laugardagur, 28. nóvember 2009

Stóra kossamálið

Bjarni skrifar:

Ég met starf Hvítasunnumanna mjög mikils. Ég sé það í prestsstarfi mínu að þar standa dyr opnar með öðrum hætti en annarsstaðar í samfélaginu og ef einhversstaðar er rými fyrir fjölbreytileika mannlífsins þá er það innan veggja Hvítasunnukirkjunnar.

Ég tel mig geta mótmælt mörgu sem Hvítasunnumenn segja. Sumt í guðfræði þeirra álít ég slæmt og sannanlega rangt, en ávextir starfsins ilma af guðsþekkingu. Sem kristinn maður tek ég mark á því. "Af ávöxtunum skulið þér þekkja þá" sagði Jesús og það er þess vegna sem ég elska Hvítasunnukirkjuna og fullyrði að þjóð okkar þarf á henni að halda. Það breytir ekki því að Hvítasunnumenn verða að svara fyrir sína guðfræði og sinn mannskilning, og þeim er það ekki vorkunn frekar en mér sjálfum. Þess vegna þykir mér "Stóra kossamálið" einkar athyglisvert og í rauninni alveg ferlega fyndið. Það er sannarlega fyndin uppákoma að hópur fólks ætli að koma á jólatónleika í kirkju til þess að kyssast opinberlega en það verður ekkert fyndið við atburðinn ef hann verður að neikvæðri reynslu.

Hér er áskorun fyrir Hvítasunnumenn að endurskoða afstöðu sína til líkamans og hins kynferðislega. Áskorun um að skipta um skoðun á málefnum samkynhneigðra vegna þess einfaldlega að þeir sitja uppi í stöðnuðu hugmyndakerfi á þessu sviði sem ekki kemur kristinni trú hið minnsta við, og líka vegna þess að þeir bera augljósa félagslega ábyrgð og það sem sagt er af prédikunarstóli Hvítasunnukirkjunnar er ekki einkamál. Það er m.ö.o. skylda Hvítasunnumanna eins og allra annarra kirkna að vinna sífellt að því að þróa með sér heilbrigða kynlífssiðfræði í anda Jesú Krists.

Bestu viðbrögð Varðar Levísonar og annarra leiðtoga Hvítasunnukirkjunnar væru þau að fagna kossum og faðmlögum og hvetja öll pör til þess að kyssast og faðmast við upphaf jólatónleikanna og gera það að árlegri hefð að ætíð væri faðmast og kysst undir fyrsta lagi!

Guð blessi Hvítasunnumenn og efli þeirra góða starf.

7 ummæli:

Varríus sagði...

Vel gert!

Nafnlaus sagði...

Mikið gleður það mig að lesa þessi orð.

Kær kveðja.

Nafnlaus sagði...

Sæll Bjarni minn - ég er svo glaður að geta kallað þig vin og bróður. Þó að kirkjurnar okkar hafa stundum ferðast um ólíkar lendur Guðfræðinnar þá erum við sammála um svo margt og ég met starf ykkar hjóna mikils. Takk fyrir málefnalega ummræðu og áskorun sem minnir okkur á að maður brýnir mann.

Vörður Levísson er annars Traustason - við bókstafstrúarmenn viljum að ,,rétt sé rétt."

Guð blessi þig ríkulega
Hafliði Kristinsson

Nafnlaus sagði...

Blessaður Hafliði og þakka þér fyrir þessi viðbrögð. Gat nú verið að ég ruglaði nafni Varðar!, fannst einhvernvegin svo Biblíulegt að hafa hann Levísson.

Ég er sannfærður um að í náinni framtíð mun kristið fólk í landinu finna til nýrrar samstöðu og að við munum eignast það sem þarf (náð) til að standa heilshugar saman um aðalatriði og líta á fjölbreytileikann sem undrunar- og fagnaðarefni.

Þegar upp er staðið þarf veröldin einfaldlega á Jesú að halda.

Kveðjur í bæinn

Bjarni Karlsson

Unknown sagði...

Það gladdi mig mjög mikið að lesa þessi hlýlegu orð í garð okkar Hvítasunnumanna.

Mér þykir það mjög leitt hversu ákveðið sumt fólk virðist vera í því að við séum harðbrjósta hommahatarar sem ljúgi og sækist eftir peningum.

Ég veit að skilningur hvítasunnumanna á samkynhneigð er eflaust ólíkur þínum skilningi, þessvegna þótti mér enn vænna að lesa þín hlýju og sanngjörnu orð. Að fólk geti verið ósammála en samt í bróðerni og velvild.

Uppákoman sem um ræðir stefnir í að verða bara hinn besti viðburður að ég tel, ég sé að það er búið að breyta þessu úr hópsleik (sama hverjir hefðu átt í hlut hefði manni fundist það heldur ósmekklegt í kirkju) í hópknús, sem hljómar ákaflega vel! Vona bara að sem flestir mæti til að knúsa og láta knúsast!

Guð er svo góður að ég er sannfærður um að það komi margt gott út úr þessu.

Guð blessi ykkur hjónin í ykkar starfi
Bróðurkveðja
Helgi Guðnason

Unknown sagði...

Sæll Bjarni minn. Þakka þér fyrir þessi hlýju orð í garð okkar Hvítasunnumanna. Ég er svo þakklátur að þó svo guðfræðin okkar sé ólík, þá ætlum við að vera saman í himninum og er það mér fyrir mestu að Guð elskar okkur báða jafn mikið. Ég er ákaflega þakklátur ykkur hjónum fyrir ykkar góða starf Bjarni minn og að geta kallað ykkur hjónin vini mína. Við trúum að þessi orrahríð í garð mín og safnaðarins verði okkur öllum til góðs, því að Guð er megnugur að snú til góðs því sem óvinurinn ætlaði til ills. Ég er strax farinn að hlakka til samkomunnar þann 6. des, og mun taka þátt í knúsinu, enda vanur maður:D Stöndum saman í bæn fyrir kirkju Krists á Íslandi.

Guð blessi þig Bjarni minn og ykkur hjónin og það mikilvæga starf sem þið sinnið.

Kveðja
Vörður Leví Traustason
prestur Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfíu

Nafnlaus sagði...

Já kæri Vörður þakka þér fyrir þín góðu viðbrögð. Það er rétt sem þú segir föðurland okkar er á himni og þaðan væntum við frelsarans Drottins Jesú.

Ég hitti um daginn góðan og gegnan Íslending sem lengi hefur búið með sínum manni en sækir gjarnan samkomur Hvítasunnumanna og finnur sig svo vel heima innan ykkar veggja enda þótt hann viti hver opinber afstaða Hvítasunnukirkjunnar er til homma og lesbía. Hjá ykkur finnur hann samhljóm og samstöðu í trúnni sem skiptir hann miklu máli. Það er ekki í fyrsta sinn sem ég hef hitt samkynhneigt fólk sem lifir og hrærist af mikilli ánægju í starfi Hvítrasunnukirkjunnar og finnur sig ekki þurfa að fara með neinum veggjum. Sjálfur hef ég nýlega lokið heilli meistararitgerð í guðfræði til þess að lýsa þeim Biblíulegu viðhorfum sem leiða mig að þeirri niðurstöðu að samþykkja samkynhneigð í Jesú nafni og þar lýsi ég líka þeim alvarlegu hættum sem ég tel stafa af því þegar kynhneigð manna er hafnað. Ég geri mér grein fyrir því að þessi mál eru umdeild og erfið en fagna því að nú eru þeir tímar komnir að þau þurfa ekki að skera kirkjuna í tvennt. Við erum m.a.s. ósammála um sjálfa skírnina, en getum þó verið bræður í trú. Heilagur andi mun leiða kirkju sína að niðurstöðu. Kirkjan er alltaf „lýður á ferð". Við erum á leiðinni og verðum að þola það.

Heimurinn þarf ekki á kirkju að halda sem hefur öll svör á reiðum höndum en hann bráðvantar hins vegar kirkju sem veit ekki sitt rjúkandi ráð af því að hún brennur af ást Guðs til manna án þess að vita með vissu hvað er satt og rétt í öllum hlutum. Þannig eru góðir foreldrar og þannig er góð kirkja.

„Nú er þekking mín í molum, en þá mun ég gjörþekkja eins og ég er sjálfur gjörþekktur orðinn. En nú varir trú von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur." (1. Kor. 13)

Góður Guð blessi þig og þína ævinlega og haldi vernd sinni yfir starfi Hvítasunnukirkjunnar.

Bjarni Karlsson