mánudagur, 19. janúar 2009

12 sporin - andlegt ferðalag

Bjarni skrifar:
Það hefur verið mér stöðugt undrunarefni lengi hvílík snilld fólgin er í sporunum 12.  Ég get ekki talið þá einstaklinga sem ég hef kynnst um dagana sem náð hafa nýjum tökum á tilveru sinni með iðkun þessara spora.  AA hreyfingin hefur unnið Íslenskri þjóð mikið gagn með því að kynna þau og nýta í starfi sínu. - Já, og þá er nú starf AA samtakanna enn fremur tilefni til að tala um snilld! 

Í rúman áratug hefur þróast merkur félagsskapur innan kirkjunnar sem gengur undir heitinu Vinir í bata.  Þar er fólk sem unnið hefur 12 sporin eftir kerfi sem nefnt er 12 sproin andlegt ferðalag.  Þessi starfssemi er í mörgum kirkjum og hefur gefist einkar vel.  Þar er ekki horft á fíkn sérstaklega heldur er tekist á við óuppgerðar tilfinningar sem okkur öllum hættir til að dragnast með langleiðina í gegnum lífið með tilheyrandi þjáningum og ójafnvægi sem eltir okkur á röndum.  Þetta tilboð hefur verið í Laugarneskirkju í bráðum 10 ár og nokkur hundruð manns hafa eignast betra og heilbrigðara líf með þátttöku í starfinu.

Þriðjudaginn næsta, 20.1., verður kynningarfundur í Laugarneskirkju. Ég hvet allt fólk sem langar að ná bættum árangir í sínu innra lífi eftir þrautreyndum leiðum og í öruggu umhverfi til að mæta og sjá hvernig þeim líst á.  Þátttaka kostar ekkert og starfið er byggt á sjálfboðavinnu en boðið verður upp á hópa bæði á mánudags- og þriðjudagskvöldum.

Frekari fyrirspurnir má senda á netfang mitt:  srbjarni@ismennt.is




7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég er búinn að vera í AA í bráðum átta ár og þar hef kynnst mörgu góðu fólki. En því miður þá eru samtökin að verða alltaf meira og meira öfgasamtök trúaðra einstaklinga. Ég dreg einnig í efa árangur sem þessi 12 spor hafa og tel að þau geti stundum gert illt verra. Það er t.d. algjört glapræði að fara í 9. spors vinnu fyrir einstakling sem er ný skriðinn úr kannski margra ára neyslu. Ráðgjöfin sem fer fram er kannski frá fólki sem hefur nokkra mánaða edrúmennsku og kannski sjálft með allt niður um sig í sínum eigin málum. Ég hef heyrt hræðilegar sögur hvernig sporin hafa farið með fólk. Ég er farinn að hallast alltaf meira og meira að því að þessi vinna eigi að vera í höndum fagfólks en ekki leikmanna. Jafningjafræðslan er mjög góð svo langt sem hún nær, en ráðleggingar öfgamanna eru ekki að hinu góða.Ef það eru síðan ekki fleiri en 5% sem ná góðum bata þá væri kannski ráð að leita að öðrum leiðum.

Nafnlaus sagði...

Ágæti nafnlausi AA maður.

Þú talar af reynslu sem ég efa ekki að sé eins og þú lýsir henni. Illt í efni ef þróun AA samtakanna yrði í átt til öfga, hvort heldur það væri í trúarefnum eða einhverskonar 12 spora harðýðgi. Þó segir mér svo hugur að erfðavenjur AA séu líklegar til að jafna út slík hliðarspor með tímanum. AA samtökin hafa þann höfuð kost að þangað getur enginn sótt upphefð af nokkurri sort, ekki einu sinni þá upphefð að vera betri eða þá heilagari en annað fólk. Sem er hinn félagslegi ávinningur trúaröfga. Ég hef líka heyrt hræðilegar sögur af 12 sporum, líka af sálfræðingum og læknum, líka af bílferðum og jólaboðum og barnaafmælum sem endað hafa með ósköpum. Hvarvetna er vits þörf. Hitt sýnist mér engu að síður af samtölum mínum við fólk að 12 sporin séu hið mesta þarfaþing ef skynsamlega er með þau farið. Og svo hef ég orðið vitni að því ítrekað hvernig þessi sporavinna sem unnin er í kirkjunni stórbætir líf einstaklinga sem eru ekkert að glíma við fíkn en eiga við óviðunandi samskiptamunstur að stríða eða óuppgerðar tilfinningar sem sitja líkt og botnfall í sálarlífinu.
Hitt er annað að fólk sem er veikt getur ekki læknað sjálft sig í jafningjasamtali eins og þessu. Þar verður að gera skýran greinarmun.

Þakka þér svo fyrir innleggið, hver sem þú ert!?

Bjarni Karlsson

Unknown sagði...

Sæll Bjarni.

É´r að pæla, nú höfum við Alkaholiks Anonimous, Overeaters Anonymous, Narcotics Anonymous, Sex and love addicts Anonymous og eitthvað meira anonymus.

Er þetta svona anonymous í kirkjunni hjá þér? Kræst Anonymous?

Bara forvitinn sko.

Nafnlaus sagði...

Já, þú segir nokkuð!!?
Annars held ég að hér sé á ferðinni viðleitni fólks til þess að afnema einkaleyfi fíklanna á 12 sporunum. Við hin sem erum ekki svo heppin að hafa fíkn þurfum líka á þessu tæki að halda. E.t.v. ætti bara að kalla þetta 'The rest of us Anonymus'.

Bjarni Karlsson

Unknown sagði...

Humm.

Fíklarnir hafa aldrei viljað hafa einkaleyfi á sporakerfinu. Upphafsmennirnir sáu reyndar fyrir sér að hægt væri að leysa flestar heimsins krísur einstaklinga með þessu meðferðarkerfi.

En það er mikilvægt að menn átti sig á því að nafnleyndin er hin andlegi grundvöllur þessa kerfis. Ekki út af feimni eða skömm við að upplýsa um krísu sína heldur vegna þess að í þessu samhjálparkerfi eru allir jafnir.

Atvinnulausir og auðmenn, gírugir og gröfumenn, geðveikir og gáfumenn allir sitja við sama borð og þiggja hver af öðrum - deila með sér reynslu, styrk og vonum - án þess að vita endilega deili á hinu og eru því jafnir.

Hvernig er þetta hjá ykkur í rest of you Anonymus? Er einn kennari, predikari eða fyrirlesari? Eða er þetta á sama andlega plani og önnur sporasamtök?

Nafnlaus sagði...

Já, Hörður, hér mun viðhaft sama göngulag og annarsstaðar og erfðavenjur AA samtakanna m.a.s. í heiðri hafðar. Auk þess er það nú staðreynd að hér starfa margir reynsluboltar úr AA samtökunum svo að skyldleikinn er mikill og tengslin opin við hefð AA samtakanna um leið og opnað er á hina gömlu hefð kristinnar kirkju með því að æðri máttur er nefndur Jesús Kristur.
Frá mínum bæjardyrum sem prestur í kirkjunni sé ég það einmitt gerast í þessu starfi að allur mannamunur gufar upp í skjóli þeirra hefða sem þú varst að nefna. Hér er um eitt helsta baráttumál innan kirkjunnar að ræða, að varðveita hana sem þá tilfinningalegu og félagslegu fríhöfn sem hún á að vera og verður að vera ef hún er trú stofnanda sínum. Þess vegan verðu 12 sporastarfið e.t.v. ekki síður til þess að styðja kirkjusamfélagið í því að vera edrú í félagslegum skilningi. Sannleikurinn er sá að það er lítils virði yfir höfuð að koma til kirkju ef þar ríkir sami mannamunurinn og í veröldinni...

b. kv.

Bjarni Karlsson

Unknown sagði...

Takk fyrir svarið Bjarni og til hamingju með þetta allt.

Þó það eigi ekki við í AA að kalla æðri mátt jesú get ég skilið að þeim, sem á annað borð fara í kirkju eftir þessu samfélagi, passi að flokka sig með Jesúi.

Kv. Hörður