mánudagur, 23. febrúar 2009

Óborganleg fyndni gamallar konu

Þessa prédikun samdi Bjarni og flutti í Laugarneskirkju 22.2. 2009 kl. 11:00:


I
Ég var að taka úr uppþvottavélinni í vikunni. Var að raða í skúffur og skápa til að rýma fyrir öllu óhreina leirtauinu og hnífapörunum sem höfðu hrannast upp í vaskinum og þurftu að komast í vélina. Handlék mislúin eldhúsáhöld, diska, spaða og bolla. Sumt af því hefur fylgt okkur hjónum þessi rúmu 20 ár síðan við rugluðum reitum. Sumt er enn eldra úr búi foreldra og ættingja, annað eitthvað nýrra. Ég hugsaði: Hér hringsólar þessi sundurleiti samtíningur af búsáhöldum hring eftir hring úr uppþvottavél í hirslur sínar þar til gripið verður til þess við næstu eldamennsku yfir á borð og eldhúsbekki og svo afur í vaskinn og í vélina áður en það enn verður tekið og sett á sinn stað. Ég var í þann mund að verða leiður í huganum þegar í hönd mér kom lítill grænn bolli sem staðið hefur af sér tímana tvenna og þrenna, ættaður úr búi Ingibjargar móðurömmu minnar. Og sem ég handlék þennan hlut rann upp fyrir mér að mér þykir vænt um gripinn. Þetta er bollinn sem ég vel umfram aðra ef hann er við höndina, úr honum bragðst morgunkaffið best. Undarlegt að geta þótt vænt um hversdagslegt áhald sem unnið er úr leir jarðar hugsaði ég. Ég man ekki lengur hvernig hann rataði á okkar fjörur svona stakur, veit bara að hann hefur fylgt okkur í ótal búferlaflutningum og aldrei fengið neina sérmeðferð. Þó er þessi eini bolli áreiðanlega elsti gripurinn sem elhússkápar mínir geyma. Á meðan brúðargjafirnar okkar hafa hægt og rólega molnað og máðst og margur gripurinn hrokkið í sundur í núningi daganna þá hefur þessi eini fagurgræni kaffibolli haldið glansandi áferð sinni og lögun líkt og væri hann hafinn yfir ágang tímans og vatnsins. Og þegar ég drekk úr honum kaffið mitt fyllist ég trúnaði við lífið. Ingibjörg amma mín var gestrisin kona og hafði einstaka unun af að metta og gleðja fólkið sitt. Hún mundi spönsku veikina og harðindaveturinn 1918, hún hafði verið ung og nýgift kona í kreppunni miklu og mundi vel þá daga er landið var numið hervaldi og allar þær breytingar til góðs og ills sem þá urðu með Íslenskri þjóð. Amma Ingibjörg átti einlæga og staðfasta trú á frelsarann Jesúm og andvarpi sínu snéri hún til föðurins á himnum þau 96 ár sem henni entist líf. Frá bernskuárum í Flóanum kunni hún svo sem líka skil á huldufólki og ýmsu fleiru sem náttúru landsins viðkom en nennti ekki að viðra það upp við nútímann og skarkalann. Á hennar heimili voru sungnir sálmar og þar var tekið slátur og útvarpið í stofunni var stór póleraður kassi sem þurfti að hitna svolitla stund áður en útsending ríkisútvarpsins tók að óma. Við gerðum stundum grín að því við gömlu konuna hve nýtin hún var á alla hluti. Þegar hún loks fékkst til að leggja gömlu kaffikönnunni með léreftspokanum og taka upp pappírsfilter með sjálfvirkri könnu var hún ófáanleg til að henda pappírnum eftir fyrstu notkunn heldur notaði hún kaffikorginn til að þrífa vaskinn eins og hún var vön, skolaði svo filterinn, þurkaði hann í gluggakistunni og nýtti hann nokkrum sinnum. Fátt fékk líka meira á gömlu konuna en að horfa á gott sápuvatn fara til spillis um niðurfallið og gat hún vart á heilli sér tekið yfir slíkri sóun á verðmætum. Er við hjónin fluttumst til Vestmannaeyja með börnin ung og eitt ófætt gaf hún okkur að skilnaði pokaskjatta þar sem hún hafði safnað snærisbútum, teygjum af ýmsum sortum og allskyns plastpokum snyrtilega samanbrotnum sem gætu komið sér vel. Sjálfsagt hefur hann þá blandast inn í húshald okkar græni bollinn. Man það ekki. Ég veit bara að viska ömmu minnar var meiri en viska sérfræðinga nútímans. Trúnað sinn gaf hún góðum Guði og snéri bænum sínum til Jesú Krists, hún bar virðingu fyrir duldum öflum náttúrunnar og vissi jafnframt að dag einn kæmi sér vel að eiga snærisbút sem ekki hefði verið kastað á glæ.

II
Í útlöndum tíðkast sá háttur sumsstaðar að valdsmenn viðurkenni mistök eftirá. Í Bandaríkjunum heitir maður Paul Volcker og er fyrrum seðlabankastjóri þar. Í fyrrakvöld mun hann hafa látið þau orð falla á ráðstefnu í New York að þróun og hraði alþjóðlegu fjármálakreppunnar hefði komið sérfræðingum í opna skjöldu og haft á orði að fjármálakerfi heimsins yrði ekki reist að nýju með sama sniði í ljósi þeirra mistaka sem nú væru orðin. Já, spekingar heimsins klóra sér í höfðinu er þeir sjá hugsmíðar sínar falla með miklum hvin og þungbærum afleiðingum. Orð pistilsins sem lesinn var frá altarinu áðan hljóma með nýjum hætti í eyrum okkar er Páll skrifar í fyrra bréfi sínu til Korintumanna: „Ritað er: Ég mun eyða speki spekinganna og hyggindi hyggindamannanna mun ég að engu gera. Hvar er vitringur? Hvar fræðimaður, orðkappi þessa heims? Er ekki það sem heimurinn telur speki heimska í augum Guðs?”

Ingibjörg amma var ekkert bláeyg á lífið. Hún var stálgreind og vakandi manneskja og vissi vel að mig vantaði hvorki snæri né teygjur og að samanbrotnir gamlir plastpokar væru ekki það sem okkur vanhagaði um. Pokinn góði var dæmisaga, kennslugagn, tákn. Innihald hans var skilaboð um virðingu fyrir verðmætum, hljóð hvatning til þjálfunar í lífsleikni og áminning um að ofmetnast aldrei hversu vel sem gengi og örvænta ekki hve illa sem horfði. - Hvar er vitringur? spurði pokinn. Hvar fræðimaður, orðkappi þessa heims? Er ekki það sem heimurinn telur speki heimska í augum Guðs?

Við notuðum þennan poka aldrei, nýttum ekkert af innhaldi hans, en geymdum hann all lengi í kústaskápnum og tókum hann stöku sinnum fram til þess að sýna hann kunnugum svo þau gætu skemmt sér með okkur yfir nýtni gömlu konunnar sem í okkar huga var bara fyndið atriði, einskonar krydd í tilveruna. „Ritað er: Ég mun eyða speki spekinganna og hyggindi hyggindamannanna mun ég að engu gera.”

Hún er undarleg þessi sterka og ríka tilhneiging sem maður hefur til að vera heimskur. Þörfin sem grípur mann til að hlægja að viskunni þar sem hún birtist en lúta fáfengileikanum. Hvaðan kemur þessi þörf? Ég veit það ekki. En manstu hvað nýtni og aðhaldssemi var púkó fyrir stuttu síðan og hvað það var aðdáunarvert að kunna þá list að gíra upp peninga? Núna lifum við þá óvæntu tíma að viska heimsins er afhjúpuð stutta stund á meðan hún safnar vopnum sínum. Stutta stund stendur hún afhjúpuð áður en hún hjúpar sig valdinu á ný. Þannig er það og þannig verður það. Undir þeim hjúpi var sjálfsögð dyggð að safna peningum til þess að safna peningum til þess að safna peningum. Vald heimsins þekkist á því að það safnar sjálfu sér. Vald kærleikans dreifir sér hins vegar. Þannig má þekkja og gera greinarmun á valdi heimsins og valdi Guðs að valdið sem safnar sjálfu sér er frá veröldinni en valdið sem þjónar og eflir þor er frá Guði.

III
Við höfum lengi hlegið að valdi þjónustunnar og trúað því blákalt að sérgæskan væri æðst dyggða. Við höfum byggt efnahagslíkön okkar á þeirri vissu að hver sé sjálfum sér næstur og hyggilegast sé að hver fari sínu fram án of mikillar umhugsunar því innbyggð lögmál markaðarins muni sjálfkrafa jafna kjör manna og náttúru. Þetta höfum við kallað markaðshyggju og staðið stolt og keik, og tíðarandinn hefur hlegið að þeim síðhippum sem reynt hafa að malda í móinn og bölsótast út í biskupinn þegar hann hefur leyft sér að tala um sóun og græðgi.

Skyldi það vera tilviljun að menn áttu bágt með sig að hlæja ekki á Golgatahæð föstudaginn langa? Þessi stemmning sem myndast hvar sem viskan og gæskan birtist í veröldinni, á henni er eiginlega bara sjálfvirkur sleppibúnaður. Guðspjöllin greina svo sem frá því að sumir hafi látið brandara gossa. “Öðrum bjargaði hann, sjálfum sér getur hann ekki bjargað!” Þetta þótti góð lína. En maðurinn sem átti staðinn var sá sem hugkvæmdist að heilsa Jesú sem konungi. - „Heill sé þér Gyðingakonungur!” Sá var fyndnastur allra.

Sérðu dýptina í frásögnum guðspjallamannanna af þjáningu Jesú? Háðunginni er haldið til haga í fáorðum lýsingum þeirra. Þessi óborganlega fyndni sem umlykur vald þjónustunnar er varðveitt. Hvað er fyndnara en grátandi Guð? Krossfestur, vanmáttugur, yfirbugaður Guð! Er eitthvað heimskulegra en slíkur Guð? Því er það af hreinu raunsæi á veröldina er Páll skrifar: „...orð krossins er heimska þeim er stefna í glötun en okkur sem hólpin verðum er það kraftur Guðs. Ritað er: Ég mun eyða speki spekinganna og hyggindi hyggindamannanna mun ég að engu gera. Hvar er vitringur? Hvar fræðimaður, orðkappi þessa heims? Er ekki það sem heimurinn telur speki heimska í augum Guðs? Enda þótt speki Guðs sé í heiminum gátu mennirnir ekki þekkt Guð með sinni speki. Þess vegna ákvað Guð að boða það sem er heimska í augum manna og frelsa þá sem trúa.” (1Kor 1.18-25)


Amen.

Textar þessa sunnudags eru: Jes 50.4–11, 1Kor 1.18-25, Lúk 18.31-34

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir þetta. Ég var svo lánsöm að alast upp með ömmu á heimili sem var fædd fyrir þarsíðustu aldamót. Kannast við nýtnina en sterkur viljinn sem amma gamla hafði og hennar kynslóð er ekki síður dýrmætt veganesti. Það kemur líka fram vilja hvatning frá Kristi, að hafa vilja til að horfa fram á veginn í trú.

Nafnlaus sagði...

Það verður að finna leið í gegnum útbreiddasta miðil dagsins í dag, Facebook! Unga fólkið þarf styrk! Ég er ekki viss um að biskupinn sé leiðin! Keep update!!!!!!