Ágætu borgarbúar, ég hef tekið ákvörðun um að gefa kost á mér í 3.-4. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar vegna borgarstjórnarkosninganna í Reykjavík 2010.
Í mínum huga er framboð mitt rökrétt framhald af þeim verkefnum sem tekið hafa huga minn og orku sem prestur undanfarin 20 ár. Í starfi mínu hef ég eignast dýrmæta innsýn í veruleika almennings í landinu og orðið ljóst að það er ekki sama hvernig við hugsum samfélag okkar og hvaða gildi við leggjum til grundvallar. Þá blasir líka við mér að vandi þjóðarinnar er að ýmsu leyti byggður inn í kerfi samfélagsins.
Nú göngum við til móts við nýja tíma sem reyna munu á þolrif okkar um leið og aðstæður krefjast þess að steinunum í fjörunni sé snúið og forsendur samfélagsins endurskoðaðar. Við þurfum að svara til um það hver við erum, fyrir hvað við stöndum og hvert við stefnum. Þetta vitum við öll.
Ég býðst til þess að stíga út úr öðrum verkefnum með vorinu og taka höndum saman við það góða fólk sem starfar í borginni í því skyni að standa vörð um velferð og mannréttindi í borgarkerfinu meðan á þessari óhjákvæmilegu en mikilvægu göngu stendur.
Nú varðar öllu að við hugsum tíu, tuttugu, þrjátíu ár fram í tímann og einsetjum okkur að missa ekki sjónar hvert af öðru heldur viðurkennum að við tilheyrum einum stórum samfélagsvef þar sem hver er öðrum háður. Nú gildir að sameina hina ýmsu krafta innan borgarkerfisins sem annarsstaðar í því skyni að aftengja fátæktargildrurnar af yfirvegaðri einbeitni, að við látum t.d. ekki skapast það ástand að hópur uppvaxandi barna og unglinga standi utan við hið góða líf sem áhorfendur. Tap eins þjóðfélagshóps er allra tap er fram líða stundir og þegar upp er staðið mun koma í ljós að almannaheill er fjárhagslega holl og snjöll.
Ég á þá hugsjón að allt fólk finni að það tilheyri hinu góða lífi samfélagsins. Við þurfum að temja okkur að hlusta á allar raddir, virða hinar ólíku þarfir og fagna fjölbreytileikanum í einingu. Ég trúi því að ég geti gert nokkuð gagn í þessa veru og býð því fram krafta mína með þeim hætti sem hér hefur verið tilkynnt.
Virðingarfyllst
Bjarni Karlsson
sóknarprestur í Laugarneskirkju
þriðjudagur, 12. janúar 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
14 ummæli:
Ja hérna.
Ég er sennilega gamaldags.
Kann ekki við að prestar bindi trúss sitt við ákveðna stjórnmálaflokka.
Það hafa íslenskir prestar auðvitað gert í gegnum tíðina og verður Bjarni því ekki gagnrýndur sérstaklega fyrir það.
En prestur sem tengdur er ákveðnum stjórnmálaflokki er EKKI það sama og prestur sem ekki lætur uppi hollustu sína við menn og málefni.
Þannig er það nú bara í mínum huga.
Ég kæri mig lítt um pólitíska presta.
Vil heldur ekki pólitíska kirkju.
Má kannski búast við því að til verði félög stjórnmálapresta innan þjóðkirkjunnar? Þannig að Samfylkingarprestar myndi einn hóp eða félag, Sjálfstæðisprestar annan osfrv?
Myndi eitthvað mæla á móti því?
Karl B.
Reykjavík.
Sæll Bjarni!
Veit ekki hversu góð hugmynd þetta er.
Verður að koma í ljós.
En ef þú ætlar í framboð þá áttu að vera með skýr markmið og að stefna á 2 sætið. Annað skilar engu af þínum stefnumálum í gegn.
PS. Varaðu þig á því að skemmast ekki af þessu brölti....það er engin tík eins og pólitík
Frábært - og til hamingju með það Bjarni
Gott að heyra. Það vanntar gott fólk í framboð. Ert þú til í nota áhrif þín sem borgarfulltrúa til að leggja af útburð úr félagslega íbúðarkerfinu?
Æi þetta finnst mér leitt að heyra. Ég er líka gamaldags eins og einhver hér að ofan. Ég vil nefnilega heldur ekki að presturinn minn bindi trúss sitt við einhverja pólitíska flokka. Samfylking er að auki ekki minn flokkur og ég treysti þeim alls ekki og ég myndi fjarlægjast kirkjuna mína ef ég vissi af prestinum mínum að störfum í þeim guðsvolaða flokki. En þitt er valið...
Til hamingju og gangi þér vel Bjarni! Það er ekki spurning að ég myndi kjósa þig ef ég byggi í Reykjavík - það hefur aldrei verið mikilvægara að endurnýja stjórnmálaflóruna með réttsýnu og heiðarlegu fólki.
Gott fólk, ég þakka ykkur öllum heiðarleg viðbrögð. Auðvitað er vandi að blanda saman prestsstarfi og flokksstarfi en það veltur fyrst og síðast á persónunni sem það reynir. Ég hef komist að þeirri niðursöðu að rétt sé að ég geri þetta í ljósi þeirra tíma sem nú eru að ganga yfir, en vitaskuld er þetta líka áhætta eins og allir hljóta að skilja.
Mestu ræður hvað það er sem drífur menn áfram og það er mitt og minnar samvisku að gæta þess að drifkrafturinn sé umhyggja fyrir raunverulegum lífsgæðum og almannaheill en ekki annarlegur metnaður eða hollusta við sérhagsmuni. Svo verðum við bara að sjá hvað gerist.
b. kv.
Bjarni Karlsson
Sæll Bjarni. Hví þá ekki að skella sér í landsmálin og láta til sín taka í öllu óréttlætinu og spillingunni sem þar er? Ég held að þar væri staðurinn fyrir mann eins og þig. Gangi þér vel, Guðný Einarsdóttir
Þetta eru góðar fréttir - það þarf gott fólk í stjórnmál og Bjarna þekki ég bara af góðu einu. Allt lífið er pólítík og við eigum að fagna þegar gott fólk býður sig fram til að starfa fyrir okkur hin sama hvar í flokki það er.
Já svei mér ef ég á ekki bara eftir að íhuga það alvarlega að stiðja þig Bjarni.
Bestu kveðjur,
Hrafnkell Ásólfur
Til hamingju með þessa ákvörðun minn kæri Bjarni. Ég verð að viðurkenna að það er pínu undarleg tilhugsun að sjá þig fyrir mér predika en í svo ólíku hlutverki og á svo ólíkan hátt. Á sama tíma er ég hins vegar þess fullviss að það að fá fólk eins og þig inn í stjórnmál gefur okkur hinum von um betri stjórnun, hvort sem er í borgarmálum eða landsmálum. Erum við ekki búin að vera að kalla á traustverðugt fólk í stjórnmálin? Það fólk getur hvergi komið frá nema þaðan sem þess er saknað. Ég dáist að fólki sem lætur það ekki duga að hafa skoðun við kaffiborðið, heldur stígur fram til að bjóða aðstoð. Það þarf hugrekki til og það hefur þú alltaf kennt okkur að hafa. Ég er því glöð að heyra að þú hafir tekið þá ákvörðun að fylgja hjarta þínu og köllun því að á meðan þú gerir það þá verður veröld okkar hinna alltaf aðeins betri, hvort sem það er úr ræðustól kirkjunnar eða stjórnmálanna.
Gangi þér allt í haginn Bjarni, það verður gaman að fylgjast með þér :-)
Kveðja frá DK
Mjöll
Ágætu blogg- og hollvinir
Ég þakka viðbrögð ykkar við þessu brölti mínu. Ég gerði það upp við sjálfan mig fyrir nokkuð löngu að lifa sem virkur þjóðfélagsþegn og taka fleiri áskorunum en færri. Þetta er ein af þeim. Svo er bara að sjá hvert það leiðir, en ég lofa að gera mitt besta með Guðs hjálp og góðra manna.
b. kv.
Bjarni Karlsson
VANTAR BARA EKKI KRISTILEGAN STJÓRNMÁLAFLOKK????????????
Biddu fyrir þér! kristilegir stjórnmálaflokkar fela í sér grundvallar misskilning á eðli kristinnar trúar. Það er nákvæmlega ekkert sem gefur einum stjórnmálaflokki meira tilkall til kristilegheita en öðrum. Þegar menn eigna sér Guð, hvort heldur það er í stríði eða stjórnmálum, þá er það alltaf merki um alvarlega veikleika.
B.kv.
Bjarni Karlsson
Elskulegi Bjarni! Við mundum ekki fá heiðarlegri mann en þig í Borgarpólitíkina, en ég er hrædd um að þú gerir þér enga grein fyrir því hversu lítið peð heiðarlegasti maðurinn fengi við hringborðið!Þ.a.auki- Gastu ekki gert neitta annað en að nefna þig við Samfylkinguna - Af hverju ekki Hreifinguna - Þar er þó engin siðspilltur eða með tengsl við alla gömlu fjórflokkaklíkuna. Þar er enginn með silfurskeið í munni! Birgitta, Thor, og Margrét hafa sýnt og sannað hvaðan þau koma - Ég skal ekki bara styðja þig heldur bjóða mig fram til að hjálpa þér við að komast áfram ef þú ferð ekki inn í spillta Samfylkingarklíku!! Gangi þér samt afskaplega vel í öllu sem þú tekur þér fyrir hendi! Þú og kona þín eruð algjörlega einu að þeim bestu prestum og manneskjum sem Ísland hefur alið!.
Skrifa ummæli