjórnvöld annarra landa heldur höfum við svikið okkur sjálf og hafið upp einstaklinga sem hlutu að leika okkur með þeim hætti sem raun er á. Við höfum gert blygðunarlausar eignatilfærslur í sjávarútvegi í nafni samkeppni vitandi að það var fákeppni. Kvótakerfinu var ætlað að tryggja skynsama nýtingu auðlinda og skapa öruggan rekstrargrundvöll sem öllum kæmi til góða. Fyrra markmiðinu hefur á vissan hátt verið náð en á kostnað þjóðarsamstöðunnar vegna þess að það brýtur á almennu réttlæti. Við höfum afhent útvöldum gæðingum fjármálakerfið að gjöf í nafni sömu samkeppni og uppgötvuðum m.a. ekki fyrr en eftir á að gjöfinni höfðu í ógáti fylgt þjóðargersemar helstu myndlistarmanna landsins. Því kyngdum við vitaskuld eins og öðru. Við höfum unað því vel að þúsundir samlanda okkar hafa lifað við sára fátækt fyrir augum okkar meðan á þessu öllu stóð og látið okkur vel líka. Á sama tíma hefur landið með mannauði sínum og náttúruauðlindum orðið að hugsanlegri hagkvæmri rekstrareiningu í augum aðhringja sem gjarnan hafa viljað horfa til framtíðar með okkur, virkjandi hverja sprænu og kreistandi úr bergrunninu hverja kílóvattstund sem þar mætti finna. Þjóð sem svona fer að ráði sínu á ekki skilið að eiga land. Þjóð sem veit ekki hvort hún elskar og virðir landið sitt getur ekki valdið slíkri gersemi sem Ísland er. Og hvernig á hún að standa saman þegar í raunirnar rekur þegar það eina sem hún trúir og treystir á er einstaklingurinn og séreignin? Þegar öll samskipti eru álitin vera viðskipti og ekkert annað, hvernig má þá búast við samtakamætti um nokkurn hlut nema þjóðarrembu?
V
Ég veit að mörgum sem mótmælt hafa Icesave-lögunum gengur gott eitt til. Ég er líka sannfærður um að forsetinn hefur farið að bestu samvisku í þessu máli. Indefence hópurinn meinar gott á heildina litið og raunar eru engar svarthvítar línur í mínum huga varðandi Icesave-málið því þar er sannast sagna ekkert gott og ekki hægt að gera neitt rétt. Stundum eru aðstæður þannig í lífinu að ekkert er rétt en nauðsyn krefst þess að eitthvað sé gert engu að síður. Stóri vandinn núna er hins vegar sá að baráttan um Ísland er háð utan við sjónarsvið almennings og þetta eina mál hefur gegnt mikilvægu hlutverki í þeim efnum. Sömu hagsmunaaðilar og leiddu þjóðfélag okkar fram af brúninni eru sem óðast að taka við stofnunum og kerfum samfélagsins á ný. Spilavítinu hefur ekki verið lokað.
VI
Við íslendingar verðum að vakna af dvala okkar og gera upp við okkur hvort við ætlum að byggja þetta land. Við eigum það enn, auðlindir þess og okkur sjálf. Enn erum við lýðfrjálst land og höfum ekki selt frá okkur fjöreggið, þótt tæpt standi. Það þarf að lenda Icesave og það þarf að aflétta hremmingum fyrirtækjanna í landinu en um fram allt þarf að finna sanngirni gagnvart almenningi á meðal okkar þannig að byrðum sé deilt með jöfnuði. Það mun þurfa að færa niður skuldir og jafnvel gera eignatilfærslur svo að almenningur sjái tilgang með lífsbaráttu sinni. Sanngirni, heiðarleiki og hófemd eru lykilhugtök í þeirri báráttu.
Ég hefði ekki viljað þurfa að greiða atkvæði í dag undir þeim kringumstæðum sem nú ríkja, vegna þess að ég óttast að atkvæði mitt verði notað til þess að rökstyðja frekari þjóðarrembu og þybbing sem skaðar ímynd okkar og eyðileggur meira en nokkur Icesave-samningur. Nú þurfum við að horfa í eigin barm og vinna sigurinn innan frá. Því segi ég nei við Icesave-lögunum með særðri samvisku og óttast að betur hefði verið heima setið en af stað farið.
Bjarni Karlsson
Ég var að koma af kjörstað og sagði Nei. Vil nú gera grein fyrir atkvæði mínu.
I
Ég álít rétt að koma á kjörstað þegar til þess er boðað af þeirri ástæðu að lýðræðið er kjarni þjóðskipulags okkar. Þó virðist mér nú málum svo komið við þessa fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslu sem haldin er í framhaldi af synjun forseta að deiluefnið sé orðið að áhaldi í höndum þeirra sömu afla sem lögðu fjármálakerfi landsins á hliðina. Og eina ferðina halda þau um taumana. Þjóðin er hvött að kjörborði í einhverskonar herhvöt gegn erlendu valdi sem koma vilji okkur á kné, þegar hinir raunverulegu andstæðingar hagsældar og velferðar íslensks almennings eru hvorki Bretar né Hollendingar.
II
Hitt hefur mér orðið ljóst að ef við ekki höfnum Icesave lögunum í þessu kjöri þá muni þau taka gildi og úr því sem komið er væri það óráð. Tapið af biðinni er orðið svo mikið að við verðum að halda áfram í þeim samningafarvegi sem við erum og vona að samningar náist svo að hægt sé að snúa sér að hinu raunverulega verkefni; að sætta þjóðina. Það er ekki flókið að brjóta niður og skapa glundroða en sáttaferli er flókið og viðkvæmt, og valdið sem í sífellu safnar sjálfu sér og skarar eld að eigin köku á enga hagsmuni tengda sátt og samtöðu almennings, nema ef vera kynni að hann sameinaðist enn og aftur í einhverskonar þjóðarhroka, eins og nú er ýtt undir.
III
Vandi íslenskrar þjóðar er ekki fyrst og síðast fjárhagslegur. Við erum fólk sem numið hefur land en veit ekki enn hvort það vill lifa í þessu landi. Við erum fólk sem stofnað hefur lýðveldi en veit ekki hvort það ætlar vera þjóð. Þegar við tölum um ríkið, þá meinum við ekki okkur sjálf. Við eru ekki ríkið. Við höldum lög og reglur ef annað er ekki í boði. Á ytra borði erum við borgarar í ríki en hið innra erum við utangarðsmenn. Það er innbyggt í þjóðarvitund okkar að frá öndverðu að blóta á laun, stela undan skatti og hygla okkar nánustu. Og þegar sigurvegaramenning hinnar öfgafullu frjálshyggju barst til landsins undir lok síðustu aldar þá lét glamur hennar ljúft í eyrum okkar vegna þess að okkur skorti bæði þroska og siðvit. Því fór sem fór.
Bjartur í Sumarhúsum er persónugervingur þessa vanda. Hans hús stóð uppsteypt og autt í auðninni eins og húsin í borginni okkar og sú skepna sem honum stóð fjærst var mjólkurkýrin vegna þess að hann hafði í raun ekki lyst á lífinu. Heiðin, vergangurinn og blint bjargarleysið voru örlög hans og þeirra sem voru dæmd til að binda trúss sitt við hann.
IV
Núna á meðan við, íslenskur almenningur, sitjum við skjáinn og spáum í niðurstöður kosninganna og veltum fyrir okkur framhaldi mála er baráttan um Ísland háð utan við sjónarsvið okkar. Við vitum ofur vel að við erum rænd og rupluð þjóð og við vitum að persónur og leikendur í því drama eru ekki stjórnvöld annarra landa heldur höfum við svikið okkur sjálf og hafið upp einstaklinga sem hlutu að leika okkur með þeim hætti sem raun er á. Við höfum gert blygðunarlausar eignatilfærslur í sjávarútvegi í nafni samkeppni vitandi að það var fákeppni. Kvótakerfinu var ætlað að tryggja skynsama nýtingu auðlinda og skapa öruggan rekstrargrundvöll sem öllum kæmi til góða. Fyrra markmiðinu hefur á vissan hátt verið náð en á kostnað þjóðarsamstöðunnar vegna þess að það brýtur á almennu réttlæti. Við höfum afhent útvöldum gæðingum fjármálakerfið að gjöf í nafni sömu samkeppni og uppgötvuðum m.a. ekki fyrr en eftir á að gjöfinni höfðu í ógáti fylgt þjóðargersemar helstu myndlistarmanna landsins. Því kyngdum við vitaskuld eins og öðru. Við höfum unað því vel að þúsundir samlanda okkar hafa lifað við sára fátækt fyrir augum okkar meðan á þessu öllu stóð og látið okkur vel líka. Á sama tíma hefur landið með mannauði sínum og náttúruauðlindum orðið að hugsanlegri hagkvæmri rekstrareiningu í augum aðhringja sem gjarnan hafa viljað horfa til framtíðar með okkur, virkjandi hverja sprænu og kreistandi úr bergrunninu hverja kílóvattstund sem þar mætti finna. Þjóð sem svona fer að ráði sínu á ekki skilið að eiga land. Þjóð sem veit ekki hvort hún elskar og virðir landið sitt getur ekki valdið slíkri gersemi sem Ísland er. Og hvernig á hún að standa saman þegar í raunirnar rekur þegar það eina sem hún trúir og treystir á er einstaklingurinn og séreignin? Þegar öll samskipti eru álitin vera viðskipti og ekkert annað, hvernig má þá búast við samtakamætti um nokkurn hlut nema þjóðarrembu?
V
Ég veit að mörgum sem mótmælt hafa Icesave-lögunum gengur gott eitt til. Ég er líka sannfærður um að forsetinn hefur farið að bestu samvisku í þessu máli. Indefence hópurinn meinar gott á heildina litið og raunar eru engar svarthvítar línur í mínum huga varðandi Icesave-málið því þar er sannast sagna ekkert gott og ekki hægt að gera neitt rétt. Stundum eru aðstæður þannig í lífinu að ekkert er rétt en nauðsyn krefst þess að eitthvað sé gert engu að síður. Stóri vandinn núna er hins vegar sá að baráttan um Ísland er háð utan við sjónarsvið almennings og þetta eina mál hefur gegnt mikilvægu hlutverki í þeim efnum. Sömu hagsmunaaðilar og leiddu þjóðfélag okkar fram af brúninni eru sem óðast að taka við stofnunum og kerfum samfélagsins á ný. Spilavítinu hefur ekki verið lokað.
VI
Við íslendingar verðum að vakna af dvala okkar og gera upp við okkur hvort við ætlum að byggja þetta land. Við eigum það enn, auðlindir þess og okkur sjálf. Enn erum við lýðfrjálst land og höfum ekki selt frá okkur fjöreggið, þótt tæpt standi. Það þarf að lenda Icesave og það þarf að aflétta hremmingum fyrirtækjanna í landinu en um fram allt þarf að finna sanngirni gagnvart almenningi á meðal okkar þannig að byrðum sé deilt með jöfnuði. Það mun þurfa að færa niður skuldir og jafnvel gera eignatilfærslur svo að almenningur sjái tilgang með lífsbaráttu sinni. Sanngirni, heiðarleiki og hófemd eru lykilhugtök í þeirri báráttu.
Ég hefði ekki viljað þurfa að greiða atkvæði í dag undir þeim kringumstæðum sem nú ríkja, vegna þess að ég óttast að atkvæði mitt verði notað til þess að rökstyðja frekari þjóðarrembu og þybbing sem skaðar ímynd okkar og eyðileggur meira en nokkur Icesave-samningur. Nú þurfum við að horfa í eigin barm og vinna sigurinn innan frá. Því segi ég nei við Icesave-lögunum með særðri samvisku og óttast að betur hefði verið heima setið en af stað farið.
Bjarni Karlsson
sunnudagur, 28. febrúar 2010
Dónavald
Prédikun dagsins:
Dónaskapur hefur alltaf virkað. Það er ákveðin aðferð í mannlegum samskiptum að beita dónaskap til þess að ná sínu fram. Þessi aðferð hefur margar hliðar en er samt í rauninni einföld. Jesús var snillingur í að afhjúpa dónahátt. Í dag fáum við að fylgjast með einstaklingi þola þrautreyndar dónaaðferðir í mannlegum samskiptum, og sagan er merkileg fyrir þær sakir að það er Jesús sjálfur sem beitir aðferðinni en niðurstaða samskiptanna verður sú að hann tapar en fórnalambið sigrar.
Sagan er skráð í 15. kafla Matteusarguðspjalls og aðdragandinn er sá að Jesús á í höggi við valdsmenn samtíma síns, farísea og fræðimenn. Þeir eru að argast í honum fyrir það að fylgja ekki tiltenknum hreinsunarsiðum Gyðinga út í hörgul sem vörðuðu handþvotta í tengslum við máltíðir, en Jesús svarar þeim og segir: “Ekki saurgar það manninn sem inn fer í munninn, hitt saurgar manninn sem út fer af munni.”(v.11)
Og þegar lærisveinarnir koma til hans eftir á og biðja hann að útskýra hvað hann átti við þá svarar hann: “Skiljið þið ekki að allt, sem inn kemur í munninn, fer í magann og lendir síðan í safnþrónni? En það sem út fer af munni kemur frá hjartanu. Og slíkt saurgar manninn. Því að frá hjartanum koma illar hugsanir, manndráp, hórdómur, saurlifnaður, þjófnaður, lúgvitni, lasmælti. Þetta er það sem saurgar manninn. En það að eta með óþvegnum höndum saurgar engan mann.”(v.20)
Þannig vildi hann að lærisveinarnir skildu að það eru ekki ytri reglur og aðferðir sem gera mann að góðum manni heldur er það afstaða hjartans sem úrslitum ræður. - Þú ert það sem þú hugsar og það sem þú vilt. Heilindi þín ráðast af ástæðum verka þinna. Hugsaðu út í hvers vegna þú gerir það sem þú gerir. Spurðu sjálfan þig hvað það raunverulega er sem knýr þig áfram. Græðgi, ótti? Eða umhyggja og virðing?
Nú, jæja.
Lærisveinarnir héldu að kennslunni væri lokið og vissu ekki að það voru bara frímínútur þegar þeir gengu af stað til byggða Týrusar og Sídonar eins og sagt er frá í Guðspjallinu. “Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: ‘Miskunna þú mér, Drottinn, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda.’” (v.22)
Það er þrennskonar dónaskapur sem virkar best. Þar er þöggunin efst á lista og hér gefur Jesús lærisveinum sínum sýnishorn af þessháttar hegðun:
‘Miskunna þú mér, Drottinn, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda.’” Hrópaði konan “En Jesús svaraði henni engu orði.” stendur í textanum. Og nú fáum við líkt og í falinni myndavél að fylgjast með siðferðislegum hrakförum lærisveinanna þar sem þeir óðara koma til Jesú, ganga hressir inn í andrúmsloft þöggunarinnar og segja: “Láttu hana fara, hún eltir okkur með hrópum.” (v.23)
Það er eitthvað notalegt við þöggun. Þetta að vera samtaka með mörgum um að sjá hvorki né heyra einhvern sem hrópar og gargar. Það er viss stemmning sem skapast. Einhvers konar samheldni, tegund af málfrelsi þótt bannað sé að tala. Tilfinning fyrir því að allt sé fína lagi. “Láttu hana fara, hún eltir okkur með hrópum.” Þeir voru búnir að sjá Jesú tala við allskonar lið. Nýlega höfðu þeir setið uppi með fleiri þúsund manns sem þurfti að gefa að borða af því það var orðið ósjálfbjarga útí í óbyggðum, og lærisveinarnir hafa vísast verið fegnir að sjá að Jesús gæti einhversstaðar dregið línu í sandinn gagnvart aðgangshörðum þiggjendum. Auk þess vissu allir að það var ókurteisi af konu að ávarpa karlmenn að fyrra bragði, og svo var ekki eins og hún væri Gyðingur. Þetta var kanverks kona. Útlendingur.
Nú var komið að annari aðferð dónaháttarins sem er sú að jaðarsetja fólk með því að tala um það þannig að það heyri. Jesús horfir á lærisveinana og segir þannig að ekki fer fram hjá neinum: “Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt.” (v.24) Þvílíkur meistari! Í einni setningu var hann búinn að teikna upp yfirburði sína og þeirra allra gagnvart þessari konu. Þeir voru í sendiför, þeir voru á Guðs vegum, og erindi þeirra varðaði bara Ísraelsþjóðina en ekki þessa útlensku konu. Það þarf sanna meistara til þess að segja óþægilega hluti með snyrtilegum hætti. Nú hlaut konan að átta sig á stöðu sinni og hætta þessari þrákelkni. Ekki að furða að barnið hennar væri illa haldið eigandi svona stjórnlausa móður.
Þá segir: “Konan kom, laut honum og sagði: ‘Drottinn, hjálpa þú mér!’” (v.25)
Það er eitthvað varðandi samband foreldris og barns sem er heilagt. Foreldri sem biður fyrir barni sínu hefur allan rétt frammi fyrir Guði. Það er þannig. Bæn foreldris fyrir barni sínu er eitt af náttúruöflunum. “Drottinn, hjálpa þú mér!” mælti konan af stillingu en orðum hennar fylgdi undiralda réttlætisins, krafa lífsins. Konan lét aðferð tvö, jaðarsetninguna, ekki á sér hrína heldur bað fyrir barni sínu, stóð á rétti sínum og í hlutverki sínu, enda þótt hún skildi ekki hvað Jesús var að fara.
En kennslustundinni var ekki lokið og þar með ekki hlutverki kanversku konunnar sem fræðara. Enn urðu lærisveinarnir að sjá hvernig þriðja aðferð dónaháttarins er óvirkjuð og aftengd með hreinu hjartalagi, en sú aðferð er fólgin í þungbærum merkimiðum. Jesús svaraði: “Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana.” (v.26)
Nú ætluðu lærisveinarnir vart að trúa sínum eigin eyrum. Þetta gat meistarinn. Hann gat verið harður við frekt fólk sem ekki kunni að haga sér! Hélt þessi kona virkilega að hún væri jafningi þeirra? Nei varla. Og hafi svo verið þá mátti henni vera ljóst að hún var... já, hann hafði sagt það sjálfur, svo þeir gátu bara notað orðið, það vissu svo sem allir hvað þessir útlendingar voru kallaðir, hún var bara....hundur! Já stundum þarf bara að segja hlutina eins og þeir eru! Svona gaggandi kellingar þurfa bara að fá það óþvegið! Gott hjá honum!
Þá talaði konan af sömu stillingu og áður, og það hefur vottað fyrir húmor og reiði er hún horfði beint í augu frelsarans og mælti: “Satt er það Drottinn, þó eta hundarnir mola þá sem falla af borðum húsbænda þeirra.”(v.27)
Nei, nú kastar tólfunum! Hugsuðu lærisveinarnir. Nú verður Jesús að senda þessa konu öfuga frá sér. Hér er þetta endanlega farið yfir öll strik, hún hagar sér eins og það sé hún sem setji reglurnar hér en ekki meistarinn!
“Þá mælti Jesús við hana: ‘Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.’ Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu.” (v.28)
---
Lærisveinarnir höfðu haldið að Jesús væri í þeirra liði og víst var hann það en bara ekki með þeim hætti sem þeir höfðu búist við og vonað. Þeir vissu ekki að kanverska konan hafði komið inn á sviðið sem stundakennari svo að þeir fengju að verða vitni að samskiptum sem þeir þurftu að læra að tileinka sér. Því sjálfir áttu þeir eftir að kynnast þöggun, jaðrasetningu og orðaleppum valdsins í veröldinni. Þeirra beið margvíslegt mótlæti sem allir kynnast sem í raun ganga erinda réttlætis í heiminum. Höfum í huga að bara einn þessarra ungu manna átti t.d. eftir að ná gamals aldri. Einn af hópnum tók líf sitt í uppgjöf, tíu urðu píslarvottar trúarinnar, einungis Jóhannes lærisveinn varð aldraður maður eftir því sem sagnir herma. Hver var svo kennslan?
• Kanveska konan tók ekki við þögguninni því hún elskaði barnið sitt og tók ekki við fálæti sem svari því það var henni algerlega framandi.
• Þegar Jesús setti hana út á jaðar samfélagsins með þeim orðum að hann væri ekki sendur nema til samlanda sinna, þá kom hún bara nær. Jaðarsetning með ummælum í 3. persónu hreif ekki á hana því hún vissi að dóttir hennar sem var veik var engin afgangsstærð, barnið hennar var engin aukapersóna á leiksviði veruleikans.
• Og svo þegar Jesús greip þetta alþekkta hugtak sem Gyðingar notuðu um útlendinga og kallaði hana hund, þá gekk hún enn nær, laut honum og talaði á þann máta að ljóst var að ekki einu sinni freklegur dónaskapur með merkimiðum og orðaleppum gat hrakið hana af þeim grundvelli sem hún stóð á. Mennsku hennar varð ekki rænt með því að kalla hana nöfnum, reisn hennar sem persónu var ekki fengi að láni utan frá heldur bjó hún í hjartanu. Þess vegna varðveitti hún húmorinn og einbeitnina og mælti: “Satt er það, Drottinn, þó eta hundarnir mola þá sem falla af borðum húsbænda þeirra.”
Og þegar lærisveinarnir héldu að nú væri hún endanlega búin að glata stöðu sinni, þá hafði hún einmitt staðfest kröfu sína og rétt sinn. “Kona, mikil er trú þín.” Mælti Jesús “Verði þér sem þú vilt.”
---
• Manstu þá tíð fyrir ekki löngu síðan að það tíðkaðist í þjóðfélagi okkar að hafa þögn um laun og um hlunninndi og um ferli í ákvörðunum? Þöggun var álitin mikilvægur liður í skilvirkni samfélagsins.
• Manstu þegar spurt var t.d. að óskiljanlegum ofurlaunum stjórnenda á þessum nýliðnu tímum þá var svarið þetta: „Almenningi kemur það ekkert við. Þetta er markaðurinn.” Þannig var allur almenningur settur á jaðar aðal veruleikans. Aðal veruleikinn var einungis ætlaður fáum og við kyngdum því ögn ringluð en skilningsrík.
• Manstu hvað menn voru svo kallaðir sem mótmæltu?
Þöggun, jaðarsetning og merkimiðar eru á öllum tímum aðferð valdsins sem safnar sjálfu sér. Og manstu hvað allur almenningur var í raun andaktugur í ótta sínum við þetta vald? Þetta vald sem í dag hefur sannast að var ekkert nema sýndarvald, dónavald.
Og nú erum við enn farin að heyra valdið tjá sig og segja að almenning varði ekki um þetta og komi ekki hitt við því þetta sé nú markaðurinn. Okkur varðar víst t.d. ekkert um laun manna í skilanefndum bankanna. Þetta er bara markaðurinn.
Kristin hugsun hafnar þessu hugarfari og krefst þess núna eins og á öllum tímum að tekið sé mark á mannlegum þörfum og almennu réttlæti.
• Kristin hugsun hafnar ósýnileika, ógagnsæi og leynd af því að það er dónalegt.
• Kristin kirkja krefst þess að enginn sé jaðarsettur því hún veit að veruleikinn er einn og við erum öll aðilar að honum.
• Kristinn siður hafnar líka útskúfuninni sem fólgin er í merkimiðum og orðaleppum vegna þess að Jesús setti líf og þarfir venjulegs fólks á dagskrá en afhjúpaði dónavaldið sem á öllum öldum er svo nægjusamt fyrir annarra hönd að því liggur við að tárast.
Amen.
Dónaskapur hefur alltaf virkað. Það er ákveðin aðferð í mannlegum samskiptum að beita dónaskap til þess að ná sínu fram. Þessi aðferð hefur margar hliðar en er samt í rauninni einföld. Jesús var snillingur í að afhjúpa dónahátt. Í dag fáum við að fylgjast með einstaklingi þola þrautreyndar dónaaðferðir í mannlegum samskiptum, og sagan er merkileg fyrir þær sakir að það er Jesús sjálfur sem beitir aðferðinni en niðurstaða samskiptanna verður sú að hann tapar en fórnalambið sigrar.
Sagan er skráð í 15. kafla Matteusarguðspjalls og aðdragandinn er sá að Jesús á í höggi við valdsmenn samtíma síns, farísea og fræðimenn. Þeir eru að argast í honum fyrir það að fylgja ekki tiltenknum hreinsunarsiðum Gyðinga út í hörgul sem vörðuðu handþvotta í tengslum við máltíðir, en Jesús svarar þeim og segir: “Ekki saurgar það manninn sem inn fer í munninn, hitt saurgar manninn sem út fer af munni.”(v.11)
Og þegar lærisveinarnir koma til hans eftir á og biðja hann að útskýra hvað hann átti við þá svarar hann: “Skiljið þið ekki að allt, sem inn kemur í munninn, fer í magann og lendir síðan í safnþrónni? En það sem út fer af munni kemur frá hjartanu. Og slíkt saurgar manninn. Því að frá hjartanum koma illar hugsanir, manndráp, hórdómur, saurlifnaður, þjófnaður, lúgvitni, lasmælti. Þetta er það sem saurgar manninn. En það að eta með óþvegnum höndum saurgar engan mann.”(v.20)
Þannig vildi hann að lærisveinarnir skildu að það eru ekki ytri reglur og aðferðir sem gera mann að góðum manni heldur er það afstaða hjartans sem úrslitum ræður. - Þú ert það sem þú hugsar og það sem þú vilt. Heilindi þín ráðast af ástæðum verka þinna. Hugsaðu út í hvers vegna þú gerir það sem þú gerir. Spurðu sjálfan þig hvað það raunverulega er sem knýr þig áfram. Græðgi, ótti? Eða umhyggja og virðing?
Nú, jæja.
Lærisveinarnir héldu að kennslunni væri lokið og vissu ekki að það voru bara frímínútur þegar þeir gengu af stað til byggða Týrusar og Sídonar eins og sagt er frá í Guðspjallinu. “Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: ‘Miskunna þú mér, Drottinn, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda.’” (v.22)
Það er þrennskonar dónaskapur sem virkar best. Þar er þöggunin efst á lista og hér gefur Jesús lærisveinum sínum sýnishorn af þessháttar hegðun:
‘Miskunna þú mér, Drottinn, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda.’” Hrópaði konan “En Jesús svaraði henni engu orði.” stendur í textanum. Og nú fáum við líkt og í falinni myndavél að fylgjast með siðferðislegum hrakförum lærisveinanna þar sem þeir óðara koma til Jesú, ganga hressir inn í andrúmsloft þöggunarinnar og segja: “Láttu hana fara, hún eltir okkur með hrópum.” (v.23)
Það er eitthvað notalegt við þöggun. Þetta að vera samtaka með mörgum um að sjá hvorki né heyra einhvern sem hrópar og gargar. Það er viss stemmning sem skapast. Einhvers konar samheldni, tegund af málfrelsi þótt bannað sé að tala. Tilfinning fyrir því að allt sé fína lagi. “Láttu hana fara, hún eltir okkur með hrópum.” Þeir voru búnir að sjá Jesú tala við allskonar lið. Nýlega höfðu þeir setið uppi með fleiri þúsund manns sem þurfti að gefa að borða af því það var orðið ósjálfbjarga útí í óbyggðum, og lærisveinarnir hafa vísast verið fegnir að sjá að Jesús gæti einhversstaðar dregið línu í sandinn gagnvart aðgangshörðum þiggjendum. Auk þess vissu allir að það var ókurteisi af konu að ávarpa karlmenn að fyrra bragði, og svo var ekki eins og hún væri Gyðingur. Þetta var kanverks kona. Útlendingur.
Nú var komið að annari aðferð dónaháttarins sem er sú að jaðarsetja fólk með því að tala um það þannig að það heyri. Jesús horfir á lærisveinana og segir þannig að ekki fer fram hjá neinum: “Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt.” (v.24) Þvílíkur meistari! Í einni setningu var hann búinn að teikna upp yfirburði sína og þeirra allra gagnvart þessari konu. Þeir voru í sendiför, þeir voru á Guðs vegum, og erindi þeirra varðaði bara Ísraelsþjóðina en ekki þessa útlensku konu. Það þarf sanna meistara til þess að segja óþægilega hluti með snyrtilegum hætti. Nú hlaut konan að átta sig á stöðu sinni og hætta þessari þrákelkni. Ekki að furða að barnið hennar væri illa haldið eigandi svona stjórnlausa móður.
Þá segir: “Konan kom, laut honum og sagði: ‘Drottinn, hjálpa þú mér!’” (v.25)
Það er eitthvað varðandi samband foreldris og barns sem er heilagt. Foreldri sem biður fyrir barni sínu hefur allan rétt frammi fyrir Guði. Það er þannig. Bæn foreldris fyrir barni sínu er eitt af náttúruöflunum. “Drottinn, hjálpa þú mér!” mælti konan af stillingu en orðum hennar fylgdi undiralda réttlætisins, krafa lífsins. Konan lét aðferð tvö, jaðarsetninguna, ekki á sér hrína heldur bað fyrir barni sínu, stóð á rétti sínum og í hlutverki sínu, enda þótt hún skildi ekki hvað Jesús var að fara.
En kennslustundinni var ekki lokið og þar með ekki hlutverki kanversku konunnar sem fræðara. Enn urðu lærisveinarnir að sjá hvernig þriðja aðferð dónaháttarins er óvirkjuð og aftengd með hreinu hjartalagi, en sú aðferð er fólgin í þungbærum merkimiðum. Jesús svaraði: “Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana.” (v.26)
Nú ætluðu lærisveinarnir vart að trúa sínum eigin eyrum. Þetta gat meistarinn. Hann gat verið harður við frekt fólk sem ekki kunni að haga sér! Hélt þessi kona virkilega að hún væri jafningi þeirra? Nei varla. Og hafi svo verið þá mátti henni vera ljóst að hún var... já, hann hafði sagt það sjálfur, svo þeir gátu bara notað orðið, það vissu svo sem allir hvað þessir útlendingar voru kallaðir, hún var bara....hundur! Já stundum þarf bara að segja hlutina eins og þeir eru! Svona gaggandi kellingar þurfa bara að fá það óþvegið! Gott hjá honum!
Þá talaði konan af sömu stillingu og áður, og það hefur vottað fyrir húmor og reiði er hún horfði beint í augu frelsarans og mælti: “Satt er það Drottinn, þó eta hundarnir mola þá sem falla af borðum húsbænda þeirra.”(v.27)
Nei, nú kastar tólfunum! Hugsuðu lærisveinarnir. Nú verður Jesús að senda þessa konu öfuga frá sér. Hér er þetta endanlega farið yfir öll strik, hún hagar sér eins og það sé hún sem setji reglurnar hér en ekki meistarinn!
“Þá mælti Jesús við hana: ‘Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.’ Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu.” (v.28)
---
Lærisveinarnir höfðu haldið að Jesús væri í þeirra liði og víst var hann það en bara ekki með þeim hætti sem þeir höfðu búist við og vonað. Þeir vissu ekki að kanverska konan hafði komið inn á sviðið sem stundakennari svo að þeir fengju að verða vitni að samskiptum sem þeir þurftu að læra að tileinka sér. Því sjálfir áttu þeir eftir að kynnast þöggun, jaðrasetningu og orðaleppum valdsins í veröldinni. Þeirra beið margvíslegt mótlæti sem allir kynnast sem í raun ganga erinda réttlætis í heiminum. Höfum í huga að bara einn þessarra ungu manna átti t.d. eftir að ná gamals aldri. Einn af hópnum tók líf sitt í uppgjöf, tíu urðu píslarvottar trúarinnar, einungis Jóhannes lærisveinn varð aldraður maður eftir því sem sagnir herma. Hver var svo kennslan?
• Kanveska konan tók ekki við þögguninni því hún elskaði barnið sitt og tók ekki við fálæti sem svari því það var henni algerlega framandi.
• Þegar Jesús setti hana út á jaðar samfélagsins með þeim orðum að hann væri ekki sendur nema til samlanda sinna, þá kom hún bara nær. Jaðarsetning með ummælum í 3. persónu hreif ekki á hana því hún vissi að dóttir hennar sem var veik var engin afgangsstærð, barnið hennar var engin aukapersóna á leiksviði veruleikans.
• Og svo þegar Jesús greip þetta alþekkta hugtak sem Gyðingar notuðu um útlendinga og kallaði hana hund, þá gekk hún enn nær, laut honum og talaði á þann máta að ljóst var að ekki einu sinni freklegur dónaskapur með merkimiðum og orðaleppum gat hrakið hana af þeim grundvelli sem hún stóð á. Mennsku hennar varð ekki rænt með því að kalla hana nöfnum, reisn hennar sem persónu var ekki fengi að láni utan frá heldur bjó hún í hjartanu. Þess vegna varðveitti hún húmorinn og einbeitnina og mælti: “Satt er það, Drottinn, þó eta hundarnir mola þá sem falla af borðum húsbænda þeirra.”
Og þegar lærisveinarnir héldu að nú væri hún endanlega búin að glata stöðu sinni, þá hafði hún einmitt staðfest kröfu sína og rétt sinn. “Kona, mikil er trú þín.” Mælti Jesús “Verði þér sem þú vilt.”
---
• Manstu þá tíð fyrir ekki löngu síðan að það tíðkaðist í þjóðfélagi okkar að hafa þögn um laun og um hlunninndi og um ferli í ákvörðunum? Þöggun var álitin mikilvægur liður í skilvirkni samfélagsins.
• Manstu þegar spurt var t.d. að óskiljanlegum ofurlaunum stjórnenda á þessum nýliðnu tímum þá var svarið þetta: „Almenningi kemur það ekkert við. Þetta er markaðurinn.” Þannig var allur almenningur settur á jaðar aðal veruleikans. Aðal veruleikinn var einungis ætlaður fáum og við kyngdum því ögn ringluð en skilningsrík.
• Manstu hvað menn voru svo kallaðir sem mótmæltu?
Þöggun, jaðarsetning og merkimiðar eru á öllum tímum aðferð valdsins sem safnar sjálfu sér. Og manstu hvað allur almenningur var í raun andaktugur í ótta sínum við þetta vald? Þetta vald sem í dag hefur sannast að var ekkert nema sýndarvald, dónavald.
Og nú erum við enn farin að heyra valdið tjá sig og segja að almenning varði ekki um þetta og komi ekki hitt við því þetta sé nú markaðurinn. Okkur varðar víst t.d. ekkert um laun manna í skilanefndum bankanna. Þetta er bara markaðurinn.
Kristin hugsun hafnar þessu hugarfari og krefst þess núna eins og á öllum tímum að tekið sé mark á mannlegum þörfum og almennu réttlæti.
• Kristin hugsun hafnar ósýnileika, ógagnsæi og leynd af því að það er dónalegt.
• Kristin kirkja krefst þess að enginn sé jaðarsettur því hún veit að veruleikinn er einn og við erum öll aðilar að honum.
• Kristinn siður hafnar líka útskúfuninni sem fólgin er í merkimiðum og orðaleppum vegna þess að Jesús setti líf og þarfir venjulegs fólks á dagskrá en afhjúpaði dónavaldið sem á öllum öldum er svo nægjusamt fyrir annarra hönd að því liggur við að tárast.
Amen.
sunnudagur, 21. febrúar 2010
Ekki þjónustupía heldur frelsari
Prédikun Bjarna í dag:
Það hittist skemmtilega á að konudaginn hér á Íslandi ber upp á fyrsta sunnudag í föstu þegar kristnir menn um allan heim hefja undirbúning páska með því að ganga í sjálfa sig og huga að eigin breytni. Tvær stórar og áhrifaríkar helgisagnir eru dregnar fram og fluttar í kirkjum; sagan af syndafallinu í aldingarðinum og sagan af freistingunum í eyðimörkinni. Hinn gamli maður, Adam og Eva, kljást við veruleika óttans og illskunnar í fyrri sögunni, en í þeirri síðari sjáum við Jesú Krist birta hinn nýja mann, og þá nýju lífsmöguleika sem mannkyni bjóðast í glímunni við óttann í ljósi fagnaðarerindisins.
Freistingin er sú sama í báðum sögum. Í fyrri frásögninni eru þessi tvö tré, tré skilningsins og tré lífsins, og þau standa fyrir þessa merkilegu sammannlegu þrá eftir því að eiga heiminn með því að kunna skil á öllu milli himins og jarðar og geta svo líka lifað að eilífu. Já, það er hálf brjálæðingslegt en um leið fyndin staðreynd að í hverri einustu mannlegri sál skuli dyljast sú blákalda löngun að eiga helst allan heiminn! „Allt þetta mun ég gefa þér ef þú fellur fram og tilbiður mig.” Segir freistarinn við Jesú í eyðimörkinni. Og hvert mannlegt eyra skynjar freistinguna, löngunina til þess að gera einmitt þetta lítilræði, falla sem snöggvast fram og tilbiðja freistarann til þess að eignast allan heiminn.
Það er magnað að tala um syndafallsfrásögnina á konudegi sökum þess að í þeirri syndahrunsfrásögn sem okkur er nærtækust í íslensku samfélagi í dag er ekki ein einasta kona í aðalhlutverki en í sögunni sem skráð er í 3. kafla 1. Mósebókar er það konan sem tekur frumkvæðið og karlinn fylgir.
Skyldi það vera tilviljun að þegar sköpunarsögurnar tvær sem mynda upphaf Gamla testamentisins eru lesnar þá er karlinum og konunni lýst sem jafningjum? Og ef eithvað er þá hallar heldur á karlinn Adam. Í fyrsta kafla segir Guð við sjálfan sig: „Vér viljum gera manninn eftir vorri mynd, líkan oss. [...] Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd. Hann skapaði hann eftir Guðs mynd. Hann skapaði þau karl og konu.” (1.Mós. 1.26-27) Maðurinn er þá karl og kona samkvæmt fyrri sköpunarsögunni. Karl og kona í jafningjasamskiptum, það er maðurinn.
Í síðari sköpunarsögunni sem skráð er í öðrum kafla Mósebókar er Adam einn á rangli þar til Drottinn Guð tekur hann og setur hann í aldingarðinn Eden „til þess að yrkja hann og gæta hans” segir orðrétt. (2.15) Og er hér komin fyrsta og æðsta starfslýsing í atvinnusögu mannkyns; yrkja og gæta. „Og Drottinn sagði: ‘Eigi er það gott að maðurinn sé einn. Ég vil gera honum meðhjálp við hans hæfi.’” (2.18) Bent hefur verið á að hebreska hugtakið ‚ezer‘ sem býr á bak við orðasamhengið ‘meðhjálp við hans hæfi’ er á annað hundrað stöðum í GT notað um það þegar Guð grípur inn í aðstæður þjóðar sinnar. ‚Ezer‘ táknar þannig guðlegt inngrip eða hjálp að ofan en á ekkert skylt við þjónkun eða það að vera undir annan settur. Guð lætur djúpan svefn falla á Adam, tekur úr honum rif og fyllir aftur með holdi. „Og Drottinn Guð myndaði konu af rifinu sem hann hafði tekið úr manninum og leiddi hana til mannsins.” (2.22) Eva kemur þannig sem „ezer” eða frelsari inn í söguna en ekki sem þjónustupía svo að ekki er hægt að halda fram einhverri meintri kristilegri stigveldishyggju innan hjónabandsins á grundvelli síðari sköpunarsögunnar svo mjög sem hún þó hefur verið til þess notuð um aldirnar. Auk þess vekur athygli að sagan endar á því að lýsa búferlaflutningi karlsins til konunnar en ekki öfugt þegar til hjúskapar er stofnað þegar segir: „Af þessum sökum yfirgefur maður föður sinn og móður sína og býr með eiginkonu sinni, og þau verða eitt.” (2.24)
Á ég að segja ykkur hvers vegna ég endursagði syndafallsfrásögnina hér áðan í stað þess að hún væri flutt beint af Biblíunni? Ástæðan er sú að fólk misskilur hana almennt vegna þess að í gegnum aldirnar hefur rangtúlkunum verið haldið á lofti og þessi saga notuð til þess að auðmýkja konur, og ég gat ekki hugsað mér að láta alla foreldra sunnudagaskólabarnanna ganga hér yfir í safnaðarheimilið með söguna í höfðinu og allar þær fyrirframgefnu rangtúlkanir í hjartanu sem gera það eitt að eitra mannlífið. Það er ekki hægt að lesa syndafallsfrásögnina hráa af þeirri einföldu ástæðu að áróðursmaskína karlaveldisins er fyrir löngu búin að eyðileggja hana í hugum fólks. Við höfum lært að sjá fyrir okkur konuna sem framhleypna og heimska og Adam sem fórnarlamb aðgæsluleysis hennar. Og hlustaðu nú á orðaskipti Guðs við Evu og segðu sjálfum þér hvað þú heyrir:
„Mikla mun ég gjöra þjáningu þína er þú verður barnshafandi. Með þraut skaltu börn fæða, samt skaltu hafa löngun til manns þíns en hann skal drottna yfir þér.” (2.16)
Hvað heyrir þú? Heyrir þú ekki Guð lýsa yfir refsingu vegna óhlýðni konunnar og að sú refsing sé fólgin í líkamlegum þjáningum og yfirdrottnun karlsins? Og dregur þú ekki þá ályktun að Guð hafi ákveðið að karlar skuli ríkja yfir konum og líkama þeirra enda sé það það sem þær sjálfar vilji: „Samt skaltu hafa löngun til manns þíns” segir Guð „en hann skal drottna yfir þér.”
„Við Adam sagði [Guð]: Vegna þess að þú hlýddir röddu konu þinnar og ást af trénu sem ég bannaði þér að eta af, þá sé akurlendið bölvað þín vegna. Með erfiði skaltu hafa viðurværi af því alla þína ævidaga. Þyrna og þistla skal landið gefa af sér og þú skalt lifa á grösum merkurinnar. Í sveita þíns andlitis skaltu brauðs þíns neyta þar til þú hverfur aftur til jarðarinnar því af henni ertu tekinn. Því að mold ert þú og til moldar skaltu aftur hverfa.” (2.17-19)
- Mold ert þú og til moldar skaltu aftur hverfa segir Guð.
Við hverja einustu útför eru þessi orð endurtekin. „Af jörðu ertu tekinn, að jörðu skaltu aftur verða...” og nú spyr ég þig: lýkur þar því sem sagt er? „Af jörðu ertu tekinn, að jörðu skaltu aftur verða...” Eru þetta síðustu orin sem flutt eru yfir kistu látins ástvinar að kristnum sið? Nei, klárlega ekki. Moldinni er ekki ausið tvisvar, heldur er henni ausið þrisvar sinnum eins og vatninu yfir höfuð skírnarbarnsins. Þrisvar er vatninu ausið til lífs og þrisvar er moldinni ausið til lífs, vegna þess að heilög kirkja geymir í brunni visku sinnar vitneskjuna um það að Guð vill líf og frelsi og jöfnuð og fegurð og réttlæti og sannleika. Sannleikurinn um konuna og karlinn, veruleiki mennskrar tilveru er ekki fólginn í áhrínisorðum Guðs í syndafallssögunni, enda erum við stödd í fyrstu þremur köflunum á því mikla bókasafni sem nefnt er Biblía. Lífið er ekki fætt til að þjást heldur til þess að sigra. Líkaminn er ekki gerður til þess að auðmýkjast og meiðast heldur til þess að fagna og njóta. Hin sanna verklýsing mannsins á jörðinni er ekki erfiði og dauði heldur sú sem Adam var fengin í upphafi; að yrkja og gæta. Því er mælt yfir hverri einustu gröf og kistu: Af jörðu skaltu aftur upp rísa!
Frá því er sagt í helgisögninni um syndafallið að Guð neyðist til þess að reka Adam og Evu burt úr Paradís því að hann getur ekki treyst því að þau seilist ekki í ávöxt lífsins trés og lifi þannig að eilífu í ástandi syndarinnar. En áður en að brottrekstrinum kemur segir svo: „Og Drottinn Guð gerði skinnkirtla handa Adam og konu hans og lét þau klæðast þeim.”
- Þetta er fyrsta merkið. Skinnkirtlarnir sem konunni og karlinum eru fengnir eru tákn um það að Guð hyggst leysa mannkyn undan valdi syndarinnar. Guð vill ekki andrúmsloft ásökunar og sektarkenndar, ástand þjáningar, undirokunar og erfiðis. Undirokun karla á konum er andstyggð í augum hans. Þjáning þín og mín er ekki það sem Guð óskar okkur. Allt heimsins ólán með sínum uppskeru- og aflabrestum, sjúkdómum, náttúruhamförum, hernaði, svikum og grimmd er ekki Guðs vilji. „Af jörðu skaltu aftur upp rísa!” segir Guð við sært og sundrað mannkyn.
En þær eiga það sameiginlegt helgisagnirnar báðar, sagan af syndafallinu í aldingarðinum og sagan freistingunum í eyðimörkinni, að það er eitthvað varðandi vilja mannsins sem úrslitum ræður.
Freistarinn ávarpar og maður svarar.
Eva leit á tréð og Adam horfði á ávöxtinn en augu Jesú voru fest á Orði Guðs. Hvert og eitt brást við í ljósi þess hvar augu þeirra hvíldu.
Þú ræður augum þínum. Þú ræður hvert þú horfir. Hver sá sem iðkar bæn og lestur Guðs orðs og gerir það að daglegri iðju sinni er að taka ákvörðun um sín eigin augu. Og þegar augu okkar mæta augum frelsarans í reglulegri bæn og Orð Guðs stendur lifandi fyrir hugskotssjónum okkar af því að við höfum fest ást á því þá eignumst við meiri og meiri hlutdeild í hugarfari Krists, verðum frjálsari karlar og konur, upréttara fólk.
Amen.
Það hittist skemmtilega á að konudaginn hér á Íslandi ber upp á fyrsta sunnudag í föstu þegar kristnir menn um allan heim hefja undirbúning páska með því að ganga í sjálfa sig og huga að eigin breytni. Tvær stórar og áhrifaríkar helgisagnir eru dregnar fram og fluttar í kirkjum; sagan af syndafallinu í aldingarðinum og sagan af freistingunum í eyðimörkinni. Hinn gamli maður, Adam og Eva, kljást við veruleika óttans og illskunnar í fyrri sögunni, en í þeirri síðari sjáum við Jesú Krist birta hinn nýja mann, og þá nýju lífsmöguleika sem mannkyni bjóðast í glímunni við óttann í ljósi fagnaðarerindisins.
Freistingin er sú sama í báðum sögum. Í fyrri frásögninni eru þessi tvö tré, tré skilningsins og tré lífsins, og þau standa fyrir þessa merkilegu sammannlegu þrá eftir því að eiga heiminn með því að kunna skil á öllu milli himins og jarðar og geta svo líka lifað að eilífu. Já, það er hálf brjálæðingslegt en um leið fyndin staðreynd að í hverri einustu mannlegri sál skuli dyljast sú blákalda löngun að eiga helst allan heiminn! „Allt þetta mun ég gefa þér ef þú fellur fram og tilbiður mig.” Segir freistarinn við Jesú í eyðimörkinni. Og hvert mannlegt eyra skynjar freistinguna, löngunina til þess að gera einmitt þetta lítilræði, falla sem snöggvast fram og tilbiðja freistarann til þess að eignast allan heiminn.
Það er magnað að tala um syndafallsfrásögnina á konudegi sökum þess að í þeirri syndahrunsfrásögn sem okkur er nærtækust í íslensku samfélagi í dag er ekki ein einasta kona í aðalhlutverki en í sögunni sem skráð er í 3. kafla 1. Mósebókar er það konan sem tekur frumkvæðið og karlinn fylgir.
Skyldi það vera tilviljun að þegar sköpunarsögurnar tvær sem mynda upphaf Gamla testamentisins eru lesnar þá er karlinum og konunni lýst sem jafningjum? Og ef eithvað er þá hallar heldur á karlinn Adam. Í fyrsta kafla segir Guð við sjálfan sig: „Vér viljum gera manninn eftir vorri mynd, líkan oss. [...] Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd. Hann skapaði hann eftir Guðs mynd. Hann skapaði þau karl og konu.” (1.Mós. 1.26-27) Maðurinn er þá karl og kona samkvæmt fyrri sköpunarsögunni. Karl og kona í jafningjasamskiptum, það er maðurinn.
Í síðari sköpunarsögunni sem skráð er í öðrum kafla Mósebókar er Adam einn á rangli þar til Drottinn Guð tekur hann og setur hann í aldingarðinn Eden „til þess að yrkja hann og gæta hans” segir orðrétt. (2.15) Og er hér komin fyrsta og æðsta starfslýsing í atvinnusögu mannkyns; yrkja og gæta. „Og Drottinn sagði: ‘Eigi er það gott að maðurinn sé einn. Ég vil gera honum meðhjálp við hans hæfi.’” (2.18) Bent hefur verið á að hebreska hugtakið ‚ezer‘ sem býr á bak við orðasamhengið ‘meðhjálp við hans hæfi’ er á annað hundrað stöðum í GT notað um það þegar Guð grípur inn í aðstæður þjóðar sinnar. ‚Ezer‘ táknar þannig guðlegt inngrip eða hjálp að ofan en á ekkert skylt við þjónkun eða það að vera undir annan settur. Guð lætur djúpan svefn falla á Adam, tekur úr honum rif og fyllir aftur með holdi. „Og Drottinn Guð myndaði konu af rifinu sem hann hafði tekið úr manninum og leiddi hana til mannsins.” (2.22) Eva kemur þannig sem „ezer” eða frelsari inn í söguna en ekki sem þjónustupía svo að ekki er hægt að halda fram einhverri meintri kristilegri stigveldishyggju innan hjónabandsins á grundvelli síðari sköpunarsögunnar svo mjög sem hún þó hefur verið til þess notuð um aldirnar. Auk þess vekur athygli að sagan endar á því að lýsa búferlaflutningi karlsins til konunnar en ekki öfugt þegar til hjúskapar er stofnað þegar segir: „Af þessum sökum yfirgefur maður föður sinn og móður sína og býr með eiginkonu sinni, og þau verða eitt.” (2.24)
Á ég að segja ykkur hvers vegna ég endursagði syndafallsfrásögnina hér áðan í stað þess að hún væri flutt beint af Biblíunni? Ástæðan er sú að fólk misskilur hana almennt vegna þess að í gegnum aldirnar hefur rangtúlkunum verið haldið á lofti og þessi saga notuð til þess að auðmýkja konur, og ég gat ekki hugsað mér að láta alla foreldra sunnudagaskólabarnanna ganga hér yfir í safnaðarheimilið með söguna í höfðinu og allar þær fyrirframgefnu rangtúlkanir í hjartanu sem gera það eitt að eitra mannlífið. Það er ekki hægt að lesa syndafallsfrásögnina hráa af þeirri einföldu ástæðu að áróðursmaskína karlaveldisins er fyrir löngu búin að eyðileggja hana í hugum fólks. Við höfum lært að sjá fyrir okkur konuna sem framhleypna og heimska og Adam sem fórnarlamb aðgæsluleysis hennar. Og hlustaðu nú á orðaskipti Guðs við Evu og segðu sjálfum þér hvað þú heyrir:
„Mikla mun ég gjöra þjáningu þína er þú verður barnshafandi. Með þraut skaltu börn fæða, samt skaltu hafa löngun til manns þíns en hann skal drottna yfir þér.” (2.16)
Hvað heyrir þú? Heyrir þú ekki Guð lýsa yfir refsingu vegna óhlýðni konunnar og að sú refsing sé fólgin í líkamlegum þjáningum og yfirdrottnun karlsins? Og dregur þú ekki þá ályktun að Guð hafi ákveðið að karlar skuli ríkja yfir konum og líkama þeirra enda sé það það sem þær sjálfar vilji: „Samt skaltu hafa löngun til manns þíns” segir Guð „en hann skal drottna yfir þér.”
„Við Adam sagði [Guð]: Vegna þess að þú hlýddir röddu konu þinnar og ást af trénu sem ég bannaði þér að eta af, þá sé akurlendið bölvað þín vegna. Með erfiði skaltu hafa viðurværi af því alla þína ævidaga. Þyrna og þistla skal landið gefa af sér og þú skalt lifa á grösum merkurinnar. Í sveita þíns andlitis skaltu brauðs þíns neyta þar til þú hverfur aftur til jarðarinnar því af henni ertu tekinn. Því að mold ert þú og til moldar skaltu aftur hverfa.” (2.17-19)
- Mold ert þú og til moldar skaltu aftur hverfa segir Guð.
Við hverja einustu útför eru þessi orð endurtekin. „Af jörðu ertu tekinn, að jörðu skaltu aftur verða...” og nú spyr ég þig: lýkur þar því sem sagt er? „Af jörðu ertu tekinn, að jörðu skaltu aftur verða...” Eru þetta síðustu orin sem flutt eru yfir kistu látins ástvinar að kristnum sið? Nei, klárlega ekki. Moldinni er ekki ausið tvisvar, heldur er henni ausið þrisvar sinnum eins og vatninu yfir höfuð skírnarbarnsins. Þrisvar er vatninu ausið til lífs og þrisvar er moldinni ausið til lífs, vegna þess að heilög kirkja geymir í brunni visku sinnar vitneskjuna um það að Guð vill líf og frelsi og jöfnuð og fegurð og réttlæti og sannleika. Sannleikurinn um konuna og karlinn, veruleiki mennskrar tilveru er ekki fólginn í áhrínisorðum Guðs í syndafallssögunni, enda erum við stödd í fyrstu þremur köflunum á því mikla bókasafni sem nefnt er Biblía. Lífið er ekki fætt til að þjást heldur til þess að sigra. Líkaminn er ekki gerður til þess að auðmýkjast og meiðast heldur til þess að fagna og njóta. Hin sanna verklýsing mannsins á jörðinni er ekki erfiði og dauði heldur sú sem Adam var fengin í upphafi; að yrkja og gæta. Því er mælt yfir hverri einustu gröf og kistu: Af jörðu skaltu aftur upp rísa!
Frá því er sagt í helgisögninni um syndafallið að Guð neyðist til þess að reka Adam og Evu burt úr Paradís því að hann getur ekki treyst því að þau seilist ekki í ávöxt lífsins trés og lifi þannig að eilífu í ástandi syndarinnar. En áður en að brottrekstrinum kemur segir svo: „Og Drottinn Guð gerði skinnkirtla handa Adam og konu hans og lét þau klæðast þeim.”
- Þetta er fyrsta merkið. Skinnkirtlarnir sem konunni og karlinum eru fengnir eru tákn um það að Guð hyggst leysa mannkyn undan valdi syndarinnar. Guð vill ekki andrúmsloft ásökunar og sektarkenndar, ástand þjáningar, undirokunar og erfiðis. Undirokun karla á konum er andstyggð í augum hans. Þjáning þín og mín er ekki það sem Guð óskar okkur. Allt heimsins ólán með sínum uppskeru- og aflabrestum, sjúkdómum, náttúruhamförum, hernaði, svikum og grimmd er ekki Guðs vilji. „Af jörðu skaltu aftur upp rísa!” segir Guð við sært og sundrað mannkyn.
En þær eiga það sameiginlegt helgisagnirnar báðar, sagan af syndafallinu í aldingarðinum og sagan freistingunum í eyðimörkinni, að það er eitthvað varðandi vilja mannsins sem úrslitum ræður.
Freistarinn ávarpar og maður svarar.
Eva leit á tréð og Adam horfði á ávöxtinn en augu Jesú voru fest á Orði Guðs. Hvert og eitt brást við í ljósi þess hvar augu þeirra hvíldu.
Þú ræður augum þínum. Þú ræður hvert þú horfir. Hver sá sem iðkar bæn og lestur Guðs orðs og gerir það að daglegri iðju sinni er að taka ákvörðun um sín eigin augu. Og þegar augu okkar mæta augum frelsarans í reglulegri bæn og Orð Guðs stendur lifandi fyrir hugskotssjónum okkar af því að við höfum fest ást á því þá eignumst við meiri og meiri hlutdeild í hugarfari Krists, verðum frjálsari karlar og konur, upréttara fólk.
Amen.
mánudagur, 1. febrúar 2010
Góðir daga bíða
Préidikun sunnudagsins:
Kæri söfnuður, þau eru mögnuð skilaboðin sem við fáum úr ritningunni þennan sunnudagsmorgun: „Svo segir Drottinn: Hinn vitri hrósi sér ekki af visku sinni, hinn sterki hrósi sér ekki af afli sínu og hinn ríki hrósi sér ekki af auði sínum. Nei, sá sem vill hrósa sér hrósi sér af því að hann sé hygginn og þekki mig. Því að ég, Drottinn, iðka miskunnsemi, rétt og réttlæti á jörðinni, á því hef ég velþóknun, segir Drottinn.”
Hafi Íslenskri þjóð einhverntíman verið ljóst að mannleg viska, afl og auður eru hverful gæði þá eru henni þær staðreyndir enn ljósari nú. Nú er sá tími að renna upp að okkur gefast ný tækifæri sem þjóð og sem lýðveldi, tækifæri til þess að kveðja hin ungu ár og ganga til móts við þau hyggindi sem skapast þegar lífið er búið að auðmýkja mann.
Ég umgengst í lífi mínu og starfi margt ungt fólk og hvert sinn sem ég rekst á unga manneskju sem er full af áhuga á lífinu þá er eitthvað sem fagnar inni í mér. Það er lífsáhuginn, ástin á lífinu, löngunin til þess að halda áfram, lifa og reyna heiminn sem er svo heillandi og lofar svo góðu. Þessi sannfæring æskunnar um að allt muni takast og allt hljóti að ganga vel er mikilvægur liður í því að vaxa sem manneskja, og það skemmir ekkert þótt því fylgi ögn af þótta eða keimur af yfirburðatilfinningu. Það er bara hollt, því að allt hefur sinn tíma.
Íslenska lýðveldið er um þessar mundir að kveðja æsku sína. Við erum ekki lengur saklaus og djörf æskuþjóð sem horft er til með skilningi og aðdáun, við erum komin til ára og lífið er byrjað að gera við okkur þetta sem öllum er gert, lífið er byrjað að auðmýkja okkur. Án auðmýkingar er enginn þroski og án þroska verður lífið aldrei djúpt og ríkt og gott.
Hér gilda þessi fornu orð spámannsins: „Hinn vitri hrósi sér ekki af visku sinni, hinn sterki hrósi sér ekki af afli sínu og hinn ríki hrósi sér ekki af auði sínum. Nei, sá sem vill hrósa sér hrósi sér af því að hann sé hygginn og þekki mig. Því að ég, Drottinn, iðka miskunnsemi, rétt og réttlæti á jörðinni.”
Aðdragandi guðspjallsins um verkamenninga í víngarðinum sem flutt var hér áðan er sá að ríki unglingurinn sem við könnumst við úr Biblíusögunum kemur á mikilli fart og rennir sér eiginlega fótskriðu inn í söguna til þess að spyrja Jesú spurningar og það nánast drýpur af honum unggæðingshátturinn er hann spyr: „Herra, hvað gott á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?” (Matt. 19. 16) Hann var svo fullur af sjálfum sér, svo bólginn af æskuljóma og þrútinn af eigin yfirburðum að hann bara varð að fá svar við því hvaða góðverk hann gæti unnið til þess að hafa eilífðarmálin líka í góðu „tékki”. Allt hefur sinn tíma, og það er dýrðlegt að fylgjast með samskiptum Jesú við unga gæðinginn. Markús guðspjallamaður segir sömu sögu og hefur sérstaklega fyrir því að geta um augnaráð Jesú er hann hrofir á unga manninn. „Jesús horfði á hann með ástúð” stendur þar. (Mark. 10.21) Og svo falla orðin: „Eins er þér vant. Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“ Við munum framhaldið, hvernig gæðingurinn gekk hryggur á braut, því hann átti svo mikið, fannst honum.
Hvað var Jesús að gera? Hann var einfaldlega að styðja þennan efnilega og hæfileikaríka hrokagikk til þroska. Fram að þessu hafði ungi maðurinn verið að safna mannlegri visku, afli og auði og nú var komið að framhaldinu. Nú var seinni hálfleikur í þroskaferli hans að hefjast. ‘Taktu nú allt þetta sem þú ert búinn að safna,’ sagði Jesús við unga manninn. ‘Taktu það allt og gefðu það áfram, og sjáðu hvernig fjársjóður þinn mun vaxa.’
Við íslendingar erum rík þjóð. Allt frá stofnun lýðveldis okkar og loka seinni heimstyrjaldar höfum við notið allra þeirra forréttinda sem unnt er að njóta á þessum kalda hnetti. Menntun okkar, afl og auður hefur margfaldast og nú erum við hér. Nákvæmlega hér, þar sem við hlutum að standa vegna þess að lífið mætir okkur öllum til þess að gefa okkur kost á því að stíga inn í ár þroskans og fullreyndarinnar. „Eins er þér vant” segir gjafari lífsins við okkur, unggæðinginn í hópi þjóðanna „Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“
Þann dag sem þú hættir að safna mannlegri visku, afli og auði handa sjálfum þér en megnar þess í stað að þiggja það allt að gjöf, þann dag er seinni hálfleikur hafinn í lífsbaráttu þinni og þú ert genginn á vit hinnar sönnu þekkingar.
Sagan um verkamennina í víngarðinum útskýrir muninn á þessu tvennu. Eigandi víngarðsins réði menn til verka á ýmsum tímum dags. Hann samdi við þá sem fyrstir hófu störf að gjalda þeim einn denar, sem voru daglaun verkamanns, hinum öllum sem komu á ólíkum tímum lofaði hann bara sanngirni. „Ég mun greiða ykkur sanngjörn laun.” sagði hann. ( Matt. 20. V. 4) Er vinnudegi var lokið höfðu sumir unnið 12 stundir, aðrir bara eina stund og allt þar á milli. Eigandi víngarðsins bað verkstjórann að byrja útborgun á þeim sem síðastir komu en enda á þeim fyrstu. „Nú komu þeir sem ráðnir voru á elleftu stundu og fengu hver sinn denar. Þegar þeir fyrstu komu bjuggust þeir við að fá meira en fengu sinn denarinn hver. Þeir tóku við honum og fóru að mögla gegn húsbónda sínum. Þeir sögðu: Þessir síðustu hafa unnið aðeins eina stund og þú gerir þá jafna okkur er höfum borið hita og þunga dagsins.
Hann sagði þá við einn þeirra: Vinur, ekki geri ég þér rangt til, sömdum við ekki um einn denar? Taktu þitt og farðu leiðar þinnar. Ég vil gjalda þessum síðasta eins og þér. Er ég ekki sjálfur fjár míns ráðandi? Eða sérðu ofsjónum yfir því að ég er góðgjarn?
Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir.“
Á ytra borði tilverunnar lítur út fyrir að við séum hér fyrst og síðast til þess að safna gæðum. Og við fyrstu sýn mætti halda að einföld og köld lögmál samkeppni ríktu í þessari veröld, en þegar lífið mætir þér og byrjar að auðmýkja þig svo að þú sérð hve brothætt gæfan er og vand með farið lífsins lán þá sérðu að það er ekki rökrétt að hrósa sér af eigin visku, afli eða auði því að allt sem lífið færði þér var ekki annað en lán úr sameiginlegum sjóði. „Nei, sá sem vill hrósa sér hrósi sér af því að hann sé hygginn og þekki mig. Því að ég, Drottinn, iðka miskunnsemi, rétt og réttlæti á jörðinni, á því hef ég velþóknun, segir Drottinn.”
Kæri söfnuður, við erum öll á sama báti. Við erum ein þjóð í einu landi og nú bíður okkar það verkefni sem öllum mætir, jafnt einstaklingum sem þjóðum, að yfirgefa æskuárin kannast við eigin takmarkanir og tileinka okkur þá hyggni að hætta að safna af áfergju eða í ótta en byrja þess í stað að þiggja lífslán okkar með þökkum, meðhöndla það af leikni og veita því áfram af rausn. Þá munu góðir daga bíða okkar. Því að Drottinn, iðkar miskunnsemi, rétt og réttlæti á jörðinni, „á því hef ég velþóknun, segir Drottinn.”
Amen.
Kæri söfnuður, þau eru mögnuð skilaboðin sem við fáum úr ritningunni þennan sunnudagsmorgun: „Svo segir Drottinn: Hinn vitri hrósi sér ekki af visku sinni, hinn sterki hrósi sér ekki af afli sínu og hinn ríki hrósi sér ekki af auði sínum. Nei, sá sem vill hrósa sér hrósi sér af því að hann sé hygginn og þekki mig. Því að ég, Drottinn, iðka miskunnsemi, rétt og réttlæti á jörðinni, á því hef ég velþóknun, segir Drottinn.”
Hafi Íslenskri þjóð einhverntíman verið ljóst að mannleg viska, afl og auður eru hverful gæði þá eru henni þær staðreyndir enn ljósari nú. Nú er sá tími að renna upp að okkur gefast ný tækifæri sem þjóð og sem lýðveldi, tækifæri til þess að kveðja hin ungu ár og ganga til móts við þau hyggindi sem skapast þegar lífið er búið að auðmýkja mann.
Ég umgengst í lífi mínu og starfi margt ungt fólk og hvert sinn sem ég rekst á unga manneskju sem er full af áhuga á lífinu þá er eitthvað sem fagnar inni í mér. Það er lífsáhuginn, ástin á lífinu, löngunin til þess að halda áfram, lifa og reyna heiminn sem er svo heillandi og lofar svo góðu. Þessi sannfæring æskunnar um að allt muni takast og allt hljóti að ganga vel er mikilvægur liður í því að vaxa sem manneskja, og það skemmir ekkert þótt því fylgi ögn af þótta eða keimur af yfirburðatilfinningu. Það er bara hollt, því að allt hefur sinn tíma.
Íslenska lýðveldið er um þessar mundir að kveðja æsku sína. Við erum ekki lengur saklaus og djörf æskuþjóð sem horft er til með skilningi og aðdáun, við erum komin til ára og lífið er byrjað að gera við okkur þetta sem öllum er gert, lífið er byrjað að auðmýkja okkur. Án auðmýkingar er enginn þroski og án þroska verður lífið aldrei djúpt og ríkt og gott.
Hér gilda þessi fornu orð spámannsins: „Hinn vitri hrósi sér ekki af visku sinni, hinn sterki hrósi sér ekki af afli sínu og hinn ríki hrósi sér ekki af auði sínum. Nei, sá sem vill hrósa sér hrósi sér af því að hann sé hygginn og þekki mig. Því að ég, Drottinn, iðka miskunnsemi, rétt og réttlæti á jörðinni.”
Aðdragandi guðspjallsins um verkamenninga í víngarðinum sem flutt var hér áðan er sá að ríki unglingurinn sem við könnumst við úr Biblíusögunum kemur á mikilli fart og rennir sér eiginlega fótskriðu inn í söguna til þess að spyrja Jesú spurningar og það nánast drýpur af honum unggæðingshátturinn er hann spyr: „Herra, hvað gott á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?” (Matt. 19. 16) Hann var svo fullur af sjálfum sér, svo bólginn af æskuljóma og þrútinn af eigin yfirburðum að hann bara varð að fá svar við því hvaða góðverk hann gæti unnið til þess að hafa eilífðarmálin líka í góðu „tékki”. Allt hefur sinn tíma, og það er dýrðlegt að fylgjast með samskiptum Jesú við unga gæðinginn. Markús guðspjallamaður segir sömu sögu og hefur sérstaklega fyrir því að geta um augnaráð Jesú er hann hrofir á unga manninn. „Jesús horfði á hann með ástúð” stendur þar. (Mark. 10.21) Og svo falla orðin: „Eins er þér vant. Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“ Við munum framhaldið, hvernig gæðingurinn gekk hryggur á braut, því hann átti svo mikið, fannst honum.
Hvað var Jesús að gera? Hann var einfaldlega að styðja þennan efnilega og hæfileikaríka hrokagikk til þroska. Fram að þessu hafði ungi maðurinn verið að safna mannlegri visku, afli og auði og nú var komið að framhaldinu. Nú var seinni hálfleikur í þroskaferli hans að hefjast. ‘Taktu nú allt þetta sem þú ert búinn að safna,’ sagði Jesús við unga manninn. ‘Taktu það allt og gefðu það áfram, og sjáðu hvernig fjársjóður þinn mun vaxa.’
Við íslendingar erum rík þjóð. Allt frá stofnun lýðveldis okkar og loka seinni heimstyrjaldar höfum við notið allra þeirra forréttinda sem unnt er að njóta á þessum kalda hnetti. Menntun okkar, afl og auður hefur margfaldast og nú erum við hér. Nákvæmlega hér, þar sem við hlutum að standa vegna þess að lífið mætir okkur öllum til þess að gefa okkur kost á því að stíga inn í ár þroskans og fullreyndarinnar. „Eins er þér vant” segir gjafari lífsins við okkur, unggæðinginn í hópi þjóðanna „Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“
Þann dag sem þú hættir að safna mannlegri visku, afli og auði handa sjálfum þér en megnar þess í stað að þiggja það allt að gjöf, þann dag er seinni hálfleikur hafinn í lífsbaráttu þinni og þú ert genginn á vit hinnar sönnu þekkingar.
Sagan um verkamennina í víngarðinum útskýrir muninn á þessu tvennu. Eigandi víngarðsins réði menn til verka á ýmsum tímum dags. Hann samdi við þá sem fyrstir hófu störf að gjalda þeim einn denar, sem voru daglaun verkamanns, hinum öllum sem komu á ólíkum tímum lofaði hann bara sanngirni. „Ég mun greiða ykkur sanngjörn laun.” sagði hann. ( Matt. 20. V. 4) Er vinnudegi var lokið höfðu sumir unnið 12 stundir, aðrir bara eina stund og allt þar á milli. Eigandi víngarðsins bað verkstjórann að byrja útborgun á þeim sem síðastir komu en enda á þeim fyrstu. „Nú komu þeir sem ráðnir voru á elleftu stundu og fengu hver sinn denar. Þegar þeir fyrstu komu bjuggust þeir við að fá meira en fengu sinn denarinn hver. Þeir tóku við honum og fóru að mögla gegn húsbónda sínum. Þeir sögðu: Þessir síðustu hafa unnið aðeins eina stund og þú gerir þá jafna okkur er höfum borið hita og þunga dagsins.
Hann sagði þá við einn þeirra: Vinur, ekki geri ég þér rangt til, sömdum við ekki um einn denar? Taktu þitt og farðu leiðar þinnar. Ég vil gjalda þessum síðasta eins og þér. Er ég ekki sjálfur fjár míns ráðandi? Eða sérðu ofsjónum yfir því að ég er góðgjarn?
Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir.“
Á ytra borði tilverunnar lítur út fyrir að við séum hér fyrst og síðast til þess að safna gæðum. Og við fyrstu sýn mætti halda að einföld og köld lögmál samkeppni ríktu í þessari veröld, en þegar lífið mætir þér og byrjar að auðmýkja þig svo að þú sérð hve brothætt gæfan er og vand með farið lífsins lán þá sérðu að það er ekki rökrétt að hrósa sér af eigin visku, afli eða auði því að allt sem lífið færði þér var ekki annað en lán úr sameiginlegum sjóði. „Nei, sá sem vill hrósa sér hrósi sér af því að hann sé hygginn og þekki mig. Því að ég, Drottinn, iðka miskunnsemi, rétt og réttlæti á jörðinni, á því hef ég velþóknun, segir Drottinn.”
Kæri söfnuður, við erum öll á sama báti. Við erum ein þjóð í einu landi og nú bíður okkar það verkefni sem öllum mætir, jafnt einstaklingum sem þjóðum, að yfirgefa æskuárin kannast við eigin takmarkanir og tileinka okkur þá hyggni að hætta að safna af áfergju eða í ótta en byrja þess í stað að þiggja lífslán okkar með þökkum, meðhöndla það af leikni og veita því áfram af rausn. Þá munu góðir daga bíða okkar. Því að Drottinn, iðkar miskunnsemi, rétt og réttlæti á jörðinni, „á því hef ég velþóknun, segir Drottinn.”
Amen.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)